Airwavesdagbók Kristjáns: Laugardagur

Laugardagurinn hófst rétt fyrir klukkan eitt með bratwurst og bjór á Kex Hostel. Þar var sænska rokksveitin Dungen að gera sig klára til að spila. Vegna bráðaofnæmis míns fyrir þeim glymjanda sem stundum hefur verið rangnefndur ,,hljómburður” Listasafns Reykjavíkur hafði ég ákveðið að sleppa því að sjá þá kvöldinu áður og beið því spenntur.

Dungen spiluðu órafmagnað á hostelinu, byrjuðu á nýjasta hittaranum ,,Skit i Alt”, spiluðu svo m.a. ,,Festival” af Ta Det Lugnt og enduðu á tímalausu snilldinni ,,E för fin för mig”. Þar á milli léku þeir tvö lög þar sem Hr.Dungen; Gustav Ejstes, lék á þverflautu. Performansinn var dáleiðandi en þó léttur. Hljómsveitin var greinilega að skemmta sér ágætlega. Ég vildi að allir dagar byrjuðu svona.

Þegar ég mætti í bæinn seinna um kvöldið byrjaði ég á því að hlýða á Fallega Menn í húspartýinu á Ingólfsstræti 8. Íbúðin var stappfull og ekki gerð fyrir fólk með félagsfælni. Til að kaupa súpuna eða bjórinn sem var í boði var nauðsynlegt að hafa þónokkra hugmyndaauðgi, maður þurfti að troða sér í gegnum hverja einastu glufu sem myndaðist milli líkamanna en hefði helst þurft að klifra yfir hrúguna til að komast í hinn enda íbúðarinnar. Að alvöru húspartýja sið var hljóðið í Fallegum Mönnum hræðilegt. Það heyrðist ekki í sumum míkrófónum á meðan aðrir fídbökkuðu út í eitt. En þegar full stofa af fólki öskraði með ,,Ra-ta-ta-ta! Það er komið tími fyrir annað Baader-Meinhof!” var ljóst að það skipti nákvæmlega engu máli.

Rokkkvintettinn Jón Þór byrjaði kvöldið í Iðnó og spilaði að venju tilgerðarlaust háskólarokk eins og það var spilað á tíunda áratugnum. Mér finnst frábært þegar tónlistarmenn ögra alræði enskunnar sem söngmáli ákveðinna tónlistarstefna, s.s. háskólarokks. Mig grunar að ég gefi þeim þá ómeðvitað alltaf prik fyrir einhverskonar heilindi. Ég held að lógíkin í heilanum mínum virki einhvern veginn svona:

Íslenskur texti => listamaðurinn er ekki að stefna að því að verða frægur => er að gera tónlist tónlistarinnar vegna => góð tónlist.

Þeramínleikarinn passar líka alveg furðuvel við þetta alltsaman.

Kiriyama Family sem spiluðu á sama tíma á NASA voru hins vegar ekki að gera neitt fyrir mig. Þeir voru eiginlega bara allt of slípaðir, of vel út lítandi, allt sem átti að vera sjarmerandi eða spennandi var of fyrirframákveðið, tónlistin of áhættulaus og pottþétt – Pottþétt Syntharokk 2011

Í tónlistarlegum skilningi ákvað ég því að flýja hinum megin á hnöttinn. Á eftri hæðinni á Faktorý voru Ghostigital nefnilega næstir. Að venju var krafturinn yfirdrifinn og tónlist furðulega grípandi þrátt fyrir undarleikann og aggressjónina.

Á neðri hæðinni á sama stað spiluðu Jungle Fiction og svo Samaris. Samaris laðaði þónokkuð magn af fólki að. Hið letilega trip-hop er klárlega efnilegt og ferskt  (það minnti mig á einhvern undarlegan hátt jafnvel á sumt af eldra dótinu með múm á köflum). Hvíslandi röddin í söngkonunni er flott en þyrfti samt mögulega meiri kraft; meiri trega; meiri sál.

Á Kaffi Amsterdam voru Muck að sprengja hljóðhimnur með sínu suddalega þungapönki. Hljómurinn á Amsterdam var eins og meirihluta hátíðarinnar til skammar en krafturinn í þessu nýja flaggskipi þungarokksenunnar var svo gígantískur að það skipti ekki máli. Nýjustu lögin hljómuðu mjög vel og bíður undirritaður með mold í hálsinum eftir plötu.

Eftir örlítinn vott af valkvíða ákvað ég að halda mig við hávaðann frekar en að sjá John Grant, Team Me eða Austra. Mér til mikillar furðu var reyndar nokkur röð á Gauk á Stöng þar sem dönsku táningapönkararnir Iceage áttu að spila eftir klukkutíma. Það sem meira var: röðin haggaðist varla. Ég furðaði mig um stund á þessum nýtilkomna áhuga íslendinga á pönki. Þær vangaveltur reyndust hinsvegar ótímabærar enda komst ég að því þegar ég kom inn að fólkið var allt komið til að sjá rokkabillý swingara að nafni JD McPherson. Ég pantaði mér bjór og horfði á troðfullan sal Gauksins syngja hástöfum og dansa með lagi manns sem ég hafði aldrei heyrt nefndan á nafn fyrr en í röðinni.

Um leið og McPherson lauk sér af varð nánast 100% rótering í áhorfendaskaranum, allir sem voru inni fóru út og ég sá að hálftímabið í röð hafði verið fullkomlega tilgangslaus. Hinu tónlistarlegu landamæri milli mín og þeirra voru greinilega meiri en ég hélt. Ég velti fyrir mér hvernig það gat farið svo að þessum tveimur gjörsamlega ólíku böndum var stillt upp hlið við hlið. Hvort að ekki hefði verið skemmtilegra að leyfa Iceage að spila við hlið annarra þunga- eða indírokkara og JD á meðal annarra skrallpoppara. Auðvitað getur verið skemmtilegt að setja ólík bönd á eftir hvoru öðru á svið, en þegar meginviðhorf til tónlistarinnar og hvatar sköpunarinnar er jafn gjörólíkir og hjá þessum tveimur böndum er ólíklegt að nokkur grundvöllur til að finna nokkra tónlistarlega snertifleti sé til staðar. Sá sem hlustar á JD McPherson, næstum því by definition fílar ekki Iceage. JD kóperar nánast gamla tónlist til þess að skemmta fólki: hann þakkar fyrir tónleikana og lofar að koma aftur. Iceage semja nýmóðins tónlist og virðast frekar vilja forðast áhorfendur: þeir segja ekki orð (nema til að reka ljósmyndara frá sviðinu) á milli laga allt giggið og pakka fýlulega niður á meðan fólk reynir að klappa þá upp.  Nýbylgjuskotið pönkrokkið átti það þó sameiginlegt með rokkabillýinu að koma fólki á hreyfingu, hins vegar með örlítið aðferða svo að öryggisverðir staðarins sáu sér þann einn kostan færan að standa á milli pittsins og rólegri áhorfenda. Einstaklega hressandi.

Sögur voru komnar á kreik að James Murphy úr LCD Soundsystem myndi þeyta skífum á Kaffibarnum eftir giggið sitt á Faktorý og ég stefndi því þangað. Eftir því sem ég best veit reyndast þetta hins vegar ekki vera satt en svo gæti það allt eins að hann hafi verið þarna. Maður getur bara höndlað ákveðið magn af tónlist á dag – og ég var hættur að hlusta.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.