Júníus Meyvant kveður sér hljóðs

Junius Meyvant

Listamannsnafnið Júníus Meyvant er nafn sem fáir þekkja, ennþá. Hér er á ferðinni einstaklega hæfileikaríkur tónlistarmaður sem hefur gefið út sitt fyrsta lag sem heitir “Color Decay”. Undirritaður sá téðan Júníus í fyrsta skipti nýverið hita upp fyrir Mono Town á útgáfutónleikum þeirra og þótti mér mikið til hans koma. Var hann þar bara einn með gítar en í meðfylgjandi lagi er hann með valinkunnan hóp meðspilara sem skapa með honum einstakan hljóðheim.

Júníus Meyvant er listamannsnafn Vestmaneyingsins Unnars Gísla Sigurmundssonar. Sem ungur maður var Unnar mjög frjálslegur í anda og komst aðeins tvennt að í hans lífi, þ.e. myndlist og hjólabretti. Annað slagið fann hann fyrir því að tónlistargyðjan togaði í hann og velti hann því oft fyrir sér hvort hann ætti ekki að demba sér í það að læra á hljóðfæri.

Tónlist Júníusar er fullveðja og tilfinningaríkt þjóðlagapopp sem er í senn tímalaust og kunnuglegt. Alúðlegar útsetningar hans láta mann á köflum líða eins og maður sé staddur undir þykku ullarteppi við arineld í kofa hátt uppi í fjöllum eða í hina höndina liggjandi á funheitri sandströnd á suðlægum slóðum.

Júníus Meyvant mun senda frá sér fleiri lög á næstu misserum en plata er ekki væntanleg fyrr en á næsta ári.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.