Ný íslensk raftónlist : Fyrsti hluti

Ég myndi seint telja mig einhvern sérfræðing um íslenska raftónlist en mín tilfinning er þó sú að sjaldan eða aldrei hafi verið jafn mikil gróska innan þessarar tónlistarstefnu, og undirflokkum hennar, og einmitt nú.

Hér að neðan, og í komandi færslum, máli mínu til einhvers stuðnings, eru nokkur dæmi um nýlegar útgáfur raftónlistar hér á landi.

Subminimal – Microfluidics
Þann 28. maí síðastliðinn kom út stuttskífan Microfluidics með raftónlistarmanninum Subminimal (Tjörvi Óskarsson) en hún ku vera önnur slíkrar gerðar frá honum. Hér munu vera á ferð frumlegar trommu og bassa æfingar af bestu gerð.

Bistro Boy – Sólheimar
Stuttskífan Sólheimar er fyrsta útgáfa raftónlistarmanninn Bistro Boy (Frosti Jónsson) en hann hefur verið að gera tónlist í mörg ár og er nú loksins að koma fram með sitt fyrsta verk. Möller Records gefa út og er þetta ellefta útgáfa þeirra.

Dusk
Hljómsveitin Dusk er skipuð þeim Bjarka Hallbergssyni og Jakobi Reyni Jakobssyni en nýverið gáfu þeir út örstuttskífuna AndskoDanz hjá útgáfufyrirtækinu Noize. Hér er á ferð kraftmikill tóna-, trommu- og bassagrautur ætlaður til útflutnings (lesist “meik”) og bragðast hann vel.

Viktor Birgiss – Wonderings
Wonderings er frumburður FreeRotation Records, sem er nýtt íslenskt útgáfufyrirtæki, rekið af Viktori sjálfum og Jónbirni Finnbogasyni. Hér er á ferð dansvænt “djúp hús” með sumaryl og gleði. Það ætti enginn að yfirgefa teitið þitt ef þú básúnar þessu yfir mannskapinn.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.