• facebook
  • soundcloud
  • twitter
  • youtube
  • mail

Big Black

Eyrnamergshreinsandi hávaði dagsins er í boði Steve Albini og félaga í hljómsveitinni Big Black. Ég ætla nú ekki að fara mörgum orðum um sögu eða áhrif þeirrar sveitar en Steve Albini er m.a. þekktur fyrir að hafa “pródúserað” þá stórmerkilegu plötu Surfer Rosa með The Pixies, og einnig var hann með puttana í plötunni BMX sem Ensími gaf út hér um árið.

Big Black vakti almenna aðdáun fyrir útpældan hávaða sinn og grófa textagerð, en sveitin skirrtist ekki við að lýsa óhugnaði og tilgangsleysi allra hluta með grafískri nákvæmni. Songs about Fucking (sjá mynd) er mikið meistaraverk sem ætti að vera til á öllum heimilum en allra besta lag sveitarinnar er að mínu mati að finna á plötunni Atomizer sem kom út árið 1986, lagið “Kerosene”. Það er þá 26 ára gamalt lag á þessu ári hvorki meira né minna, en boðskapurinn á jafn vel við og áður; allt er ömurlegt og best að kveikja bara í öllu draslinu (vinsamlegast ekki kveikja í neinu samt).

Steve Albini stofnaði síðar hljómsveitina Rapeman sem olli dálitlu fjaðrafoki vegna nafngiftarinnar og gaf bara út eina plötu á tveggja ára líftíma sínum, Two Nuns and a Pack Mule, árið 1988. Seinna stofnaði hann svo Shellac sem er enn starfandi að ég best veit, og sem lék og söng á mögnuðum tónleikum á Gauknum árið 1999.

Jæja, nóg af blaðri, hérna er snilldin “Kerosene” í tveimur útgáfum, annars vegar á tónleikum og hinsvegar í stúdíó. Ég mæli hjartanlega með báðum útgáfum, tónleika upptakan er alveg mögnuð.

Ætli sé ekki hægt að flokka þetta undir “harðkjarna”? Ég geri það í það minnsta þar til annað kemur í ljós.

Facebook

1 Athugasemd

  1. Pétur Valsson · 08/03/2012

    The Power of Independent Trucking er líklega eitt mitt uppáhalds byrjunarlag á plötu – http://youtu.be/WbTJ_pHbjHc

    Annars hefur mér alltaf fundist Albini ofmetinn pródúser en vanmetinn tónlistarmaður. Big Black / Rapeman / fyrsta Shellac eru allt snilldarverk

Leave a Reply