Nevermind á Gauknum

Í tilefni 20 ára afmælis plötunnar Nevermind eftir hina goðsagnakenndu sveit Nirvana hefur hópur tónlistarmanna tekið sig saman og hyggst halda heiðurstónleika á Gauk á Stöng (áður Sódóma Reykjavík) annað kvöld. Nevermind, sem út kom þann 24.september árið 1991, hefur lengi verið talin ein áhrifamesta rokkplata 20.aldarinnar en platan hefur nú selst í ríflega 26 milljónum eintaka út um allan heim. Platan hlaut ekki síður vægi eftir andlát Kurt Cobain árið 1994 og lifir góðu lífi enn þann í dag. Það eru þeir félagar Franz Gunnarsson (Ensími/Dr.Spock), Þórhallur Stefánsson (Lights On The Highway) og Jón S. Sveinsson (Hoffman) sem leika gruggið þetta kvöldið en þremenningarnir þessir ættu að vera orðnir flestum kunnir eftir heiðurstónleika hljómsveita á borð við Alice in Chains, Stone Temple Pilots og Smashing Pumpkins (svo eitthvað sé nefnt). Það er þó í hlutverki Einars Vilbergs Einarssonar að túlka hinn goðsagnakennda Kurt Cobain á sinn eigin hátt en Einar ættu flestir að þekkja sem forsprakka rokksveitarinnar noise. Ekki þarf að hamra á hollustu þessara félaga til Nirvana en allir hafa þeir verið undir miklum áhrifum þessarar sveitar í sínum eigin lagasmíðum í gegnum árin. Auk þeirra mun Agnar Eldberg úr hljómsveitunum Lights on The Highway og Klink vera sérstakur gestur.

Nú þegar 20 ár eru liðin frá útgáfu einnar áhrifamestu rokkplötu sögunnar er ekki seinna vænna en að halda niður á Gauk á Stöng, ungnir sem aldnir og taka þátt í gleðinni. Dyrnar opna á slaginu 22:00 og er miðaverð 1500 kr. Aldurstakmark að þessu sinni eru 18 ár. Fuglinn hvíslar að hljómsveitin mundi sín vopn á slaginu 23.30.

Rjóminn hvetur lesendur til að fikta við nostalgíuna, þeyta flösu og athuga hvernig Gaukur á Stöng lítur út eftir endurlífgun.

 

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.