Árslistinn 2005

Topp 10 íslenskar plötur 2005

30 stig

#10

Dikta

Hunting for Happiness

Ein besta íslenska platan í ár. Fullkominn hljómur, frábærar lagasmíðar og ósvikin tilfinning í lögunum til að kóróna dæmið. Dikta á skilið hrós fyrir hversu þeir hafa vaxið frá síðustu plötu, sem var þó engan vegin slæm.

-Halldór Örn Guðnason


30 stig

#9

Hermigervill

Sleepwork

Sleepwork er svo troðfull af hljóðum að geislaspilarinn þinn krýpur og biður vægðar. Hiphop var lagt kirfilega til grunns, tók Hermigervill sér því næst rifjárn í hönd og spændi vínilsafnið yfir, kryddaði með rafrænu og bakaði. Eins og með aðra dularfulla ofnrétti er þó óþarfi að velta fyrir sér innihaldinu þegar bragðið er gott og þessi naglakássa er dúndrandi bragðsterk og ljúffeng.

-Davíð Alexander Corno


37 stig

#8

Trabant

Emotional

Byrjar sem góður brandari og þó tilgerðin haldist út plötuna er Emotional svo miklu meira en pervertismi og sprell þegar upp er staðið. Eða ekki meira endilega, fólk þarf bara að átta sig á því hve langt það fleytir manni, eða mönnum. Fimm nöktum glimmerhúðuðum, olíbornum ofurmönnum sem virðast slátra sveittum tónleikum hverja helgi. Ég er einn þeirra sem finnst þeir ekkert síðri á plötu.

-Davíð Alexander Corno


37 stig

#7

Ég

Plata ársins

Róbert, driffjöðurinn í MÉR, fer á kostum í fjörugum textasmíðum. Hið ört vaxandi útgáfufyrirtæki Skeytin inn veðjaði á réttan hest í þessu tilviki, eða var hann hættur að stunda veðmál?

-Ari Tómasson


49 stig

#6

Daníel Ágúst

Swallowed a Star

Daníel Ágúst hefur legið undir feldi undanfarin ár við vinnu á þessari plötu og það hefur greinilega skilað árangri. Daníel er orðinn síðhærður og skeggjaður og töff og tónlistarlegur afrakstur er æðislegur. Ég bjóst satt að segja ekki við svona góðu verki frá Daníel en hann sprengdi allar mínar væntingar til heljar og til baka með sínum dásamlegu strengjum og fagmennsku. Tom Waits semi-tribjútið „The Stingray” er magnað og frábært að heyra hvernig Daníel skiptir gítaleik Marcs Ribot út fyrir strengina sem einkenna alla plötuna. Hann gælir við fusion-djass í „Intersection”, flottu seiðandi instrúmentallagi og flíkar röddinni í hinu gæsahúðavaldandi „If You Leave Me Now”.

-Stígur Helgason


51 stig

#5

Hjálmar

Hjálmar

Hjálmar fylgja frumrauninni „Hljóðlega af stað” eftir með sterkri plötu samnefndri þeim. Tónlistin er taktföst, afslöppuð, þægileg og jafnvel spámannsleg á köflum. Vönduð plata sem svíkur engan.

-Særún María Gunnarsdóttir


70 stig

#4

Benni Hemm Hemm

Benni Hemm Hemm

Benni stimplar sig rækilega inn þetta árið með mjög frambærilegu og artí komfortpoppi sem er kannski ekki minna merkilegt fyrir stórar og vel heppnaðar útsetningar en góðar lagasmíðar. Innihaldið er stundum við það að týnast í umfanginu en það sleppur alltaf fyrir horn. Nick Cave virðist hafa sest að á Hawaii í laginu „Fight” og ráðið sér innfætt brassband, „Beygja og beygja” er stórhættulegt heilalím og textinn við „Sumarnótt” er yfirgengilega góður. Benni verður að halda áfram á réttri braut, þá má búast við fleiri flottum plötum fljótlega.

-Stígur Helgason


80 stig

#3

Ampop

My Delusions

Ampop umpólaði nýlega og spilar nú gæða-gítarpopp. Það kemur prýðilega út á plötu þeirra, My Delusions. Hljóðfæraleikur er allur með ágætum og Birgir Hilmarsson er góður söngvari, jafnvígur á hress lög eins og titillagið „My delusions” og innilegri, ákafari lög eins og „Youth”.

-Særún María Gunnarsdóttir


95 stig

#2

Emilíana Torrini

Fisherman’s Woman

Ægilega ljúf plata, en tragíkin er aldrei langt undan. Emiliana fer sér í engu óðslega en kemur samt öllum þeim skilaboðum til hlustandans sem nauðsyn krefur. Hún gefur stallsystkinum sínum erlendis ekkert erfitt og þótt platan sé ekki uppfull af slögurum þá skilur hún mann ýmist eftir hugsi eða með bros á vör, allt eftir því hversu mikla athygli maður veitir henni.

-Stígur Helgason


173 stig

#1

Sigur Rós

Takk

Jamm og já takk. Sigur Rós þarf ekki að gera jafngóða plötu og Ágætis byrjun til að komast á lista eins og þennan. Enda gerðu þeir það ekki – alls ekki. En platan er hins vegar mjög góð og á skilið mikinn lofsaustur, þótt öllu megi ofgera. Jónsi bregður fyrir sig sæljónskunni stöku sinnum og mætti alveg fara að skipta henni alfarið út fyrir alvöru texta. Platan er hlýjandi og þægileg og það er alltaf jákvætt þegar strákarnir keyra kraftinn og lætin aðeins upp fyrir meðallag.

-Stígur Helgason

Topp 20 erlendar plötur 2005

Þá er komið að því; Rjóminn gerir upp árið 2005. Að mati undirritaðs eru þessar síðustu vikur ársins þær allra skemmtilegustu einmitt vegna allra árslistanna. Hvað fannst hinum og hvað fannst þessum? Hverju missti ég af? Hverjir eru sammála mér og hverjir eru ósammála? Þetta eru skemmtilegar spurningar og endurspegla oftar en ekki hversu ólíkan smekk menn hafa.

Fimmtán pennar hjá Rjómanum útbjuggu tvo árslista, einn fyrir erlendar plötur og annan fyrir innlendar. Í stað þess að styðjast við hefðbundið listakerfi höfðum við þann háttinn á að hver penni hafði 55 stig til umráða sem hann gat dreift á eins margar plötur og hann vildi, þó ekki færri en fimm. Engin ein plata mátti fá fleiri en 25 stig hjá einstökum
penna. Við teljum að þetta kerfi geti einna best lýst afstöðu fólks til þeirrar tónlistar sem kom út það árið: ef góðar plötur voru fáar nefnir
maður fáar, ef þær voru margar nefnir maður margar. Ef besta plata ársins var miklu betri en næstbesta plata ársins, þá hefur maður stórt bil á milli þeirra. Það gerðist nokkrum sinnum að plötur fengu jafnmörg heildarstig. Í þeim tilfellum fékk sú plata sem var nefnd á listum flestra penna forgang.

Smekkur Rjómamann er augljóslega ansi fjölbreyttur, en alls 76 erlendar plötur voru nefndar og 30 íslenskar. Við birtum 20 efstu erlendu plöturnar og 10 efstu íslensku plöturnar. Hér má finna popp, rokk, djass og hip-hop, svo flestir ættu að geta í það minnsta kinkað kolli við lestur listans.

Að því sögðu vill Rjóminn fyrst og fremst þakka fyrir frábærar viðtökur á þeim rúmu tveim mánuðum sem hann hefur starfað. Njótið lestursins og hafið það gott um jólin.

f.h. Rjómans,

Atli Bollason


13 stig

#20

Edan

Beaty and the beat

Beauty & the Beat er besta hipphopp plata sem komið hefur út síðan Mos Def og Talib Kweli gáfu út Black Star fyrir sjö árum – ég hika ekkert við að fullyrða það. Edan sækir efnivið í ótrúlegustu tónlist og skapar fyrir vikið stórmerkt verkt sem öllum er hollt að heyra og reyna að skilja. Sækadelían hefur sjaldan verið innleidd jafnvel í nokkra tónlistarstefnu. Hlustið bara á þetta.

-Stígur Helgason


16 stig

#19

Mars Volta

Frances the Mute

Omar og Cedric hættu að reykja heróín og róuðust aðeins í brjálæðinu í kjölfarið. Góð önnur plata sem nær þó ekki alveg upp í Deloused in the Comatorium, enda væri hún þá lang efst á lista, en er þó alveg nóg til að væta í mér kverkarnar og gráta yfir takmörkuðum hæfileikum mínum á gítar.

-Halldór Örn Guðnason


16 stig

#18

My Morning Jacket

Z

Það má heyra áhrif frá öllum fjandanum á þessari plötu My Morning Jacket. Flaming Lips, Radiohead, Neil Young, Stooges, Keane/Coldplay-ísk melankólía (lagið „Anytime” er bara Keane lag í MMJ búningi) að ógleymdu reggíinu í langbesta lagi plötunnar, „Off the Record”. Það og „Into the Woods” eru einu lögin sem geta staðið stök og óstudd sem merkileg lög – hin þarfnast annarra laga plötunnar umhverfis sig. Sem betur fer búa þau svo vel því þannig virka þau flest mjög vel. Einstakir hlutar eru frekar veikir en saman mynda þeir sterkan heildarsvip sem skilur eftir sig tilfinningar, og það er vel.

-Stígur Helgason


16 stig

#17

Franz Ferdinand

You Could Have It So Much Better

Önnur plata Franz Ferdinand er, eins og hin fyrri, stútfull af skosku eðalgrúvrokki. Ólíkt fyrri plötunni leynast hér tvær ballöður sem gefa plötunni meiri fjölbreytileika. Frá fyrstu tónum „The Fallen”, drífandi gítörunum og spikfeitri bassalínunni veistu að þú ert á leiðinni í gott partý. Þegar trommurnar koma svo inn langar mann helst til að dansa og syngja með Kapranos. Styrkur hljómsveitarinnar er án vafa hæfileikinn til að finna og útsetja laglínur sem grípa þig frá fyrstu hlustun og fá þig til að vilja dansa.

-Óttar Völundarson


18 stig

#16

Kanye West

Late Registration

Kanye tekst að yfirstíga hið svokallaða annarar plötu heilkenni og gera
fantagóða plötu sem er betri en fyrirrennarinn. Það er kannski minna um rosalega hittara hérna eins og á College Dropout en platan í heild er betri. Lög sem standa upp úr eru t.d. „Heard ´Em Say”, „Roses”, „Addiction” og „Gone” – svo eru singlarnir
góðir líka.

-Óttar Völundarson


18 stig

#15

Gorillaz

Demon Days

Mér þykir ótrúlegt til þess að hugsa Dangermouse eigi tvær plötur á lista hjá mér eins ömurlegt og mér þótti gráa albúmið hans. Damon Albarn og félagar eiga stundir á þessari plötu sem eru hreint gull. Sumt er svo meira brotajárn.

-Davíð Alexander Corno


20 stig

#14

Porcupine Tree

Deadwing

Porcupine Tree voru farnir að gera ný-progg áður en Omar og Cedric byrjuðu í At the Drive-In. Nýjasta platan þeirra er sú besta hingað til: bragðgóð súpa sem sækir áhrif í Radiohead, Pink Floyd og Sigur Rós og krddar vel með vænum skammti af hörðu rokki.

-Kristinn Agnarsson


20 stig

#13

Dredg

Catch Without Arms

Stórkostleg plata með hljómsveit sem ætti að vera svo miklu, miklu frægari. Þeir sem hafa ekki enn uppgötvað þessa hljómsveit (þ.e. allir) ættu að gera sér far um að nálgast allt sem hægt er með henni, löglega eður ei. Lagið „Bug Eyes” er góð byrjun.

-Halldór Örn Guðnason


20 stig

#12

Pat Metheny Group

The Way Up

Eitt ótrúlegasta tónlistarafrek síðari ára. Innan um hafsjó af vatnsþynntri tónlist með sífellt lækkandi standard birtist þessi metnaðarfulla perla sem fyllir mann von og bjartsýni um framhaldið. Sjóaði gítarsnillingurinn Pat Metheny tekst hér að skapa verk sem hefur kraft til að upphefja mannkynið, með sömu hugsjón og Beethoven. Verkið, 68 mínútur að lengd, krefst athygli hlustandans frá upphafi til enda. Og djöfull uppsker það.

-Alexandra Kjeld


20 stig

#11

Nine Inch Nails

With Teeth

Trent Reznor skilur við elektróníkina, fær Dave Grohl til að lemja húðir og skilar einni fjölbreyttustu plötu NIN frá upphafi. Þegar Trent er jafn berskjaldaður og hér fáum við að heyra hversu frábær lagasmiður hann er í raun og veru. Það er líka einsog Trent sé ekki alveg jafn reiður og hann hefur verið síðastliðin tuttugu ár, tala nú ekki um þegar upphafslagið heitir „All the Love in the World”.

-Atli Bollason


21 stig

#10

Queens Of The Stone Age

Lullabies to Paralyze

Ég sá reyndar ekki Led Zeppelin en korters langa viðhafnarútgáfan af „No One Knows” í Egilshöll í sumar var rosalegasta læv lag Íslandssögunar. Lullabies to Paralyze er kröftugur diskur í anda þess. Frá fyrsta riffinu í „Medication” til lokahljómana í „Long, Slow Goodbye” þá er erfitt að ráða við sig

-Ari Tómasson


23 stig

#9

Coldplay

X & Y

Coldplay er ein stærsta hljómsveit í heimi og það er í raun ótrúlegt afrek að leggja svona heiminn að fótum sér eins og þeir gerðu með plötunni X&Y. Lögin á plötunni eru engin tímamótaverk nema fyrir utan Fix You sem er eins og Yesterday fyrir Bítlana og God Only Knows fyrir Beach Boys. Lögin eru bara gott Coldplaylegt popp sem virkar og maður er ánægður með það. Þó að þróun sveitarinnar sé kannski ekki eins framsækin og maður hefði viljað að þá sýnir X&Y það og sannar að Coldplay á það fyllilega skilið að vera kölluð ein stærsta hljómsveit í heimi. Þess væri óskandi að sveitin myndi fylla Laugardalshöllina aftur eins og 2002.

-Guðmundur Jóhannesson


28 stig

#8

Clap Your Hands Say Yeah!

Clap Your Hands Say Yeah!

Þessi rödd! Alec Ounsworth, ég tilbið þig! Fín plata gerð mjög góð með ólýsanlegum veinum úr barka söngvarans. Þessi maður verður að fá að þenja raddböndin inn á margar plötur árlega héðan í frá – heimurinn þarfnast þess. Lagasmíðarnar eru að mestu flottar og henta Ounsworth, sem skiptir mestu máli. „Details of the War” er eitt af lögum ársins.

-Stígur Helgason


30 stig

#7

New Pornographers

Twin Cinema

Orkupoppið hefur sjaldan verið svona skemmtilegt. AC Newman kann að smíða stórkostlegar melódíur og þegar þær eru fluttar með krafti eins og þeim sem er að finna á Twin Cinema þá er fátt annað hægt en að hafa gaman af. Hljóðfæraleikararnir (og þá sérstaklega trommuleikarinn!) eru á fullri keyrslu allan tímann og halda manni í transi – a.m.k. á meðan maður höndlar partíið. Meirihluti laganna á plötunni hefur singulpótensjal og ég verð líkamlega þreyttur af að hlusta á hana, sem er jákvætt í þessu tilviki.

-Stígur Helgason


31 stig

#6

Bloc Party

Silent Alarm

Hmmmm… áhugaverðir textar, góð lög. Jújú, fínt, en þegar á heildina litið er Bloc Party ekki að gera neitt sem skapar þeim sérstöðu – ef litið er framhjá trommuleikaranum Matt Tong. Það sem gerir Bloc Party að öðru og meira en enn einni gítarhljómsveitinni er að ryþmahluti sveitarinnar, tromma og bassi, ráða ferðinni. Matt Tong er ekki að elta félaga sína eða leika undir hjá þeim, hann stýrir skipinu og bassaleikarinn Gordon Moakes er fyrsti stýrimaður. Á fyrstu breiðskífu sveitarinnar, Silent Alarm, liggur þeim ýmislegt á hjarta. Það brýst út í spennu sem er viðvarandi alla plötuna og veldur því að meira að segja lög eins og „Blue Light” eru í fremur hröðum takti. Hér skal fólki haldið við efnið takk fyrir.

-Særún María Gunnarsdóttir


39 stig

#5

Architecture in Helsinki

In Case We Die

Þótt Fingers Crossed taki In Case We Die fram að mörgu leyti, þá er hún hvergi jafn ævintýragjörn né brjálæðisleg. Það er rosalega margt að gerast á þessari plötu og helst gerist það allt á sömu mínútunni. AIH nota fleiri hljóðfæri en flestar aðrar sveitir, söngurinn er barnslegur og mikið er um hróp og köll. Lögin á In Case We Die eru spriklandi af bráðsmitandi gleði.

-Særún María Gunnarsdóttir


42 stig

#4

Wolf Parade

Apologies to the Queen Mary

Eru Wolf Parade að taka forystu í „Hvert er besta bandið frá Kanada?” keppninni? Þeir eru nú voða týpískir indí, syngja um drauga og nefna sig skrítnu nafni tengt dýrum. Þeir gera þetta einfaldlega bara best – taka við keflinu af The Unicorns og taka endasprettinn, en ná þeir Arcade Fire?

-Ari Tómasson


48 stig

#3

Bright Eyes

I’m Wide Awake, It’s Morning

Mér hefur einhvernveginn aldrei tekist að veita textum í tónlist nægilega athygli, en eftir að ég heyrði I’m Wide Awake, It’s Morning þá verð ég að bæta úr því. Conor Oberst fær þig til að hlæja, gráta og allt þar á milli – stundum í sama laginu. „Lua” er sennilega ein fallegasta lýsing á fylleríi/ástarljóð sem um getur og í „Landlocked Blues” brýst pólitíkin fram á ótrúlega snjallan máta: „We made love on the living room floor / With the noise in the background from a televised war”. Textasnilldinni er síðan vafið inn í grand og skemmtilegar útsetningar sem sannfæra mann um að kántrý sé eitthvað og annað meira en Willie Nelson.

-Atli Bollason


54 stig

#2

Antony and the Johnsons

I am a Bird Now

Alveg er það ótrúlegt hvernig er hægt að gera plötu svona fallega og jákvæða en jafnframt svo óþægilega – allt að því óhugnanlega – sorglega. Það er ekki síst rómantísk rödd Antonys sem veldur þessum áhrifum. Rufus Wainwright bregður fyrir í laginu “What Can I Do?” og hljómar þar skuggalega mikið eins og Thom Yorke. Annað er til fyrirmyndar og hæpið að langflestu leyti verðskuldað.

-Stígur Helgason


72 stig

#1

Sufjan Stevens

Illinois

Sufjan er hér í fantaformi og slær sjálfum sér við á öllum sviðum – sem er afrek út af fyrir sig. Úr glæsilegum útsetningum Sufjans og frábærum lagasmíðum verður andrúmsloft sem er hálfnapurlegt í allri fegurðinni en samt svo bjartsýnt og uppörvandi að maður tapar sér í eigin höfði. Þessa plötu munu allir fimmtugir menn eiga árið 2030

-Stígur Helgason