Árslistinn 2008

Topp 20 íslenskar plötur 2008

5 stig

#20

Evil Madness

Demoni Paradiso

Súpergrúppan Evil Madness er skipuð helstu gúrum ytri marka íslensku rafsenunnar. Á Demoni Paradiso framreiða þeir agaða og framúrstefnulega rafmúsík sem minnir á jafnt rafvænni hliðar þýska krátsins og ítalska hryllingsmyndatónlist 8. áratugsins – djöfulleg paradís.

-Pétur Valsson


6 stig

#19

We Made God

As We Sleep

As We Sleep er frumraun hljómsveitar sem státar af þunga I Adapt, gítarriffum sem líkjast Deftones og lagasmíðum sem minna á myrkari hlið Sigur Rósar manna. We Made God hafa skapað sinn eigin hljóm í þessari blöndu sem kemur af stað einhverju ólýsanlegu tilfinningaróti innra með manni.

– Hildur Maral Hamíðsdóttir


7 stig

#15-18

Megas & Senuþjófarnir

Á morgun

Meistarinn er í myljandi stuði og dyggilega studdur af færustu og frumlegustu listamönnum landsins. Gömlu dægurflugurnar gæðir Megas nýju lífi með flutningi sínum og ætti að gleðja aðdáendur sína til jafns við nýjar kynslóðir.

-Egill Harðar


7 stig

#15-18

Jóhann Jóhannsson

Fordlandia

Jóhann yrkir til gúmmí-distópíu Henry Fords í Brasilíu á plötu sem við fyrstu hlustun virðist heldur risminni en fyrri verk en reynist vera enn ein varðan í átt að hinu fullkomna höfundaverki

-Pétur Valsson


7 stig

#15-18

Hugi Guðmundsson

Apocrypha

Hugi leiðir saman volduga barokksveit og gregorsöng og skapar ásamt rafhljóðum nýjan og tímalausan hljómheim sem talar milliliðalaust við áheyrandann. Það sem er síðan sagt í tónum er einkamál þitt og tónlistarinnar.

-Alexandra Kjeld


7 stig

#15-18

Benni Hemm Hemm

Murta St. Calunga

Gleðileg og upphefjandi plata og viðkunnanleg með eindæmum. Stórt skref fram á við og festir vonandi Benna Hemm Hemm í sessi sem einn af okkar bestu lagasmiðum.

Rjómadómur

-Egill Harðar


9 stig

#14

Mammút

Karkari

Frábærar lagasmíðar einkenna Karkara og fá mann oftar en einu sinni og oftar en tvisvar til að raula með. Snilldarlegt popprokk í ferskum búning.

Rjómadómur

-Hildur Maral Hamíðsdóttir


10 stig

#13

Introbeats

Tivoli Chill Out

Einfaldlega ein af ferskustu íslensku hip hop plötum sem komið hafa út, punktur. Svo ekki sé minnst á akfeit gömluskólabít meistarans Adda Intro, að þá er flæðið svoleiðis blússandi hjá rímandi félögum hans sem eru þeir allra bestu í bransanum hér á landi.

-Alexandra Kjeld


11 stig

#12

Lay Low

Farewell Good Night’s Sleep

Á andvökunóttum fikrar Lay Low sig nær köntríinu. Kósí plata sem sannar þó það sem okkur grunaði: Lovísa er þrælfínn músíkant!

-Guðmundur Vestmann


12 stig

#11

Bragi Valdimar Skúlason og Memfismafían

Gilligill

Bragi Valdimar og Memfismafían leggja á borð fyrir okkur besta barnaskammt síðari ár. Textar og tónlist algjörlega frábær. Ungir og eldri skemmta sér saman sem er svo sannarlega ekki alltaf raunin þegar barnaplötur hljóma.

Rjómadómur

-Björgvin Ingi Ólafsson


13 stig

#10

Borko

Celebrating Life

Akústík mætir elektróník, lúðrablástur hljómar, gítar vælir og Borko raular feimnislega fyrir okkur. Persónuleg og skemmtileg plata sem ég fagna mjög.

Rjómadómur

-Guðmundur Vestmann


14 stig

#9

Agent Fresco

Lightbulb Universe

Nýliðar ársins færa okkur eina af plötum ársins. Frábær stuttskífa frá hljómsveit sem hefur hæfileika og metnað til að ná verulega langt.

-Hildur Maral Hamíðsdóttir


15 stig

#8

Múgsefjun

Skiptar skoðanir

Múgsefjun er kærkomin viðbót í heim íslenskrar popptónlistar. Harmonikka og kassagítar leiða hlustendur í gegnum vænan slatta af slögurum og fyrr en varir er maður farinn að syngja hástöfum með. Ekki skemma vandaðar, íslenskar textasmíðar fyrir!

-Guðmundur Vestmann


17 stig

#7

Klive

Sweaty Psalms

Klive kannar óravíddir hljóðs með góðum árangri. Mögnuð hljómáferð Sweaty Psalms gera plötuna að einni áhugaverðustu upplifun ársins.

Rjómadómur

-Pétur Valsson


18 stig

#5-6

200.000 Naglbítar og Lúðrasveit verkalýðsins

200.000 Naglbítar og Lúðrasveit verkalýðsins

Sjaldan hefur niðurstaðan verið jafn borðleggjandi og augljós eins og í þessu tilfelli og er einfaldlega þessi: 200.000 Naglbítar og Lúðrasveit Verkalýðsins fá fullt hús stiga fyrir plötu ársins! Fimm af fimm!

Rjómadómur

-Egill Harðar


18 stig

#5-6

Retro Stefson

Montaña

Íslendingar þurfa á ungæðislegum krafti, bjartsýni og stuði i kulda, byl og vetrarkreppu. Retro Stefson er slík sending. Hljómar æðislega útlensk en jafnrframt full af íslenskri bjartsýni. Þetta reddast allt ef Retro Stefson fær að hljóma.

-Björgvin Ingi Ólafsson


21 stig

#4

FM Belfast

How to Make Friends

Nærfatapartý og trópíkalskar eyjur í Karabíahafinu. FM Belfast hóf partý ársins og það virðist engan enda taka, plötur gerast vart skemmtilegra en þetta.

Rjómadómur

-Pétur Valsson


31 stig

#3

Emiliana Torrini

Me & Armini

Emilíana færir okkur sterka poppplötu sem leitar útfyrir hið hefðbundna rólegheitapopp og gefur fögur fyrirheit um framhaldið. Klárlega besta plata hennar og ein af bestu íslensku plötunum á fínu íslensku tónlistarári.

-Björgvin Ingi Ólafsson


38 stig

#2

Sin Fang Bous

Clangour

Sólóverkefni Sindra Seabear. Alls kyns áhrifa gætir á Clangour en Sindri er þó algjörlega búinn að þróa sinn eigin hljóm og verður gaman að fylgjast með honum á næstu misserum.

-Hildur Maral Hamíðsdóttir


43 stig

#1

Sigur Rós

Með suð í eyrum við spilum endalaust

Sigur Rós fer nýjar leiðir á nýjustu plötu sinni. Hér eru skemmtilegar melódíur og spilagleði í fyrirrúmi, en þó skortir ekki epíkina. Frábær plata frá bestu hljómsveit landsins.

Rjómadómur

-Hildur Maral Hamíðsdóttir


Topp 20 erlendar plötur 2008

Þá er komið að uppgjöri Rjómverja á tónlistarárinu 2008. Af nógu var að taka en úrslitin voru engu að síður nokkuð afgerandi þó mjótt hafi verið á munum hér og þar.

Rjóminn óskar lesendum sínum nær og fjær gleðilegra jóla og farsæls komandi árs með von um að tónlistarárið 2009 verði jafn gjöfult og áhugavert og það sem nú er að líða.

-Rjóminn


6 stig

#18-20

Stereolab

Chemical Chords

Rannsóknarstofa í víðómafræðum hefur starfað að poppvísindum í 18 ár. Nýjustu rannsókanarniðurstöður sýna að Chemical Chords er glaðlegur kokteill með óteljandi vísanir í ómögulegustu afkima tónlistar.

-Pétur Valsson


6 stig

#18-20

The Last Shadow Puppets

The Age Of The Understatement

Tilraun þeirra Turner og Kane til að blanda saman pönk skotnu britpoppinu og kvikmyndapoppi gærdagsins heppnast fullkomlega og er á köflum hrein unun á að hlíða. Drífandi og kraftmikil plata og frábær vitnisburður um sköpunargáfu og tónlistarhæfileika skapara sinna.

Rjómadómur

-Egill Harðar


6 stig

#18-20

Erykah Badu

New Amerykah, Pt. 1: 4th World War

Erykah Badu má eiga það að hún dettur aldrei í poll meðalmennskunnar, heldur tekur sérhver plata hennar nýja stefnu, hvort sem manni líkar það betur eða verr. Fyrsti hluti Nýju Amerykuhnnar er afrakstur áralangrar vinnu og sérvisku og ber að hlusta á með athygli, aðeins þá opnast fyrir manni nýjir heimar og heilabrjótar.

-Alexandra Kjeld


7 stig

#16-17

Neon Neon

Stainless Style

Þemaplata um bílaframleiðandann og glaumgosann John DeLorean? Með Gruff Rhys og Boom Bip í aðalhlutverkum? Snilld! Stainless Style er lang forvitnilegasta plata ársins!

Rjómadómur

-Egill Harðar


7 stig

#16-17

Hercules And Love Affair

Hercules And Love Affair

Ótrúlega skemmtilega grípandi dansidansipopp. Stígur ótrúlega hátt yfir normið þegar Antony (…and the Johnsons) mætir á svæðið og syngur með. Það þarf enginn að skamma sér fyrir svona partímúsik.

– Björgvin Ingi Ólafsson


8 stig

#15

Dodos

Visiter

Þriðja plata hljómsveitarinnar The Dodos fær áheyrandann til að bókstaflega iða í öllum líkamanum með frábærum línum, mikilli slagverks- og kassagítarsgleði og gaman. Það er eitthvað óútskýranlega frumstætt og kraftmikið við tónlistina sem fær mann til að kalla á meira.

Rjómadómur

-Alexandra Kjeld


9 stig

#10-14

Wolf Parade

At Mount Zoomer

Krefjandi og kalt, svakalegt svalt. Wolf Parade á sko ekkert við vandamál annarrar plötunnar að etja. Frábært framhald frábærrar byrjunar. Megi Spencer Krug og félagar koma með fleiri svona gripi.

-Björgvin Ingi Ólafsson


9 stig

#10-14

The Roy Hargrove Quintet

Earfood

Tónlistarmógullinn og trompetséníið Roy Hargrove kemur hér með enn eitt spennandi útspilið á þegar ofurfjölbreyttum ferli. Seinustu plötur RH Factor hafa farið nokkuð langt í bræðingnum, en hér er Roy kominn aftur með hreint eyrnakonfekt eins og nafnið gefur til kynna, klassískt, mjúkt og fönkað.

-Alexandra Kjeld


9 stig

#10-14

The Mars Volta

Bedlam in Goliath

The Bedlam in Goliath toppar léttilega forvera sinn frá árinu 2006. Hún er kraftur út í gegn og inniheldur hraðar og flóknar tónsmíðar sem saman mynda frábæra heild. Plata sem vinnur allsvakalega á við hverja hlustun – hugsanlega besta plata sveitarinnar síðan De-Loused.

Rjómadómur

-Hildur Maral Hamíðsdóttir


9 stig

#10-14

Deerhunter

Microcastle / Weird Era Cont

Eftir að hafa eytt undanförnum árum í tilraunir með sjúgeiz formið sprettur Deerhunter fram á Microcastle með æðislegar poppsmíðar umluktar útpældum hljóðheimi. Leyniplatan Weird Era Cont fylgdi öllum að óvörum með í pakkanum og er ekki síðri.

-Pétur Valsson


9 stig

#10-14

Cloud Cult

Feel Good Ghosts (Tea-Partying Through Tornadoes)

Sjaldan hefur eins mikil tilfinning, líf og sál, verið tjáð jafn vel á einni og sömu plötunni. Lögin gleðja mann, hvetja mann, gera mann sárann og kannski örlítið reiðann en umfram allt halda þau manni hugföngnum og ánægðum.

Rjómadómur

-Egill Harðar


10 stig

#8-9

Okkervil River

The Stand Ins

Sveitin hefur nánast fullkomnað hið tregablandna gáfumannarokk (eða er þetta popp?). Svo miklu miklu betra en allt hitt.

-Björgvin Ingi Ólafsson


10 stig

#8-9

MGMT

Oracular Spectacular

MGMT sprakk út á árinu og heyrðist skyndilega alls staðar. Ekki slæmar fréttir fyrir hlustendur þar sem Oracular Spectacular er fullt af stórskemmtilegum og fjölbreyttum lögum sem þreytast seint.

Rjómadómur

-Pétur Valsson


12 stig

#7

TV on the Radio

Dear Science

Dear Science er bragðmikil naglasúpa löguð úr ólíkum stefnum sem meðlimir sjóða saman af mikilli lagni. Þetta er aðgengilegasta verk TVOTR til þess – barmafull skál af sál, elektróník, rokki og fönki.

Rjómadómur

-Guðmundur Vestmann


15 stig

#6

Beach House

Devotion

Ljúfar og ögn draugalegar lagasmíðar eru fullkomnaðar með notarlegum hljómi sem borinn er upp af ótrúlegu samansafni gamalla orgela og sparlegum gítarslætti. Fáar plötur heilla jafn mikið og Devotion.

Rjómadómur

-Pétur Valsson


20 stig

#5

Portishead

Third

Fáir áttu von á að þessi plata kæmi nokkurn tímann út en eftir 11 ára reyndist Portishead vera beittari og ferskari en áður. Ískalt og eitursvalt meistaraverk.

Rjómadómur

-Pétur Valsson


22 stig

#4

M83

Saturdays = Youth

M83 kveður dýran óð til níunda áratugarins á sinni bestu skífu. Spikfeitir hljóðgervlar, 80’s taktar, skógláps gítar og hvíslandi rödd Gonzalez í bland við söngdívur. Margslungin plata, full af kontröstum, fegurð og angist.

Rjómadómur

-Guðmundur Vestmann


25 stig

#3

Vampire Weekend

Vampire Weekend

Frumburður Vampire Weekend er afurð huggulegra ástarlota afro- og indie-popps. Hljómurinn er dísætur, stemningin sumarleg og útsetningarnar frumlegar. Einstaklega melódísk og grípandi plata. Afbragð!

Rjómadómur

-Guðmundur Vestmann


29 stig

#2

Bon Iver

For Emma, Forever Ago

Óvæntasta plata ársins. Justin Vernon brá á það ráð að einangra sig í fjallakofa í þrjá mánuði og úr varð þessi gullfallega plata. Brothætt lögin og einlægur flutningurinn gera hana vel þess virði að hlusta á.

Rjómadómur

-Hildur Maral Hamíðsdóttir


40 stig

#1

Fleet Foxes

Fleet Foxes

Fullkomlega einstök og óvænt plata. Viðkunnanleg og grípandi, flutningurinn frábær og tónsmíðarnar fyrsta flokks. Án efa besta plata ársins. Þetta band á eftir að verða stórt. Mjög stórt!

Rjómadómur

-Egill Harðar