Árslistinn 2010

Topp 20 íslenskar plötur 2010:

cliffclavinmanual.jpg

#20

Cliff Clavin

The Thief’s Manual

Sveitin fylgir hér eftir gríðarlegri velgengni smáskífa sinna undanfarin misseri og gefur út fanta rokkplötu. Yfirvegaðir og flæðandi gítarar í bland við sterkan söng og þéttan trommuleik.

– Daníel Hjálmtýsson


#19

Orphic Oxtra

Orphic Oxtra

Orphic Oxtra er ein nýjasta viðbótin í íslenskt tónlistarlíf. Fáránlega dansvænt en skemmtilega súrt Balkanskagastuð frá rúmlega tvítugum Íslendingum. Ómissandi fyrir þá sem fíla lúðra og sígauna.

– Kristján Guðjónsson


#18

noise

Divided

Þriðja plata noise er ein sterkasta rokkplata ársins. Hreint og beint þungarokk leitt með afbragðssöng og riffum sem minna á gamla skólann. Besta verk noise hingað til.

– Daníel Hjálmtýsson


#17

Stafrænn Hákon

Sanitas

Tilfinningarík, falleg og ljóðræn plata. Furðuheimur Stafræns og súrleiki eru þó aldrei langt undan. Afar skemmtileg og óvenjuleg plata.

– Egill Harðar

#13-16

Biggi Hilmarsson

Future of Hope

Virkilega falleg og tilfinningarík plata með fullkominni samsetningu listamanna. Fangar anda samtímans betur en nokkuð annað hefur gert hingað til.

– Egill Harðar


#13-16

Gavin Portland

iv: Hand to Hand with Traitors, Back to Back with Whores

Ein magnaðasta öfgarokksveit Íslands, Gavin Portland, laumaði út einstaklega kraftmikilli og tilfinningaþrunginni harðkjarnapönkplötu í ár, þar sem öskrað er á kúgara og þránni eftir réttlátum heimi er gert skil í hljóðhimnuskerandi hljómum. Skífan er grípandi og framsækin og jafnar næstum því meistaraverkið; iii: Views of Distant Towns, að gæðum.

– Kristján Guðjónsson


#13-16

Just Another Snake Cult

Dionysian Seasons

Óvæntasti gleðigjafi ársins var frumraun Just Another Snake Cult, sem er lo-fi strandpoppband frá Reykjavík og Californiu. Hljómurinn er hrár en úthugsaður og textarnir bæði krútt- og gáfulegir. Tónlistin sjálf fer um víðan völl, minnir á allt frá Ariel Pink og Of Montreal til Angelo Badalamenti.

– Kristján Guðjónsson


#13-16

Valdimar

Undraland

Flauelsmjúk rödd Valdimars er hér fallega skreytt hugljúfri og hreinskilinni músík og eru textar góðir og á íslensku. Frumburður þessarar sveitar frá Keflavík er svo sannarlega ein af betri plötum ársins.

– Daníel Hjálmtýsson


#11-12

Daníel Bjarnason

Processions

Daníel Bjarnason sannar að hann er eitt athyglisverðasta tónskáld Íslands með frumraun sinni, en Processions er einstaklega metnaðarfull og sterk plata sem skartar verkum sem munu standast tímans tönn.

Hildur Maral Hamíðsdóttir


#11-12

Ég

Lúxus Upplifun

Ég er einstök planta í íslenskri tónlistarflóru og á alla þá athygli skilið sem hún fær. Þriðja platan, Lúxus Upplifun, heldur áfram þar sem frá var horfið á fyrri plötum með bítlaskotnum stórsmellum og nostalgískum en þó framsæknum popppælingum. Textarnir eru svo alveg sér á parti sem gæða góðmetið einstöku bragði sem undirstrikar sérstöðu sveitarinnar enn frekar.

– Björgvin Ingi Ólafsson


#10

Rökkurró

Í annan heim

Sannarlega á köflum annars heims tónlist, rís frá lágstemmdri ró og einfaldleik yfir í upphefjandi og tillfinningaríkar hæðir.

– Egill Harðar


#9

Retro Stefson

Kimbabwe

Hafi Retro Stefson verið efnileg á frumburði sínum þá standa þau svo sannarlega undir því á Kimbabwe. Sveitin er öruggari án þess að missa sinn heillandi unggæðislega kraft og á plötu númer 2 taka þau stór framfaraskref, enda tekur hún forvera sínum fram bæði í hljómgæðum og fjölbreytni. Stefsynir og -dætur virðast óhrædd að kanna hvers kyns stefnur og strauma og án þess að platan hljómi sundurleit þá veit hlustandinn sjaldnast hvers sé að vænta eftir næsta hljómi.

– Pétur Valsson

#8

Skúli Sverrisson

Sería II

Þó einfaldleikans gæti við val á titli og umbúðum plötunnar þá eru lagasmíðarnar allt annað en einfaldar á Seríu II. Melódíur spinnast saman og mynda lög, lögin spinnast saman og mynda töfrandi heild sem dáleiðir hlustendur.

– Hildur Maral Hamíðsdóttir


#6-7

Agent Fresco

A Long Time Listening

Einstaklega fágað og nútímalegt prog-rokk, hlaðið tilfinningum og krafti. Alger tónlistarlegur rússíbani.

– Egill Harðar


#6-7

Jónas Sigurðsson & Ritvélar framtíðarinnar

Allt er eitthvað

Á Allt er eitthvað er að finna metnaðarfullt popp sem greinilega er búið að nostra lengi við. Laga- og textasmíðar eru til fyrirmyndar og útsetningar skemmtilegar. Jónas Sigurðsson er sennilega áhugaverðasti dægurlagasöngvari landsins um þessar mundir.

– Guðmundur Vestmann


#5

Ólöf Arnalds

Innundir skinni

Önnur plata Ólafar er um margt metnaðarfyllri en frumraunin og skartar níu lögum sem eru hvert öðru betra. Grípandi melódíur, varfærnislegur hljóðfæraleikur og tær raddbeiting einkenna Innundir skinni og festa Ólöfu í sessi sem indíprinsessu Íslands.

– Hildur Maral Hamíðsdóttir


#4

Miri

Okkar

Strákarnir í Miri nefna fyrstu plötu sína Okkar, sem er mjög viðeigandi því hér er á ferðinni persónuleg rokkskífa sem tekur sjálfa sig ekki of hátíðlega. Miri-menn eru ekkert að skorða sig við eina stefnu og fyrir vikið fer sköpunargleði á flug. Flott og frumleg rokkplata frá mjög efnilegri sveit.

– Guðmundur Vestmann


#3

Apparat Organ Quartet

Pólýfónía

Playmobil-karlarnir í Orgelkvartettinum Apparat komu loksins með plötu númer tvö. Hún gefur þeirri fyrri ekkert eftir: lagasmíðarnar eru fjölbreyttari, meira popp og meira rokk bæði í senn. Ef ég fæ svona tónlistarveislu á átta ára fresti þá prísa ég mig sælan. Þetta er algjör snilld!

– Guðmundur Vestmann


#2

Seabear

We Built a Fire

We Built a Fire er í senn poppuð og tilraunakennd, þjóðlagaskotin og rokkuð, döpur og upplífgandi, súrrealísk og jarðbundin. Frábær plata. Krúttið lifir!

– Kristján Guðjónsson#1

Jónsi

Go

Þrátt fyrir að það sé engum blöðum að fletta að á Go sé á ferðinni forsöngvari Sigur Rósar þá myndar Jónsi sinn eigin stíl og aðgreinir sig frá hljómsveitinni sinni. Jónsi notar hér tækifærið og prófar sig áfram með tónheim sem vart myndi passa innan ramma Sigur Rósar. Flúraðar útsetningar Nico Muhly og ofvirknistíll trommarans Samuli Kosminen falla einkar vel að nýblómgaðri popphlið Jónsa sem og dramatísku tilburðunum þar sem hann er í essinu sínu. Go sýnir nýja hlið á tónlistarmanni sem allir þekkja orðið mæta vel og þó svo að okkur þyrsti í nýtt efni frá Sigur Rós þá viljum við endilega heyra meira frá Jónsa líka!

– Pétur Valsson


Topp 20 erlendar plötur 2010:

#20-23

Corte Real

St. Louis

Ef þú leggur saman Bob Dylan, Serge Gainsbourg, The Pogues og franska tónlistarhefð færðu Corte Real.

– Egill Harðar#20-23

Deerhunter

Halcyon Digest

Það er erfitt að hrífast ekki með Bradford Cox og félögum í Deerhunter þegar þeir telja inn í sitt draumkennda súrkáls-indírokk. Tónlistin á Halcyon Digest rennur áreynslulaust í gegn, með sínum heillandi hljóðheim, og lagasmíðarnar vinna mann óhjákvæmilega yfir á sitt band.

– Kristján Guðjónsson

#20-23

Mountain Man

Made the Harbour

Hljómsveitin Mountain Man samanstendur af þremur Vermontstúlkur með guðdómlegar raddir, sem syngja ný-þjóðlagatónlist undir sterkum áhrifum frá gamaldags-kántrý og tónlist Appalachian-fjallanna. Hljómurinn á frumrauninni, Made the Harbour, er einstaklega minimalískur og heimilislegur og lögin eru annaðhvort hljóðfæralaus eða innihalda einfaldan kassagítarleik.

– Kristján Guðjónsson


#20-23

Young the Giant

Young the Giant

Young The Giant er vígalegur kalifornískur kvartett sem gaf út samnefnda frumraun á árinu 2010. Lögin er grípandi, dansvæn og bjóða upp á alls konar hljóðfæratilraunir. Mæli sérstaklega með laginu “My Body”. Ef það lag kemur þér á bragðið er um að gera að smakka á fleiri réttum.

– Björgvin Ingi Ólafsson


#17-19

Lightspeed Champion

Life is Sweet! Nice to Meet You

Með fjölbreyttari indie pop plötum sem heyrsta hafa lengi. Devonté Hynes fer um víðan völl og eru tónlistarlegar tilvitnanir hans skemmtilega lúmskar.

– Egill Harðar


#17-19

Massive Attack

Heligoland

Á Heligoland fær Massive Attack til liðs við sig nýjar raddir, en m.a. heyrist í Hope Sandoval (Mazzy Star), Tunde Adebimpe (TV on the Radio), Guy Carvey (Elbow) og Damon Albarn (Blur, Gorillaz). Kannski er það löng biðin eftir plötunni (7 ár!) eða hinir nýju gestasöngvarar sem gera trikkið, en Massive Attack hafa sjaldan hljómað betur.

-Hildur Maral Hamíðsdóttir


#17-19

Sleigh Bells

Treats

Hvað gerist þegar harðkjarnapönkari og popppía ákveða að stofna saman hljómsveit? Í tilfelli Sleigh Bells varð útkoman stórkostleg samsuða af ágengum bítum, skerandi gíturum og ótrúlega grípandi laglínum. Sleigh Bells hafa fundið upp alveg nýja gerð af popptónlist; aggressívt stuðpopp sem fer nærri því að sprengja hlustirnar.

– Pétur Valsson


#13-16

Avi Buffalo

Avi Buffalo

Nokkrir Kaliforníuunglingar vart komnir af gelgjuskeiðinu eiga frumburð ársins, enda kom Avi Buffalo öllum skemmtilega á óvart sem á hlýddu. Lagasmiðurinn Avigdor Zahner-Isenberg hefur á örskömmum tíma mótað sér hreint ótrúlega einkennandi stíl og er líklega einn besti lagasmíður seinni ára. Sá grunur læðist að manni að fyrsta plata bandsins sé einungis byrjunin á frábærum ferli og verður spennandi að fylgjast með þessum krökkum á komandi árum.

– Pétur Valsson


#13-16

Deftones

Diamond Eyes

Tilfinningaþrungin, hörð og melodísk. Deftones snúa aftur frá árinu 2006 með Diamond Eyes. Sannarlega ein af þeirra bestu plötum þar sem gamlir og nýir tímar innan sveitarinnar mætast. Plata sem unnendur rokksins ættu ekki að verða sviknir af.

– Daníel Hjálmtýsson


#13-16

Four Tet

There is Love in You

Hinn breski Kieran Hebden snýr aftur með breiðskífu sem Four Tet eftir 5 ára bið. Four Tet er að þessu sinni vel rafrænn og taktfastur og náði vaflaust að hrista lífið í nokkur deyjandi partí þetta árið. Virkilega góð plata sem ætti að heilla flesta sem áhuga hafa á góðri raftónlist.

– Guðmundur Vestmann


#13-16

Oh No Ono

Eggs

Stórmerkileg og frumleg plata frá sprenglærðum, dönskum íslandsvinum og Airwaves-förum. Ef þú fílar nýju MGMT plötuna þá ættir þú að kunna við þessa.

– Egill Harðar


#12

Broken Social Scene

Forgiveness Rock Record

Einkar þéttur hljómur einkennir Forgiveness Rock Record, fjórðu plötu Broken Social Scene. Allt frá hinu kröftuga upphafslagi ‘World Sick’ og ádeilu-olíu-óðsins ‘Texico Bitches’, til ljúfra ballaða á borð við ‘All to All’ og ‘Sweetest Kill’, sýnir hljómsveitin að hún er í fantaformi og hefur engu gleymt.

-Hildur Maral Hamíðsdóttir


#11

LCD Soundsystem

This is Happening

Þriðja plata James Murphy og félaga í LCD Soundsystem er sneisafull af pönkuðu elektróstuði og ljóst er að Murphy er ekkert að rýrna með aldrinum. Hver slagarinn er fluttur á fætur öðrum í passlega súrum og dillvænlegum útsetningum. Nú er bara að krossa fingur og vona að það komi eitthvað meira frá sveitinni.

– Guðmundur Vestmann


#9-10

Local Natives

Gorilla Manor

L.A. piltarnir í Local Natives hittu beint í mark hjá tónlistaáhugafólk á árinu með þjóðlagaskotnu indírokki sínu. Hrífandi raddanir piltanna smellpassa við angurværar lagasmíðarnar.

– Guðmundur Vestmann


#9-10

Titus Andronicus

The Monitor

The Monitor er stútfull af hressu og heimspekilegu lífsleiða-rokki, sem minnir mann helst á sótölvaðan Conor Oberst syngjandi írska drykkjusöngva með ofvirkt afkvæmi Neutral Milk Hotel og Against Me! á hljóðfærunum.

– Kristján Guðjónsson


#8

Caribou

Swim

Daniel Snaith mætti aftur til leiks með plötuna Swim, en þrjú ár eru síðan hin stórgóða Andorra kom út. Hér er á ferðinni sækadellískt stuðmósaík sem Caribou prýðir með sínum ámátlega söng. Klárlega besta elektró-skífa þessa árs!

– Guðmundur Vestmann


#7

Vampire Weekend

Contra

Haldið er áfram þaðan sem frá var horfið og þó platan standist ekki fullkomlega samanburð við frumburðinn er hún engu að síður stórgóð.

– Egill Harðar


#6

MGMT

Congratulations

Það bjuggust eflaust flestir við sölvænu vinsældapoppi en fengu í staðin gallsúrt, stórbrotið og margslungið tónverk. Sem betur fer!

– Egill Harðar


#5

Sam Amidon

I See the Sign

Þrátt fyrir að Sam Amidon standi föstum fótum í hinni bandarísku þjóðlagahefð, fer hann aldrei hefðbundnar leiðir. Hann skilur inntak alþýðutónlistarinnar; sem snýst ekki um að líkja eftir, heldur að gefa gömlum hugmyndum nýtt líf. Óviðjanfnanleg innlifun í flutningi Amidons og mögnuð hugmyndaauðgi Bedroom Community-hópsins í útsetningum skilar sér í frábærri plötu.

– Kristján Guðjónsson


#4

Joanna Newsom

Have One on Me

18 laga þrekvirkið, Have One On Me, er enn ein sönnun þess að hörpuleikonan Joanna Newsom er einhver stórkostlegasti lagasmiður dagsins í dag. Hún blandar saman áhrifum úr klassískum tónsmíðum og þekktum minnum alþýðutónlistarinnar í tímalausu verki. Stórbrotin lögin, ómfagrir textarnir og hugmyndaríkar útsetningarnar eru allt eins og best verður á kosið.

– Kristján Guðjónsson


#3

The National

High Violet

High Violet er plata sem tekur ágætis tíma og hellings hlustun að uppgötva almennilega. Þarna bjóða The National okkur upp á vel smíðaðar melódíur með þéttum hljóðfæraleik og örlítið rámum söng Matt Berninger þar sem hvert lagið er öðru betra. Plata sem hittir beint í mark!

– Hildur Maral Hamíðsdóttir


#2

Arcade Fire

The Suburbs

The Suburbs kom Arcade Fire í framlínu tónlistarsenunnar í heiminum ár og hefur aukið trú mína á mannkyninu. Mér finnst alveg frábært að jafn framsækið og leitandi band og þetta sé farið að spila á risastórum tónleikastöðum og seljandi músík í bílförmum. Platan er grípandi en þó framsækin og frábært framhald frábærrar fyrstu plötu eftir smá hiksta í hinni oft erfiðu annarri plötu.

– Björgvin Ingi Ólafsson#1

Beach House

Teen Dream

Með þriðju breiðskífu sinni, sem kom út í blábyrjun 2010, varð Beach House skyndilega á allra vörum. Á Teen Dream þróaði hljómsveitin áfram sinn dreymandi hljóm og náði enn nýjum hæðum. Beach House hefur á örfáum árum sannað sig sem ein af fremstu sveitum sinnar kynslóðar og sýnt fram á að uppskrúfað og yfirdrifið skrúð er ofmetið. Beach House þarf ekki að drekkja lagasmíðum sínum í óþarfa skrauti enda er íburðarlaus hljómur og einlægar lagasmíðar þeirra hreint ómótstæðilegar.

– Pétur Valsson