Airwavesdagbók Guðmundar: Miðvikudagur

Af stemningunni í miðbænum á miðvikudaginn mátti ráða að eitthvað var yfirvofandi. Eitthvað spennandi. Á hverju götuhorni tók við manni ný, erlend tunga og inn og út af öldurhúsum borgarinnar streymdu tæki og tól, hljóðfæri og fólk. Meira að segja í pottunum í Vesturbæjarlauginni mátti greina þetta, þar sem rithöfundar, tónlistarmenn og gamalmenni voru samankomin að spjalla um málefni líðandi stundar: Airwaves er að byrja. Tilfinning mín var sú að aldrei hafi fleiri útlendingar verið hingað komnir til að sjá, upplifa og heyra íslenska tónlist. Og dagskrá kvöldsins var svolítið eftir þessu; flestir listamennirnir voru íslenskir og marga hverja hafði maður séð spila oftar en einu sinni eða tvisvar. Ég tók því þann pólinn í hæðina að elta uppi það sem hafði áður framhjá mér farið.

Ég byrjaði kvöldið á Off-venjúi í boði Gogoyoko á Bar 11. Þar voru finnsku öldungarnir í 22-Pistepirkko að leika fyrir dansi. Ég ætla bara að gera hreint fyrir mínum dyrum; meiri tími fór í skeggræður yfir ölkrús en eiginlega inntöku á músík. Stundum náði bandið þó að grípa athygli mína með snjöllum gítarlínum og þokkaleg kraftmiklu rokkstuði svo samræðurnar voru settar á hold. Það er greinilegt að bandið hefur gert þetta lengi; virtist nokkuð öruggt í flutningi sínum en hafði mátt hafa meira gaman af þessu. Þó óhætt að mæla með að fólki kíki á þessa reynslubolta.

Pornopop voru næstir á dagskrá; aðrir öldungar sem ég hafði ekki séð áður. Pornopop samanstendur af tveimur bræðrum en þeim til halds og trausts voru Franz, úr Ensími, og Ingi Björn, bassa- og kyntröll. Tónlistin var áheyrileg; svona gítardrifið letirokk, minnti á köflum á American Analog Set. En framkoman var álíka letileg og tónlistin sjálf. Þeir spiluðu og sungu með lokuð augun; ekki af innlifun heldur frekar eins og þeir væru bara pínu þreyttir.

Á Faktorý voru það reggí-bönd Amaba Dama og Ojba Rasta sem áttu að slá botninn í tunnuna þar á bæ. Það fyrra hafði ég aldrei heyrt um áður, Amaba Dama, en það síðara er orðið landanum góðkunnugt. Það var vel hægt að dilla sér við Amaba Dama. Spilagleðin var í fyrirrúmi og sviðsframkoman lífleg; meðlimir klæddir fjöðrum og glingri. Því miður bliknuðu þau hinsvegar í samanburði við Rastana í Ojba. Bandið var þétt og vel spilandi, lögin grípandi og skemmtileg. Ekki skemmir fyrir að hafa Dubmaster innanborðs en hann gefur litríku bandinu enn meiri lit. Stemning var þar að auki orðin vel sveitt enda staðurinn stútfullur af fólk í miklu stuði. Því miður náði ég ekki að hlýða á tónleikana til enda því samverkamaður minn gerðist drukkinn og spjó. Ojbarasta!

Þetta kvöld var fínn forsmekkur fyrir það sem koma skal. Venjúarnir voru full fáir þetta kvöldið og því mynduðust raðir á ákveðnum stöðum. En þannig er það bara! Þar sem ég sit hér og rita þetta yfir kaffibolla finn ég vissulega fiðring fyrir kvöldinu í kvöld. Beach House er vafalaust það númer sem ég er spenntastur fyrir. Annars heilla norsku málmhausarnir í Deathcrush, kanadamennirnir í Young Galaxy og japansk-bandaríski dúettinn Fig. Þess má geta að Nels Cline, gítarsveinn Wilco, er annar helmingur Fig. Þetta verður eitthvað!

Þess má geta að myndum var stolið af Flickr-síðu Loftleiða og þær birtar án leyfis. Ég vona að ég fái ekki skömm í hattinn.

2 responses to “Airwavesdagbók Guðmundar: Miðvikudagur”

  1. Nanna says:

    Væri kannski í lagi að leiðrétta eitt.
    Pornopop samanstendur af tveim bræðrum, Pétur Úlfur og Ágúst Einarssynir, Hallgrímur Jón Hallgrímsson var á trommum og Ingi Björn bassa.

  2. Guðmundur Vestmann says:

    Já. Hér virðist sem mér hafi brugðist bogalistin. Tók greinilega alvarlegan feil á öðrum bróðurnum og Franz í Ensími. Kaup á gleraugum til íhugunnar.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.