Airwavesdagbók Kristjáns: Miðvikudagur

Gamalt fólk kvartar oft mikið. Hlutirnir voru víst alltaf betri í gamladaga. Það er erfitt að meta hvort manns eigin neikvæðni byggist á sömu tilfinningadrifnu og röklausu nostalgíu, eða hvort að stundum hafi hlutirnir einfaldlega verið betri áður fyrr.

Ég fór fyrst á Airwaves árið 2005. Þetta var á þeim tíma sem ég fór á alla tónleika sem táningi var hleypt inn á í Reykjavík og nágrenni. Ég fékk skilríki lánuð frá bróður vinar til að komast á hátíðina. Airwaves var alsæla, endalaust mikið af böndum – það skipti ekki máli hvort það var The Zutons eða I Adapt eða hvað sem er: Allt fannst mér stórkostlegt. Í dag myndi ég hins vegar eflaust fússa yfir því að The Zutons væru bókuð á hátíðina og standa svo aftast með krosslagðar hendur á I Adapt tónleikum.

Kannski er maður orðinn lífsreyndari, eða kannski bara meira anal og ömurlegur, en þegar ég lít yfir prógramið í ár og hlusta á listamennina sem munu spila er hins vegar óóósköp fátt sem vekur upp vott af eftirvæntingu. Hjá erlendum listamönnum hefur einhver óspennandi synthadrifinn og dansvænn indírokkpúki smám saman tekið yfir alla tónlistarsköpun – eða þannig virkar það allavega.

Og þrátt fyrir að það séu alveg rosalega margir íslenskir listamenn að gera mjög góða, flotta og skemmtilega hluti, þá er alveg fáránlega lítið nýtt í gangi. Sérstaklega fyrir þjóð sem þreytist ekki á því að monta sig yfir eigin tónlistarmönnum og viðheldur öllum mýtum um yfirskilvitlegt samband óspilltrar náttúru og tilraunakenndrar listsköpunar. Þvert á það sem umheimurinn heldur vantar nefnilega einhverja almennilega greddu og raunverulega frumlega sköpun í íslenska tónlist í dag.

Nú ætla ég alls ekki að kenna Airwaves hátíðinni um þessa þróun. (Ég segi þróun af því að ég held að þetta hafi ekki alltaf verið svona. Krúttið var t.d. uppfullt af listrænni greddu (mjög passífri jú) og ákaflega nýrri sköpun. Harðkjarnasenan hefur oft verið mjög spennandi og það sem stundum hefur verið kallað Póst-krútt – þ.e. FM Belfast, Retro Stefsson o.s.frv. – var eitthvað nýtt og áberandi spennandi fyrir þremur árum. Líklega kemur þetta bara í bylgjum. Þekktur breskur útvarpsmaður segir víst t.d. nóg að koma á hátíðina á þriggja ára fresti til að uppgötva eitthvað nýtt.) Stundum læðist hins vegar að mér sá grunur að þrátt fyrir öll þau jákvæðu áhrif sem Airwaves-hátíðin hafi haft á tónlistina í landinu, eigi hún líkan örlítinn þátt í geldingu íslenskrar tónlistarsköpunar.

Fyrir nokkrum árum sá ég góðan vin minn spila á Airwaves-tónleikum með frábærri hljómsveit. Tónleikarnir voru hins vegar hræðilegir. Það voru aðallega útlenskir blaðamenn á staðnum, en bara nokkrir aðdáendur. Hljómsveitin spilaði ofboðslega illa en einbeindi sér mest að því að líta vel út fyrir myndavélarnar. Nú leggur þessi vinur minn ekki neitt sérstaklega mikið upp úr því að meika það. En það er þessi óhjákvæmilega meðvitund listamannanna um tækifærin sem billjón útlenskir blaðamenn og útgefendur hafa í för með sér sem hefur, að ég held, vaxið með hverri hátíð. Auðvitað hefur það í för með sér meiri metnað af hálfu hljómsveitanna, en stundum finnst mér að það sé fyrst og fremst  metnaður til að láta mikilvægu fólki líka við sig.

Iceland Airwaves er bransahátíð og tónlistarbransinn, eins og allir aðrir bransar, snýst fyrst og fremst um pening – ekki fólk eða tónlist, áhorfendur eða tónlistarmenn. Ekki að það sé neinum ákveðnum aðila að kenna, fjárhagslegir hagsmunir flugfélags, útgáfufyrirtækja, tónlistarblaða og endalaust fleiri aðila gera það að verkum að svona ganga hlutirnir einfaldlega fyrir sig. Manni líður hins vegar oft eins og maður sé bara smurolía einhverrar stórrar maskínu. Við fáum jú að njóta ágóðans þ.e. tónleikanna og virðumst á yfirborðinu vera í aðalhlutverki. En ef maður skoðar þá staðreynd að Agent Fresco hafi launalaust  troðfyllt NASA og fengið hundruði gesta til að bíða í röð fyrir utan á besta tíma hátíðarinnar í fyrra og á sama tíma þurft að kaupa sér sinn eigin bjór til að svala þorstanum á meðan á giggi stóð (lítill flöskubjór NASA kostar btw 900 krónur) og þegar maður bíður í klukkutímaröð í skítaveðri á meðan blaðamenn og aðrir vinir hátíðarhaldara valsa inn og út, finnur maður greinilega fyrir eigin merkingarleysi í þessu samhengi. 

Kannski er þetta fyrirkomulag hið besta mögulega, og kannski á maður ekkert að vera að kvarta, en stundum finnst manni listin óhreinkast við þessi augljósu tengsl við peninga. Það er kannski óhjákvæmilegt , en just sayin… Þessar hugsanir herjuðu á mig allt miðvikudagskvöldið, fyrsta tónleikakvöld Iceland Airwaves 2011. Ég vonaði innilega að öllu mínu áhugaleysi og neikvæðu hugsunum yrði troðið aftur ofan í kokið á mér með einhverri listrænni flugeldasýningu.

Fyrsta band kvöldsins var Mammút á NASA. Þau voru í svaka stuði, þétt og aðlaðandi að venju og krádið fílaði þau greinilega í drasl. Tónlistin er í stöðugri þróun, og nú er hljóðgervill farinn að spila stórt hlutverk í nokkrum lögum. Bandið virtist vera að færa sig meira í yfir í myrkari og rafrænni átt (kannski svolítið í áttina að þeirri tónlist sem Austra er að gera). Þessi elektróníski bragur lætur Katrínu minna örlítið meira á Björk, en það hafa alltaf verið ákveðin element í söngnum sem virðast koma þaðan. Kover útgáfa af ,,Follow“ af Bang Gang kom svo mjög vel út með öskrum og óhljóðum.

Næst ætlaði ég að hlusta á Sóleyju Stefánsdóttur (úr Seabear og Sin Fang), sem að mínu mati er líklega áhugaverðasti ,,nýji“ íslenski listamaðurinn á hátíðinni. Röðin sem hafði myndast inni í Hörpunni var hins vegar gígantísk og ég ákvað að halda aftur út í óveðrið.

Á Faktorý spilaði nýtt íslenskt reggíband sem kallast Amaba Dama. Hljómsveitin virtist aðallega veruð skipuð meðlimum Ojba Rasta, en með kamelljónið Earmax a.k.a. Nagmús a.k.a Maximus a.k.a. Gnúsa Yones sem frontmann. Stemmningin var vel heit, svitinn lak af rúðunum og fólk dillti sér hæglátlega við tónana. Bandið var þétt og skemmtilegt á sviði en lagasmíðarnar frekar misjafnar. Frá koveri af Týndu Kynslóð Bjartmars til ofboðslega undarlegs lags um Bjössa Bollu og svo ágætis útgáfu af danshittara Gnúsa Yones ,,Fullkomna Ruglkona“.

IKEA SATAN er eitt skemmtilegasta hljómsveitarnafn hátíðarinnar. Hraðabreytingar, samsöngur og einstaka kaflar vöktu lukku en hljómurinn var þunnur  og í heildina var tónlistin sem hljómsveitin bauð upp á á Amsterdam bara frekar auðgleymanlegt bílskúrsrokk.

Til að slútta kvöldinu – HEY! – rölti ég yfir á NASA þar sem Of Monsters and Men voru hálfnuð með settið sitt – HEY! Það virðist vera svolítil lenska hjá böndum þessa dagana að safna saman fullt af fólki upp á svið í þeim tilgangi að bæta einhverju við  tónlistana – HEY! – en ef lögin kalla ekki hreinlega á það er það oftast óþarfi – HEY! Þannig var það með OMM sem mér finnst að ættu frekar að einbeita sér að því að mjólka tilfinningarnar sem þau eru að setja í lögin frekar en að búa til eitthvað über-kraftmikið show – HEY! Bandið var semsagt kraftmikið en vandræðalegt milli laga – HEY! – og visjúalið ágætt en bætti svosem engu við tónlistina – HEY! Slagarinn ,,Little Talks“ – HEY! – var lokalagið og sungu margir með, og óháð tilfinningum mínum gagnvart laginu verður það að viðurkennast að það er alveg óþolandi grípandi – HEY!

Fyrsta kvöld hátíðarinnar ár var engin listræn flugeldasýning, fátt nýtt eða frumlegt, en gott á sinn hátt. Kosturinn við að hafa litlar væntingar til hátíðarinnar er vonandi sá að maður verður allavega ekki fyrir neinum stórkostlegum vonbrigðum…

5 responses to “Airwavesdagbók Kristjáns: Miðvikudagur”

 1. Guðmundur Einar says:

  Er ekki spurning um að biðja um leyfi? Það er kolólöglegt að stela svona myndum og birta.

 2. Kristján Guðjónsson says:

  Það væri eflaust sniðugt. En ég vona að þetta sé í lagi af nokkrum ástæðum.

  1. Mynirnar eru fáanlegar á netinu óháð því hvort við birtum þær. Semsagt á Flickr síðu Iceland Airwaves.
  2. Ég vísa í ljósmyndarana
  3. Rjóminn hefur engan fjárhagslegan gróða af því að birta þessar myndir hér.
  4. (frekar vond afsökun) þetta er að verða nokkuð viðtekin venja í höfundarréttarfrumskógi alnetsnins

  p.s. ég/rjóminn tek niður myndirnar um leið og kvörtun berst frá einhverjum sem eru málinu viðkomandi.

 3. Guðmundur Einar says:

  Þrátt fyrir að myndirnar eru á netinu þá er ekkert sem að segir þér að þú megir stela þeim og nota á síðunni þinni.

  Þrátt fyrir að þú vísir í ljósmyndarann þá veit hann ekkert um að að þú sért að nota sköpunarverk hans.

  Rjóminn græði auðvita á þessu, þið þurfið ekki að ráða ljósmyndara til þess að taka myndir fyrir ykkur.

  4. Þetta er ekki viðtekinn venja hjá fólki sem að vinnur heiðalega, þú myndir aldrei setjast upp í leigubíl sem að væri stolinn?

  Það sem að ég er að reyna að segja þér að þetta setur ljótan blett á annars góða síðu. Það sem að ég skil ekki er af hverju er ekki haft samband við Iceland Airwaves eða ljósmyndarana og biðjið um leyfi?

 4. Kristján Guðjónsson says:

  Skil þig og hef ákveðið að taka myndirnar út. Ég er alveg sammála að það besta í stöðunni væri auðvitað bara að biðja um leyfi.

  En já. Svo að við höldum umræðunni áfram.

  Flestir eru sammála um að það sé í lagi að vitna í texta á netinu án þess að biðja um leyfi. Það er í lagi að embedda lög eða linka á youtube-myndbönd án þess að biðja um leyfi eða láta vita.
  Þessir hlutir eru sköpunarverk á sama hátt og ljósmyndir og þeir hafa verið settir inn á netið þar sem hver sem er getur nýtt sér þá til nýrrar sköpunar. Ég sé eiginlega engan grundvallarmun þarna á milli. Þá getum við rætt um heiðarleika myndlistarmanna eins og Erró og tónlistamanna eins og Girl Talk, þ.e. hvort að hann sé að keyra stolinn leigubíl.

  Og svo annar punktur sem vert er að velta fyrir sér. Hvað meðð listamennina sem myndirnar eru teknar af? Þeir eru ekki spurðir um leyfi (að ég held) þegar mynd er tekin af þeim. Svo er ljósmyndarinn í fullum rétti til að stjórna hvar og hvenær myndin birtist, hefur rétt á að græða á listamanninum sem í mörgum tilfellum er eflaust verr launaðri en ljósmyndarinn.

  Og já til að viðhalda ekki neinum misskilningi: Rjóminn græðir enga peninga því að um síðuna fara engir fjármunir. Hér eru engar auglýsingar og þeir sem standa að Rjómanum nota aðeins sinn eigin ólaunaða frítíma til að halda síðunni lifandi. Það kæmi því aldrei til greina að “ráða” ljósmyndara.

 5. Guðmundur Einar says:

  Þetta eru allt góð og gild sjónarmið, en það sem stakk mig var að það stóð birt án leyfis sem að mér þótti nokkuð kjánalegt. Aðalega vegna þess að það er lítið mál að senda email eða hringja og biðja um leyfi. Annað hvort færðu já eða nei en veist allavega að þetta er ekki birt í óþökk.

  En eins og ég sagði þá er ég hrifinn af þessu netriti og kíki við reglulega því mér finnast pennarnir undantekningalaust heiðarlegir og skemmtilegir.

  Hefði bara þótt skemmtilegra að sjá birt með leyfi, en það er bara listamaðurinn í mér að tala.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.