Helgi Hrafn Jónsson gefur út Big Spring

Helgi er klassískt menntaður básúnuleikari sem útskrifaðist frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og hélt síðar í framhaldsnám í Graz í Austurríki. Hann hefur getið sér gott orð sem hljóðfæraleikari og samstarfsmaður hinna ýmsu listamanna, til að mynda Sigur Rós, Teit, Bedroom Community og Damien Rice en hefur aukinheldur verið duglegur að semja eigin tónlist og hefur gefið út þónokkrar plötur, síðast For the Rest of My Childhood (2008) við afar góðar undirtektir. Síðustu ár hefur Helgi Hrafn túrað vítt og breitt um heiminn, bæði með eigin hljómsveit, svo og dönsku tónlistarkonunni Tinu Dickow.

Big Spring inniheldur 12 lög og var tekin upp í Reykjavík og í Los Angeles. Helgi valdi meðspilara sína vel, en með honum á plötunni eru Þorvaldur Þór Þorvaldsson, Joel Shearer, Jonathan Estes og Tina Dickow. Fyrsta lagið sem fer í spilun er “Darkest Part of Town” sem hefur setið sem fastast á vinsældarlistanum í Þýskalandi síðan platan kom út þar. Big Spring er þegar farin að sanka að sér lofsamlegum dómum og fékk til að mynda 4 stjörnur í Rolling Stone Magazine og 5 stjörnur í danska tónlistartímaritinu Gaffa.

Framundan hjá Helga eru fjölmargir tónleikar. Þar ber fyrst að nefna Iceland Airwaves hátíðina, en Helgi spilar á fimmtudagskvöldið 13. október í Hörpu (Kaldalóni) kl. 23.20. Auk þeirra tónleika kemur hann tvisvar fram á svokölluðum ‘off-venue’ tónleikum, annars vegar í 12 Tónum Skólavörðustíg kl. 18.00 á föstudaginn og hins vegar á Bedroom Community tónleikum á Kaffibarnum kl 16.30 á laugardaginn.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.