Artistar á Airwaves ´11: Árni Grétar (Futuregrapher)

Futuregrapher, sem greiðir skatt undir nafninu Árni Grétar Jóhannesson, hefur á undanförnum árum verið að stíga vel inn í íslenskt tónlistarlíf. Ferill þessa rétt tæplega þrítuga Tálknfirðings, hófst rétt fyrir aldamótin síðustu en Árni sat þá iðinn við raftónlistarsköpun ásamt langvini sínum Jónasi Snæbjörnssyni undir nafninu Equal. Þó Equal hafi liðið sitt skeið, lagðist Árni ekki í dvala og hóf að koma fram undir sviðsnafninu Futuregrapher nokkrum árum síðar. Plata hans Yellow Smile Girl vakti ágæta athygli árið 2009 en Árni vakti ekki síður athygli með nýjustu plötu sinni Tom Tom Bike, sem gefin var út í ár. Platan er gefin út af útgáfufyrirtæki Árna og Jóhanns Ómarssonar, Möller Records en saman hafa þeir félagar staðið fyrir vel heppnuðum Heiladans kvöldum á skemmtistaðnum Hemma og Valda undanfarið ár. Auk þessara tveggja platna hafa einnig komið út ágæt mix frá kauða (Acid Hverfisgata og Túngata) en báðar plöturnar (eflaust allar) eru taldar undir miklum áhrifum eins lærimeistara og liðins vinar Árna, Bjössa Biogen en Árni hefur aldrei farið leynt með það að hafa fengið mikla andlega og tónlistarlega aðstoð frá þeim liðna snilling rafsins.
Rjóminn hitti Futurgrapher á Kaffibarnum þar sem raftónlistin henti miðvikudegi Airwaves í gang og innti hann nokkurra svara.

DH: Hvernig kom það til að þú fórst að gera raftónlist, Árni?

ÁG: Ööööö….ég hafði mikinn áhuga á tónlist í gegnum pabba. Hann var alltaf að spila á gítar svona heima. Einn daginn kom hann með hljómborð heim. Nettan syntha. Þá var ég svona 13 ára og ég byrjaði eitthvað að fikta. Á sama tíma hlustaði ég mikið á The Prodigy og langaði að gera svona svipað og þeir. Ætli það hafi ekki verið byrjunarreiturinn.

DH: Þú heldur ansi villt partý þegar þú kemur fram. Hvað keyrir þig áfram í rokkinu?

ÁG: Adrenalínið og krafturinn frá gestum hvers kvölds. Ég er mjög meðvitaður um það þegar fólk er í góðum gír. Góðum partýfíling! Það er svona grunnurinn.

DH: Nú ert þú að vestan. Þú hefur aldrei íhugað að reyna að koma Fjallabræðrum inn í mixið?

ÁG: (Hlær). Ég þekki Dóra og Steinar úr kórnum mjög vel og nokkra aðra sömuleiðis. Fjallabræður eru að sjálfsögðu velkomnir í stúdíóið hvenær sem er!

DH: Hvað er annars framundan, Árni? Á að sökkva sér í útgáfur annarra og halda áfram því góða starfi eða á að halda góðu blandi af báðu í gangi áfram fram í eilífðar ró?

ÁG: Framundan er vinnsla á plötu sem átti að koma út í ár. Hún heitir Hrafnagil. Ég ákvað að seinka henni fram á næsta ár þar sem ég er að uppgötva nýjar aðferðir. Svo var ég auðvitað að gefa út TomTomBike nýlega og ætla að leyfa henni að lifa og gleðja aðeins lengur. Svo auðvitað verð ég með útgáfuna líka.

DH: Svona í lokin. Hvað hefur kveikt í þér einna mest við Airwaves í gegnum árin? Á að sjá eitthvað þrusandi stuð í ár eða jafnvel eitthvað allt annað?

ÁG: Það sem hefur kveikt mest í mér eru íslensku böndin! Þá sérstaklega nýgræðingar eins og í ár; Fu Kaisha t.d. sem ég hlakka mikið til að sjá. Yfirleitt eru íslensku böndin þau sem kveikja mest í mér. Svona þau sem ég þekki ekki. Uppgötvanir ef svo má kalla. Svo ætli ég reyni ekki að kveikja stemmarann í mér með því að sjá sem flesta nýgræðinga

Rjóminn þakkar Futuregrapher innilega fyrir spjallið og óskar honum og hans velgengni í komandi stríðum, leikjum og ástum.

Futuregrapher kemur fram á fimmtudagskvöldinu á Faktorý klukkan 23.40 ásamt fleiri góðum.

Futuregrapher – Tjarnarbiogen by Futuregrapher

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.