Tónlistarárið 2014 – Ársuppgjör Rjómans

Þá er komið að uppgjörsstund enn og aftur. Eins og Rjómans er vani verður reynt að brjótast út fyrir hið hefðbundna form árslistans og birta frekar einskonar upptalningu á því merkilegasta sem fyrir skilningsvitin bar á árinu. Tónlistarárið 2014 var í alla staði afar gjöfult, hvort sem litið er til innlendrar eða erlendrar tónlistar, og verður hér fjallað um rjómann af því sem á fjörur Rjómans bar. Stiklað verður á stóru og aðeins fjallað um það sem hreif Rjómann mest. Þó má ekki halda að þær plötur og listamenn sem ekki er fjallað um hér að neðan hafi á einhvern hátt fallið í grýttan jarðveg hjá þeim sem hér ritar. Svo er ekki. Hreint ekki. En einhverstaðar verður að draga mörkin og því er ársuppgjörið svona:

Íslenska deildin

Mono Town - In the eye of the storm

Það var margt áheyrilegt íslenskt á árinu en besta íslenska platan var án efa In The Eye of The Storm með Mono Town. Eitthvað sýnist mér sú ágæta plata hafa gleymst í íslenskri uppgjörsumræðu nú og því tilvalið að útnefna hana bestu íslensku plötuna á því herrans ári 2014.

Meðfylgjandi er titillag plötunar en í því kristallist allt það sem gerir In The Eye of The Storm að jafn einstökum tónlistargjörning og hún er. Hér elur alíslenskur metnaður og allt-lagt-í-sölurnar-mennska af sér enn eitt meistaraverkið.

Af öðrum plötum íslenskum sem runnu ljúflega í gegnum tónlistarlegan meltingarveg Rjómans má nefna Sorrí með Prins Póló en á henni er að finna margan hversdagsóðinn hvern öðrum límkenndari. Þó ekki hafi verið ætlunin að gera lista þá er Sorrí klárlega önnur besta plata ársins að mínu mati.

Einstaklingsframtakið Low Roar gerðist alíslensk hljómsveit á árinu og sendi frá sér stórgóða plötu sem reyndar átti að vera titilslaus en hlaut á endanum viðurnefnið 0. Hér er á ferðinni hádramatískt og tilfinningamikið verk sem lætur engan ósnortinn. Rjóminn mælir einnig eindregið með að tónlistarunnendur geri sér ferð og sjái Low Roar á tónleikum sé það í boði. Sveitin er reyndar nýkomin úr tónleikaferðalagi í Norður-Ameríku, þar sem hún hitaði upp fyrir sjálfan gullkálfinn Ásgeir Trausta, en ætti þó að stíga á stokk fljótlega aftur á nýju ári.

Oyama sendu frá sér sína fyrstu breiðskífu og nefndu hana Coolboy. Þar er á ferðinni einstaklega áheyrilegur gripur hlaðinn tilfinningu og tjáningu. Sveitinni tekst að mestu að losa sig við skóglápsstimpilsvertuna og bjóða hlustendum uppá nýjan persónlegri hljóðheim.

Íslenskt pönk vaknaði svo sannarlega til lífsins á árinu og fór fremst í flokki fyrir þeirri enduvakningu hljómsveitin Elín Helena. Sendi hún frá sér hina stórgóðu plötu Til þeirra er málið varðar en á henni er nóg af beittum boðskap til þeirra er málið varðar. Rjóminn var þess heiðurs aðnjótandi að fá að sjá sveitina tvisvar á sviði á árinu og er það upplifun sem auðvelt er að mæla með.

FM Belfast hefur fyrir löngu sannað sig sem ein allra hressasta sveit landsins og festi hún sig vel í sessi sem slík á árinu með útgáfu plötunnar Brighter Days. Þrátt fyrir að vera annálað gleðiband má greina á plötunni ögn alvarlegri tón og heilsteyptari útsetningar en á fyrri plötum og gerir það heildarmyndina sterkari fyrir vikið.

Ragga Gröndal sendi frá sér einstaklega ljóðræna og flotta plötu sem nefnist Svefnljóð og sannar enn og aftur að hún er ein af okkar allra bestu söngkonum. Rjómanum þykir leitt hve lítið hefur farið fyrir umfjöllum um þessa ágætu plötu og mælir hann eindregið með að tónlistarunnendur verði sér út um eintak.

Teitur Magnússon, söngvari og gítarleikari Ojba Rasta, sendi frá sér hina persónulegu og litríku plötu 27. Kannar Teitur þar sækadelískan og exótískan hljóðheim og tekst einkar vel upp. Meðfylgjandi er lagið “Nenni” og gefur það ágætis mynd af því sem hlustendur eiga von á við að hlýða á þessa fyrirtaks plötu.

Hljómsveitin Valdimar gaf út sína þriðju plötu sem ber titilinn Batnar útsýnið og verður að segjast að á henni batnar heldur betur það sem sveitin gerði þó vel fyrir. Hljóðheimur Valdimars hefur tekið nokkrum breytingum og má glöggt heyra ferska rafræna og akústíska strauma sem glæða oft tilfinningaþrungin lög sveitarinnar nýju lífi.

Erlenda deildin

Champs - Down like gold

Allra besta erlenda platan sem varð á vegi Rjómans á árinu var platan Down like gold með bræðrunum Michael and David Champion í dúóinu Champs. Hér er á ferð afar snaggarleg poppplata með ljúfsárum en einstaklega grípandi lögum sem heillaði undirritaðan alveg upp úr skónum. Hafir þú, lesandi góður, ekki kynnt þér þessa plötu mæli ég eindregið með því að þú beinir vafra þínum í átt að næstu tónlistarveitu og leggir vel við hlustir.

Hingað til lands kom maður að nafni Joel Thibodeau, sem allra jafna gengur undir listamannsnafninu Death Vessel, og tók upp plötu með þeim Jónsa og Alex. Afraksturinn er frábær plata, reyndar undir miklum áhrifum frá Jónsa og Alex, þar sem einstök söngrödd Thibodeau fær að njóta sín (aðra eins falsettu hef ég ekki heyrt hjá karlkyns söngvara). Lagasmíðarnar eru grípandi og áreynslulausar og þolir platan vel endurtekna hlustun.

Pólsku dauðarokkararnir í Behemoth, sem heiðra munu landann með nærveru sinni á næstu Eistnaflugshátíð, gáfu út hina mögnuðu plötu The Satanist. Það má auðveldlega halda því fram að Behemoth hafi blásið nýju lífi í tónlistargeira sem árum saman hefur verið í talsverðri lægð og hafið upp í hæstu hæðir að nýju. Dauðarokk er sannarlega ekki allra tebolli en ekki er annað hægt en mæla með þessari plötu fyrir alla alvöru tónlistarunnendur (fyrst mamma mín fór á Skálmaldar tónleika þá getur jú allt gerst).

Úr ösku Pete and the Pirates rís hljómsveitin Teleman og sendi hún frá sér hina látlausu en mjög svo áheyrilegu plötu Breakfast. Líkt og með Champs plötuna, sem ég minntist á hér að ofan, þá er Breakfast full af léttum og hnitmiðuðum lagasmíðum sem margar hverjar grípa mann strax við fyrstu hlustun og sitja svo ómandi fastar í toppstykkingu lengi á eftir.

Hooray for earth er áhugavert band sem Rjóminn hefur haft gætur á lengi. Eftir nokkrar sæmilegar útgáfur kom loksins á árinu plata þar sem sveitin sýnir sitt rétta andlit. Hooray for earth hefur mjög svo sérstakan hljóm sem einkennist af niðurtjúnuðum og þéttum gíturum, synth-um og angurværum laglínum. Blandan er frábær og skylduáheyrn fyrir hinn forvitna popprokkara. Tékkið á plötunni Racy við fyrsta tækifæri.

Ég ætla að enda erlenda yfirferð mína á hinum snarbilaða Kanadabúa Aaron Funk en hann er almennt betur þekktur undir listamannsnafninu Venetian Snares. Aaron þessi hefur verið afar iðinn við plötuútgáfu undanfarin ár og oft undir hinum ýmsu nöfnum. Á árinu gaf hann út plötuna My love is a bulldozer og er hún, eins furðulega og það kann að hljóma, líklega ein af hans aðgengilegri verkum. Venetian Snares er fyrir löngu orðið þekkt nafn í heimi raftónlistar og mætti vel skipa honum sess með listamönnum á borð við Squarepusher og Aphex Twin. Ég játa fúslega að þarf töluverða þolinmæði til að hlusta á svona tónlist en það er vel þess virði að leggja það á sig.

Tónlistarviðburður ársins

ATP Iceland 2014

ATP hátíðin í sumar var að mínu mati lang besti tónlistarviðburður ársins og voru tónleikar Portishead og Interpol hápunktur hátíðarinnar. Það er einhver undarlega afslöppuð og vinaleg stemming sem myndast þarna upp á Ásbrú sem aðrar hátíðir ná einfaldlega ekki að fanga jafn vel. Tómas Young og hans fólk fær fullt hús stiga frá Rjómanum fyrir glæsilega hátíð. Takk fyrir mig.

Í öðru sæti kemur svo Secret Solstice hátíðin sem haldin var í Laugardalnum en þar var allt utanumhald og skipulag eins og best verður á kosið og ekki skemmdi fyrir magnaðir tónleikar Massive Attack.

Ekki má svo gleyma árshatíð tónlistarunnenda, sjálfri Iceland Airwaves hátíðinni. Hún var að venju jafn stórfengleg og áður og á skilið sitt knús frá Rjómanum. Airwaves klikkar aldrei!

Lög ársins

Junius Meyvant

Að þessu sinni mun ég blanda saman erlendum og innlendum lögum og birta í engri sérstakri röð. Njótið.

Júníus Meyvant – Color Decay

Það bíða sjálfsagt allir eftir plötunni hans Júníusar Meyvant og það ekki af ástæðulausu. Því ef eitthvað er að marka þetta eina lag af plötunni sem fengið hefur að hljóma á öldum ljósvakans og í pípum Alnetsins þá eigum við tónlistarunnendur von á góðu.

Champs – My Spirit Is Broken

Uppgötvun ársins, plata ársins og viðlag ársins. Jú og rödd árins. Það er eitthvað við þessa brothættu og mjóróma rödd sem heillar.

Kishi Bashi – Carry on phenomenon

Hressilegur og upplífgandi geimrokksóður með óvenjulega svölum disco fíling. Á köflum er 70s sándið fangað fullkomlega.

Mono Town – Can deny

Það er oft þannig að fyrstu lögin sem maður heyrir af plötum eru þau sem sitja fastast og svo er sannarlega raunin með þennan sækadelíska og sinematíska ópus frá frændunum í Mono Town.

Teleman – Cristina

Róleg uppbyggingin, risið og grípandi viðlagið heilluðu við fyrstu hlustun…og gerir enn.

FM Belfast – We Are Faster Than You

Eitt allra besta íslenska stuðlag sem ég hef heyrt í lengri tíma. Og þetta bít! Maður getur ekki annað en bömpað náungan og brosað út í bæði þegar þetta lag tekur að hljóma.

Alt-J – Every other freckle

Bara ef platan hefði öll verið jafn fjölbreytt og skemmtileg og þetta lag þá hefði hún sjálfsagt endað ofar á uppgjörslistum spekúlantanna en raun ber vitni.

Passenger Peru – Heavy Drugs

Fríið, peningarnir og eiturlyfin búin. Alger bömmer. En samt er einhver hálf lúðaleg og heillandi gleði enn við völd.

Death Vessel – Ilsa Drown

Um leið og Jónsi lætur í sér heyra breytist lagið í hálfgert Sigur Rósar lag. En það er einmitt einhvern veginn svo heillandi alltaf finnst mér.

Ed Harcourt – We All Went Down With the Ship

Drífandi og taktfast lag með flottu viðlagi. Það þarf nú oft ekki meira til.

Painted Palms – Here It Comes

Draumkennt og létt-sækadelískt popplag sem hrífur mann með við fyrstu hlustun.

The Hidden Cameras – Doom

The Hidden Cameras er afar vanmetin hljómsveit að mínu mati. Meðfylgjandi lag er finna á plötu sveitarinnar sem kom út á árinu og nefnist Age. Rjóminn mælir með!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.