Airwavesdagbók Guðmundar: Fimmtudagur

Eftir sjávarrétti og hvítvín í góðra vina hópi héllt ég út í kvöldið í mínu fínasta pússi. Eða svona næstum því. Eitthvað áttum við erfitt með að ákveða hvað skildi sjá en fljótlega var stefnan sett á Norðurljós Hörpunnar. Rétt rúmlega níu steig dúettinn Fig á stokk. Í stuttu máli voru vonbrigðin jafn mikil og eftirvæntingin hafði verið. Ég er mikil aðdáandi Wilco og veit fyrir víst að herra Cline hefur verið að gera eitursvala hluti utan þess. En tilraunirnar sem hann gerði hér með japönsku samstarfskonu sinni voru álíka áhugaverðar og það sem fram fer í tónmennt í fjórða bekk. Eftir 15 mínútur af undarlegu gítargutli og effektafikti gafst ég upp og labbaði út. Afsakið frönskuna mína; en þetta sökkaði. Annars getið þið séð stutt brot af tónleikunum hér að neðan. Það hefði nægt mér.

Fig @ Airwaves ’11


Fyrir forvitnis sakir ákvað ég að rölta niður í Kaldalón þar sem arftakar krúttsins, Pascal Pinon, voru að spila sitt lágstemmda popp. Stúlkurnar gerðu sitt vel og lítið hægt að kvarta undan frammistöðu þeirra. Stemningin var ofboðslega notaleg og tónar og textar einkar hugljúfir. Ég var að koma inn í þennan sal í fyrsta skipti – og kunni vel við mig þarna. Nálægðin við bandið gerði þeim stöllum bara gott. Þær gætu þó talað svolítið hærra og skýrar á milli laga; en ætli þessi feimni sé ekki hluti af sjóvinu.

Áður en ég kom mér inn í Hafnarhús ákvað ég að taka stuttu stopp á NASA. Þar voru Young Galaxy að framreiða tóna – og mikla eðaltóna! Hljómur bandsins var virkilega flottur og slípaður og rafmettað popprokkið leikið af miklu öryggi. Karl og kona (hjón að mér skilst) skiptust á að syngja og harmoneruðu þau vel saman. Við hlýddum á einhvern þrjú lög yfir staupi af Fernet Branca; og höfðum bara mjög gaman af. Efnileg sveit hér á ferð.

Beach House. Já, Beach House var án nokkurs vafa það besta sem ég sá þetta kvöldið. Sveitin lék lög af síðustu tveimur plötum sínum við mikinn fögnuð tónleikagesta. Flutningurinn var óaðfinnanlegur og lagavalið frábært. Sviðsframkoman var svöl og sjarmerandi, kannski ekki persónuleg eða einlæg – en það gerði ekkert til. Ég hafði gert mér í hugarlund að Victoria Legrand væri þessi hlédræga, dularfulla týpa en hún virtist í miklu stuði þar sem hún þeytti flösunni hressilega og heillaði lýðinn upp úr skónum eins og sírena með söng sínum. Hljómurinn var góður þetta kvöldið í Hafnarhúsinu og vel staðið að lýsingu. Ég labbaði út alsæll. Svona á þetta að vera!

Áður en haldið var heim í koju var tekið pittstopp á Amsterdam. Hin norska Deathcrush var síðasta sveit á svið. Aftur virtust spádómsgáfur mínar bregðast mér; þetta var bara frekar slæmt gigg. Flutningurinn alls ekki nógu góður – sándið flatt og leiðinlegt. Hálfgerð óreiða, og þá á slæman hátt. Lítið hardkor á þessu svæði.

Framhaldið? Ég ætla ekki að taka neina sénsa í kvöld heldur tippa á það sem hefur öruggasta stuðulinn. Tune-yards lofar góðu, borgarpólitíkusarnir í HAM ættu að vera gott aksjón og Prinsinn Póló er iðulega hress. Einhvern nefndi stuðbandið Totally Enormous Extinct Dinosaur – er það eitthvað? Sjáum til.

Þess verð ég að geta að myndirnar voru teknar af öðlingnum honum Benjamin Mark Stacey.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.