• facebook
  • soundcloud
  • twitter
  • youtube
  • mail

Asonat gefur út Love in Times of Repetition og stuttskífuna On the Other Side

  • Birt: 19/03/2012
  • Höfundur:
  • Skoðanir: 0

Rafsveitin Asonat gefur út sínu fyrstu breiðskífu, Love in the Times of Repetition, um miðjan næsta mánuð, en hefur nú tekið forskot á sæluna og gefið út stuttskífu þar sem hægt er að hlýða á afrakstur samvinnu dúósins, ásamt vel völdum endurhljóðblöndunum. Skífan ber nafnið On the Other Side og voru endurhljóðblandanir í höndunum á íslendinganna Murya (Guðmundur Ingi Guðmundsson) og Muted (Bjarni Rafn Kjartansson) og hinum ítalska My Dry Wet Mess (Giovanni Civitenga).

Þó nafnið Asonat komi spánskt fyrir sjónir, þá er þetta samvinnuverkefni tveggja reynslubolta í raftónlistarsenunni. Annars vegar er það Jónas Þór Guðmundsson, sem hefur verið best þekktur í undirheimum raftónlistarinnar undir dulnefninu Ruxpin og hins vegar Fannar Ásgrímsson, sem er annar helmingur rafpoppsveitarinnar Plastik Joy. Á stuttskífunni njóta þeir aðstoðar frönsku söngkonunnar Oléna Simon, en hún er einnig tíður gestur á komandi breiðskífu sveitarinnar. Aðrir sem koma við sögu á breiðskífunni eru japanska söngkonan Chihiro og Kjarr (Kjartan Ólafsson) úr hljómsveitinni Ampop. Bandaríska útgáfufyrirtækið n5MD sér um útgáfuna, en báðir fastir meðlimir Asonat hafa gefið út sínar síðustu breiðskífur þar.

Útgáfudagur fyrir stuttskífuna On the Other Side var 13. mars síðastliðinn og er hún fáanleg á stafrænu formi með „Pay with a tweet“ fyrirkomulaginu. Skífuna er því hægt að nálgast án endurgjalds á heimasíðu n5MD.

Útgáfudagur fyrir breiðskífuna Love in the Times of Repetition er þann 17. apríl næstkomandi og kemur hún bæði út á geisladisk og á stafrænu formi. Umslag geisladisksins er hannað af hinum margrómaða Bobby Breiðholt og inniheldur diskurinn alls 13 frumsamdar rafballöður.

Leave a Reply