Red Barnett – Útgáfutónleikar og söfnun á Karolina Fund

Í fréttatilkynningu segir:

Haraldur V. Sveinbjörnsson gefur út sólóplötuna Shine undir nafninu Red Barnett og hrindir af stað söfnun á Karolina Fund. Útgáfutónleikar eru fyrirhugaðir í Fríkirkjunni 17. apríl sama dag og listamaðurinn fagnar stórafmæli sínu. Lagið “Life Support” þegar komið á vinsældarlista Rásar 2.

Tónlistarmaðurinn Haraldur V. Sveinbjörnsson, sem öllu jafna er kallaður Halli, sendir bráðlega frá sér sína fyrstu sólóplötu undir listamannsnafninu Red Barnett. Halli er þúsundþjalasmiður í tónlist og hin síðari ár hefur hann verið í hringiðu margra af athyglisverðustu tónlistarviðburðum landsins, þótt hans hlutverk hafi á stundum verið talsvert falið. Hann útsetti tónlist Skálmaldar fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands, en þeir tónleikar hlutu í síðasta mánuði Íslensku tónlistarverðlaunin sem viðburður ársins. Hann hefur auk þess útsett tónlist Gunnars Þórðarssonar, Pink Floyd og Páls Óskars fyrir Sinfó, svo fátt eitt sé nefnt.

Red BarnettHalli er lærður í klassískum tónsmíðum en er ekki einhamur í tónlist. Snemma vakti hann áhuga margra sem gítarleikari og helsti lagasmiður gruggsveitarinnar goðsagnakenndu Dead Sea Apple, sem freistaði gæfunnar í hinum stóra heimi. Hann er annar söngvara Manna Ársins og tók nú nýverið við stöðu bassaleikara í hljómsveitinni Buff. Hann hefur síðustu misserin komið reglulega fram með Dúndurfréttum og Skálmöld sem hljómborðsleikari. Þá hefur Halli unnið með og útsett fyrir fjölda tónlistarmenn bæði íslenska og erlenda.

Að sögn Halla er hugmyndin um að gefa út sólóplötu undir nafni Red Barnett orðin ríflega 10 ára gömul. Fyrsta lagið var tekið upp árið 2005 og undanfarinn áratug hafa lögin verið hljóðrituð samhliða öðrum, fyrirferðarmeiri verkefnum Halla. Smátt og smátt hefur sólóskífan því tekið á sig mynd og nú ætlar Halli að gefa sjálfum sér og aukasjálfinu Red Barnett, fullt pláss til þess að skína.

Tónlist Red Barnett er best lýst sem angurværri rökkurtónlist og yrkisefnið er lífið og tilveran í stóra samhenginu. Halli sér að langmestu leyti um upptökur og hljóðfæraleik sjálfur en nokkrir góðir kunningjar hafa lagt honum lið á langri leið. Nýlega fór lagið “Life Support” í spilun og við sama tækifæri tilkynnti Halli um hópsöfnun/forsölu á plötunni á vef Karolina Fund til að fjármagna lokahnykk útgáfunnar. Útgáfunni verðu svo fagnað með sérstökum útgáfutónleikum í Fríkirkjunni þann 17. apríl næstkomandi en miðasala verður auglýst fljótlega. Þess má geta að sama dag fagnar listamaðurinn 40 ára afmæli sínu.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.