Ættu að kíkja Á Airwaves: #2 Kishi Bashi

Eins og kom fram í fyrsta pistlinum í þessari ritröð er fegurðin við að búa í stórborg eins og Chicago er að hér spila nánast allir. Ef einhverjir eru að reyna að meika það í Ameríku er alveg ljóst að þeir munu koma við. Vandinn er þó að framboðið er svo svakalega mikið að maður þarf að fylgjast vel með. Lítil bönd spila eðli málsins samkvæmt oft á litlum stöðum og því þarf maður að vera fljótur til ef maður ætlar að ná að sjá svoleiðis listamenn ef það er eitthvað „buzz“ í gangi. Ég ætla að rembast við að benda á sniðug bönd sem eiga hér leið um og hvetja Airwaves aðstandendur eða aðra tónleikahaldara að grípa þessar gullgæsir og lesendur Rjómans til að tékka á þessari músík.

Ég er sannfærður um að listamaðurinn sem nú er til umfjöllunar væri alveg frábær Airwaves listamaður. Í kringum hann er talsvert “buzz” í Ameríku þrátt fyrir að hann hafi enn ekki náð eyrum almennings svo nokkru nemur. Sem dæmi er hann með færri en 10,000 fylgjendur á Facebook. Til viðbótar hefur hann verið viðloðinn Of Montreal sem er nú Airwaves gestum vel kunn (ef mig misminnir ekki) og þau gætu því sagt honum beint frá snilldinni.

Kishi Bashi er listamannsnafn K Ishibashi sem er frá gröns borginni Seattle í Washington og fæddur árið 1975. Eftir að hafa getið sér gott orð sem fiðluleikari með flottum listamönnum eins og Regina Spektor og Of Montreal (sem hann er nú reyndar orðinn fullgildur meðlimur í) er hann nú að hoppa fram sem sólólistamaður. Músíkin hans er lúppuskotið gleðipopp með fiðlufjöri. Röddin hans er skemmtileg, textarnir flottir og eitthvað sem er miklu skemmtilegra að hlusta á en lýsa.

Hann gaf nýlega út plötuna 151A (sem hann gaf út eftir að hafa safnað $20,000 á Kickstarter). Hinn áhrifamikli þáttur á NPR (National Public Radio) All Songs Considered hefur lofað hann allt þetta ár og völdu tveir af stjórnendum lag Kishi Bashi, “Bright Whites”, besta lag fyrri hluta ársins og að sama skapi völdu hlustendum þáttarins plötu Kishi Bashi #14 á lista yfir bestu plötur fyrri hluta ársins í góðum félagsskap Of Monsters and Men #5 og Sigur Rósar #15.

Hér eru meðfylgjandi tvö lög af plötunni, “Manchester” og “Bright Whites”, og ef það vekur forvitni þá mæli ég með plötunni í heild sem og tónleikunum sem NPR hefur af góðmennsku sinni smellt á netið.

Lokaorðin eru einföld: Airwaves kappar, heyrið í Kishi Bashi því hann verður big time innan tíðar og hann verður gulltryggður success á Airwaves 2012.

Kishi Bashi- Bright Whites

Kishi Bashi – Manchester

Ættu að kíkja á Airwaves: #1 The Lumineers

Fegurðin við að búa í stórborg eins og Chicago er að hér spila nánast allir. Ef einhverjir eru að reyna að meika það í Ameríku er alveg ljóst að þeir munu koma við. Vandinn er þó að framboðið er svo svakalega mikið að maður þarf að fylgjast vel með. Lítil bönd spila eðli málsins samkvæmt oft á litlum stöðum og því þarf maður að vera fljótur til ef maður ætlar að ná að sjá svoleiðis listamenn ef það er eitthvað “buzz” í gangi. Ég ætla að rembast við að benda á sniðug bönd sem eiga hér leið um og hvetja Airwaves aðstandendur eða aðra tónleikahaldara að grípa þessar gullgæsir og lesendur Rjómans til að tékka á þessari músík.

Eitt svona “buzzband” er The Lumineers frá Colorado. Þeir spiluðu í næsta nágrenni við mig um daginn og það seldist upp á korteri. Ég náði ekki í miða og gældi við að kaupa miða þreföldu verði á eftirmarkaði en lét ekki verða af því. Svo skemmtilega vildi til að útvarpsstöð ein bauð upp á “fyrstir koma fyrstir fá” tónleika á undan hinum tónleikunum. Ég mætti með vini mínum rúmum hálftíma áður en húsið opnaði og náði í miða sem var bara hið besta mál.

Þetta band er að mínum dómi alveg týpiskt Airwaves band og því sendi ég aðstandendum góðlátlega ábendingu um að grípa þá áður en þeir verða of stórir. Það er alla vega alveg ljóst að það er mikið buzz í kringum kappanna hér í Ameríku. Ég spjallaði aðeins við söngvarann eftir tónleikana og sagði þeim að það væri snilldin ein að koma við og spila á Íslandi á leiðinni yfir hafið á tónleikaferð í Evrópu. Honum fannst það alveg frábær hugmynd.

The Lumineers er vinalegt indípoppband sem skartar m.a. selló og er því með örlitlar “folk rætur”. Svo skemmtilega vill til að Of Monsters & Men koma upp sem fyrsta band yfir “similar artists” á Last.Fm sem kemur svosem ekki á óvart enda bæði böndin í “Hó Hey bransanum”. Aðalhittari The Lumineers ber einmitt heitið “Ho Hey” og er bara hið hressasta

The Lumineers – Ho Hey (Official Video)

Það eru margir músíkbloggarar alveg að missa sig yfir þessu og þetta fannst mér alveg frábært dæmi. Þessum finnst þetta frekar fínt stöff.

“Occasionally an album will come around and blow me away. Make my bones ache because it is so good. I can feel it in my heart, my pulse speeds up and my body starts moving. I can’t stop it.” – Sjá nánar hér

Niðurstaða mín er semsagt alveg skýr. The Lumineers er hið hressasta band og stórskemmtilegt á tónleikum. Krakkarnir eru voðalega auðmjúkir og fínir og myndu sóma sér vel á Airwaves. Airwaves – yfir til þín.

The Lumineers – Full Performance (Live on KEXP)

Of Monsters and Men og Sigur Rós á Lollapalooza í sumar

Í dag var tilkynnt hvaða listamenn mæta á Lollapalooza í Chicago 3.- 5. ágúst í sumar og ber hæst að Of Monsters and Men og Sigur Rós munu representa Ísland á hátíðinni. Að venju er boðið upp á spennandi blöndu af rótgrónum listamönnum og nýjum og ferskum listamönnum.

Í boði verður allt frá Black Sabbath og Red Hot Chili Peppers til nýstirna eins og Alabama Shakes.

Alabama Shakes – Hold On

Ég er talsvert spenntari fyrir lænöppi ársins en í fyrra og auðvitað ánægður með vægi íslenskra banda. Það verður mjög fróðlegt að sjá stemmninguna fyrir Íslendingunum í sólinni í sumar og þá sérstaklega hvernig OMAM hafa þróast með massívri spilamensku á árinu 2012.

Ég er t.d. spenntur að sjá Black Keys, Jack White, Florence + the Machine, The Shins, Justice, Bloc Party, M83, Tune-Yards, The Head & the Heart, The Tallest Man on Earth, Alabama Shakes, The Fun, The Walkmen, Band of Skulls, Neon Indian, The War on Drugs og ýmislegt fleira að íslensku böndunum ótöldum.

Local Natives ólmir að koma á klakann

Fyrir tónleika Local Natives í gærkvöldi í Chicago spjallaði ég fyrir hönd Rjómans stuttlega við Taylor Rice, söngvara og gítarleikara þessarar ágætu kaliforníu sveitar.

Local Natives hefur átt sérlega góðu gengi að fagna eftir útgáfu fyrstu plötu sinnar Gorilla Manor. Eftir mikið spilerí með sveitum eins og Arcade Fire og The National undanfarin misseri voru tónleikarnir í gær hinir síðustu í bili enda sveitin í þann mund að hefja smíði annarar plötu sinnar.

Taylor er hinn vænsti drengur og aðspurður var hann meira en til í að koma til Íslands. Hann vissi ekki mikið um Ísland en var mikill aðdáandi okkar stærstu tónlistarstjarna. Hann lýsti ómældri aðdáun sinni á Björk Guðmundsdóttur og þekkti feril hennar og sögu greinilega mjög vel og var auk þess mjög hrifinn af Sigur Rós. Ég sagði honum endilega að kynna sér íslenska músík frekar enda væri ýmislegt “Beyond Sigur Rós” og benti honum á samnefnda heimildarmynd.

Local Natives – Sun Hands (Live on KEXP)

Ég gerði mitt besta að sannfæra hann um að Ísland væri frábært tónleikaland fyrir Local Natives. Með rökunum að Iceland Airwaves væri frábær hátíð, Harpan frábær staður til að spila á og að Ísland væri frábær viðkomustaður á leið yfir Atlantshafið var hann sannfærður, hafi hann ekki verið það fyrir, að Local Natives þurfi að láta sjá sig á klakanum innan tíðar.

Hvað segið þið? Væri stemmning fyrir Local Natives á klakanum?

Hvort það verður á Iceland Airwaves eða síðar er þá bara spurning. Hressir prómótórerar sem vilja komast í samband við bandið skulu endilega hafa samband við Rjómann.

Íslensk músík rokkar í amerískum auglýsingum

Íslenskir tónlistarmenn láta víða að sér kveða. Þessar tvær auglýsingar eru mikið sýndar hér í Ameríku um þessar mundir og skarta íslenskri músík. Einhverjir aurar í kassann þar – sem er gott.

Jónsi í Ford Explorer auglýsingu

Auglýsing var meðal annars leikin á meðan á Grammy verðlaununum stóð.

Birgir Hilmarsson í Motorola auglýsingu

Biggi Hilmarsson (úr Ampop) gerði þessa flottu músík við auglýsingu sem Motorola birti milljónatugum í auglýsingahléinu á Superbowl.

Bright Eyes – People’s Key

Útgáfuár: 2011
Útgáfa:
Saddle Creek Records
Einkunn: 3,0

Það er erfitt að skilja á milli Bright Eyes og forsprakkans Conor Oberst. Conor er Bright Eyes og Bright Eyes er Conor þó í sveitinni séu alltaf fleiri en hann. Án hans væri ekki Bright Eyes. Nóg um það.

Hvernig fylgirðu eftir snilld?
Í mínum huga er Bright Eyes svolítill fangi glæstrar fortíðar. Það er erfitt að fylgja eftir eins frábærri plötu og Lifted or The Story Is in the Soil, Keep Your Ear to the Ground. Þó liðin séu 11 ár frá útkomu plötunnar og stórra yfirlýsinga um að Conor sé “Bob Dylan sinnar kynslóðar” miðar maður allt við þessa plötu. Það er talsverð pressa að gefa út snilld 19 ára.

Síðan hafa fylgt á eftir frábærar plötur eins og uppáhaldið mitt, Wide Awake it is morning, frá 2005 (eftir hana kallaði Rolling Stone hann besta lagahöfund í Ameríku) og aðrar heldur slakari.

Í mínum huga nær People’s Key alls ekki að ryðja Lifted… eða Wide Awake… af stallinum og er í raun aldrei nálægt því. Platan sem kom út 15. febrúar, á þrítugsafmæli Conors gæti verið síðasta platan undir Bright Eyes nafninu. Hann hefur oft sagt að aukasjálfið Bright Eyes hafi runnið sitt skeið og maður skilur alveg af hverju.

Ég er einnig orðinn hálfleiður á þessum eintölum sem plöturnar hafa oft byrjað á og eru gegnumgandandi á þessari plötu. Þetta er í mínum huga eitthvað flipp sem gat alveg verið sniðugt á einni og einni plötu en ekkert sem nauðsynlegt er að praktísera alltaf. Á People’s Key er það Denny Brewer, vinur Conors frá Texas sem blaðrar víða á plötunni og bætir ekki miklu við það sem annars hefði orðið.

Ekki platan sem breytir lífi þínu
Platan er í raun ágæt og ef maður hefði ekki hinar glæstu viðmiðanir þá þætti mér örugglega miklu betra. Textarnir eru flestir mjög flottir en lögin ná aldrei að stíga upp úr meðalmennskunni þó séu í raun ágæt. Ekkert kallar á mann sem algjör snilld eða eitthvað sem maður á eftir að hlusta á milljón sinnum næstu árin.

Conor hefur alltaf blandað skemmtilega saman áhrifum úr ýmsum áttum. Hann er einlægur þjóðlagasöngvari, æstur pönkari sem og heimsendaspámaður og sálarleitandi í senn.  Conor heggur í sama knérunn og oft áður og er heldur heimakær í tónlistarsköpuninni. Hann er smeykur við að fara langt frá því sem hann hefur gert áður sem er synd og skömm. Að gera eithvað nýtt er akkúrat það sem ég og aðrir aðdáendur Bright Eyes þurfa á að halda.

Uppáhaldslögin mín eru önnur smáskífan Haile Selassie sem er frábær slagari, Approximate Sunlight flottur rólegheitasöngur og píanótjillið Ladder Song sem er mínum dómi hápunktur plötunnar. Heildin er bara ekki alveg nógu sterk og hápunktarnir eru allt of fáir og rísa ekki nógu hátt. Auðvitað eru ekki allir sammála. NPR segir til dæmis að þessi plata sé hans albesta.

Hlustaðu á plötuna í heild sinni

15. mars koma Bright Eyes í heimsókn til mín til Chicago. Ég vonast innilega eftir algjörum snilldartónleikum og að platan fái nýja þýðingu fyrir mig eftir þá tónleika. Tónleikar breyta oft skoðun á plötum til hins betra. Vonandi á það við þessa plötu (því hún má alveg við því).

Amerískar tónlistarhátíðir taka á sig mynd

Það er að komast mynd á margar af tónlistarhátíðum sumarsins hér í Ameríku. Nokkrar af þessum stóru eiga þó eftir að gera grein fyrir dagskránni. Það sem er komið er þó góð vísbending um hvers megi vænta því oftast eru sömu stóru atriðin á öllum hátíðunum. Í Bandaríkjunum er meira af öllu, því má búast við að það verði yfir 2500 tónlistarhátíðar á árinu 2011 og því erfitt að fjalla um þær allar hér. Þær sem ég er spenntastur fyrir eru þessar…

Coachella, 15. – 17. apríl
Hin magnaða eyðumerkurhátíð Kaliforníu hefur birt dagskrána. Stærstu nöfnin í ár eru Kings of Leon, Black Keys, Arcade Fire, Kanye West og The Strokes. Af öðrum spennandi má nefna The National, Cut Copy, Death from Above 1979 og Suede sem væntanlega munu leika einhverja af sínum klassísku plötum í heild sinni. Uppselt er á hátíðina að venju.

Meira: http://www.coachella.com/

Sasquatch, 27. – 30. maí
Stærstu böndin eru Foo Fighters, Death Cab For Cutie, Wilco , Bright EyesIron & Wine, Wolf Parade (sem ég hélt að væri í pásu), The Flaming Lips að leika The Soft Bulletin, og The Decemberists. Meðal smærri nafna sem mæta til Gorge í Seattle eru vinir mínir í Young the Giant og Local Natives. Frábær hátíð til að kíkja á með beinu flugi Icelandair til Seattle.

Meira: http://www.sasquatchfestival.com/

Bonnaroo, 9-12. júní
Tíu ára afmælishátíð Bonnaroo í Manchester Tennessee verður í sumar. Þeir hafa ekki birt dagskrána í sumar en hún verður án efa frábær. Í fyrra voru meðal annars Jay-Z, Kings of Leon, Weezer, Flaming Lips (að spila Dark side of the moon) og Phoenix.

Meira: http://www.bonnaroo.com/

Lollapoolooza, 5.- 7. ágúst
Tuttugu ára afmælishátíð Lollapoolooza er hátíðin sem ég bíð spenntastur eftir. Í fyrsta skipti er mini-útgáfa haldin í Chilé nú í vor og er listinn yfir flytjendur þar góð vísbending hvers megi vænta í Chicago í sumar. Þar leika meðal annars The Killers, Kanye West, CSS, Cat Power, The Flaming Lips, The National, Jane’s Addiction og Yeah Yeah Yeah’s.

Meira: http://www.lollapalooza.com

Glæsilegt Geisp!

Chicago sveitin YAWN framreiðir dans, elektróník eða sækadelískt transað popp með afró bítum. Þessi setning er góð ástæða fyrir því að maður á kannski ekki að vera að rembast við að skilgreina músík. Þetta hjálpar þér eiginlega ekki neitt. Það hjálpar hins vegar mjög að tékka á tónlistinni.

Þeir eru líka það svalir að þú þarft ekkert að rembast við að stela músíkinni þeirra því nýja EP platan er í boði alveg ókeypis á síðunni þeirra.

(ZIP skrá með EP plötu YAWN)

Sveitin var stofnuð fyrir um fimm árum þegar strákarnir voru saman í menntaskóla. Þeir hafa verið duglegir að undanförnu og eru á fullu að vinna að stórri plötu sem er væntanleg í vor. Það verður mjög spennandi að heyra hana og hvort þeim tekst að fylgja þessari fínu EP plötu eftir. Þeir hafa verið að túra með Local Natives og eru meðal þátttakenda á South By Southwest hátíðinni sem vonandi gefur þeim frekari byr í seglin.

YAWN – Kind of Guy

YAWN – Kind Of Guy from Druid Beat on Vimeo.

Valkvíði tónlistarunnandans í stórborginni

Er ekki ágæt hugmynd að lofa Rjómverjum að fá innsýn í líf tónlistarnörds í almennilegri stórborg?

Einn af mörgum kostum þess að búa í stórborg eins og Chicago er óendanlegt framboð af tónleikum. Framboðið er það mikið að maður verður allt of góðu vanur. Til þess að maður nenni upp úr sófanum þarf það að vera eitthvað frábært – því eitthvað næstum því frábært kemur líklega aftur í næstu viku. Það þarf aga og það þarf metnað til að sjá (flest) það sem mann langar til að sjá.

Í haust sá ég My Morning Jacket (set-listi), Vienna Teng, The National (set-lsti), The New Pornographers (set-listi) og Jónsa (set-listi). Ég stóð mig að því að nenna ekki á fullt af tónleikum og hef séð stórkostlega eftir sumum þeirra. Efst á eftirsjáarlistanum eru eðalbönd eins og Mumford & Sons og The Black Keys. Eitt af markmiðum ársins 2011 er því að fá miða á sem flesta tónleika og mæta. Árið byrjaði vel og lítur þrælvel út.

#1 Young the Giant @ Schubas
Fyrstu tónleikar ársins voru þegar ég sá hið frábæra kaliforníska band Young the Giant á mjög skemmtilegum klúbbi í Chicago sem heitir Schubas. Bandið leikur létt og lifandi melódískt rokk/popp. Sumum þykir þetta minna á fyrstu plötu Killers. Ég hef mjög gaman að þessu bandi en ef þið hafið enga trú á því að þetta sé skemmtilegt þá er um að gera að lesa nýlegan dóm snobbhundanna á Pitchfork um plötuna þeirra. Þar á bæ þykir platan vægast sagt ömurleg.

Young the Giant leika “My Body” hjá Jimmy Kimmel

#2 Ólafur Arnalds @ Chicago Cultural Center
Ólaf Arnalds ásamt hljómsveit á síðdegistónleikum í magnaðri menningarmiðstöð borgarinnar. Tónleikarnir voru í Preston Bradley Hall sem er opið miðrými undir stóru hvolfþaki. Ég hafði enga hugmynd um hversu margir myndu mæta á tónleikana en vonaðist svo sannarlega til að landarnir myndu nú fá sæmilega mætingu, sérstaklega í ljósi þess að það kostaði ekkert inn. Á tónleikana mættu örugglega um 300 manns og var ekki annað að sjá en að Íslendingarnir færu vel í manskapinn. Mér og mínum þótti þeir a.m.k. standa sig frábærlega. Þau héldu aðra tónleika um kvöldið sem mér skilst að hafi einnig gengið rosa vel.

Ólafur Arnalds @ Preston Bradley Hall

Ég er búinn að bóka slatta af tóleikum fram á vor: Interpol (2/12), Small Sins (3/2), Iron & Wine (3/4), Bright Eyes (3/15) og síðast en ekki síst Arcade Fire og The National (4/25). Ég er ótrúlega ánægður með þetta plan.

Í sumar er svo stefnan sett á Lollapoolooza hátíðina sem fer fram í ágúst og jafnvel Pitchfork hátíðina sem fer fram í júlí. Það er eitthvað sem Rjómverjar ættu að tékka á. Hátíðin á 20 ára afmæli á þessu ári og því er pottþétt að hátíðin verður svakaleg. Um að gera að nýta sér beint flug Iceland Express og mæta á svakalega tónlistarhátíð í borg þar sem bjórinn kostar ekki 1500 kall.

Mest hlakka ég þó til 7. júlí en þá mæta The Flaming Lips hingað og leika hina mögnuðu plötu The Soft Bulletin í heild sinni (sjá).

Ég er einnig að velta fyrir mér að sjá Lady GaGa síðar í mánuðinum og jafnvel Robyn. U2 mæta svo í sumar og mér skilst að það sé skylda að sjá þá a.m.k. einu sinni á ævinni.

Ég reyni að fylgjast með því sem er að gera hjá ungum og upprennandi tónlistarmönnum í Chicago. Eitt af böndunum sem ég er mjög hrifinn af er YAWN sem er að vinna að plötu í fullri lengd en gaf nýverið gaf út EP plötu sem nálgast má frítt (mp3). Mæli með því að þið náið ykkur í þessa músík.

YAWN – Kind of Guy

Hjaltalín – Terminal

Hjaltalín - TerminalEinkunn: 4.5
Útgáfuár: 2009
Útáfa: Borgin

Önnur plata Hjaltalín, Terminal, kom út í dag. Hin fyrsta, Sleepdrunk Seasons,  kom út árið 2007 og fékk þá mjög góðar viðtökur sem urðu enn almennari og betri á árinu 2008. Þá kom platan út í nýrri útgáfu með hinni gríðarvinsælu ábreiðu „Þú komst við hjartað í mér“ eftir Togga sem Páll Óskar hafði áður gert vinsælt og seldist þá eins og heitar lummur.

Þegar Sleepdrunk Seasons kom út skrifaði ég mikinn lofdóm um plötuna á Rjómann og sagði hana standa upp úr á frábæru tónlistarári. Það sama segi ég nú.

Terminal stendur upp úr á frábæru íslensku tónlistarári og er frábært framhald frábærar frumraunar. Held ég sé búinn að segja frábært nógu oft. Orðið frábært mun ekki koma fyrir aftur í þessum dómi. Lofa!

Hjaltalín er stór sveit. Hún er ekki aðeins fjölmenn og nýtur oft stuðnings fjölda annarra hljóðfæraleikara heldur er hljómurinn einnig stór og útsetningarnar miklar. Þetta er keppnis! Ég er ekki frá því að þessi plata sé stærri en sú fyrri. Kammerproggið þeirra er sér á partí íslensku flórunni og er enn meira spennandi fyrir vikið.

Þetta er ekki plata til að hafa í gangi við eldhúsverkin eða í ræktinni. Þetta er svona „hlustunarverk“, plata sem nýtur sín best með fullri athygli. Þú hallar þér aftur í sófanum og setur græjurnar í botn, lokar augunum og hlustar af athygli.

Þegar Sleepdrunk Seasons kom út höfðu lögin á plötunni hljómaði lengi á tónleikum. Maður hafði haft langan tíma til að melta þau og það er í raun nauðsynlegt þegar Hjaltalín er annars vegar. Við fyrstu hlutun á Terminal þóttu mér bestu lögin vera lögin sem ég hafði hlustað á lengst og þekkti best. Lögin sem maður þekkti minnst voru lögin sem manni þótti tormeltust. Maður þarf svolítið að melta lögin til að komast að þeim.

Fyrsta lagið af Terminal sem fékk að hljóma er upphafslagið “Suitcase Man”. Þegar lagið kom út fannst mér það ekkert sérstakt. Ég hafði lengið beðið nýju plötunnar og lagið náði ekki að standast væntingar, var hálfgerð vonbrigði. Fannst þetta eitthvað óttalega mikið hjakk. Nú, nokkru síðar, þykir mér “Suitcase Man” frábært lag og frábært upphafslag á plötunni. Gefur tóninn skemmtilega fyrir það sem koma skal. Það þarf að gefa þessari snilld smá tíma. Ef þú gerir það færðu ríkulega launað.  Núna rennur “Stay By You”, annað lag sem hefur fengið nokkuð að hljóma, til að mynda ljúflega í gegn, nánast faðmar mann við fyrstu hlustun plötunnar með sínu grípandi bassariffi. Það þurfti alveg sinn tíma á sínum tíma þegar það hljómaði fyrst. Þannig er Hjaltalín – þarf sinn tíma.

Hjaltalín – Stay By You

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Á plötunni nýtur samsöngur Högna og Sigríðar Thorlacius sín vel. Þau hafa mjög ólíkar raddir sem búa til undarlegt jafnvægi í lögum Hjaltalín. Þetta kemur til að mynda vel framí ljúfu öðru lagi plötunnar, “Sweet Impressions”. Varla þarf að eyða orðum í hljóðfæraleikinn. Það er í raun sjálfsagt að hann sé mjög góður.

James Bond slagarinn “Feels Like Sugar” er í augnablikinu uppháhalds lagið mitt á plötunni. Reynslan hefur þó sýnt að það kann að breytast og önnur lög munu taka yfir. Ég er sannfærður um að Sigríður er nýbúinn að eiga tregafullt samtal við Roger Moore þegar ég heyra sönginn í þessu frábæra lagi. Strengirnir eru sérlega flottir og hrynjandin glæsileg.

Sum lögin eru þung og önnur léttari. Breiddin er talsverð. Án þess að nokkuð sé hallað á þau lög skal ég hundur heita ef “Song From Incidental Music” eða “Sonnett for Matt” nær toppnum á vinsældalistum verandi nokkuð þung og dramtísk. Erfiðara er að ráð í lög eins og “Hooked on Chili” eða lokalagið “Vanity Music”. Mér kæmi hins vegar alls ekkert á óvart ef diskóslagarinn “7 Years”, sem Gibb bræður hefðu verið fullsæmdir af, eða kraftslagarinn “Water Poured in Wine” næðu vinsældalistatoppnum innan tíðar.

Niðurstaðan er að Terminal, önnur plata Hjaltalín, er frábær (úbbs) og fær sama dóm og fyrri platan, 4,5. Það er algjör óþarfi að setja hana skör ofar eða neðar. Báðar eiga heima í öllum virðulegum tónlistarsöfnum. Skellið Terminal og öðrum snilldarplötum íslensks tónlistarárs í jólapakkann. Þá verður enginn svikinn – ekki einu sinni amma eða leiðinlegi frændinn

Monsters of folk mæta í haust

Úrvalshópur mikilla meistara gefur út plötu 22. september undir nafninu Monsters of folk en hópurinn túraði undir því heiti 2004. Þarna eru á ferðinni þeir Conor Oberst (Bright Eyes), Jim James (My Morning Jacket), M.Ward og Mike Mogis sem er nú aldrei langt undan þegar Conor Oberst er annars vegar. Þetta verður eitthvað nett flipp þar sem hljóðfæraskipan verður ekki eins og ætla mætti fyrirfram.mof

Lagalistinn verður víst svona:

‘Dear God (sincerely M.O.F.)’
‘Say Please’
‘Whole Lotta Losin’
‘Temazcal’
‘The Right Place’
‘Baby Boomer’
‘Man Named Truth’
‘Goodway’
‘Ahead Of The Curve’
‘Slow Down Jo’
‘Losin Yo Head’
‘Magic Marker’
‘Map Of The World’
‘The Sandman, The Brakeman And Me’
‘His Master’s Voice’

Á tónlistarblogginu FuelFriends má fá næla sér í tónleika með þeim félögum frá árinu 2004 sem gefur e.t.v. forsmekk að því sem koma skal. Mæli með því.

Það er ekki laust við að maður hlakki til að heyra plötuna í haust. Þangað til hlustar maður þó bara á aðra nýja góða tónlist.

Baggalútur – Nýjasta Nýtt

Einkunn: 4
Útgáfurár: 2008
Label: Sena

Baggalútur - Nýjasta nýttGleðipoppið glímir við gáfumannapoppið. Annað er ættað frá Selfossi, hresst og skemmtilegt en umfram allt ómerkilegt og auðgleymanlegt. Gáfumannapoppið er spilað í kúltiveruðum partíum hjá bókmenntafræðingum en stuðið er víðsfjarri. Textarnir eru þó djúpir, fyndnir og fallegir. Hvort um sig er ágætt en alls ekki fullnægjandi eitt og sér.

Hvort vill maður þá hlusta á?

Svarið við því er einfalt. Þú vilt hvorugt eða bæði. Þú vilt líklega Baggalút. Baggalútur getur nefnilega bæði verið hresst, eftirminnilegt og aðlagandi. Stuðið er ógurlegt og textarnir fyndnir, fjörugir og frábærir. Baggalútur færir á plötunni „Nýjasta nýtt“ gleðilegt gáfumannapopp par exelans.

Og við sinn kísilbætta barm
þær bera hljóðan innri harm.
Og gráti þær þá gjörist netið hægt.

-úr Stelpunum á Internetinu

Af mörgum góðum lögum er „Laugardagskvöldið“ sungið af Karli Sigurðssyni líklega toppurinn eða að minnsta kosti í uppáhaldi hjá mér hérna. Frábærlega hress tragikómískur stuðsöngur um félagann sem fullur bjartsýni fer á fyllerí fullur af bjartsýni og fínni stemmningu. Um leið og ég sætti mig við hina ætluðu viljandi málfarsvillu í textanum og fór hreinlega að fíla hana var lagið algjörlega skothelt.

Græja drykki, gaumgæfi framboðið.
Gamall lager, hér er mér ekkert samboðið.
Svona á fyrsta bjór.

-úr Kósíkvöldi í kvöld

Önnur topplög eru upphafslagið „Kósíkvöld í kvöld“, „Bannað að reykja“ sem Eiki Hauks syngur og „Túvalú“ sem var víst samið því „allir voru að gera svona eyjalög“. Öll lögin eru þó þrælfín og fara vel í flestar græjur í stofu sem eldhúsi.

Baggalútur á skemmtilegustu plötu síðasta árs. Mæli eindregið með henni og hvet Baggalúta til áframhaldandi gleðigjafar. Verði stuð!

Fjögur lög af plötunni á vef Baggalúts

Bishop Allen – GRR…

Einkunn: 3,5
Útgáfuár: 2009
Label: Dead Oceans

Þann 10. mars kom út þriðja breiðskífa Brooklyn sveitarinnar Bishop Allen. Kannski ekki mjög töff að hugsa til þess en bandið heitir eftir götu sem þeir bjuggu við þegar þeir voru í námi í Harvard. Jú er ekki bara töff að vera tónlistarnördar í Harvard?

Bishop Allen - Grrr...Bishop Allen leikur létt og lifandi gleðirokk. Mér finnst myndin á umslaginu eiga ágætlega við músikina. Björt, létt og góður galsi í þessu. Sumir kalla þetta indírokk en ég veit aldrei hvað það þýðir. Útgáfan þeirra kallar þetta góðmeti fyrir gáfumenni og það er líka rosalega fínt. Textarnir eru liprir og spilamennskan fjörug. Þeir spila á úkalele sem er alltaf hressandi.

Söngvarinn Justin Rice er með fína rödd og svo spilar hann á hljómborð sem mér finnst alltaf góður kostur góðra manna. Hinn aðalgæinn heitir Christian Rudder og spilar á gítar, bassa og fleira. Hinir og þessir vinir þeirar mæta svo til leiks og syngja (Darbie Nowatka), spila á trommur (Michael Tapper) og leika á blásturshljóðfæri. Nöfnin þar á bak við segja mér reyndar ekki mikið en standa sig bara vel. Engu yfir þar að kvarta.

Eftir því sem við á kalla þeir svo á vini og félaga til að spila með þeim á plötum og tónleikum. Áður hafa þeir félagið gefið út tvær breiðskífur. Árið 2003 kom Charm School út og vakti ágæta athygli og árið 2007 kom The Broken String út. Mér finnst reyndar skemmtilegast stöntið þeirra vera að gefa út eina EP plötu mánaðarlega allt árið 2006. Það er góður Bibbi Curver í því. Nýja platan er 13 lög og er bara helvíti hressandi og skemmtileg.

Bishop AllenÁ heimasíðunni gera þeir grín að því að þó að platan komi út í mars þá hafi allir heyrt hana í gegnum einhver stórhættuleg torrent forrit. Til að bregðast við þessu öllu þá er slatti af lögum á síðunni þeirra og þeir bjóða svo upp á að þeir sem kaupa plötuna fái að hlaða henni niður viku fyrir formlegan útgáfudag. Um að gera að bregðast við þessum skrýtnu tímum með einhverjum svona aðgerðum.

Af lögunum 13 á plötunni er ég hrifnastur af “Don’t Hide Away”, “The Ancient Commonsense Of Things” og “The Lion & The Teacup”. Platan er heilsteypt og áheyrileg en mun ekki breyta tónlistarsögunni. Tékkið endilega á nýju plötunni með Bishop Allen. Alveg ágætis stöff þar á ferð.

The Ancient Commonsense Of Things

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Dimmer

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Heimasíður
www.deadoceans.com
www.bishopallen.com

Bragi Valdimar Skúlason og Memfismafían – Gilligill

Einkunn: 4
Utgafuar: 2008
Label: Sena

Bragi Valdimar Skúlason færir okkur lög og texta í flutningi einvalaliðs söngvara og úrvals hljóðfæraleikara Memfismafíunnar.

Bragi Valdimar Skúlason og Memfismafían - Gilligill Það eru til þrenns konar barnaplötur. Barnaplötur sem öllum þykja leiðinlegar, meira að segja krökkunum. Hættulegasta tegundin er barnaplötur sem börnin elska en foreldrarnir hata. Slíkar plötur geta valdið óróa á heimilum. Ítrekuð spilun slíkra platna getur gert alla foreldra kolbilaða. Þriðja tegundin er svo eina tegundin af viti. Barnaplötur sem krakkarnir elska og foreldrarnir fíííla. Gilligill er sem betur fer þannig plata. Þar færir Bragi Valdimar Skúlason okkur lög og texta í flutningi einvalaliðs söngvara og úrvals hljóðfæraleikara Memfismafíunnar.

Platan er ein ellefu lög. Lögin eru mis stór að gerð og umfangi. Allt frá því að vera stuttir léttir brandarar eins og “Kallinn sem keyrir mig í skólann” sem er ekki nema 53 sekúndur yfir í stór og glæsileg lög eins og “Laugardagsmorgun korter yfir sex”. Mitt á milli eru glettnisslagarar eins og “Pabbi minn er ríkari en pabbi þinn” og “Hvað segja dýrin?”. Mér þykja flest lögin alveg stórgóð. Það er eitthvað við “Ævintýrið um Sipp” sem Egill Ólafsson syngur sem mér líkar ekki. Einhverra hluta vegna kemur yfir mig eilítil þörf að spóla yfir þegar það lag kemur. Að öðrum hluta líður platan vel í gegn. Textarnir eru auðvitað alveg stórkostlega skemmtilegir og frasarnir fljóta um og eru minnisstæðir.

Fín spilamennska – Fínn söngur
Söngvararnir eru fjölmargir og allir stórgóðir. Sigríður Thorlacius, úr Hjaltalín, stendur sig gríðarvel og gáskafullur söngur Möggu Stínu á sérlega vel við. Aðrir söngvarar færa plötunni fínan sjarma. Sigtryggur Baldursson, Snorri Helgason (Sprengjuhöllin), Guðmundur Pálsson (Baggalútur) og Sigurður Guðmundsson (Hjálmar) og Egill Ólafsson standa sig allir vel og eins kíkir Bó Halldórsson við í einu lagi í mýflugumynd og gerir það vel.

Það verður gaman að sjá hvort að lögin muni lifa eða hvort að “Pabbi minn er ríkari en pabbi þinn” er bara stundarbrandari sem á vel við í ólgusjó 2008 en ekki í stilllunni 2020. Platan heggur í sama knérunn og frábærar barnaplötur fyrri ára þar sem Hrekkjusvínin tróna hæst. Sú plata á enn sérlega vel við og vonandi verður skírskotun Gilligill jafn sterk í framtíðinni og Hrekkjusvínin hafa nú.

Gilligill tónleikar
Aðstandendur plötunnar hafa staðið fyrir vikulegum tónleikum í Salnum í Kópavogi þar sem farið er í gegnum Gilligill prógrammið. Ég fór þarna með ungviðinu síðustu helgi og get hiklaust mælt með því að fólk kíki með ungana á síðustu tónleikana sem eru næsta sunnudag kl 15. Miðaverðið er bara 1.500 kall og stemmningin er rosaleg góð. Hljóðfæraleikur og söngur er svo alveg til fyrirmyndar. Egill Ólafsson fór fyrir sveitinni sem hálfgerður tónleikastjóri og gerði það vel. Ég gat ekki séð annað en bæði börn og fullorðnir skemmtu sér svakalega vel.

Ravens & Chimes – Reichenbach Falls

Ravens & Chimes - Reichenbach Falls
Einkunn: 3.5
Utgafuar: 2008
Label: Shellshock UK

Klassísk menntaðir krakkar með notalegt nýjabrum frá NY.

New York sveitin Ravens & Chimes gefur út plötuna Reichenbach Falls í Evrópu þann 22. apríl en platan komst fyrst í vestan hafs í fyrra. Mjög spennandi sveit og spennandi plata. 

Fyrsta lagið þarf að grípa
Miðað við ótrúlegt framboð af músik út um allt þá er alltaf gleðilegt að finna eitthvað sem manni líkar. Maður þarf að hafa sig allan við að hlusta á það sem hinir og þessir eru að benda manni á. Maður gerir það svo sjaldnast nema fyrsta lagið sem maður heyri sé algjör snilld. Fyrsta lagið sem ég heyrði með Ravens & Chimes, „This is Where We are"

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

) var nógu áhugavert, grípandi og spennandi til þess að maður lagði sig eftir því að heyra plötuna. Hreinlega lag sem ég ofspilaði og tryggði að ég hef hlustað mjög mikið á plötuna síðan. Það var góður leikur að gefa Ravens & Chimes og þessari plötu í heild séns því ólíkt mörgu öðru sem byrjaði með spennandi upphafslagi fjarar þetta ekki út (hóst hóst Plants and animals) í einhverja meðalmennsku þegar líður á plötuna.

Sveitin hefur farið þessa típisku nýju, breiðist-út-á-músikblogginu leið og fengið lof á bloggum eins og Said the Gramaphone (dæmi) sem eru orðin sérlega áhrifamikil. Þau náðu plötusamningi í fyrra og náðu góðu flugi eftir að þau vöktu athygli College Music Journal sem kallaði þau einstakt band. Ekki slæmt það.

Grípandi og gott stöff
Sveitin náði alveg að fanga mig, grípandi og gott stöff. Maður einbeitir sér að því að leggja við hlustir. Það er mikil dramatík í textunum sem þú verður að fylgjast með. Þeir skauta yfir margt sem ungt og fjörmikið fólk veltir fyrir sér. Við fáum að heyra um lostann, svekkelsið og efasemdir um lífið og tilveruna. Allt mjög þjáð og skemmtilegt og textar og lög vinna vel saman. Naívisminn nær til manns. Tónninn í textunum, það sem þú áttir að lesa á milli línanna kemst svo til skila með stemmningunni í lögunum. Stundum tekur músikin völdin með einhverju brjálæði í leikhúslegu tónaflóði eins og í upphafslaginu „This is where we are

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

)“. Álíka spennandi eru þó instrumental pælingarnar eins og lagið „Candles“.

Titillinn á plötunni er sérlega djúpur því Reichanbach Falls er tindurinn í svissneskum ölpunum þar sem Sherlock Holmes átti að hafa fallið og endað líf sitt árið 1891. Seinn endurlífgaði Conan-Doyle svo Holmes. Þetta var víst allt bara draumur þarna í fjöllunum. Það er nú önnur saga.

Eins og margar frumraunir hefur platan verið lengi í vinnslu og hófust upptökur árið 2002 í hinum og þessum íbúðum í New York og Montreal í Kanada. Þeim lauk svo ekki fyrr en árið 2006. Þau sverja því Montreal senuna ekki alveg af sér enda aðalsprautan ættuð þaðan.

„Archways“ í útvarpsgiggi hjá WOXY radio

Sveitin flytur gáskafullt melodískt rokk ættað einhvers staðar á milli Decemberists, Bright Eyes og Wolf Parade og gerir vel. Áhrifa má alveg leita lengra aftur til kappa eins og Leonard Cohen og Bob Dylan auk þess sem auðvelt er að láta sér detta í hug fleiri sveitir úr Montreal senunni en Wolf Parade. Tónlistin er þroskuð og spræk og kemur í raun á óvart eftir nokkrar hlustanir hvað uppbygging laganna er sterk.

Sveitina skipar klassískt menntaður hópur krakka úr suðupotti New York háskóla. Aðalsprautan Asher Lack syngur og spilar á gítar og ýmislegt fleira og honum til stuðnings eru fjórir til sex til viðbótar eftir því hvernig stemmningin er. Hljóðfæraskipan er fjölbreytt og leika þau meðal annars á mandólín, klukkuspil, orgel og heimasmíðað þeramín. Það er alveg ljóst að þessir krakkar vita hvað þau eru að gera. Það er mjög auðvelt að hugsa til Win Butler og Arcade Fire í þessu samhengi og það er nú bara allt í lagi. Það er ekki leiðum að líkjast.

„For M“ í útvarpsgiggi hjá WOXY radio

Endilega komið með þessa krakka á Airwaves
Um árið óskaði ég þess heitt hér á Rjómanum að Wolf Parade myndi mæta og trylla lýðinn á Iceland Airwaves. Þeir væru svoleiðis band. Þeir gerðu það svo sannarlega. Ég get því ekki annað en óskað hins sama varðandi Ravens & Chimes nú. Þeir eru svoleiðis band og myndu örugglega vera frábær þáttur í frábærri hátíð í október 2008.

Lifir þetta?
Núna finnst mér platan stórskemmtileg og lögin lifandi og eftirminnileg. Stóra spurningin er hvort að þetta lifi með manni og fari aftur í spilarann eftir ár, tvö eða tíu. Það er aldrei að vita. Tékkið alla vega á Ravens & Chimes. Gott upphaf er að næla sér í lögin fjögur sem hér eru meðfylgjandi.

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Rufus mætir á klakann

Rufus mætir á klakann

Hvers má vænta?

Örlítil hugleiðing hvers megi vænta á tónleikum með Rufus Wainwright á sunnudagskvöldið.

Á sunnudagskvöldið leikur hinn ljúfsári Rufus Wainwright í Háskólabíói. Undanfarið hefur Rufus verið að leika í löndunum í kringum okkur og miðað við þá tónleika eigum við gott í vændum.

Slatti er spilaður af nýju plötunni, Release the Stars, ásamt eldri slögurum og hinu fræga coveri "Hallelujah" í ætt við John Cale / Buckley útgáfuna frægu.  Helst er að maður sakni eilítið laga eins og "Do I disappoint you" en aldrei að vita nema maður fái að heyra það.

Going to a Town í Frakklandi

 

Bergen 2. apríl 2008

 • Grey Gardens
 • The Maker makes
 • Beauty Mark
 • Sans Souci
 • Gay Messiah
 • Not Ready to Love
 • Going To A Town
 • Matinee Idol
 • Nobody's Off The Hook
 • 11:11
 • California
 • Want
 • Art Teacher
 • Zebulon
 • CACM

Uppklapp

 • Hallelujah
 • Complainte de la Butte

Annað uppklapp

 • Foolish Love
 • Dinner at Eight

Hallelujah

Góða skemmtun!

Allir vilja hafa séð…

Allir vilja hafa séð...

Arcade Fire

Loksins fékk ég að sjá hina mögnuðu tónleikasveit Arcade Fire. Engin vonbrigði þar á ferð.

Dýrari týpan af Hafnarhúsinu
Í góðum hópi valinkunnra andans manna sá ég Arcade Fire á sunnudagskvöldið í Alexandra Palace í London. Höll þessi er í einhverju úthverfi í London og er óvenjulegur tónleikastaður, svona dýrari týpan af Hafnarhúsinu og ekki sami eðal hljómburðurinn og í flestum góðum tónleikastöðum í London. Við ásamt um 3.000 öðrum æstum aðdáendum sveitarinnar mættum í góðu glensi.

Upphitunarböndin tvö voru ágæt en þó ekki eftirminnileg. Við erum ungir og æstir sveitin, Wild Light (MySpace) byrjaði og átti nokkra góða spretti. Clinic (MySpace) tók við og kom fram með læknagrímur eins og venjulega. Hún var í sjálfur sér llítt spennandi þó að hugmyndin með læknagrímurnar sé ævarandi skemmtun. Sjá dæmi á Youtube.

Þá var komið að því.

Eitthvað sem ég varð að sjá
Áður en tónleikarnir byrjuðu hugsaði maður með sér að Arcade Fire er einhvern veginn ein þessara sveita sem maður verður að hafa séð. Vinir mínir sem sáu sveitina á fyrstu tónleikunum sem þeir héldu í London, og sátu með Jarvis Cocker á barnum, eru ennþá að tala um þetta. Þetta kvöld átti að verða slík upplifun fyrir mig. Reyndar var Jarvis Cocker ekki langt undan því á tímabili hélt ég að Win Butler, söngvari Arcade Fire, ætlaði að fara að taka Pulp slagarann Common People því hann byrjaði að raula eina laglínu úr laginu – nóg um það.

Undirbúningurinn skiptir máli
Undirbúningur okkar fyrir tónleikana gaf okkur nokkurn veginn hvað var í vændum. Ágætis blanda af nýjum lögum og gömlum og kannski eitt tökulag. Þetta stóðst algjörlega.

Ég beið mjög lengi eftir tökulaginu og vonaðist eftir Bowie slagaranum „Five Years“ en fékk Steve Earl / Springsteen slagarann „State Trooper“ í staðinn. Springsteen líkt og Bowie er mikill aðdáandi Arcade Fire og hefur troðið upp með sveitinni, bæði sem gestur á þeirra tónleikum og svo hafa þau troðið upp á hans tónleikum hér. Ég fékk ekki Bowie slagarann minn en þetta var flott útgáfa af tökulagi sem við fengum að heyra.

Gisk að set-lista
Black Mirror (Youtube)
Neighborhood #2 (Laika) (Youtube)
No Cars Go
Haiti (Youtube)
Black Waves / Bad Vibrations
My Body Is a Cage
Neon Bible
State Trooper (Youtube)
Intervention (Youtube)
Headlights
???
The Well and the Lighthouse
Neighborhood #1 (Tunnels) (Youtube)
(Antichrist Television Blues) (Youtube)
Neighborhood #3 (Power Out)
Rebellion (Lies)
Keep the car Running
Wake Up

Intervention af tónleikunum
 

Allir í stuði – Skipt um hlióðfæri í gríð og erg
Forsprakkinn Win Butler mætti á sviðið í miklum gír. Mikill töffari og klárlega leiðtogi sveitarinnar. Yngri bróðir hans, William, var stórskemmtilegur þetta kvöld, uppáhalds spjátrungur kvöldsins. Byrjaði í þvílíku stuði á synthanum, hristi sig allan og teygði og þegar hann var kominn á bassann hljóp hann um allt sem óður væri. Söngkonan Regine var frábær í þeim lögum sem hún söng og setti skemmtilegan svip á sveitina þegar hún fór á trommurnar. Ekki af því hún væri svo góð á trommurnar – þvert á móti. Þegar hún tók við þar af Jeremy Gara þá varð allt meira „fuzzy“ sem þau virðast gera svolítið út á og er slæmt í hefðbundnum skilningi en virkar þrælvel fyrir þau. Eins og sjá má er alltaf verið að skipta um hlióðfæri og af tíu hljóðfæraleikurum voru sex alltaf að skipta um hljóðfæri, aðeins brass og fiðlur fékk að vera í friði.

Stórkostleg tónleikasveit
Allt sem maður hafði heyrt um gæði Arcade Fire tónleika var satt. Þetta var alveg hrikalega flott hjá þeim og frábær skemmtun. Ég ætla rétt að vona að orðrómur þess efnis að þau komi senn á klakann sé réttur. Hvað ætli þau geti fyllt stórt hús hér?

Þeir sem hafa svo tækifæri til að sjá þau á tónleikum úti í heimi skulu svo sannarlega nýta sér það því þetta er alveg sér á parti. Svo máttu alltaf eiga von á því að einhver stórstjarnan mæti á sviðið. Það hafa til dæmis David Byrne, Bruce Springsteen og Bowie gert. Það er töff. Reyndar sýnast mér næstu tónleikar verða í Eyjaálfu þannig að það er kannski svolítið löng ferð fyrir eina tónleika – og þó.

Megi draumarnir um Arcade Fire á Íslandi rætast (fljótt).

 

 —-

Foo Fighters?
Til gamans má nefna svona í framhjáhlaupi að sama kvöld léku Foo Fighters  á öðrum stað í London. Þeir vildu greinilega frekar vera með mér á Arcade Fire tónleikum því þeir tóku Keep The Car Running á sínum tónleikum, töff. Dave Grohl var ekkert að skilja hvað fólkið var að gera á hans tónleikum. Sammála!

Hjaltalín – Sleepdrunk Seasons

Hjaltalín - Sleepdrunk Seasons
Einkunn: 4.5
Utgafuar: 2007
Label: Kimi Records

Kokteill kraftmikillar poppsmíðar með klassískum krækiberjum og smá salti.

Frumburðar Hjaltalín hefur verið beðið lengi. Allt frá því að sveitin lét fyrst á sér kræla í þeirri mynd sem við þekkjum hana á Airwaves í fyrra og vakti mikla athygli. Platan Sleepdrunk seasons hefur nú litið dagsins ljós og er kærkominn gleðigjafi á köldu og dimmu ísaköldu landi.

Til þess að lesendur haldi alveg örugglega áfram að lesa þá er þessi plata að mínum dómi mjög góð.

Enginn MH-sykur lengur
Eins og margar góðar sveitir á Hjaltalín rætur að rekja í Menntaskólann við Hamrahlíð. Þar steig sveitin sín fyrstu spor fyrir margt löngu með lögum framreiddum í formi sykurhúðaðs spilverkspopps eins og þau sjálf hafa kallað bernskubrekin. Þau hafa þó fyrir löngu látið öðrum gömlum skólafélögum eftir þann kaleik.

Hjaltalín er huguð hljómsveit sem leitar á önnur mið en samferðamennirnir óhrædd við þær áskoranir sem þar kunna að verða fyrir þeim. Þau þurfa ekki að taka sérstaklega fram í viðtölum að þau taki sköpun sína alvarlega eða séu metnaðarfull sveit. Slíkt er algjörlega augljóst þegar hlustað er á sveitina.

Hjaltalín er samansett af níu öflugum hljóðfæraleikurum og söngvurum með breiða skírskotun í klassíkri tónlistarmenntun. Hljóðfæraskipan er fjölbreytt með bæði brass og strengi í síst minna hlutverki en gítar eða bassi hjá flestum sveitum. Útsetningar eru oft flóknar, taktskiptingar áberandi og form laganna ekki í hefðbundnum dægurlagastíl.

Gömul og rótgróin tónleikalög í bland við nýrri
Aðdáendur sveitarinnar munu þekkja flest lögin á plötunni enda hafa þau grundvallað tónleikaprógram sveitarinnar síðustu misserin. Lög eins og „Traffic Music“, „The Boy Next Door“, „Debussy“, „The Trees Don't Like The Smoke“ og „Selur“ sem maður vissi varla hvað hétu fyrr en nú eru gamlir kunningjar af tónleikum (og sum hver af MySpace) og njóta sín vel á plötunni. Ópusinn „Goodbye July / Margt að ugga“ er auðvitað á plötunni en þar er á ferð eitt óvæntasta hitt síðustu ára. Óhefðbundið lag á allan hátt en grípandi og töfrandi í furðulegheitum sínum með hinu óvæntu kaflaskilum og töfrandi söng Sigríðar Thorlacius. Textinn lagsins er líka eftirtektarverður, bútur frá einu af kunnustu skáldum 16. aldar, Þórði Magnússon, lögréttumanns Gunnsteinssonar settur saman við texta Örvars Þóreyjarsonar Smárasonar sem er sveitinni víðar á plötunni innan handar við textagerðina.

Airwaves mynd eftir Leó Stefánsson 
Mynd eftir Leó Stefánsson af vef Airwaves

Ekkert Eurovision hér
Lögin eru sum hver tormelt. Þetta eru sko engin Eurovision lög þar sem byrjað er að dansa með við fyrstu hlustun. Þau lög sem maður hefur oftast heyrt áður eru lögin sem hljóma best við fyrstu hlustun á plötunni. Hin lögin þarfnast tíma og yfirlegu. Þessa plötu þarf að hlusta á. Hún hentar ekki vel undir í matarboðum. Hér þarf annaðhvort heyrnartól eða fulla einbeitingu að hátölurunum – að minnsta kostu við fyrstu hlustun.

Hjaltalín birtist mér á Airwaves í fyrra sem gríðarlega efnileg og áhugaverð sveit. Nú þegar fyrsta platan er komin út, löngu löngu eftir að biðin eftir henni hófst, er ljóst að sveitin er ekki lengur bara efnileg heldur eitt frambærilegasta afsprengi íslensku tónlistarbylgjunnar sem ég hef rekist á lengi. Platan er kokteill kraftmikillar poppsmíða með klassísk ættuðum krækiberjum og smá salti. Sem er gott.

Besta íslenska plata ársins
Á svakalega sterku íslensku tónlistarári stendur frumburður Hjaltalín upp úr og hvetur mann enn frekar en áður til að fylgjast með sveitinni í framtíðinni. Sem fyrr mæli ég eindregið með því að áhugasamir mæti á tónleika sveitarinnar því hún er sérlega skemmtileg á sviði. Biðin eftir næstu plötu er hafin og vonandi verður hún ekki löng. Fram að því hlusta ég vafalaust reglulega á Sleepdrunk Seasons, bestu íslensku plötu ársins 2007.

es. ef þú hefur enga trú á gæðum þessarar plötu og finnst þetta bara hið sæmilegasta byrjendaverk en alls engin plata til að missa sig yfir líkar þér eflaust dómur Monitor um plötuna betur en þessi. Þar er lítil hrifning á ferð.