Úlfur Úlfur gefur út frumraun sína

Úlfur Úlfur er forvitnileg samsuða af rappi og melódísku poppi með oft á tíðum dökku yfirbragði þótt partýið sé aldrei langt undan. Arnar Freyr sér um að mata hlustendur á hárbeittu flæði sem Helgi Sæmundur bakkar upp með fallegum sönglínum og rappi á meðan Þorbjörn Einar mundar plötuspilarann. Innblásturinn er allstaðar að; hvort sem um er að ræða kvenfólk og næturbrölt eða æskuna og tilfinningalíf. Áhrifavaldarnir eru sömuleiðis úr öllum áttum og er þá hvorki spurt um stíl né stefnu. Niðurstaðan er frumleg nálgun á popptónlist sem spannar allan skalann.

Þann 10. Desember mun Úlfur Úlfur gefa út frumraun sína: Föstudagurinn Langi. Platan inniheldur 10 lög og á henni verður að finna gestaframkomu frá tveimur af meðlimum Agent Fresco, Arnóri Dan, söngvara sveitarinnar og gítarleikaranum Þórarinni, að ógleymdu partýljóninu sem flestir ættu að kannast við: Emmsjé Gauta.

Í tilefni þessa ætla drengirnir að slá upp útgáfutónleikum á Faktorý samdægurs, þ.e. laugardaginn 10. desember. Þeim til stuðnings og aðstoðar verða allir þeim sem að plötunni komu og má því reikna með miklum flugeldum.

Húsið opnar klukkan 22:00 og hefjast tónleikarnir á slaginu 23:00. Aðgangur verður 999 kr og verður Föstudagurinn Langi seldur á staðnum.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.