Miðnæturmyndir á RIFF

Miðnæturmyndirnar hafa löngum verið einn vinsælasti flokkur hátíðarinnar. Hryllingsmyndir, költmyndir, furðumyndir, og nóg af poppkorni – þannig hljómar lýsingin á þessum þætti RIFF. Þrjár myndir prýða flokkinn í ár og ljóst að hver og ein þeirra mun hrista upp í áhorfendum, þótt ólíkar séu.

Tröllaveiðarinn (Trollhunter) er norsk spennu- og ævintýramynd eftir André Øvredal. Þrír norskir háskólanemar elta dularfullan veiðþjóf sem vill ekkert með þau hafa. Áður en þau vita af eru þau komin á slóð bráðarinnar – tröllanna í óbyggðum Noregs – og fá að kynnast þessu ólíkindatóli, tröllaveiðaranum, og þjóðsagnaverunum sem hann hefur eytt lífi sínu í að eltast við. Fljótlega snýst þó taflið við og bráðin tekur til við veiðarnar.

13 leigumorðingjar (13 Assassins) er stórbrotin hasar- og búningamynd, í leikstjórn Takashi Miike. Myndin gerist undir lok lénsskipulagsins í Japan. Hópur háttsettra samúræja eru ráðnir á laun til þess að steypa af stóli grimmum lénsherra til að koma í veg fyrir að hann hrifsi til sín hásætið með valdi og steypi Japan þannig í hyldýpi borgarastyrjaldar.

Rautt fylki (Red State) eftir Kevin Smith er frumraun leikstjórans á vettvangi spennu og hryllings. Þrír unglingsstrákar svara auglýsingu frá eldri konu í leit að drengjum sem eru til í að stunda með henni hópkynlíf. Kynórar piltanna verða þó fljótlega að martröð þegar í ljós kemur að um er að ræða brellu sem íhaldssamur bókstafstrúarsöfnuður stendur fyrir. Í framhaldinu má segja að hinir ólánssömu unglingspiltar fái að kynnast góðum ástæðum fyrir guðsótta.

Sýningartíma myndanna má nálgast á riff.is og ennfremur í dagskrárblaði hátíðarinnar sem finna má í ókeypis dreifingu um alla borg. Miðasölu- og upplýsingamiðstöð RIFF er í Eymundsson við Austurstæti, og er hún opin frá 12-19 alla daga.

RIFF 2011 stendur yfir 22.september til 2.október.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.