Undir áhrifum – Steinunn Eldflaug – dj. flugvél og geimskip

dj_2

Steinunn Eldflaug hefur sannarlega komið eins og stormsveipur inn í íslenskt tónlistarlíf. Hún er í allavegana þremur hljómsveitum og rekur auk þess útgáfuna Eldflaug Records þar sem allar útgáfur eru á einhvern hátt tileinkaðar geimferðum.

dj. flugvél og geimskip var að gefa út geisladisk 19. október síðastliðinn, sem ber heitið GLAMÚR Í GEIMNUM. Þar er að finna fjöruga raftónlist sem var öll tekin upp á fullu tungli. Steinunn er bara ein í hljómsveitinni dj. flugvél og geimskip og býr til alla tónlistina sjálf, spilar , syngur og tekur upp. Lögin fjalla um furður alheimsins og óravíddir geimsins. Næstu tónleikar hennar verða 12. desember á Dillon ásamt Sushi Sub,  Dick Vegas og Kælunni Miklu.

Skelkur í bringu er að vinna að nýrri plötu og munu spila á áramótatónleikum á nýarsnótt á Dillona – líklega ásamt Muck og Mammút. Skelkur í bringu er rokkhljómsveit og spilar hrátt pcycadelik rokk pönk noise. Sveitin spilar 28. desember á Gauknum með Grísalappalísu, Muck og Pink Street Boys, og er einnig bókuð á Eistnaflugi næsta ár sem og á nýrri tónlistarhátíð sem heitir Norðanpaunk 2014.

SPARKLE POISON er furðuhljómsveit skipuð Steinunni og Guðlaugu Míu Eyþórsdóttur. SPARKLE POISONE er ekki bara tónlistar-hljómsveit heldur líka vídjó-hljómsveit, galdra-hljómsveit og ýmislegt fleira, og engir tvennir tónleikar eru eins og engin tvö lög hvort öðru lík. Þær eru núna að vinna að kvikmynd sem verður sýnd í Bíó Paradís þegar hún er tilbúin, og hafa gefið út kassettu í Berlín hjá Steak Au Zoo records.

“Svo er ég að reyna að hafa samband við Lady Gaga til að hita upp fyrir hana í geimnum 2015 – því framtíðarplön dj. flugvél og geimskip eru tónleikar í geimnum – að sjálfsögðu” bætir Steinunn við kokhraust.

Þessi stórhuga stúlka skilaði af sér 6 lögum í stað 5, en það virðist vera í samræmi við annað sem hún tekur sér fyrir hendur, hún gengur alltaf skrefinu lengra. Og hver skyldi hún skora á næst? Lesið til enda og það kemur allt í ljós!

The Prodigy – Out Of Space

Þetta lag er svakalega hressandi! og vídjóið kemur mér alltaf í gott skap, gaman að sjá Prodigy gaurana þegar þeir eru ennþá litlir. Ég heyrði Prodigy fyrst þegar ég var 11 ára hjá Pétri frænda mínum. Hann bjó í Englandi og kom með tónlist til íslands til að hlusta á á sumrin. Prodigy var fyrsta tónlistin sem ég eignaðist á geisladisk. Þetta lag er líka um geiminn sem er gott því ég elska geiminn. Max Romeo lagið er líka skemmtilegt en það er ekki með svona frábærum danstakti. Vildi að þetta lag væri endalaust (flest lögin sem mér finnast skemmtileg eiga það sameiginlegt)

Joe Meek – I Hear A New World

Ég heyrði þetta lag fyrst þegar ég var í tjaldferðalagi með pabba mínum og Katrínu systur minni. Við komum í Mjóafjörð um miðja nótt niður af þoku-heiði. Við vorum stödd í öðrum heimi, það var myrkur og logn og ekkert heyrðist nema þessi tónlist sem pabbi spilaði úr ghetto-blaster.
Það var enginn þarna annar, og stjörnubjartur himin yfir okkur. Mér fannst við vera ein í allt of stórum heimi.
Síðan þá hefur þetta verið ein af uppáhalds tónlistinni minni. Angurvær, framandi og einmanaleg. Tónlist sem í fyrstu virðist glaðleg en ef maður hlustar betur rennur manni kalt vatn milli skinns og hörunds.
I Hear a New World er ein uppáhalds platan mín. Nafnið á henni segir líka allt sem segja þarf um tónlist. Það er hægt að heyra aðra heima.
Það er margt sem er engin leið að nálgast eða upplifa nema í gegnum tónlist. Allt sem ekki verður lýst eða skilið með öðrum hætti.

Nino Rota – O Venezia, Venaga, Venusia

Þegar ég var lítil bað ég mömmu og pabba oft að setja á þessa plötu. Fyrir mér var þetta álfa-músík. Hún hlaut að vera frá öðrum heimi. Þegar ég hlustaði á hana fór ég þangað; eitthvert lengst lengst í burtu – og geri enn. Stemningin í þessari tónlist er ólýsanleg. Öll hljóðin eru mjúk dáleiðandi og þyngri en andrúmsloftið í kringum þau. Í þessu lagi er líka spilað á eitt uppáhalds hljóðfærið mitt, gler-harmonikku (veit ekki alveg hvað það heitir á íslensku) sem á ensku er stundum kallað crystallophone.

Til að útskýra kenningar Einsteins er oft sýnd mynd af neti – þar sem tími og rúm eða tímatúm sveigjist niður í miðjunni, ég held að þessi tónlist geri það þegar hún er spiluð. Þessi tónlist er því mjög góður farskjóti um aðra heima.

2NE1 – I am the Best

Þetta lag er uppáhalds popp-lagið mitt. Ég væri mjög til í að ná þessari stemningu í mína tónlist sem dj. flugvél og geimskip. Flottur danstaktur og óvægin bassalína – svona á þetta að vera. Svo eru þessar gellur líka í cool fötum með gadda og halda á mjúkum dýrum og allt glansar og lýsir. Mér finnst þetta myndband, lag og hljómsveit til fyrirmyndar. þægileg bassatromma, einfalt og töff.
Svo fær líka gervi-fiðla að vera með í lokin og spila austræna laglínu. Ég er mjög hrifin af gervihljóðfærum og finnst mér það fullkomna lagið.

Guitar Wolf – Summer Time Blues

Þetta lag er reyndar eftir Eddie Cochran en þetta var fjörugasta vídjóið sem ég fann. Það voru nokkur önnur vídjó sem mig langaði að velja, m.a. eitt þar sem eldur kemur útúr míkrófóninum hjá Guitarwolf (VÓ! YEAH!) en þau voru í svo litlum gæðum að ég valdi þetta. Það sést líka vel í þessu vídjói hvað er brjálað stuð á tónleikunum þeirra! Guitarwolf (svo eru líka drumwolf og basswolf en upprunalegi basswolf dó 2005) hefur lengi verið einn af mínum uppáhalds hljómsveitum. Þeir eru sannir rokkarar.

Guitarwolf er líka mjög cool. Hann sagði þetta í viðtali: “I always, I like, I need noise. Because we are no skill. Our skill is no good. No technique. We need…Basic rock and roll is: Number one is looks; Number two is guts, tension; Number three is action; Maybe four, five nothing; Six is skill, technique.”

Þetta eru mjög góðar leiðbeiningar sem ég hef haft í hávegum í öllum hljómsveitum sem ég er í: dj. flugvél og geimskip, Skelk í bringu og SPARKLE POISON – og líka í öllu öðru sem ég geri.

Dum Maro Dum – Asha Bhosle – R.D. Burman (lagið endar á mín 2:29)

Asha Bhosle er uppáhalds söngkonan mín og Rahul Dev Burman er einn uppáhalds tónlistarmaðurinn minn eða tónskáld öllu heldur. Hann samdi tónlist við mjög margar Hindi myndir (Indverskar myndir, flestar framleiddar í Bombay og flokkast unir Bollywood myndir) og Asha Bhosle (konan hans) söng flest lögin sem han samdi. Hún og systir hannar Lata Magneskar sungu í yfir 1000 myndum hvor!

Pabbi R.D. Burman er S.D. Burman. Hann samdi líka tónlist við bollywood myndir og tónistin hans er ekki síður frábær og stórkostleg.

Mamma og pabbi áttu tónlist úr Bollywood myndum á geisladiskum sem ég hlustaði mikið á þegar ég var yngri og geri enn. Bollywood tónlist hefur haft mikil áhrif á mig og ég söng oft með þegar ég hlustaði á hana – ég lærði sem sagt að syngja meðal annars með því að hlusta á bollywood tónlist.

Tónlistin í Bollywood myndum, sérstaklega 60´s og 70´s finnst mér stórkostleg. Það eru mjög flóknir dansvænir taktar og oft margir trommarar. Svo eru líka djúpar trommur sem sem ég veit ekki hvað heita sem láta beinin titra. Það eru oft mjög skemmtilegar bakraddir og kórar og einhver alveg brjáluð dans-stemning og spilagleði sem ég haf gaman af. Hraðir flóknir taktar, mjúkur bylgjandi bassi og háar skrautraddir – þegar ég hlusta á þessa tónlist langar mig aldrey að hún hætti.

Þetta vídjó er bara eitt af mörgum sem ég elska, ég vissi ekkert hvaða lag ég átti að velja en það var svog gott partý þarna að ég valdi þetta.

Takk fyrir mig – ég vona að þið sem lesið þetta hafið gaman af þessum lögum og ég skora á Helga Mortal Kombat að kynna 5 lög næst sem honum finnast skemmtileg!

 

GOGOYOKO | FACEBOOK | YOUTUBE

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.