Stelpur rokka! Rokksumarbúðir í Reykjavík og kvennarokkbúðir!

Stelpur Rokka!

Stelpur rokka! munu halda rokksumarbúðir fyrir 12 til 16 ára stelpur í þriðja skipti í sumar dagana 16. til 27. júní. Einnig munu Stelpur rokka! bjóða upp á kvennarokksumarbúðir fyrir konur 20 ára og eldri, helgina 30. maí til 1. júní.

Í rokkbúðunum læra stelpur á hljóðfæri, þær spila í hljómsveit og semja lag. Þær taka þátt í vinnusmiðjum, vinna náið með sjálfboðaliðum, fá tónleikaheimsóknir frá virtum tónlistarkonum og flytja lag á lokatónleikum fyrir framan fullan sal fjölskyldu og vina.

Rokksumarbúðirnar starfa ekki í hagnaðarskyni og eru þær skipulagðar og framkvæmdar af kvenkyns sjálfboðaliðum sem einnig eru tónlistarkonur. Markmið samtakanna er að leiðrétta kynjahalla í íslensku tónlistarlífi og verða að leiðandi afli í jafnréttismiðuðu tónlistarstarfi á Íslandi.

Skráning hefst þann 3. maí í rokkbúðirnar og kvennarokkið og er viðmiðunarþátttökugjald 25.000 krónur í rokkbúðirnar í Reykjavík en 17.500 krónur í kvennarokkbúðirnar. Engri stúlku verður vísað frá sökum fjárskorts. Niðurgreidd og frí pláss eru einkuð ætluð stelpum af erlendum uppruna og efnaminni stelpum.

Stelpur rokka! hafa síðustu þrjú ár byggt upp sérþekkingu á jafnréttismiðuðu tónlistarstarfi. Stelpur rokka eru hluti af Rokkbúðabandalaginu, sem eru regnhlífasamtök rokkbúða út um allan heim og sóttu 5 fulltrúar Stelpur rokka! ráðstefnu rokkbúðabandalagsins í Philadelphia í Bandaríkjunum í mars síðastliðnum. Stelpur rokka! gegna einnig formennsku í Evrópuráði rokkbúðabandalagsins, en markmið Evrópuráðsins er að koma á fót fleiri rokkbúðum í Evrópu.

Stelpur rokka! stefna einnig norður til Akureyrar í júlí og er nánari upplýsinga að vænta fljótlega af rokkbúðum á Akureyri.

Nánari upplýsingar um Stelpur rokka! má finna á heimasíðunni www.stelpurrokka.org og í síma 6965438 (Áslaug framkvæmdastýra)

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.