Nýtt lag frá Unu Stef

Lagasmiðurinn, söngkonan og tónlistamaðurinn Una Stef hefur gefið út lagið “I´ll be there” sem var tekið upp í Stúdíó Paradís í Reykjavík. Lagið er önnur smáskífa af breiðskífu Unu Stef sem er væntanleg í maí. Áður hefur hún sent frá sér lagið “Breathe”.

Rjóminn hlakkar til að heyra meira efni frá þessari hæfileikaríku stúlku.

Áhugasamir geta fundið Unu Stef á Facebook og Youtube reikningi hennar.

Kalel Cosmo gefur út smáskífuna Earth Rise

Kalel Cosmo

Tónlistarmaðurinn Kalel Cosmo hefur gefið út sína fyrstu smáskífu sem ber nafnið Earth Rise. Hugmyndin á bak við smáskífuna er geimurinn og ferðalag í gegnum tíma og rúm sem myndar fjögur samtengd en fjölbreytt lög plötunnar; “Earth Rise”, “Lost in time”, “Perihelion” og “Welcome to my world”. Lögin eru samin og tekin upp af Kalel sjálfum og einkennist tónlistin af popp-innskotinni raftónlist með nútíma hip-hop ívafi.

Platan er komin í sölu á Gogoyoko en jafnframt er hægt að hlusta á plötuna og hala henni ókeypis niður á Soundcloud.

Hljómsveitin Elín Helena gefur út breiðskífu

Elinhelena PromoPönkararnir í  hljómsveitinni Elín Helena gefa út breiðskífuna Til þeirra er málið varðar í dag. Um er að ræða hressandi rokktónlist með ögrandi textum á íslensku þar sem tekin eru fyrir hvers konar mein úr öllum hliðum samfélagsins – stjórnmál, fordóma, nöldur, utangarðslífsstílar, lífsgæði, ást, skortur á ást, svo fátt eitt sé nefnt. Plötunni er dreift af Records Records og fæst hún í öllum helstu plötubúðum. Platan er aðeins gefin út á vínyl, en geisladiskur fylgir með.

Lögin “Raunsæ rómantík” og “Bilaður rennilás” hafa þegar fengið að hljóma í útvarpi og tónleikahald er framundan, þ.á.m. á Bar 11 næstkomandi föstudagskvöld ásamt hljómsveitinni Muck og á Dillon þann 11. apríl ásamt hljómsveitunum Morgan Kane og Pungsig.

Slowsteps gefur út lagið Closer

Slowsteps Hljómsveitin Slowsteps hefur gefið út lagið “Closer” sem er þriðja smáskífulag af væntanlegri breiðskífu þeirra The Longer Way Home. Áður hefur Slowsteps gefið út smáskífulögin “Trespass” og “Color Calling” sem hefur fengið spilun á Rás2 ásamt umfjöllun á erlendum tónlistarvefjum.

Slowsteps dregur nafn sitt af samnefndri hljóðupptöku sem Sebastian Storgaard, forsprakkara hljómsveitarinnar, gerði fyrir 10 árum og þann tíma (m.ö.o. þau hægu skref) sem hljómsveitin tók til að þróa þann hljóm sem þau eru sátt við. Útkoman er einstök hljómblanda af hljóðgervlum, taktföstum trommutakti og mjúkum söngstíl.

Senn líður að Sónar 2014

Sónar Reykjavík 2014

Heimsfræga tónlistar- og nýlistahátíðin Sónar fer fram í annað sinn í Reykjavík dagana 13. til 15. febrúar 2014 í Hörpu. Sónar er alþjóðleg hátíð sem býður upp það ferskasta sem er að gerast í rafrænni tónlist hverju sinni, tengir saman sköpun og tækni ásamt því að vera vettvangur fyrir skapandi fólk til að hittast og þróa saman list sína. Hátiðin getur verið stökkpallur fyrir íslenskt listafólk en líkt og margir muna þá fékk íslenska hljómsveitin Sísí Ey boð um að spila á Sónar í Barcelona eftir flutning sinn á Sónar Reykjavík í fyrra.

Allst munu yfir 60 atriði koma fram á Sónar Reykjavík 2014 og um helmingur þeirra eru íslensk atriði. Meðal þeirra eru Sísí Ey, GusGus, Vök, Sykur, Highlands, Obja Rasta, Moses Hightower og Starwalker nýja verkefni Barða Jóhannssonar og Jean-Benoit Dunckel úr Air. Af stærri erlendum atriðum má nefna Major Lazer, Jon Hopkins, Bonobo og Daphni sem er hliðarverkefni Dan Snaith úr Caribou.

Rjóminn bendir gestum Sónar Reykjavík á að reima á sig dansskónna og opna skilningarvitin. Hátíðin er einstakur vettvangur sem blandar saman skemmtun og tilraunastarfsemi þar sem það nýjasta í framsækinni tónlist og tengdum listum fær að njóta sín. Líkt og í fyrra verður bílakjallari Hörpunnar breytt í sveitt dansgólf.

Enn eru nokkrir miðar í boði á hátíðina. Miðasala fer fram á miði.is