20 Bestu lög ársins

Born To Be Free - Borko

Þá er komið að því að kunngjöra bestu og áheyrilegustu lög ársins, innlend og erlend, að mati Rjómans. Að þessu sinni mun ég ekki flokka innlend og erlend lög sérstaklega heldur birta þau öll saman

Það ætti eflaust ekki að fara framhjá fastagestum Rjómans að tónlistarárið hér heima hefur verið einstaklega gjöfult og verður að segjast að framboðið erlendis frá stenst hreinlega ekki samanburð þetta árið. Það er því engin tilviljun að íslensk lög eru í algerum meirihluta á þessum lista og er það að sjálfsöðgu einstaklega ánægjulegt.

Listinn er annars svona, frá 20 sæti að því fyrsta:

#20 Jóhann Kristinsson – No Need To Hasitate
Fyrsta lagið af væntanlegri breiðskífu sem lét svo aldrei sjá sig. Bíð en spenntur eftir að fá að heyra meira.

#19 Svavar Knútur – Humble Hymn
Hinn hugljúfi Svavar hitti vel á mjúka manninn í mér með þessu ljúfsára lagi.

#18 Pojke – She Moves Through The Air
Afar vel heppnað hliðarskref Sindra Más Sigfússonar (Seabear, Sin Fang) yfir í elektrónískar pælingar. Það verður spennandi að fylgjast með framhaldinu.

# 17 Momentum – The Freak is Alive
Fyrsta lagið af væntanlegri plötu Momentum en vinnsla á henni hefst á næstu mánuðum.

#16 Nóra – Sporvagnar
Tilkomumikið upphafslag nýjustu plötu Nóru hreyfði vel við manni við fyrstu hlustun og vinnur á við hverja spilun.

#15 Dream Central Station – I’m All on My Own
Alíslensk og einstaklega vel heppnuð samsuða af Velvet Underground og Sonic Youth með vænni shoegaze skvettu.

#14 Shearwater – Animal Life
Flott lag með kröftugum stíganda. Sækir á við hverja hlustun. Tekið af plötunni Animal Joy sem er sjötta breiðskífa sveitarinnar.

#13 Valdimar – Sýn
Án efa sterkasta lagið af Um Stund, annari breiðskífu Valdimars.

#12 Pascal Pinon – Ekki Vanmeta
Fyrsta lagið af nýjustu plötu tvíburasystranna setur sannarlega tóninn fyrir það sem á eftir kemur. Einfalt en sérlega grípandi lag.

#11 Pétur Ben – God Lonely Man
Kraftmikið titillag annarar plötu Péturs Ben á sannarlega heima á þessum lista. Ekki láta ykkur bregða þó þið sjáið plötuna sjálfa ofarlega á öðrum lista sem birtast mun hér síðar.

#10 Lord Huron – Time to Run
Hressilegt lag með sækadelískum undirtón og austurlenskum áhrifum á stöku stað. Tekið af hinni ágætu plötu Lonesome Dreams en reyndar fannst mér Time to Run EP platan betri, en þar er lagið einnig að finna

#9 Cheek Mountain Thief – Cheek Mountain
Eina lagið á listanum sem gæti bæði flokkast sem innlent og erlent. Flytjandinn, Mike Lindsay, er breti en platan var öll tekin upp hér á landi og flytjendurnir eru, að ég held, flestir ef ekki allir íslenskir.

#8 Retro Stefson – Glow
Það er erfitt að skaka ekki bakendanum þegar Retro Stefson telur í og nánast ógerningur þegar jafn grípandi lag og þetta tekur að hljóma.

#7 Jónas Sigurðsson og Lúðrasveit Þorlákshafnar – Hafið er svart
Eflaust eitt aðgengilegasta lagið á listanum enda hefur það heyrst spilað á nær öllum útvarpsstöðvum landsins. Fallegt og afar vel heppnað lag og textinn virðist hafa snert streng í þjóðarsálinni.

#6 Monotown – Can Deny
Fyrsta smáskífan af væntanlegri plötu þeirra bræðra Barkar og Daða og söngvarans Bjarka Sigurðssonar (B.Sig). Leggið nafnið Monotown á minnið því platan, sem kemur út fljótlega á næsta ári, verður svakaleg! Því get ég lofað.

#5 Oberhofer – HEART
Upphafslag plötunnar Time Capsules II sem virðist almennt ekki hafa fengið góða dóma þegar hún kom út en er á ófáum árslistum erlendis engu að síður. Rjóminn er afar hrifinn af plötunni og telur hana eina af bestu erlendu plötum ársins.

#4 Ojba Rasta – Baldursbrá
Ojba Rasta bauð upp á eina af skemmtilegustu skífum ársins og var “Baldursbrá” klárlega sterkasta tónsmíðin á henni. Ég sá sveitina spila þetta lag fjórum eða fimm sinnum á meðan á Airwaves hátíðinni stóð og það hljómaði alltaf jafn vel.

#3 Tilbury – Drama
Ég hefði allt eins geta valið “Tenderloin” á þennan lista en það er eitthvað við “Drama” sem gerir það örlítið ljúfara áheyrnar. Hef ekki enn geta stillt mig um að syngja með þegar söngvarinn syngur “…when she throws the furniture around”.

#2 Kishi Bashi – Manchester
Annað besta lag ársins, og það áheyrilegasta erlendis frá, er með tónlistarmanninum K Ishibashi eða Kishi Bashi eins og hann kallar sig. Plötuna tók hann sjálfur upp, flutti og fjármagnaði og er útkoman stórfengleg. Lagið er óhefðbundinn en tilfinningaríkur ástaróður sem undirritaður steinlá fyrir við fyrstu spilun.

#1 Borko – Born To Be Free
Besta lag ársins að mati Rjómans er titillag annarar breiðskífu Borko. Frábær tónsmíð, ljúfsár og upphefjandi og hvetjandi boðskapurinn ætti að hreyfa við flestum sem eftir honum hlusta.

One response to “20 Bestu lög ársins”

  1. […] þó nokkurn tíma. Það var auk þess valið á lista yfir 20 bestu lög síðasta árs hér á Rjómanum og útvarpsþættinum […]

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.