Undir áhrifum – Heiða Eiríks

heida copy

Heiða Eiríks, ef einhver vissi það ekki, er forsprakki hljómsveitarinnar Hellvar ásamt unnusta sínum Elvari. Þó þekkja kannski einhverjir Heiðu sem “Heiðu í Unun” þótt langt sé um liðið síðan Unun var og hét. Hellvar átti að mati undirritaðs eina af betri plötum ársins 2011, Stop that Noise, og er líka með eindæmum öflugt tónleikaband. Gítarhávaðinn sem þau framleiddu seinast þegar ég sá þau, á Gauknum fyrir tveimur vikum, var slíkur að hárið fauk nærri af tónleikagestum, enda fjórir gítarar í gangi í einu, hver að keppast um að yfirgnæfa hina. Heiða varð við ósk okkar um að tefla fram nokkrum áhrifavöldum sínum í þessum (ó)reglulega pistli okkar á Rjómanum.

Ég þurfti að beita ómannlegum styrk til að fá listann niður í 5 lög, og endaði á að velja lög sem mér fannst ólíklegast að einhver þekkti, af þeim lögum/listamönnum sem hafa á einhverjum tímapunkti haft áhrif á mig. Þar af leiðandi er ekkert lag með Bítlunum á listanum, og ekkert heldur með Bowie, Neil Young, Cure, Led Zeppelin, Sonic Youth, My bloody Valentine eða Human League. Svo útilokaði ég íslensk lög til að stytta enn fremur, og þá reyndist ég samt með svona tíu lög. Að lokum er listinn því þessi fimm lög og vonandi þekkiði fá þeirra.

 The Aryan Aquarians- My secret gardener

The Aryan Aquarians var flipp-próject og samstarfsverkefni David Tibet úr Current 93 og Hilmars Arnar Hilmarssonar. Sex laga platan „The Aryan Aquarians –meet their Waterloo“  er illfáanleg og David Tibet hefur opinberlega beðist afsökunar á henni, en þetta lag er samt alveg svakalega heillandi. Heyrði það á kasettu hjá vini mínum, „it blew me away“ eins og maður segir á góðri íslensku. Ekki til á youtube, en grooveshark kemur sterkt inn, þar er platan reyndar flokkuð sem Current 93, sem hún er ekki.

Johnny Thunders – Hurt me

Johnny Thunders var í hljómsveitunum The New York Dolls og The Heartbreakers, en hann lést 38 ára gamall árið 1991. Johnny gerði órafmögnuðu plötuna „Hurt me“ árið 1983  og nokkrum árum síðar var þáttur á Rás 2 sem ég tók upp á kassettu. Í þættinum var platan látin ganga í heild sinni en kynningin var búin þegar ég byrjaði að hlusta, svo ég vissi ekki hvað þetta var en hlustaði mikið á upptökuna. Það var mikil gleði þegar ég fann hvað þetta var, fjöldamörgum árum síðar. Hér er titillagið, en platan er öll stórfengleg. Hrár gítarleikurinn hafði ótrúlega sterk áhrif á mig, og lagið er frábært.

Cocteau Twins – hvaða lag sem er af plötunni Garlands

Ég elska fyrstu plötu skosku sveitarinnar Cocteau Twins frá 1982, og ég þreytist ekki á því að segja frá því hvað söngkonan Elizabeth Fraser er mikill snillingur. Ég átti Garlands á kasettu en virðist hafa týnt henni bara núna í síðustu flutningum, og sakna hennar. Vona að hún sé í kassanum sem er niðri í geymslu. Mig hefur langað til að vera í trommuheilahljómsveit síðan ég heyrði þessa plötu. Ef ég neyðist til að velja eitt lag af henni þá tek ég „But I‘m not“ sem er bæði stysta lagið á plötunni og með geðveiku afturábak-reverbi á röddinni. Ég gat varla valið lag sko, önnur sem börðust um að komast að voru: Wax and Wane, Shallow than Halo, og Garlands.

Beach Boys – Sail on, sailor

Já, það þekkja allir Beach Boys, en það virðast ekki allir þekkja þetta lag, sem er að finna á plötunni „Holland“ frá 1973. Pabbi átti live-plötu með Beach Boys þar sem þeir tóku alla slagarana, California Girls og Surfin‘ USA og allt það en ég var alltaf lang-hrifnust af þessu lagi. Það er smá svona Billy Joel-fílingur í því (er mikill Billy Joel-aðdáandi) og sándið er bara svo hlýtt og notalegt seventís, útsetningin löðrandi í smáatriðum eins og til dæmis bakröddum sem búa til nýja fleti á laglínunni og gítarlínum sem hvirflast um allt. Lang-besta lag Beach Boys, af bestu plötu þeirra.

Mrs. Miller – Downtown

Þessi útgáfa af laginu „Downtown“ sem Petula Clark gerði vinsælt, er besta skammdegisþunglyndislyf í heimi, og ég hef notað það óspart til að minna mig á að það á að vera gaman, alltaf. Maður má ekki selja sér þá hugmynd að vera fastur í einhverju leiðinlegu. Textinn við lagið er auðvitað snilld, en Mrs. Miller bætir við frelsinu til að vera maður sjálfur. Andrew vinur minn tók þetta upp á kasettu fyrir mig og sendi ég honum hér með þakklætiskveðjur, því lagið er einn af mínum stærstu áhrifavöldum, kannski ekki í söng, en í viðhorfi til hlutanna.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.