Þá er komið að uppgjöri Rjómverja á tónlistarárinu 2009. Fjöldi frambærilegra hljómplatna kom út á árinu en toppsætin voru engu að síður nokkuð afgerandi þó mjótt hafi verið á munum hér og þar.
Rjóminn óskar lesendum sínum nær og fjær gleðilegra jóla og farsæls komandi árs með von um að tónlistarárið 2010 verði jafn gjöfult og áhugavert og það sem nú er að líða.
-Rjóminn
Topp 20 íslenskar plötur 2009
#20
Lights On The Highway
Amanita Muscaria
Lights on the Highway hafa sjálfsagt einn besta söngvara landsins innaborðs og hann fær að njóta sín fullkomlega í frábærum tónsmíðum sveitarinnar. Tilvalin plata fyrir þá sem vilja sökkva sér ofan í tónlistina enda er hún tilkomumikil, margslungin og full af vel útfærðum smáatriðum.
– Egill Harðar
#18-20
Hildur Guðnadóttir
Without Sinking
Without Sinking kom út snemma ársins 2009 og hefur því haft ansi langan tíma til að síast inn í vitund hlustenda. Sem er gott, því plata eins og þessi þarf margar hlustanir til að hægt sé að átta sig almennilega á snilldinni sem býr að baki henni. Flottur sellóleikur Hildar og frumlegar lagasmíðarnar gera Without Sinking að einni af áhugaverðustu plötum ársins.
– Hildur Maral Hamíðsdóttir
#18-20
Feldberg
Don’t Be a Stranger
Eberg fékk Rósu Ísfeld úr Sometime með sér í lið í dúettinn Feldberg og saman framreiða þau ótrúlega grípandi poppsmíðar sem eiga erindi við alla sem gaman hafa af tónlist..
– Pétur Valsson
#17
Prins Póló
Einn heima
Svavar úr Skakkamanage sendi frá sér EP plötuna Einn heima sem vafalaust varð til þegar hann var einn heima. Platan er bráðfjörug og lög og textar með því skemmtilegra sem heyrst hefur á árinu. Hver getur líka staðist ástarsöngva til pizzu og gamalla kvenna?
-Pétur Valsson
#14-16
Retrön
Swordplay & Guitarslay
Metalhausarnir og nördarnir í Retrön spila á þessari frumraun sinni fyrsta flokks rafskotinn hetju-metal – stórundarleg samsetning en virkilega kúl. Svona hæfilega blanda af töffaraskap og nördisma.
– Guðmundur Vestmann
#14-16
Hoffman
Your Secrets Are Safe With Us
Taktfast og grípandi rokk sem húkkar mann strax á fyrsta lagi. Því miður hefur ekki farið mikið fyrir þessari plötu í öllu flóðinu og hvet ég ég því alla sanna rokk aðdáendur að kynna sér gripinn.
-Egill Harðar
#14-16
Eberg
Antidote
Antidote Ebergs er ágætis mótefni við síbyljunni sem ræður ríkjum um þessar mundir. Með tveimur frábærum plötum á þessu ári stimplar Einar Tönsberg sig inn sem einn besti lagasmiður landsins um þessar mundir.
– Pétur Valsson
#12-13
Útidúr
Í göngutúr
Hressilegt, létt og hæfilega áhyggjulaust popp sem hrífa ætti jafnvel hörðustu teflonsálir með sér. Get ekki beðið eftir að heyra meira frá þessum stóra og óvenjulega vel samstillta hóp í framtíðinni.
– Egill Harðar
#12-13
Snorri Helgason
I’m Gonna Put My Name On Your Door
Á fyrstu sólóplötu sinni býður Snorri Helgason hlustendum upp á vinalegt kassagítarpopp – og ansi vel köntrískotið. Það er greinilegt að það fer honum betur að vera einn síns liðs en með Sprengjuhöllinni. Óvæntasti glaðningur þessa árs í íslensku tónlistarlífi.
-Guðmundur Vestmann
#11
Jónsi & Alex
Riceboy Sleeps
Lágstemmd en frábær plata frá Jónsa úr Sigur Rós og Alex Somers. Skífan lætur fremur lítið yfir sér í fyrstu en lygnið aftur augunum og látið mínimalíska og lífræna tóna taka ykkur heljartaki.
– Pétur Valsson
#8-10
Pascal Pinon
Pascal Pinon
Það er nánast hægt að fullyrða að fáir 14 og 15 ára gamlir einstaklingar hafi gert jafn fallega plötu og stúlkurnar í Pascal Pinon. Þótt platan sé ekki gallalaus hitta lagasmíðarnar beint í mark.
– Hildur Maral Hamíðsdóttir
#8-10
múm
Sing Along to Songs You Don’t Know
Þó múm líðar feti hér eilítið troðnari slóðir en á fyrri plötum þá gera þau það enga að síður með glæsibrag. Hér er á ferð einkar skemmtileg plata sem grípur hlustandan um leið með viðkunnanlegum, ljúfum og fallegum tónsmíðum. Í nokkrum lögum eru laglínurnar jafnvel svo grípandi að þær óma áfram í huga manns jafnvel eftir ítrekaða hlustun.
-Egill Harðar
#8-10
Hermigervill
Leikur vinsæl íslenzk lög
Undrabarnið Hermigervill fetar í fótspor gamalla Moog meistara á borð við Gershon Kingsley með frábærum árangri. Skvettir svo “dass” af hip-hop með og blandan er fullkomnuð. Gamli Trúbrotar smellurinn “Starlight” hefur aldrei hljómað betur!
– Egill Harðar
#7
Skátar
Goth báðum megin
-Pétur Valsson
#6
Ruxpin
Where Do We Float From Here?
Raftónlistarmanninn Ruxpin þekkja ekki margir Íslendingar, en hann hefur getið sér gott orð erlendis. Tónlistin er með því besta í geiranum og á hann skilið mun meiri athygli en hann hefur verið að fá.
-Hildur Maral Hamíðsdóttir
#5
Hjaltalín
Terminal
Á Terminal má heyra mun flóknari og fágaðri lagasmíðar en á Sleepdrunk Sesons. Hjaltalín hafa þróað hljóm sinn til muna en halda enn í einkennismerki sín. Sérstaklega gaman er að heyra Sigríði Thorlacius fá meiri athygli en raddir hennar og Högna fléttast skemmtilega saman og lyfta plötunni á hærra plan.
-Hildur Maral Hamíðsdóttir
#4
Sudden Weather Change
Stop! Handgrenade in the Name Of Crib Death ‘nderstand?
Strákarnir í Sudden Weather Change hrifu marga á árinu með gítarkeyrðu rokki sínu, grípandi og hressilegum lagasmíðum og kostulegum textum sem söngvararnir þrír æpa hvor ofan í annan. S!HITNOC’D er frábært upphaf á ferli flottrar rokksveitar!
– Guðmundur Vestmann
#3
Bloodgroup
Dry Land
Systkinin og Færeyingurinn taka stórstökk fram á við á nýrri plötu. Stuðið frá frumburðinum er aðeins tónað niður og dýpt tónlistarinnar aukin til munar. Þetta er svona fullorðins.
-Pétur Valsson
#2
Hjálmar
IV
Á fjórðu plötu Hjálma mætir reggíið langþráða heim úr fríinu sem það tók sér á Ferðasót. Eins og kunnugt er fóru Hjálmar til Jamaíka til að taka upp plötuna og er útkoman hreinasta afbragð. Besta plata Hjálma til þessa.
-Hildur Maral Hamíðsdóttir
#1
Kimono
Easy Music For Difficult People
Rokk skotið indie fyrir lengra komna. Ótrúlega þétt og áheyrileg plata sem vinnur á með hverri hlustun. Hinn þétti vefur sem gítarleikurinn myndar skapar órjúfanlegan vegg utan um frábærar tónsmíðar. Snilldarverk!
– Egill Harðar
— – —
Topp 20 erlendar plötur 2009
#18-21
Woods
Songs of Shame
Á Songs of Shame ægir saman köntríi, rokki, sækadellíku og indí-poppi frá einu áhugaverðasta skrípa-fólk-bandi sem komið hefur fram á undanförnum árum. Naumhyggjan er einstaklega tælandi og allt einhvernvegin ofboðslega skrítið og skemmtilegt.
– Guðmundur Vestmann
#18-21
Wild Beasts
Two Dancers
Hayden Norman Thorpe, söngvari Wild Beasts, rennir sér í og úr falsettu fyrirhafnarlaust og hrífur hlustendur með. Grípandi lagasmíðarnar gera það svo að verkum að þessi plata spilast aftur og aftur og aftur og aftur…
– Pétur Valsson
#18-21
The Grand Archives
Keep in Mind Frankenstein
Kántrí skotið og ljúfsárt indie popp sem bræðir mann algerlega með grípandi laglínum og ljúfum söng. Ein af þessum plötum sem maður heyrir allt of sjaldan.
– Egill Harðar
#18-21
Fever Ray
Fever Ray
Karin Dreijer úr The Knife reynir fyrir sér sóló sem Fever Ray og tekst svona líka vel upp. Lögin hafa á sér sterkan Knife-blæ en eru þó hennar eigin. Töfrandi söngurinn og flottar lagasmíðar einkenna plötuna sem er klárlega ein af gersemum ársins 2009.
– Hildur Maral Hamíðsdóttir
#12-17
Röyksopp
Junior
-Hildur Maral Hamíðsdóttir
#12-17
Julian Plenti
Is…Skyscraper
Paul Banks forsprakki Interpol leitar á nýjar slóðir undir listamannsnafninu Julian Plenti og tekst einkar vel upp. Einkenni Interpol eru þó aldrei langt undan en Hr. Plenti tekst þó að vera aðeins glaðlegri og hressari en hann er allra jafna með félugum sínum.
– Egill Harðar
#12-17
Isis
Wavering Radiant
Yfir Wavering Radiant sameinast indí-plebbar og metalhausar. Níðþungt pungarokkið í bland við draumkennda og ósungna kafla mynda skuggalega flotta útkomu á aðgengilegustu plötu Isis til þessa.
– Guðmundur Vestmann
#12-17
The Flaming Lips
Embryonic
Sérvitringarnir í Flaming Lips koma tvíelfdir til leiks eftir slaka síðustu plötu. Embryonic er passlega sýrð, passlega poppuð og sándar fullkomlega. Rödd Wayne Coyne er loksins laus úr pródúseringa-geðveiki og hefur ekki notið sín betur síðan einhverntíman á tíunda áratugi síðustu aldar.
– Guðmundur Vestmann
#12-17
Dan Deacon
Bromst
Rafmúsíkbrjálæðingurinn Dan Deacon nær nýjum hæðum í geðveikinni á nýjustu plötu sinni um leið og hann temur og fullkomnar hljóðheim sinn. Tónlistin hljómar á köflum eins og leikskólasöngvar frá helvíti – sem er hreint ansi gott!
– Pétur Valsson
#12-17
Bibio
Ambivalance Avenue
Á Ambivalance Avenue framreiðir Bibio frábæran soðning af raftónlist, hip-hop, soul, fönki og fólk-músík. Frumleg plata sem að allir ættu að geta fundið eitthvað fyrir sinn snúð á.
– Guðmundur Vestmann
#9-11
The Pains of Being Pure At Heart
The Pains of Being Pure At Heart
The Pains of Being Pure At Heart spila indí-rokk í anda þess sem var að gerast í kringum 1990. Melódískar og einfaldar lagasmíðarnar grípa við fyrstu hlustun og þematískur hljóðheimurinn er afskaplega aðlaðandi.
– Guðmundur Vestmann
#9-11
Dirty Projectors
Bitte Orca
Dirty Projectors sækja áhrif úr öllum ómögulegum áttu í tónlist sinni, sem fetar vandlega stiguna milli þess að vera í senn stórfurðuleg og alveg hrikalega grípandi. Skringilega heillandi lagasmíðar og frábær hljóðvinnsla sameinast á stórfenglegri plötu.
– Pétur Valsson
#9-11
Dent May & His Magnificent Ukulele
Good Feeling Music of Dent May
Hvern hefði grunað að Elvis Costello / Jens Lekman fígúra með ukulele á lofti myndi rata inn á topplistann í ár? Dent May syngur sig inn í hug og hjörtu hlustenda með sykursætum lögum sínum sem eru hvort öðru betra.
– Hildur Maral Hamíðsdóttir
#6-8
Fanfarlo
Reservoir
Það er allt of sjaldgæft að jafn heilsteyptar og áheyrilegar popp plötur berist manni til eyrna. Hér flæðir yfir með grípandi tónsmíðum, skemmtilegum útsetningum og ljúfum söng. Er hægt að biðja um það mikið betra?
– Egill Harðar
#6-8
Converge
Axe to Fall
Þegar konungar harðkjarnans senda frá sér plötu er ekki annað hægt en að hlusta. Converge valda ekki vonbrigðum og standast léttilega væntingar aðdáenda sinna.
– Hildur Maral Hamíðsdóttir
#6-8
The Antlers
Hospice
Brooklyn-bandið The Antlers hlaut töluvert lof fyrir EP-plötuna New York Hopitals. Hospice er þó mun fullkomnara listaverk. Platan er ansi margslungin: epísk og berstrípuð til skiptis. Brothætt rödd Peters Silbermans undirstrikar dramatíkina og tónar vel við rokk-aksjón sem og rólegheit.
– Guðmundur Vestmann
#5
Metric
Fantasies
Það er eiginlega nóg að minnast á lög eins og “Help I’m alive” og “Sick muse”. Þau segja meira en öll þau lýsingarorð og gífuryrði sem hægt er að rita um þessa plötu. Svona á popptónlist að vera.
– Egill Harðar
#3-4
The xx
XX
Einn svalasti frumburður síðustu áratuga! Óvæntasta plata ársins kom frá nokkrum breskum ungmennum sem með sína naumhyggjulegu poppsmíðum fá mann til að gapa í andakt.
– Pétur Valsson
#3-4
Ramona Falls
Intuit
Sólóplata Brent Knopf’s úr Menomena. Uppfull af mergjuðum tónsmíðum umvöfnum hugvitsamlegu slagverki og einstaklega frumlegum hljóðheimi sem á sér fáar hlistæður. Lagasmíðarnar eru hæfilega blandaðar tilraunastarfsemi og hreinnar og beinnar indie tónlistar. Inn á milli er síðan skotið einstaka Klezmer tilvísunum og fleiru til bragðbætingar. Skyldueign!
– Egill Harðar
#2
Animal Collective
Merriweather Post Pavilion
Animal Collective sendu frá sér enn annað snilldarverkið á árinu. Merriweather Post Pavilion er frumleg og litrík plata sem ber merki um mikinn metnað. Stórkostleg semi-poppskífa, full af áhugaverðum lagasmíðum og ferskleika.
– Guðmundur Vestmann
40 stig
#1
Grizzly Bear
Veckatimest
Grizzly Bear senda hér frá sér plötu sem toppar forvera sinn léttilega. Tónlistin er grípandi og ávanabindandi og mætti lýsa henni sem sykri fyrir eyrun. Með betri plötum síðari ára.
– Hildur Maral Hamíðsdóttir
Flottur listi, sammála að Kimono platan sé plata ársins… Mér finnst samt að þið hafið gleymt frábæri plötu frá Leaves sem kom út á árinu..
[…] Bear þekja Hot Chip ShareHljómsveitin geðþekka Grizzly Bear, sem átti plötu nýliðins árs að mati Rjómverja, tók sig til nýlega og flutti lagið “Boy From School” sem Hot Chip gerði vinsælt […]