Áríðandi fréttatilkynning frá Per:Segulsvið

Per: Segulsvið - Tónlist fyrir hana

Per:Segulsvið hefur nú svipt hulunni af tveimur verkum sínum. Bókinni, Smiður finnur lúður og 12 laga breiðskífunni, Tónlist fyrir hana.

Per:Segulsvið hefur síðustu ár unnið að smíði þessara afurða til að fylgja eftir tónverkinu, Kysstu mig þungi Spánverji, sem var gefið út í takmörkuðu upplagi árið 2004.

Smiður finnur lúður, var upphaflega hugsuð sem barnabók en þróaðist yfir í að verða lesefni fyrir alla aldurshópa. Bókin hentar í senn miðaldra gröfumanni, 9 ára skólabarni og 16 ára sveitradreng með eyrnalokka. Bókin, sem er heiðarlega myndskreytt, segir frá smið nokkrum sem finnur lúður á förnum vegi og heillast snarlega af kostum hans.

Tónlist fyrir hana, er önnur hljómafurð Per:Segulsvið. Per skiptir nú um gír og fæst við poppskotið bændarokk og færir sig þannig frá örsöguforminu sem var allsráðandi á fyrri afurð.  Hér má heyra Per yrkja um ekki ómerkilegri hluti en Vikartind, Rene Russo, samnorræna vináttu, innrás Hitlers í Munaðarnes, þungan Spánverja og tugþrautarmann sem saknar móður sinnar. Verkið er sneisafullt af ilmandi dægurlögum og gómsætri dansmúsík sem heillar hvert mannsbarn.

Per:Segulsvið gefur báðar afurðirnar út á eigin vegum, í gegnum útgáfufyrirtæki sitt Vogor Recordings. Máttur alnetsins er mikill og þar má nú nálgast góssið gegnum slóðina www.persegulsvid.co.nf.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.