Airwavesdagbók Guðmundar: Föstudagur

Ég skyldi við vini mína fyrir utan NASA klukkan hálf-tíu. Þau ætluðu sér inn að sjá Young Magic. Það hafði upphaflega verið planið mitt líka, en þar sem hin örstutta pressuröð hreyfðist ekkert þá ákvað ég að sjá eitthvað í stað þess að standa fyrir utan í kuldanum. Lay Low var að byrja eftir smástund. Var það eitthvað? Ég hef áður skemmt mér ágætlega á tónleikum með stúlkunni. Hví ekki að freista gæfunnar aftur?

Ég lagðist því leið mína inn í Iðnó. Keypti mér flöskubjór á uppsprengdu verði og kom mér fyrir aftarlegar, voða spekingslegur á svip. Á tónleikunum lék Lovísa ný lög í bland við eldri. Hún á marga eldri smelli – en nýja efnið hljómar bara enn smellnara. Sjálfur hef ég ekki heyrt Brostin streng, nýju plötuna hennar, en lögin sem hún spilaði þarna hljómuðu bara déskoti vel. Mér varð hugsað til þess þegar ég sá hana fyrst spila; þetta var í porti þar sem verslunin Illgresi stóð. Þar var hún ein með kassagítar, feimnisleg að sjá og fámál á milli laga. Það er óhætt að segja að hún hefur vaxið mikið og dafnað sem tónlistarkona. Á tónleikunum var hún í góðu sambandi við áhorfendur, flutti tónlistina af innlifun og virtist hafa alveg jafn gaman af og áhorfendur. Hún er flottur performer og sýndi það og sannað þarna. Vel gert!

Ár og öld eru liðin síðan ég hef farið á tónleika með Megasi; held að það hafi verið síðast á NASA hérna um árið þegar hann lék Loftmynd í heild sinni. Það vildi svo heppilega til að Megas var u.þ.b. að hefjast þegar Lay Low lauk sér af. En eitthvað verð ég þó að bíða lengur eftir að sjá meistarann því hann sá sér ekki fært að mæta þetta kvöldið. Á sviðinu í Tjarnabíói sat tónlistarkonan Sóley, studd af trommara, og tilkynnti mér þetta. Ég hlýddi þó á nokkur lög; hafði gaman af en var svolítið svekktur yfir að Sóley væri ekki Megas.

Klukkan var að verða ellefu þegar ég snéri aftur á NASA. Röðin orðin enn lengri, enda margir vafalaust spenntir fyrir að sjá Tune-yards. Ég komst fljótt að því að röðin hafði hreinlega ekkert færst áfram síðustu tvo tímana. Vinir mínur voru staddir á nákvæmlega sama stað og ég skildi við þá: fimm metrum frá innganginum.

„Þetta er fáránlegt!“ „Við nennum þessu ekki lengur . . .“ „Dyravörður – afhverju segir þú ekki fólki að þú ætlir ekki að hleypa þeim inn?“ „Fokkðis – förum á Ham . . .“

Sjálfur hefði ég kannski komist inn, enda fékk ég fríkeypis band frá Airwaves sem hleypti mér fram fyrir röð. En á þessum tímapunkti fannst mér það bara ekki viðeigandi. Þarna var samankomið fólk sem hafði pungað út tæpum 17.000 krónum en þurfti samt að bíða tvo tíma í skíta-október-þræsingi. Og var engu nær að fá það sem greitt var fyrir dýru gjaldi. Já, fokkðis. Ég fór á Ham.

Áður en gengið var inn í Hafnarhús var tekið pittstopp á Bakkusi; fólk var þyrst, þreytt og þurfi. Þar inni var eitthvað band að leika músík sem ég veitti enga athygli.  Við teyguðum bjórinn nokkuð örugglega og bölsótuðumst út í hátíðina. Vissulega sumir meira en aðrir. Þetta var toppurinn á kvöldinu hjá flestum sem voru með mér – þ.e. þeim sem ekki fóru á Ham. Ég held að við höfum síðan klárað kolluna á svipuðum tíma og Dungen kláraði settið sitt.

Í mátulega stöppuðu Hafnarhúsi stigu nokkrir fúlskeggjaðir, miðaldra menn á svið. Þeir léku þungt rokk með greinilegri vísun í níunda áratuginn. Flestir þeirra starfa við músík í hjáverkum. Þeir gáfu út plötu fyrir skemmstu, en einhver tuttugu ár eru síðan síðasta skífa þeirra leit dagsins ljós. Samanlagður aldur meðlimir myndi telja, samkvæmt nákvæmum útreikningum, samanlagaðan aldur þrettán fullskipaðra Retro Stefson-hljómsveita. En. Það var þessum mönnum sem tókst að veita mér bestu tónleikaupplifun hátíðarinnar. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um þetta: Ham voru þrusuþéttir, þungir og viðbjóðslega skemmtilegir. Ungir sem aldnir, stutthærðir sem síðhærðir, þeyttu höfðinu með krampakenndum hreyfingum. Mikil stemningin, mikil snilld. Sjáið bara:

Þetta kvöld var ekki farið á fleiri tónleika. Útivera og raðamenning heilluðu bara hreinlega ekki. Við vildum vera inni – og helst í einhverri óreiðu. Þetta kvöld hafði orðið eitthvað sem það átti alls ekki að vera; og ég er nokkuð viss um að ég var ekki einn um líða þannig. Ham björguðu þessu þó og vil ég þakka þeim kærlega fyrir að vera til. Ó, Ham, þið eru svo sannarlega dýrðlegar skepnur!

Myndir teknar á lélegan Nokia-síma sem er í eigu greinarhöfundar.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.