Undir áhrifum – Halli Valli

Ljósm: Ómar Örn Smith

Fáir hafa gengið ósnortnir út af tónleikum með Ælu, og oft hefur maður undrast að Hallbjörn Valgeir Rúnarsson söngvari sveitarinnar skuli ekki slasa sig þegar hann hleypur öskrandi um salinn með gítarinn sinn. Hljómsveitin byrjar kannski tónleikana uppstríluð í jakkafötum, en endar sem þrjár pungsveittar karlkyns playboykanínur á brjóstahöldurum. Eðlilega fannst mér mikið til um þegar ég sá sveitina fyrst á tónleikum, og hef verið dyggur aðdáandi alla tíð síðan. Nú eru þeir piltarnir að vinna að nýrri plötu sem vonandi kemur út hið fyrsta. Þess ber að geta að Ómar Örn Smith tók ljósmyndina hér að ofan.

Hallbjörn, eða Halli Valli, eins og hann er alla jafna kallaður, settist niður með Rjómanum og fór yfir áhrifavalda sína í tónlistarlífinu:

Ég hélt að þetta yrði fljótgert. En “undir áhrifum” listi verður seint tæmandi og þessi listi endaði á vera 5 plötur sem hafa hvað mest mótað mig og væru líklega á “Top 5 most played” ef ég hefði verið með sama spilarann siðustu 20 árin. Allt lög/plötur sem ég vildi að ég hefði tekið þátt í að semja og spila á. Ég var pínu hræddur við að þetta yrði e-ð ófrumlegt en niðurstaðan var að vera alveg samkvæmur sjálfum mér með regluramman því annars myndi ég aldrei ljúka verkinu.

Slint – Good morning captain

Það er erfitt að velja eitt lag af Spiderland en þetta lag er sennilega það sem kveikti ástarlogann sem logir á milli mín og þessarar plötu. Ég man það ekki í svipan hver það var sem tróð heyrnatólunum á hausinn á mér í gömlu Hljómalind og lét mig hlusta á þessa plötu en ég man að það opnaðist alveg nýr heimur fyrir mér. Hljómsveitin er oft sögð vera arkitekt post-rokksins með þessari plötu og ég held að margir taki undir það. Sá þá flytja alla plötuna þegar þeir komu aftur saman 2007 á All Tomorrows Party.

Hlusta á alla plötuna Spiderland hér: https://www.youtube.com/watch?v=FAApF-FDkoY

Blur – Popscene

Á mínum unglingsárum var ég Blur aðdáandi eins langt og það var hægt. Átti meira segja album coverin af fyrstu 4 plötunum þeirra árituð af öllum meðlimum. Uppáhaldsplatan mín var og verður Modern Life is Rubbish. Þrátt fyrir að lagið Popscene hafi ekki verið á þeirri plötu finnst mér það frábært lag. Það kom reyndar ekki út á neinni breiðskífu en það átti upphaflega að vera á Modern Life is Rubbish og var í raun fyrsta smáskífan af henni. En þegar platan var fullmótuð fannst þeim stefnan hafa breyst og hentu því út. En flest lögin af MLiR hefðu getað verið hérna, þetta fannst mér bara skemmtilegri nálgun. Gítar-riffinn hans Graham Coxon finnst mér frábær og er hann mikill áhrifavaldur. Ég hef reynt að fylgja honum í solo-ferli hans en hef sæst á það að hann er hundleiðinlegur einn.

Hlusta á alla plötuna Modern Life is Rubbish: https://www.youtube.com/watch?v=xF1ANx89dEI

Bonnie Prince Billy – I see a darkness

Ég marka þann tímapunkt sem ég heyrði lagið “I see a darkness” í þeim yndislega útvarpsþætti Sýrðum Rjóma árið 1999 sem vendipunkt í mínu lífi. Mér fannst ég svo innilega vera að heyra tónlist sem hefði verið samin frá mínu hjarta. stuttu síðar sá ég þennan meistara spila á gamla “gamla” Gauknum. Síðan þá hef ég eignast nánast allt frá þessum listamanni, séð hann margoft á tónleikum og heyrt þetta lag í milljón útgáfum. Þess vegna leyfði ég mér að láta upprunalegu útgáfuna ekki flakka hérna heldur skemmtilega endurgerð af honum sjálfum. Til gamans má geta að Will Oldham (Bonnie Prince Billy) tók líka myndina sem prýðir albumið á Spiderland sem er hérna efst á lista.

Weezer – No other one

Þessi sleppur heldur ekki. Þrátt fyrir að hafa ekki gert mikið fyrir mig eftir Pinkerton þá fannst mér þessi plata alveg málið í svo langan tíma. Mér fannst hún sánda svo vel. Tekin upp læf, á teip, allir í sama herbergi, þetta var bara allur pakkinn sem maður vildi. Persónulega finnst mér hún líka eldast vel þó ég geti ekki sagt að bandið hafi gert það.

Fink – Sort of revolution

Það eru kannski 2 ár síðan ég sá plötusnúðinn Andrés Nielsen pósta einhverju remixi af þessu lagi á veggnum sínum. Remixið fannst mér alveg svona alltílagi en fyrir einhverja rælni varð ég mér úti um orginalinn. Hef ekki fengið nóg af þessu lagi og rendar allri plötunni síðan. Þetta lýsir alveg þeirri tegund af tónlist sem ég væri til að fara að gera í dag…   …kannski aðeins dansvænni en með þessum drungalega, minimalíska, akústíska en samt elókróníska tón.

2 responses to “Undir áhrifum – Halli Valli”

  1. Óskar says:

    Sætur gaur

  2. […] tek undir með Halla Valla sem valdi sín fimm lög hér nýlega að þetta er ekki eins einfalt og maður heldur. Það er svo ótrúlega mikið af tónlist sem […]

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.