Bestu plötur ársins

Árslisti Rjómans er óhefðbundinn að þessu sinni að því leiti að tilkynntar verða 15 bestu innlendu og 5 bestu erlendu plöturnar sem þóttu bera af á árinu og verður einungis fjallað um 5 efstu í hvorum flokk sérstaklega.

Tvær megin ástæður eru fyrir þessu. Í fyrsta lagi breytti Rjóminn áherslum sínum í ár yfir í að fjalla nær engöngu um íslenska tónlist og þótti undirrituðum því lítið vit í því að fjalla ítarlega um fjölda erlenda platna sem ekki höfðu fengið umfjöllun á síðum vefsins. Í öðru lagi var tónlistarárið hér heima óvenjulega gott og var eiginlega annað ógerningur en að birta minnst 15 bestu plöturnar (sem reyndist líka með eindæmum erfitt).

Árslisti Rjómans fyrir árið 2012 er því sem hér segir:

Tilbury - Excorsie

Innlendar plötur ársins 2012

#1 Tilbury – Exorcise

Fyrsta platan súpergrúbbunar Tilbury er plata ársins að mati Rjómans. Við tónlistarnördarnir biðum spenntir eftir þessari plötu og urðum vel flestir svo sannarlega ekki fyrir vonbrigðum. Tónsmíðarnar eru marglaga og frumlega uppbyggðar, taktfastar og með áhugaverðri skírskotun í klassíska tónlist á köflum. Yfir öllu saman flýtur svo brothætt rödd söngvarans sem ljáir lögunum manneskjulegan blæ og magnar upp dramatíkina í þeim.

#2 Ásgeir Trausti – Dýrð í dauðaþögn

Ég man hreinlega ekki eftir sterkari nýliðun í íslenskri tónlist og magnaðri innkomu Ásgeirs Trausta. Ásgeir stekkur fram á sjónarsviðið að því er virðist fullskapaður tónlistarmaður og er Dýrð í dauðaþögn glæsilegur vitnisburður um hæfileika hans sem lagasmiðs og flytjanda. Lögin á plötunni hafa hvert af öðru fengið ítrekaða spilun hjá útvarpsstöðvum landsins og virðast þau höfða jafnt til allra óháð aldri og tónlistarsmekks. Þessi hæfileiki, að höfða til jafn breiðs hóps og Ásgeir virðist gera, er á fárra færi og undirstrikar enn frekar ágæti hans sem listamanns.

#3 Jónas Sigurðsson – Þar sem himinn ber við haf

Jónas stimplar sig inn sem einn af dáðustu tónlistarmönnum landsins með þessari þriðju plötu sinni. Á henni flakkar hann á milli aðgengilegra poppsöngva og áhugaverðra tilrauna með raftónlist á einkar vel heppnaðan hátt. Platan er talsvert persónulegri og dramatískari en fyrri plötur Jónasar, sem kemur á köflum aðeins niður á kraftinum og stuðinu sem við vorum farin að venjast, en hann kemur lögum og texta frá sér á það einlægan hátt að maður getur ekki annað en hrifist með.

#4 Ojba Rasta – Ojba Rasta

Þegar maður hélt að Hjálmar væru búnir að kreista síðasta dropann úr reggea-tónlistinni hér heima koma Ojba Rasta henni til bjargar með ferskum straumum, góðum tónsmíðum og almennum skemmtilegheitum. Mig grunaði ekki að hægt væri að blása jafn miklu lífi í jafn sérhæfða tónlistarstefnu og fyrir það fá Ojba Rasta fjórða sætið á þessum lista.

#5 Hjaltalín – Enter 4

Hvernig Hjaltalín náðu að halda því leyndu að ný plata væri á leiðinni frá þeim (sem enginn var annars að bíða eftir) er rannsóknarefni útaf fyrir sig. En allt í einu var platan komin út og Hjaltalín höfðu á svipstundu farið í gegnum algera endurnýjun og ryðjast fram á völlinn sem ný sveit nánast. Ég verð að játa að ég er enn að meðtaka þessa plötu en það var ljóst strax við fyrstu hlustun að hér var ein af plötum ársins á ferð. Hjaltalín fá fimmta sætið en ég er tilbúinn að endurskoða afstöðu mína þegar ég hef rennt plötunni í gegn tvisvar til þrisvar í viðbót. Enter 4 gæti allt eins farið upp í þriðja sæti eftir það.

Sæti 6 – 15 skipa eftirfarandi plötur:

#6 Pétur Ben – God’s Lonely Man
#7 Moses Hightower – Önnur Mósebók
#8 Retro Stefson – Retro Stefson
#9 Borko – Born to be free
#10 Nóra – Himinbrim
#11 Pascal Pinon – Twosomeness
#12 Sin Fang – Half Dreams EP
#13 Legend – Fearless
#14 Valdimar – Um stund
#15 Ghostigital – Division of Culture & Tourism

Kishi Bashi - 151a

Erlendar plötur ársins 2012

#1 Kishi Bashi – 151

Besta erlenda plata ársins að þessu sinni er fyrsta sólóplata tónlistarmannsins K Ishibashi eða Kishi Bashi eins og hann kallar sig. Kishi Bashi hefur hingað til verið þekktastur sem meðlimur indie-rokk sveitarinnar Jupiter One og fyrir að túra með of Montreal og Regina Spektor. Hann stígur nú fram á sjónarsviðið einn og óstuddur með plötu sem hann tók upp, flutti, fjármagnaði og gaf út sjálfur og er útkoman hreint út sagt stórfengleg.

Plötuna má heyra í heild sinni hér að neðan og þarf varla að taka fram að Rjóminn mælir eindregið með þeirri áheyrn.

#2 Oberhofer – Time Capsules II

Það kæmi mér ekki á óvart ef meirihluti lesenda hefur ekki heyrt um Brad nokkurn Oberhofer og samnefnda hljómsveit hans. Enn síður geri ég ráð fyrir að lesendur viti að Time Capsules II er, þrátt fyrir að titillinn gefi annað til kynna, í raun fyrsta plata Oberhofer. Að mínu mati er þessi frumraun ein sú magnaðasta á árinu erlendis frá og ætti að hjóma í eyrum sem flestra. Hér er tóndæmi:

#3 Alt-J – An Awesome Wave

Vinningshafar Mercury verðlaunanna 2012, enska sveitin Alt-J (∆), skipa þriðja sætið. Líkt og í sætunum tveimur hér að ofan er hér um frumburð að ræða. Það sem heillaði mig einna mest við þessa plötu er hvernig sveitin virðist geta flakkað á milli strauma og stefna á óhefðbundinn hátt en missa aldrei sjónar af heildamyndinni. An Awesome Wave er þrælmenntuð plata sem reynist á einhvern undarlegan hátt, þrátt fyrir að vera á köflum afar óhefðbundin, einkar aðgengileg. Án efa frumlegasta plata ársins erlendis frá.

#4 Communist Daughter – Lions and Lambs EP

Ljúft, upphefjandi og afar grípandi folk-tónlist Communist Daughter féll vel í kramið hjá mér og þá sérstaklega lagið “Speed of sound”, sem hljómar hér að neðan. Það verður seint sagt að Communist Daughter feti ótroðnar slóðir í tónlisti sinni en lagasmíðarnar eru bæði aðgengilegar og grípandi og stundum þarf hreinlega ekki meira til en það til að gera góða plötu.

#5 Lord Huron – Time To Run EP

Nú er það svo að Lord Huron, sem er listamannsnafn Michiganbúans Benji Schneider, gaf einnig út breiðskífuna Lonesome Dreams í ár en ég ákvað að velja EP plötuna þar sem hún er einfaldlega aðgengilegra og heilsteyptara verk. Hér er á ferð viðkunnanleg og íburðarmikil folk-tónlist með sækadelískum og austurlenskum áhrifum í bland við kunnugleg minni úr indie-poppi síðustu ára.

6 responses to “Bestu plötur ársins”

 1. Friðrik Jónsson says:

  Eg hreinlega skil ekki af hverju ég les alltaf þessa síðu, í lang flestum tilvika er ég ósammála eða hef aldrei heyrt um það sem er verið að skrifa um. Svo klikkar það ekki að ef eg tékka á því þá fíla ég það ekki.

 2. Er það einmitt ekki vegna þess að þú ert ósammála sem þú skoðar síðuna? Það væri nú ekki gaman af þessu ef við værum öll sammála er það?

 3. það er eflaust hárrétt hjá þér.

 4. BIÓ says:

  Flottur listi. Vonandi verður þetta til þess að Kishi Bashi mæti á Airwaves að ári.

 5. Aron F. says:

  Alt j og Purity Ring fær fullt hús hjá mér á þessu ári.

 6. Pétur Björn Heimisson says:

  Jæja þá….kominn tími til að fara að hlusta á eitthvað nýtt stöff 🙂

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.