• facebook
  • soundcloud
  • twitter
  • youtube
  • mail

Jóhann Jóhannsson – The Miners’ Hymns

  • Birt: 30/06/2011
  • Höfundur:
  • Skoðanir: 0

Út er komin ný plata með Jóhanni Jóhannssyni. Hún nefnist The Miners’ Hymns og er samstarf á milli Jóhanns og kvikmyndagerðarmannsins Bills Morrisons, en hann hefur sérhæft sig í að vinna kvikmyndaverk í samvinnu við tónskáld og hefur unnið með mörgum af helstu tónskáldum nútímans m.a. Henryk Gorecki, John Adams, Steve Reich, Michael Gordon og fleirum.

Tónverkið er samið fyrir lúðrasveit, pípuorgel, slagverk og rafhljóð og var pantað af Forma Arts & Media, British Film Institute og Durham Brass Festival í Bretlandi. Jóhann hefur áður fengist töluvert við kvikmyndatónlist, en The Miners’ Hymns er þó ólík flestum venjulegum verkefnum á því sviði þar sem hún er án orða og laus við annað hljóð en tónlist. Kvikmyndin var frumsýnd á Tribeca kvikmyndahátíðinni í New York í Apríl og flakkar nú á milli kvikmyndahátíða en jafnframt er verið að vinna að fleiri sýningum á verkinu með lifandi tónlist, m.a. í New York og London. Tónverkið sjálft var frumflutt í júní 2010 í hinni 1000 ára gömlu dómkirkju í Durham, þar sem myndin var sýnd á tjaldi og 18 manna lúðrasveit auk pípuorgels og raflhljóðfæra flutti tónlistina.

The Miners’ Hymns Trailer

The Miners’ Hymns byggir á kolanámuarfleifð Norður-Englands, en sá iðnaður var mjög mikilvægur á því svæði þangað til námunum var lokað á 9. áratugnum, með alvarlegum afleiðingum fyrir efnahag og menningu héraðsins. Lúðrasveitir voru stór hluti af menningu kolanámuþorpanna í ein 200 ár og starfa margar þeirra enn í dag, þótt námunum hafi verið lokað. Verkið er því, eins og Jóhann orðar það, „eins konar requiem fyrir lífstíl og menningu sem er að miklu leyti horfin.

Flutningur var í höndum meðlima NASUWT Riverside Band, sem var stofnuð árið 1877 í Durham, en sú lúðrasveit hefur verið í gegnum tíðina að mestu skipuð kolanámumönnum og nú eru það afkomendur kolanámumanna sem skipa sveitina. Stjórnandi var Guðni Franzsson og Robert Houssart sá um orgelleik. The Miners’ Hymns er annað brassverk Jóhanns en hið fyrsta, Virðulegu forsetar, var flutt í Hallgrímskirkju árið 2003 og var svo gefið út á plötu hjá Touch – úgáfunni ári síðar. The Miners’ Hymns fylgir eftir plötu Jóhanns And In The Endless Pause There Came The Sound Of Bees sem einnig helst í hendur við kvikmynd – stuttmyndina Varmints frá árinu 2009.

Jóhann Jóhannsson – The Cause Of Labour Is The Hope Of The World

Leave a Reply