Árslistinn 2007

Topp 20 íslenskar plötur 2007

11 stig

#20

múm

Go Go Smear The Poison Ivy

Barnsleg kæti og krúttlegheit eru í fyrirrúmi á nýjustu plötu múm-liða. Skemmtileg lög þeirra myndu gleðja hinn mesta fýlupúka.

-Hildur Maral


11 stig

#19

b. sig

Good Morning Mr. Evening

Einstaklega góð plata sem kemur skemmtilega á óvart í alla staði. Hún er hrein og bein og blátt áfram og nánast fullkomin í sinni hráu og lifandi einfeldni.

Rjómadómur

-Egill


15 stig

#18

Jakobínarína

The First Crusade

Hafnfirsku unglingarnir senda frá sér kraftmikinn kokteil sem nýbylgjurokkarar fyrri áratuga hefðu mátt vera stoltir af. Fjörið sem strákarnir eru þekktir fyrir á tónleikum skilar sér vel á stuttri en flottri breiðskífu.

-Björgvin Ingi


15 stig

#17

Rökkurró

Það kólnar í kvöld…

Platan hefur varla farið úr spilaranum mínum síðan ég fékk hana og ég verð að segja að þetta er ein af þessum plötum sem mér finnst alveg magnaðar. Hún hefur gjörsamlega brætt hjarta mitt.

Rjómadómur

-Fanney


17 stig

#16

Skátar

Ghost of the Bollocks to Come

Fátt kom eins á óvart á árinu og frumburður Skáta, þar sem þeir hnýta saman ólíklegustu stefnur tónlistarsögunnar í ómótstæðilega heild. Án vafa langskemmtilegasta plata ársins.

Rjómadómur

-Pétur


19 stig

#15

I Adapt

Chainlike Burden

Aldrei hefði mig grunað að platan Chainlike Burden gripi mig því heljartaki sem hún hefur nú gert. Þetta verða allir að heyra.

Rjómadómur

-Hildur Maral


22 stig

#14

Bloodgroup

Sticky Situation

Þrjú systkini og kæró virðist vera líkleg uppstilling til framdráttar í íslenskum danssveitum sbr Bloodgroup og Steed Lord. Báðar fylgja þessari formúlu og eru í framvarðasveitinni með Gus Gus og gefa lítið eftir. BG spila harða danstónlist en jafnframt glettilega diskóskotna sem skilar sér best í hæstu stillingu og á tónleikum (þau áttu bestu tónleika síðustu Airwaves).

Rjómadómur

-Ari


23 stig

#13

Páll Óskar

Allt fyrir ástina

Páll Óskar kemur aftur á sjónarsviðið með diskótrompi og jafnframt eina fallegustu og einlægustu plötu ársins. Textar eins og „Á diskóbar ég dansaði frá sirka tólf til sjö” og „ég tek óverdós vegna Rómeós” fengi hvern sem er til að brosa út í eitt og syngja hástöfum með.

-Sara Elísabet


24 stig

#12

Gus Gus

Forever

Sigurreið þessarara dansmógúla ætlar engan endi að taka. Hressandi við heimilisstörfin en sveitt og subbulegt á dansgólfinu, alveg eins og það á að vera.

Rjómadómur

-Alexandra


25 stig

#11

Hjálmar

Ferðasót

Sósíalískt nostalgíureggí Hjálma er sérlega vinalegt og vel útfært. Á þriðju plötu sveitarinnar er hljómurinn eldri og textarnir eftirminnilegri en áður sem skilar sér í vönduðum og eigulegum grip.

-Björgvin Ingi


28 stig

#10

Megas og Senuþjófarnir

Hold er mold

Megas skaust aftur fram á sjónarsviðið ásamt Senuþjófunum og sendi frá sér tvær frábærar skífur á árinu. Hold er Mold er kannski erfiðari við fyrstu hlustun en Frágangur, en hún leynir á sér og varla má heyra gæðamun á þessum tveim plötum.

Rjómadómur

-Pétur


30 stig

#9

Benny Crespo’s Gang

Benny Crespo’s Gang

Hægt er að segja að Benny Crespo´s Gang sé með sérstæðustu sveitum hér á landi í dag, en með þessum frumburði sínum hafa þau fært Íslendingum eitthvað frábært, nýtt og spennandi.

Rjómadómur

-Daníel Guðmundur


33 stig

#8

Björk

Volta

Enn og ný er sköpunarkraftur Bjarkar mikill og sannar hún enn einu sinni hversu leitandi og frjó hún er í list sinni. Samsöngur hennar og Antony er hápunktur plötunnar sem er þó öll fín og flott.

Rjómadómur

-Björgvin Ingi


35 stig

#7

Megas og Senuþjófarnir

Frágangur

Ásamt Senuþjófunum tókst Megasi að skapa óvænta poppsnilld með hinum tímalausa hljómi sem einkenndi margar bestu plötur meistarans á 8. áratugnum, en Frágangur kemst auðveldlega í þeirra hóp.

Rjómadómur

-Pétur


37 stig

#6

Sprengjuhöllin

Tímarnir okkar

Miklir snillingar og conceptmenn. Þeir taka púlsinn á samtímanum eins og House læknir með sneiðmyndavél. Textarnir þeirra eiga sér enga líka í dag og þarf að leita langt aftur til að finna annað eins. Djúpir og djúsí – fílaða.

Rjómadómur

-Ari


37 stig

#5

Ólöf Arnalds

Við og við

Ólöf á sér enga hliðstæðu í íslenskri tónlist í dag og hefur með þessum frumburði sínum gert íslenskri dægurlagatónlist meira gagn en flestan grunar. Fallegar laglínur og berskjaldaður frásagnarstíll gerir þessa plötu að því merkisverki sem hún er.

Rjómadómur

-Alexandra


50 stig

#4

Sigur Rós

Hvarf/Heim

Sigur Rós svíkja engan með tvíburaplötunni Hvarf/Heim. Hvort sem um er að ræða hliðina með gömlu, óútgefnu lögunum eða þá með vinsælu og órafmögnuðu lögunum er óhætt að segja að gæsahúðin láti ekki á sér standa. Magnaður og fagur gripur sem lætur engann ósnortinn.

Rjómadómur

-Hildur Maral


60 stig

#3

Hjaltalín

Sleepdrunk Seasons

Hjaltalín er algjörlega sér á parti í íslensku poppflórunni. Sendir frá sér stórgóða plötu sem elur á enn frekari forvitni í garð sveitarinnar.

Rjómadómur

-Björgvin Ingi


69 stig

#2

Mugison

Mugiboogie

Meistari Mugison fer hamförum. Krafturinn, reiðin og sköpunargleðin á plötunni er glæsilegur vitnisburður um snilli þessa óskabarns þjóðarinnar.

Rjómadómur

-Egill


70 stig

#1

Seabear

The Ghost That Carried Us Away

Kántrískotið, rólyndislegt, melódískt og þægilegt indírokk sem bregður á vel völdum köflum undir sig betri fætinum og gefur aðeins í. Frumraun sem bragð er af.

Rjómadómur

-Óttar


Topp 20 erlendar plötur 2007

Þá er komið að litlu jólunum hjá Rjómverjum árið 2007 því uppgjör yfir bestu plötur ársins er eitt skemmtilegasta og jafnframt snúnasta starf tónlistargagnrýnenda á síðunni. Fáir fjölmiðlar á Íslandi búa yfir þá sérstöðu sem Rjóminn hefur, að halda úti tónlistargagnrýni og –umfjöllun allt árið um kring og hafa utan um sig þétt net af tónlistarmönnum, -fræðingum og -áhugamönnum sem samanstendur ekki síst af fjölmörgum lesendum vefritsins.

Alls tóku 16 pennar þátt við gerð árslistans að þessu sinni og það er ekki ofsögum sagt að einstaklingslistar voru jafn fjölbreyttir og þeir voru margir. Alls voru tilnefndar 41 íslensk plata og 82 erlendar, en aðeins þær 20 efstu lentu inn á árslista Rjómans. Flestir eru sammála um að íslensk plötuútgáfa hafi verið sérstaklega góð í ár, en til samanburðar má nefna að í fyrra voru 33 plötur tilnefndar.

Mjótt var á muninum á árslista fyrir bestu íslensku plötur ársins, en aðeins einu stigi munaði á efsta sætinu og því næstefsta. Annað átti við um erlendar plötur, en þar hlaut efsta platan afgerandi sigur. Eins og sjá má af einstaklingslistum rötuðu ekki allar uppáhaldsplöturnar inn á topp 20, en flestir geta þó verið sammála um að árslistar Rjómans endurspegla góðar plötur sem lesendur og áhugasamir ættu ekki að vera feimnir við að tékka á.

Við þökkum fyrir sl. ár, óskum lesendum og öllum tónlistarmönnum gleðilegra hátíða og hlökkum til að tækla nýtt og vonandi gjöfult tónlistarár

-Rjóminn


12 stig

#20

Elliott Smith

New Moon

Lögin á New Moon eru ferskari en margt sem er að gerast í dag, þrátt fyrir að vera flest komin á aldur. Þegar lífið virðist upp í móti, þá er ekkert betra en Elliott Smith.

Rjómadómur

-Gunnar


12 stig

#19

Beirut

The Flying Club Cup

Credit Condon toppar ótrúlega góða fyrstu plötu sína með enn betri lagasmíðum, útsetningum og almennri sturlun. Platan mun líklega fylgja mér það sem eftir er ævi minnar og á skilið allt lof sem hún fær, svona eins og Ljómi.

-Guðmundur


12 stig

#18

M.I.A.

Kala

Í ár sneri M.I.A. aftur með plötu sem bætti fyrra verk hennar, Arular, þó erfitt væri. Kala er taktföst plata sem blandar træbal- og elektrónískum áhrifum á óaðfinnanlegan hátt. Lagið Paper Planes er hápunktur plötunnar þar sem byssuskot eru notuð í viðlagið og gera það að einu heitasta lagi ársins.

Rjómadómur

-Hildur María


12 stig

#17

Saul Williams

The inevitable rise and liberation of Niggy Tardust!

Saul Willams ætlar að fara með hip-hoppið aftur til rótanna. Burt með glingrið, bílana, byssurnar og montið. Saul ætlar að gera það sem var upprunalega ætlunin með hip-hoppinu. Hann ætlar að kenna. Hann ætlar að spyrja spurninga.

-Kristinn Snær


13 stig

#16

Spoon

Ga Ga Ga Ga Ga

Spoon fá ekki bara verðlaun fyrir furðulegasta plötutitil ársins heldur eiga þeir líka heima á lista rjómans yfir bestu plötur ársins. Ga Ga Ga Ga Ga er pökkuð ef vel unnum, hressum indie popplögum sem eru heldur sumarleg, en ættu að geta lífgað hvaða teiti sem er við allar árstíðir.

Rjómadómur

-Hildur María


14 stig

#15

Interpol

Our Love To Admire

Rökrétt en örlítið þroskaðra framhald af síðustu plötu. Fáguð og stílhrein og inniheldur allt það sem sannur Interpol aðdáandi gæti óskað sér.

Rjómadómur

-Egill


14 stig

#14

Editors

An End Has A Start

An End Has A Start er á margan hátt betri plata en forveri hennar. Hún er aðgengilegri, kraftmeiri, eftirminnilegri og grípur mann einhvernveginn fastari tökum en sú fyrri.

Rjómadómur

-Egill


16 stig

#13

The National

Boxer

Amerískt barítónapopp af bestu gerð. Lifandi lagasmíðarnar eru vel útfærðar á vandaðri poppplötu sem bíður upp á margar og skemmtilegar tilvísanir í fyrri stórvirki poppsins.

-Björgvin Ingi


17 stig

#12

Kings Of Leon

Because of the Times

Fáránlega heit rödd og lögin hvert öðru skemmtilegra. Hápunktarnir eru lögin Fans og On Call, lög sem hægt er að hlusta á aftur og aftur og aftur. Hér toppa þeir frumraun sína og svo miklu meira en það.

Rjómadómur

-Sara Elísabet


19 stig

#11

Smashing Pumpkins

Zeitgeist

Billy Corgan stóð undir tröllvöxnum væntingum með Zeitgeist, sem er með betri rokkplötum þessa áratugar. Því miður er þetta jú Billy Corgan sem um ræðir, og eins ósanngjarnt og það er vildum við meira.

Rjómadómur

-Gunnar


19 stig

#10

Justice

Cross

Fáar hljómsveitir voru jafnmikið í umræðunni í elektrósenunni og Justice. Þeir voru búnir að remixa alla svo eftir var tekið, ömmur sína líka, og gáfu svo út frábært byrjendaverk. Látum það bara eftir Frökkunum að búa til suddalegt dans elektró!

-Óttar


19 stig

#9

Caribou

Andorra

Plötunni má líkja við gátt að ókönnuðum og ævintýralegum víddum, sem ættu svo sannarlega að auka á ánægju tónlistaráhugamanna.

Rjómadómur

-Árni Viðar


21 stig

#8

Sunset Rubdown

Random Spirit Lover

Félagi Spencer Krug og föruneyti fer um víðan völl á útpældu meistaraverki sem er án vafa það eitt það allra besta sem Montreal-senan hefur getið af sér.

Rjómadómur

-Pétur


25 stig

#7

Animal Collective

Strawberry Jam

Strawberry Jam er vissulega hrá plata en að sama skapi líklega aðgengilegasta verk Animal Collective til þessa. Það segir reyndar ekki mikið því ringulreiðin er enn áberandi á plötu þar sem úir og grúir af athyglisverðum hugmyndum.

Rjómadómur

-Árni Viðar


25 stig

#6

Feist

The Reminder

Önnur plata Feist er gullmoli; fjölbreytt og falleg en myndar jafnframt góða heild, nákvæmlega eins og ég vil hafa mínar plötur.

Rjómadómur

-Óttar


27 stig

#5

Blonde Redhead

23

Á 23 tóku Blonde Redhead áhættu með því að víkka út hljóðheim sinn í óvæntar áttir. Einhverjir íhaldsseggir urðu fúlir en aðdáendur sveitarinnar urðu flestir fljótir sammála um að platan var ein sú besta úr herbúðum Kazu og tvíburanna.

Rjómadómur

-Pétur


38 stig

#4

of Montreal

Hissing Fauna, Are You the Destroyer?

Biðin eftir hinu langþráða meistaraverki Of Montreal er loks á enda því Hissing Fauna, Are You the Destroyer hefur allt sem prýða þarf góðar popp-plötur…og miklu meira til.

Rjómadómur

-Árni Viðar


44 stig

#3

Okkervil River

Stage Names

Tilfinningaþrungin og djúpstæð plata, sem hefur alla burði til að verða klassísk, líkt og fyrirrennarinn frá þessari frábæru hljómsveit Will Sheff.

Rjómadómur

-Árni Viðar


49 stig

#2

Radiohead

In Rainbows

Radiohead hafa enn aftur breytt um stíl og tekið skref frá þunglyndispoppinu yfir í þroskaðri, melódískari tónlist. Þó aðalathyglin sem platan fékk í fjölmiðlum væri mest tengd útgáfu hennar má ekki líta framhjá gullmolunum sem lög eins og Reckoner og All I Need eru.

Rjómadómur

-Hildur María


72 stig

#1

Arcade Fire

Neon Bible

Að fylgja eftir plötu eins og Funeral er enginn leikur. Arcade Fire höggva í sama knérunn og áður en gera það vel og platan sem í fyrstu fölnaði í samanburði við forrennarann vinnur mjög á og er fínasti gripur.

Rjómadómur

-Björgvin Ingi