The Miners’ Hymns á Íslandi

Tónlistarmaðurinn Jóhann Jóhannsson gaf nýverið út plötuna The Miners’ Hymns, sem er samstarf á milli hans og kvikmyndagerðarmannsins Bill Morrisons en kvikmyndin var frumsýnd á Tribeca kvikmyndahátíðinni í New York. Platan kemur út á vegum 12 Tóna á Íslandi og Fat Cat/130701 erlendis og hefur fengið feikigóðar viðtökur hér heima jafnt sem úti og hefur meðal annars verið hlaðin lofi hjá MOJO, Uncut, Pitchfork, Drowned in Sound og BBC svo eitthvað sé nefnt.

Jóhann mun koma fram á Iceland Airwaves tónlistarhátíðinni sem fram fer 12. – 16. október þar sem gera má ráð fyrir að tónleikagestir fái að heyra eitthvað af nýju plötunni. Hann spilar á sérstöku Fat Cat/130701 kvöldi í Fríkirkjunni þann 13. október, en aðrir listamenn það kvöldið eru Dustin O’Halloran og Hauschka.

Fleiri The Miners’ Hymns tónleikar eru á dagskrá hjá Jóhanni, þar á meðal sýning á kvikmyndinni með tónlistinni undir í World Financial Center í New York í janúar 2012 en kvikmyndin fer svo í sýningu hjá Film Forum í framhaldinu. Fyrirhugaðar eru fleiri kvikmyndasýningar, þar á meðal á Festival du Nouveau Cinema, Montreal (október), Doclisboa (október), IDFA (nóvember) og Göteborg IFF (janúar).

Þá verður kvikmyndin sýnd á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF, en hátíðin hefst næstkomandi fimmtudag og stendur til 2. október. Myndin er sýnd fjórum sinnum á meðan á hátíðinni stendyr, en nánari sýningartíma og upplýsingar má nálgast hér.

The Miners’ Hymns fæst í helstu plötuverslunum landsins, en einnig má nálgast hana stafrænt á heimasíðu 12 Tóna, tonlist.is og á tónlistarsíðunni Gogoyoko sem og eldri plötur hans.

Af öðrum Jóhanns-fréttum má nefna að hann er sem stendur staddur erlendis í stuttri hljómleikaferð með hljómsveit sinni Apparat Organ Quartet. Er hljómsveitin að fylgja eftir plötunni Pólýfóníu sem er nýkomin út í Evrópu á vegum dönsku útgáfunnar Crunchy Frog. Hófst ferðin með tónleikum á hinum fallega stað Volksbühne í Berlín, því næst er haldið á Reeperbahn hátíðina í Hamborg og ferðinni lokið með tónleikum í Lille Vega í Kaupmannahöfn.

Ýmislegt er svo framundan hjá Jóhanni, en í febrúar verður nýtt verk Jóhanns fyrir sinfóníuhljómsveit frumflutt í Monitoba Centennial Hall í Winnipeg af Winnipeg Symphony Orchestra og heldur Jóhann síðan í Bandaríkjatúr í framhaldinu með viðkomu í Seattle, Portland, San Francisco og Los Angeles. Ný plata með tónlist úr kvikmyndinni Copenhagen Dreams er svo væntanleg snemma á næsta ári.

www.johannjohannsson.com

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.