• facebook
  • soundcloud
  • twitter
  • youtube
  • mail

Undir áhrifum – Elíza Newman

eliza2

Þá er Eurovision að bresta á eina ferðina enn, og í keppninni í ár er Elíza Geirsdóttir Newman að taka þátt í fyrsta skipti. Lagið hennar heitir “Ég syng!“, þótt hún syngi það reyndar ekki sjálf heldur hin bráðefnilega Unnur Eggertsdóttir. Elíza hefur verið óþreytandi í að semja ferska og grípandi tónlist síðan hún rústaði Músíktilraunum árið 1992 með þá barnungum vinkonum sínum í Kolrössu Krókríðandi. Í október í fyrra kom út nýjasta afurð hennar, breiðskífan Heimþrá sem má hlusta á í heild sinni hér. Rjómanum lék forvitni á að vita hvaða tónlist Elíza heldur mest uppá, og fékk hana til að segja okkur frá fimm vel völdum smellum.

Ride – Dreams burn down

Þetta lag og platan Nowhere með Ride breytti lífi mínu sem unglingur að byrja í hljómsveit í Keflavík. Ég hafði aldrei heyrt eins töff tónlist áður og mig langaði að vera eins og þeir og semja lög eins og þeir og helst hitta þá! Svo voru þeir frá Oxford sem var staður sem ég hafði eitt megninu af fermingarsumrinu mínu á og mér fannst ég þekkja þá nú þegar : )

Neil Young – Birds

Ég var búin að vera semja tónlist í nokkurn tíma þegar ég fór að hlusta á Neil Young. Einhver mælti með plötunni After the Gold Rush og ég ákvað að tékka á henni. Ég hlustaði fyrst á þessa plötu á walkman cd player í neðanjarðarlest í London á leið á æfingu með Bellatrix og það fór gæsahúð um mig hún var svo flott. Þegar kom að laginu Birds þá náði það alveg inn í hjartað og ég fann að ég táraðist í lestinni, sem er ekki mjög kúl haha! Þetta lag er snilldinn ein, einfaldleiki og einlægni og kenndi mér að oft er minna meira í lagasmíðum.

Regina Spector – Fidelity

Þegar ég heyrði þetta lag fyrst fannst mér það alveg frábært, þetta er eitt af þessum fáu lögum sem fá mann til að stoppa og hlusta og hugsa hvað er þetta? Hún hristi vel upp í hausnum á mér með sínum minimalísku útsetningunni og skrítna söngstíl og minnti mig á að allt er leyfilegt í lagasmíðum. Algjör perla!

Kate Bush – Hounds of Love

Ég valdi þetta lag þar sem ég er mjög mikill Kate Bush aðdáandi og mér finnst lagið Hounds of Love af samnefndri plötu eitt af hennar bestu lögum. Það er ennþá ferskt í dag, rosa flott útsett og í raun einstakt. Hún er kona sem fer sínar eigin leiðir og ég fíla það mjöög vel!

Elliott Smith- Baby Britain

Ég er mikill Elliott Smith aðdáandi og var svo heppin að hitta hann einu sinn á Reading Festival þar sem við vorum að spila. Hann var hógvær og feiminn en algjör snillingur og tónlistin hans er svo falleg að það er erfitt að velja eitt lag! Baby Britain er hresst lag með skemmtilegum texta sem lýsir ungri dömu í Englandi og hennar ævintýrum og þetta höfðaði mikið til mín á sínum tíma þegar maður var sjálfur í ævintýraleit á þeim slóðum : )

Leave a Reply