• facebook
  • soundcloud
  • twitter
  • youtube
  • mail

Airwavesdagbók Daníels: Miðvikudagur

Það var ljúft að klára vinnuna þennan daginn. Þó þreytan væri þónokkur eftir erfiði dagsins, fylltist líkaminn gleði og hamingju yfir því að hátíðin væri loksins að hefjast. Frekar slæm ýsa í raspi var gleypt á Hressingarskálanum með góðum vin og haldið var í átt að óreiðu (stolið? neinei..). Á meðan kórbræður höfundar kyrjuðu ættjarðarlög í Hljómskálanum, undirbjuggu tónleika á Kaffibarnum og supu smá mjöð, ákvað höfundur að kynna sér opnunarkvöld hátíðarinnar og hafa það náðugt í faðmi íslenskrar tónlistar, mannmergðar og þetta kvöldið; grenjandi rigningar. Leiðin lá á hin nýenduropnaða Gauk á Stöng þar sem útgáfufyrirtækið Geimsteinn hugði á kynningarkvöld.

Eldar – Gaukur á Stöng

Eldar er samstarfsverkefni þeirra Valdimars Guðmundssonar (Valdimar) og Björgvins Ívars Baldurssonar (Lifun/Klassart) og koma þeir frá Keflavík. Það var suðurnesjastemmari á Gauk á Stöng þegar bandið tók á svið en kvöldið, tileinkað útgáfufyrirtækinu Geimsteini, hafði lagt staðinn undir sig þetta kvöldið. Ekkert nema gott mál. Húsið var hálffullt/hálftómt (fer eftir því hvernig er litið á það) þegar hinn geðþekki söngvari Valdimar kynnti sveitina. Þeim til halds og trausts (meðlimir hugsanlega?) voru nokkrir vinir en þar á meðal voru þeir Stefán Örn úr Buff og Lights on The Highway, Sigtryggur Baldursson (þúsundþjalatrymbill/Sykurmolarnir) og ein Fríða Dís úr Klassart. Samhljómurinn var frábær og treginn var mikill. Textar á íslensku og rómantísk melankólía sveif yfir vötnum. Hljómsveitin skilaði vel af sér og Valdimar sló við nýjan tón og hvarf í smástund frá sinni samnefndu hljómsveit í allt annan heim. Mjög gott mál. Einnig skemmdu ekki fyrir þær harmoníur sem þau Stefán Örn og Fríða Dís framkölluðu ásamt Björgvini. Allt í allt mjög heilsteypt en ef slípað er ögn betur gæti þetta verið næsta stórsveit landsins. Von er á breiðskífu frá sveitinni í nóvember og að sjálfsögðu kemur hún út á Geimsteini. Mun hún bera heitið (ef höfundi minnir rétt), Í Nálægð og Fjarlægð eða Nálægð/Fjarlægð. Bæði betra.

Klassart – Gaukur á Stöng

Eftir erfiðan vinnudag getur verið gott að hressa sig aðeins við. Þó er það vart í höndum meðlima Klassart að gera slíkt. Örlítið fækkaði í salnum en á sviði stigu meðlimir og smurðu í yndislega mjúkt og gott kántrýskotið blús/popp sem passar vel við smá viský og rigningu. Flutningurinn var góður og einlægðin greinileg. Hljómsveitin hefur stimplað sig vel inn í tónlistarlífið hérlendis og þá einna helst með laginu Gamli grafreiturinn sem tröllreið öldum ljósvakans hér um árið. Því fór þó miður, að fætur toguðu í sætaröð eða jafnvel sófa og var því ákveðið að yfirgefa húsið eftir aðeins tvö lög. Hugsanlega finna sér stað þar sem hægt væri að humm-a tóna bæði Klassart og Elda og um leið safna kröftum fyrir komandi kvöldstund/ir. Báðar sveitir þóttu þó afbragðsfærar í sínu en hefðu líklegast sómað sér betur þar sem gestir hefðu getað farið í setusleik í stað þess að liggja á gólfinu og fara í laumusleik. Eða hvað? Gólf er kannski bara meira spennandi.

Eftir huggulegheit Geimsteins var leiðinni haldið á Nasa við Austurvöll. Hið farsæla útgáfufyrirtæki Record Records hafði hersetið húsið þetta kvöldið og hugði á sigur. Var það bæði skemmtileg og furðuleg reynsla að labba inn á Nasa gjörsamlega stútfullan svona snemma kvölds á miðvikudegi.

Lockerbie – Nasa

Undanfarin ár hafa sveitir sem leika snemma á Nasa við Austurvöll á miðvikudegi í þurft að sætta sig við hálftóman/hálffullan sal af gestum en þetta kvöld var raunin allt önnur. Varla var hægt að fóta sig þegar inn í salinn var komið þar sem Lockerbie voru í miðju setti og gestir í fullkomnu jafnvægi. Eða svona næstum því. Lockerbie leikur post-rock/indie blöndu með brassi og var af nægu að taka. Þétt og flott keyrði sveitin í efni af frumburði sínum Ólgusjór og öryggið var gott. Sveitin er flott stadium band og sándið þeirra skilar sér einkar vel í þéttum og stórum sal af fólki. Hljómsveitir á borð við For A Minor Reflection og Hjaltalín koma upp í hugann þegar sveitin er upp á sitt besta og greinilega að áhrifavaldarnir eru bara af því fínasta. Ungt og efnilegt svo sannarlega og verður gaman að fylgjast með hvernig þessum drengjum gengur!

Mig hafði lengi vantað að sjá krakkana í Mammút en sveitin hefur farið frekar huldu höfði undanfarið og eytt tíma sínum í upptökur á væntanlegri plötu. Ég var frekar spenntur en ákvað að tylla mér aðeins í sófann á efri hæð Nasa og taka anda. Þegar hugljúf en þokkafull rödd Katrinu Mogensen færðist yfir í hátalarakerfi efri hæðarinnar, dreif ég mig niður.

Mammút – Nasa

Krakkarnir í Mammút tóku á stökk í múnderingu indjána (?) og fengu salinn gjörsamlega á sitt band. Ofursmellurinn Bakkus varð þriðja lag kvöldsins og stemmingin var frábær. Hljómsveitin var einnig verulega þétt og sándið alveg frábært! Þau eru svöl og vita það en sannleikurinn er sagna bestur og ekkert er um stæla. Gestir fíluðu Bang Gang ábreiðuna Follow og sýndu sveitinni að þeirra nærveru er verulega óskað við sem flest tilfelli. Æðisleg frammistaða og djöfull verður gaman að heyra afrakstur upptökuferlis krakkanna sem staðið hefur um þónokkurn tíma. Besta frammistaða þeirra hingað til að mínu mati en ekki hefði verið verra að heyra fleiri gömul með.

Sykur – Nasa

Stuð/partý/elektró-pop sveitin Sykur gaf nýverið út plötuna Mesópótamía og hefur fengið fína athygli fyrir vikið. Þó hefur sveitin verið á vörum dansþyrstra Íslendinga um þónokkurn tíma núna þrátt fyrir ungan aldur meðlima. Sveitin leikur 90´s blandað teknó á heimsklassa (fyrir þá sem fíla). Agnes Björt, söngkona sveitarinnar, náði að hrífa gesti með sér en fullt var útúr dyrum allt kvöldið á Nasa. Feikigóð söngkona sem gefur þessu fremur einfalda teknó-trans-dans-blandi aukið vægi og hjálpar til. Svona smá eins og Aretha Franklin og Florence Welch færu í trekant með tónlistarforriti á alsælu með sleikjó…eða já. Fínt, flott en ekki alveg minn tebolli. FM Belfast söngvarinn Árni Rúnar átti einnig skemmtilega innkomu í laginu Shed Those Tears. Það var gaman.

Agent Fresco – Nasa

Það er alltaf mikil eftirvænting eftir tónleikum Agent Fresco. Oft er það eins og að bíða eftir geggjuðum mat í ofninum eða jafnvel huggulegri píu til að fara úr að ofan eftir annars ágætis kvöld. Þetta skiptið var þó fremur dræmt. Maturinn var hálf brunninn og hugsanlega var þessi gella ekkert gella. Að öllu gríni slepptu voru þetta mikil vonbrigði. Hljómurinn var skrýtinn og lögin virtust bæði hægjast niður og hraðast upp á handahófskenndum augnablikum og ein af mest spennandi sveitum landsins var bara ekki nægilega þétt. Agent Fresco hafa fyrir löngu síðan hrifið undirritaðan á sitt band og séð til þess að andlegri alsælu sé fullnægt oftar en einu sinni en í þetta skiptið var ákveðið að fara snemma. Hugsanlega er þetta tengt þreytu, yfirfullum sal af fólki eða annarskonar streitu miðrar viku en ég held því miður ekki. Drengirnir áttu sína spretti en það dugði ekki til og kvaddi ég Nasa fremur súr þetta kvöld. Sveitin hyggur á frekari framkomur á Airwaves í ár og mun ég sannarlega gefa þeim tækifæri til að sannfæra mig á nýjan leik. Svo sannarlega.

Nokkur kvöld eftir og allt að byrja. Stundum eru hlutirnir ekki þeir sem maður vonaðist eftir og stundum eru þeir betri en allt annað sem hægt er að ímynda sér. Höfundur er viss um að komandi tónleikar, uppákomur og glens Iceland Airwaves 2011 eigi eftir að framkalla hjartayl, bros og eintóma gleði á komandi dögum. Áfram Airwaves, gleðilega hátíð og skál!

Leave a Reply