• facebook
  • soundcloud
  • twitter
  • youtube
  • mail

Mono Town með tvenna útgáfutónleika

Mono Town. Mynd: Hörður Sveinsson

Hljómsveitin Mono Town heldur tvenna útgáfutónleika á Íslandi í tilefni af frumburði sínum In The Eye Of The Storm. Tónleikarnir munu fara fram í Gamla Bíói í Reykjavík þann 3. Apríl og á Græna Hattinum á Akureyri þann 12. Apríl. Miðasala á báða tónleikana fer fram á Miði.is og hefst hún miðvikudaginn 5. mars kl. 10:00 en einnig verður hægt að fá miða á tónleikana á Græna Hattinum í Eymundsson á Akureyri.

In The Eye of the Storm er frumburður hljómsveitarinnar Mono Town og á augabragði heyrist að hún hefur nostrað við hvert einasta smáatriði á plötunni sem er ákaflega vel samin og útsett. Í grunninn spilar hljómsveitin hljómfagurt og melódískt rokk sem sækir áhrif sín víða. Hljómur plötunnar er fádæma góður og segja má það sama um allan tónlistarflutning sem ekki er framkvæmdur af aukvissum. Radd- og strengjaútsetningar gefa plötunni mjög myndrænan og tignarlegan blæ. Hljómsveitin sá sjálf um upptökur á plötunni í Reykjavík og ferðaðist svo til New York borgar þar sem Grammy vinningshafinn Michael Brauer sá um hljóðblöndun.

Mono Town skipa bræðurnir Börkur Hrafn og Daði Birgissynir ásamt Bjarka Sigurðssyni sem eru allir laga- og textahöfundar sveitarinnar. Þeim til aðstoðar eru meðal annars þeir Guðmundur Óskar Guðmundsson og Magnús Trygvason Elíassen.

In The Eye Of The Storm er gefin út á vegum Record Records og lendir í verslunum þriðjudaginn 11. Mars á geisladisk og vínyl.

Egill er ritstjóri Rjómans, vefhönnuður, bloggari, faðir, hundaeigandi og tónlistar- og fótboltaunnandi. Egill hefur m.a. setið í dómnefnd Kraums Tónlistarsjóðs, fagráði Airwaves og verið álitsgjafi um ýmislegt tengt tónlist og tengdum málefnum.

Leave a Reply