Sudden Weather Change kynna: Sculpture

Íslenska rokksveitin Sudden Weather Change býður til veislu í plötubúðinni Kongó við Nýlendugötu 14 nk. fimmtudagskvöld (3.ágúst). Tilefnið mun vera útgáfa annarrar breiðskífu sveitarinnar, Sculpture en platan fylgir eftir frumburðinum, Stop! Handgrenade In The Name of Crib Death´nderstand?, frá árinu 2009.

Veisluhöldin hefjast klukkan 20.30 og verður Sculpture rennt í gegn auk þess sem gestum gefst tækifæri til að skála og snæða með hljómsveitarmeðlimum eitthvað fram á kvöld.

Fyrri útgáfa Sculpture situr nú í fjórða sæti meðal jafningja á vefsíðunni gogoyoko.com og boðar áhugaverðar sviptingar í tónheimi Sudden Weather Change.

Eistnaflug 2012 keyrð í gang

Rokkhátíðin Eistnaflug var sett í áttunda sinn á Neskaupstað í gærkvöldi. Það var í höndum hinnar ungu og íslensku harðkjarnasveitar, In Company of Men að kveikja á græjunum og hita vel. Aðstandendur telja að um 1300 manns hafi sótt hátíðina í Egilsbúð í gærkvöldi og enn streyma gestir að Neskaupstað. Auk In Company of Men léku m.a.  Momentum, Moldun, Hellvar, Wistaria,  Gone Postal, Innvortis og Sólstafir fyrir flösuþeytingum og sveiflu í gærkvöldi.
Tónleikar hefjast að nýju klukkan 15 í dag og standa fram eftir kvöldi. Meðal þeirra sem koma fram í kvöld eru Dr.Spock, Vicky, The Vintage Caravan, Hljómsveitin Ég, Celestine, Endless Dark, Skálmöld og Severed Crotch svo eitthvað sé nefnt.

Hátíðinni lýkur svo á laugardag með framkomu Botnleðju, I Adapt, Muck, Dimmu og bandarísku sveitarinnar Cephalic Carnage auk fjölda annarra listamanna.

Enn er hægt að nálgast miða við hurð í Egilsbúð, Neskaupstað fyrir komandi kvöld en einnig er hægt að nálgast dagspassa fyrir annan hvorn daginn á 5.000 krónur stykkið.

Legend fagna á Faktorý

Íslenska iðnaðar/elektrósveitin Legend heldur sína fyrstu útgáfutónleika á skemmtistaðnum Faktorý við Smiðjustíg föstudaginn 6.júlí nk. Legend sendi frá sér frumburðinn Fearless þann 4.apríl sl. og hefur síðan verið dugleg að koma fram en hljómsveitin var stofnuð af þeim Krumma Björgvinssyni og Halldóri Björnssyni fyrir nokkrum árum síðan.

Legend hyggst leika plötu sína, Fearless, í heild sinni og hefst veislan um kl. 23.00. Miðaverði er þá stillt í hóf og kostar 1000 krónur inn. Fearless hefur fengið gríðarlega góða dóma eftir útgáfu og ættu tónleikagestir ekki að verða sviknir, enda lofar sveitin eggjandi sviðsframkomu og miklu stuði.

Extreme Chill Festival 2012

Íslenska raftónlistarhátíðin Extreme Chill Festival 2012 – Undir Jökli verður haldin hátíðleg í þriðja sinn dagana 29.júní – 1.júlí nk. Hátíðin hefur heldur betur kynnt undir raftónlistarsenu Íslands síðustu misseri auk þess sem fastakvöld Extreme Chill á Kaffibarnum hafa fengið mikið lof innlendra sem erlendra raftónlistarunnenda undanfarin ár. Hátíðin er haldin á Hellisandi, við rætur Snæfellsjökuls og gefur staðsetning og náttúra veisluhöldunum aukinn byr undir vængi þar sem náttúruöflin og raftónlistin fléttast saman í kraftmikinn og gæsahúðarframkallandi kokteil sem hverfur seint úr minni hátíðargesta. Hátíðargestir verja svefnstundum sínum og dægrum ýmist á tjaldstæði við bæjarmörk Hellisands eða í leiguhúsnæði innan bæjarins en tónlistaratriðin fara öll fram innan gamla félagsheimilisins, Röst eða við garðreit þess utan.

Extreme Chill Festival var ein þeirra íslensku tónlistarhátíða sem hlaut styrk frá Kraumi þetta árið og hefur sá styrkur nýst skipuleggjendum vel í að framreiða kraftmestu Undir Jökli hátíðina hingað til. Rjóminn hélt í jómfrúarferð sína á Extreme Chill Festival 2011 og getur svo sannarlega mælt með hátíðinni sem góðan valkost. Fyrir vingjarnlegt og orkuríkt andrúmsloft, ólýsanlega náttúrufegurð og rjómann af íslenskri raftónlist er Extreme Chill Festival 2012 – Undir Jökli á Hellisandi, tvímælalaust kjörið ferðalag.

Eftirfarandi listamenn og sveitir leika á hátíðinni í ár en dagskrá hátíðarinnar í heild og allar nánari upplýsingar má nálgast HÉR.

Ahma / Arni Vector / Arnljótur / Beatmakin Troopa / Bix / Captain Fufanu /Dj AnDre / Dj Kári / Futuregrapher / Hamlette Hok / Inferno 5 / Jafet Melge / Jónas Sen / Kaido Kirikmae / Krummi / La La Alaska / Mixmaster Morris / Murya / Orang Volante / Prince Valium / Quadruplos /Reptilicus / Ruxpin / Samaris / Sigtryggur Berg / Skurken / Stereo Hypnosis / Steve Sampling / Tanya&Marlon / ThizOne / Tonik / Trouble / Yagya

Miðasala er í fullum gangi á midi.is og í verslunum Brim í Kringlunni og á Laugavegi.

Kveldúlfur Myrru Rósar

Myrra Rós Þrastardóttir hefur sent frá sér sína fyrstu breiðskífu, Kveldúlfur. Platan, sem er sú fyrsta sem Myrra sendir frá sér, kom út í gærdag á vefsetrinu ágæta gogoyoko en Myrra er þessa dagana stödd á tónleikaferðalagi í Póllandi ásamt hljómsveit.

Myrra Rós hefur nú í nokkur ár verið ein ljúfasta rödd tónlistarlífsins hér á landi og hefur verið iðin við tónleikhald bæði hér heima og erlendis. Hún vakti þá fyrst athygli sem meðlimur Trúbatrix-hópsins sem stóð fyrir tónleikaröð í Reykjavík og annarsstaðar hérlendis við gott lof. Ásamt Myrru Rós hefur góður vinur hennar Andrés Lárusson staðið vaktina í lagasmíðum og lifandi framkomum ásamt öðrum vinum. Meðal gesta á plötunni er óskabarnið KK og skeggjuðu reggídrengirnir í Hjálmum en platan er gefin út hjá Geimsteini í Keflavík.

Rjóminn vill hér með óska Myrru Rós til hamingju með fyrstu plötuna, Kveldúlfur, og telur plötuna sannlega ágætis byrjun.

 

Streymdu: Mark Lanegan Band – Blues Funeral

Í dag ákvað tónlistartímaritið Mojo að streyma nýjustu plötu Mark Lanegan, Blues Funeral, í heild sinni á heimasíðu sinni.

Mark Lanegan stökk fyrst fram á svið tónlistarinnar árið 1985 með hinni liðnu gruggrokksveit Screaming Trees en hefur alla daga síðan verið iðinn við útgáfu með listamönnum á borð við Isobel Campbell (Belle & Sebastian), Soulsavers, Twilight Singers, Gutter Twins og Queens of The Stone Age. Auk þess sem hann ljáði dimman barka sinn í gruggsúpergrúppuna Mad Season árið 1995. Lanegan sendi frá sér sína fyrstu sólóplötu árið 1990 (Winding Sheet) en stærsta sólóplata hans er án efa platan Bubblegum frá árinu 2004 sem varð sú sjötta í röðinni. Áttunda platan, Blues Funeral, hefur vægast sagt tekið sinn tíma í mótun og hafa aðdáendur Lanegan beðið hennar með mikilli eftirvæntingu. Fyrsta smáskífa plötunnar, The Gravedigger´s Song, kom út nú rétt fyrir jól og er Blues Funeral væntanleg í hillurnar þann 6.febrúar nk.

Takið forskot á sæluna og hlýðið á þennan dimma barka flæða hér.

 

 

 

Úlfur Úlfur og Emmsjé Gauti með myndband

Íslenska rapphljómsveitin Úlfur Úlfur hefur verið iðin við að pumpa út efni bæði í hljóði og mynd og tónleikahald allt frá stofnun sveitarinnar á síðasta ári. Sveitin var stofnuð af þeim Arnari Frey Frostasyni og Helga Sæmundi Kaldalón Guðmundssyni eftir slit hljómsveitarinnar Bróðir Svartúlfs en Bróðir Svartúlfs stóðu uppi sem sigurvegarar Músíktilrauna fyrir nokkrum árum og hreif rímnaflæði Arnars Freys og rokk/popp grúv sveitarinnar bæði dómnefnd og landann með sér.
Nýja verkefnið, Úlfur Úlfur, einblínir þó meira á rapp/hip-hop senuna og ásamt Þorbirni Einari hefur sveitin komið út sinni fyrstu plötu. Ber hún heitið Föstudagurinn Langi. Voru drengirnir afar gjafmildir og gáfu plötu sína aðdáendum og áhugasömum á heimasíðu sinni, Úlfurúlfur.com.

Fyrir stuttu hélt sveitin frumsýningarpartý á myndbandi við lagið Á Meðan Ég Er Ungur en þar fá þeir þar til liðs við lagasmíðarnar rapparann Emmsjé Gauta og Óróa-stjarnan Atli Óskar Fjalarson sér um leikræna túlkun í aðalhlutverki myndbandsins. Gjössovel!

At The Drive-In saman á ný

Ein vinsælasta síð-harðkjarnasveit seinni tíma, At The Drive-In, sendu nýverið út tilkynningu um að sveitin væri nú komin saman aftur eftir að hafa lagt upp laupana árið 2001. Hljómsveitin var stofnuð árið 1993 í El Paso í Texas fylki í Bandaríkjunum af þeim Cedric Bixler-Zavala og Jim Ward en flestir ættu að þekkja sveitina með viðbættum Omar Rodriquez-Lopez, Paul Hijonos og Tony Hajjar. At The Drive-In sendu frá sér fimm EP-plötur og þrjár breiðskífur en þekktasta plata sveitarinnar var án efa þeirra síðasta, Relationship of Command, frá árinu 2000 sem að margra mati er talin ein áhugaverðasta rokkskífa síðustu áratuga.

Þessi endurkoma kemur líklega mörgum aðdáendum á óvart en eftir samstarfsslit At The Drive-In urðu til hljómsveitirnar Sparta og The Mars Volta en sannlega má segja að þeirri síðari hafi gengið mun betur á markaðinum en þeirri fyrrnefndu sem leidd var af Jim Ward á meðan Bixler-Zavala og Rodriquez-Lopez leiddu hina margrómuðu The Mars Volta.

Aðdáendur At The Drive-In geta nú loks þurrkað tárin og hjartasviðann um að hugsanlega bera aldrei sveitina augum og glaðst verulega. Fylgist með á heimasíðu sveitarinnar en enn hafa engar dagsetningar né plötuútgáfur verið tilkynntar.

 

 

Ragnar Sólberg nýr gítarleikari Pain of Salvation

Í dag tilkynnti sænska progg-rock/metal sveitin Pain of Salvation um val á nýjum gítarleikara fyrir komandi tónleikaferðalag sveitarinnar í Evrópu. Hljómsveitin hefur undanfarna mánuði tekið við umsóknum hvaðanæva úr heiminum fyrir stöðu gítarleikara en samkvæmt heimasíðu sveitarinnar skar sveitin niður í um 100 listamenn áður en hún bauð fimm gítarleikurum í heimsókn. Var þar mættur einn Svíi, einn Englendingur, einn Frakki, einn þjóðverji og eitt stykki Íslendingur. Íslendingurinn Ragnar Sólberg Rafnsson (Zolberg) bar stóð fremstur meðal jafningja eftir þungar áheyrnarprufur og tekur stað Johan Hallgren sem gítarleikari Pain of Salvation. Hallgren ákvað að yfirgefa sveitina til að einbeita sér að fjölskyldulífinu í Svíþjóð eftir síðustu tónleikaferð sveitarinnar með sænsku risunum Opeth. Hafði Hallgren verið meðlimur POS frá árinu 1998. Hljómsveitin hefur þá verið til í ansi mörgum myndum allt frá árinu 1984 og er aðeins einn upprunalegur meðlimur eftir í herbúðunum. Sá er söngvarinn og gítarleikarinn Daniel Gildenlöw. Það verða þá þeir Daniel Gildenlöw, trommarinn og fransmaðurinn Léo Margarit og Ragnar Sólberg Rafnsson sem munu þeysast um Evrópu frá miðjum febrúar þetta árið.

Má telja þetta stórt stökk fyrir íslenskan tónlistarmann en Ragnar hefur verið að gera það gott frá unglingsárum hér á landi sem erlendis með hljómsveit sinni Sign en hefur undanfarin ár einbeitt sér að sólóverkefni sínu í Svíþjóð þar sem hann er búsettur ásamt unnustu sinni og börnum. Sign aðdáendur sem aðdáendur Pain of Salvation geta glaðst en þó má telja öruggt að Ragnar hafi engan veginn sagt skilið við fyrrum stöðu sína í Sign sem skýtur upp höfði sínu án vandkvæða hér á landi sem erlendis enn þann dag í dag.

Mynd: www.echte-leute.de/

 

Airwavesdagbók Daníels: Miðvikudagur

Það var ljúft að klára vinnuna þennan daginn. Þó þreytan væri þónokkur eftir erfiði dagsins, fylltist líkaminn gleði og hamingju yfir því að hátíðin væri loksins að hefjast. Frekar slæm ýsa í raspi var gleypt á Hressingarskálanum með góðum vin og haldið var í átt að óreiðu (stolið? neinei..). Á meðan kórbræður höfundar kyrjuðu ættjarðarlög í Hljómskálanum, undirbjuggu tónleika á Kaffibarnum og supu smá mjöð, ákvað höfundur að kynna sér opnunarkvöld hátíðarinnar og hafa það náðugt í faðmi íslenskrar tónlistar, mannmergðar og þetta kvöldið; grenjandi rigningar. Leiðin lá á hin nýenduropnaða Gauk á Stöng þar sem útgáfufyrirtækið Geimsteinn hugði á kynningarkvöld.

Eldar – Gaukur á Stöng

Eldar er samstarfsverkefni þeirra Valdimars Guðmundssonar (Valdimar) og Björgvins Ívars Baldurssonar (Lifun/Klassart) og koma þeir frá Keflavík. Það var suðurnesjastemmari á Gauk á Stöng þegar bandið tók á svið en kvöldið, tileinkað útgáfufyrirtækinu Geimsteini, hafði lagt staðinn undir sig þetta kvöldið. Ekkert nema gott mál. Húsið var hálffullt/hálftómt (fer eftir því hvernig er litið á það) þegar hinn geðþekki söngvari Valdimar kynnti sveitina. Þeim til halds og trausts (meðlimir hugsanlega?) voru nokkrir vinir en þar á meðal voru þeir Stefán Örn úr Buff og Lights on The Highway, Sigtryggur Baldursson (þúsundþjalatrymbill/Sykurmolarnir) og ein Fríða Dís úr Klassart. Samhljómurinn var frábær og treginn var mikill. Textar á íslensku og rómantísk melankólía sveif yfir vötnum. Hljómsveitin skilaði vel af sér og Valdimar sló við nýjan tón og hvarf í smástund frá sinni samnefndu hljómsveit í allt annan heim. Mjög gott mál. Einnig skemmdu ekki fyrir þær harmoníur sem þau Stefán Örn og Fríða Dís framkölluðu ásamt Björgvini. Allt í allt mjög heilsteypt en ef slípað er ögn betur gæti þetta verið næsta stórsveit landsins. Von er á breiðskífu frá sveitinni í nóvember og að sjálfsögðu kemur hún út á Geimsteini. Mun hún bera heitið (ef höfundi minnir rétt), Í Nálægð og Fjarlægð eða Nálægð/Fjarlægð. Bæði betra.

Klassart – Gaukur á Stöng

Eftir erfiðan vinnudag getur verið gott að hressa sig aðeins við. Þó er það vart í höndum meðlima Klassart að gera slíkt. Örlítið fækkaði í salnum en á sviði stigu meðlimir og smurðu í yndislega mjúkt og gott kántrýskotið blús/popp sem passar vel við smá viský og rigningu. Flutningurinn var góður og einlægðin greinileg. Hljómsveitin hefur stimplað sig vel inn í tónlistarlífið hérlendis og þá einna helst með laginu Gamli grafreiturinn sem tröllreið öldum ljósvakans hér um árið. Því fór þó miður, að fætur toguðu í sætaröð eða jafnvel sófa og var því ákveðið að yfirgefa húsið eftir aðeins tvö lög. Hugsanlega finna sér stað þar sem hægt væri að humm-a tóna bæði Klassart og Elda og um leið safna kröftum fyrir komandi kvöldstund/ir. Báðar sveitir þóttu þó afbragðsfærar í sínu en hefðu líklegast sómað sér betur þar sem gestir hefðu getað farið í setusleik í stað þess að liggja á gólfinu og fara í laumusleik. Eða hvað? Gólf er kannski bara meira spennandi.

Eftir huggulegheit Geimsteins var leiðinni haldið á Nasa við Austurvöll. Hið farsæla útgáfufyrirtæki Record Records hafði hersetið húsið þetta kvöldið og hugði á sigur. Var það bæði skemmtileg og furðuleg reynsla að labba inn á Nasa gjörsamlega stútfullan svona snemma kvölds á miðvikudegi.

Lockerbie – Nasa

Undanfarin ár hafa sveitir sem leika snemma á Nasa við Austurvöll á miðvikudegi í þurft að sætta sig við hálftóman/hálffullan sal af gestum en þetta kvöld var raunin allt önnur. Varla var hægt að fóta sig þegar inn í salinn var komið þar sem Lockerbie voru í miðju setti og gestir í fullkomnu jafnvægi. Eða svona næstum því. Lockerbie leikur post-rock/indie blöndu með brassi og var af nægu að taka. Þétt og flott keyrði sveitin í efni af frumburði sínum Ólgusjór og öryggið var gott. Sveitin er flott stadium band og sándið þeirra skilar sér einkar vel í þéttum og stórum sal af fólki. Hljómsveitir á borð við For A Minor Reflection og Hjaltalín koma upp í hugann þegar sveitin er upp á sitt besta og greinilega að áhrifavaldarnir eru bara af því fínasta. Ungt og efnilegt svo sannarlega og verður gaman að fylgjast með hvernig þessum drengjum gengur!

Mig hafði lengi vantað að sjá krakkana í Mammút en sveitin hefur farið frekar huldu höfði undanfarið og eytt tíma sínum í upptökur á væntanlegri plötu. Ég var frekar spenntur en ákvað að tylla mér aðeins í sófann á efri hæð Nasa og taka anda. Þegar hugljúf en þokkafull rödd Katrinu Mogensen færðist yfir í hátalarakerfi efri hæðarinnar, dreif ég mig niður.

Mammút – Nasa

Krakkarnir í Mammút tóku á stökk í múnderingu indjána (?) og fengu salinn gjörsamlega á sitt band. Ofursmellurinn Bakkus varð þriðja lag kvöldsins og stemmingin var frábær. Hljómsveitin var einnig verulega þétt og sándið alveg frábært! Þau eru svöl og vita það en sannleikurinn er sagna bestur og ekkert er um stæla. Gestir fíluðu Bang Gang ábreiðuna Follow og sýndu sveitinni að þeirra nærveru er verulega óskað við sem flest tilfelli. Æðisleg frammistaða og djöfull verður gaman að heyra afrakstur upptökuferlis krakkanna sem staðið hefur um þónokkurn tíma. Besta frammistaða þeirra hingað til að mínu mati en ekki hefði verið verra að heyra fleiri gömul með.

Sykur – Nasa

Stuð/partý/elektró-pop sveitin Sykur gaf nýverið út plötuna Mesópótamía og hefur fengið fína athygli fyrir vikið. Þó hefur sveitin verið á vörum dansþyrstra Íslendinga um þónokkurn tíma núna þrátt fyrir ungan aldur meðlima. Sveitin leikur 90´s blandað teknó á heimsklassa (fyrir þá sem fíla). Agnes Björt, söngkona sveitarinnar, náði að hrífa gesti með sér en fullt var útúr dyrum allt kvöldið á Nasa. Feikigóð söngkona sem gefur þessu fremur einfalda teknó-trans-dans-blandi aukið vægi og hjálpar til. Svona smá eins og Aretha Franklin og Florence Welch færu í trekant með tónlistarforriti á alsælu með sleikjó…eða já. Fínt, flott en ekki alveg minn tebolli. FM Belfast söngvarinn Árni Rúnar átti einnig skemmtilega innkomu í laginu Shed Those Tears. Það var gaman.

Agent Fresco – Nasa

Það er alltaf mikil eftirvænting eftir tónleikum Agent Fresco. Oft er það eins og að bíða eftir geggjuðum mat í ofninum eða jafnvel huggulegri píu til að fara úr að ofan eftir annars ágætis kvöld. Þetta skiptið var þó fremur dræmt. Maturinn var hálf brunninn og hugsanlega var þessi gella ekkert gella. Að öllu gríni slepptu voru þetta mikil vonbrigði. Hljómurinn var skrýtinn og lögin virtust bæði hægjast niður og hraðast upp á handahófskenndum augnablikum og ein af mest spennandi sveitum landsins var bara ekki nægilega þétt. Agent Fresco hafa fyrir löngu síðan hrifið undirritaðan á sitt band og séð til þess að andlegri alsælu sé fullnægt oftar en einu sinni en í þetta skiptið var ákveðið að fara snemma. Hugsanlega er þetta tengt þreytu, yfirfullum sal af fólki eða annarskonar streitu miðrar viku en ég held því miður ekki. Drengirnir áttu sína spretti en það dugði ekki til og kvaddi ég Nasa fremur súr þetta kvöld. Sveitin hyggur á frekari framkomur á Airwaves í ár og mun ég sannarlega gefa þeim tækifæri til að sannfæra mig á nýjan leik. Svo sannarlega.

Nokkur kvöld eftir og allt að byrja. Stundum eru hlutirnir ekki þeir sem maður vonaðist eftir og stundum eru þeir betri en allt annað sem hægt er að ímynda sér. Höfundur er viss um að komandi tónleikar, uppákomur og glens Iceland Airwaves 2011 eigi eftir að framkalla hjartayl, bros og eintóma gleði á komandi dögum. Áfram Airwaves, gleðilega hátíð og skál!

Artistar á Airwaves ´11: Árni Grétar (Futuregrapher)

Futuregrapher, sem greiðir skatt undir nafninu Árni Grétar Jóhannesson, hefur á undanförnum árum verið að stíga vel inn í íslenskt tónlistarlíf. Ferill þessa rétt tæplega þrítuga Tálknfirðings, hófst rétt fyrir aldamótin síðustu en Árni sat þá iðinn við raftónlistarsköpun ásamt langvini sínum Jónasi Snæbjörnssyni undir nafninu Equal. Þó Equal hafi liðið sitt skeið, lagðist Árni ekki í dvala og hóf að koma fram undir sviðsnafninu Futuregrapher nokkrum árum síðar. Plata hans Yellow Smile Girl vakti ágæta athygli árið 2009 en Árni vakti ekki síður athygli með nýjustu plötu sinni Tom Tom Bike, sem gefin var út í ár. Platan er gefin út af útgáfufyrirtæki Árna og Jóhanns Ómarssonar, Möller Records en saman hafa þeir félagar staðið fyrir vel heppnuðum Heiladans kvöldum á skemmtistaðnum Hemma og Valda undanfarið ár. Auk þessara tveggja platna hafa einnig komið út ágæt mix frá kauða (Acid Hverfisgata og Túngata) en báðar plöturnar (eflaust allar) eru taldar undir miklum áhrifum eins lærimeistara og liðins vinar Árna, Bjössa Biogen en Árni hefur aldrei farið leynt með það að hafa fengið mikla andlega og tónlistarlega aðstoð frá þeim liðna snilling rafsins.
Rjóminn hitti Futurgrapher á Kaffibarnum þar sem raftónlistin henti miðvikudegi Airwaves í gang og innti hann nokkurra svara.

DH: Hvernig kom það til að þú fórst að gera raftónlist, Árni?

ÁG: Ööööö….ég hafði mikinn áhuga á tónlist í gegnum pabba. Hann var alltaf að spila á gítar svona heima. Einn daginn kom hann með hljómborð heim. Nettan syntha. Þá var ég svona 13 ára og ég byrjaði eitthvað að fikta. Á sama tíma hlustaði ég mikið á The Prodigy og langaði að gera svona svipað og þeir. Ætli það hafi ekki verið byrjunarreiturinn.

DH: Þú heldur ansi villt partý þegar þú kemur fram. Hvað keyrir þig áfram í rokkinu?

ÁG: Adrenalínið og krafturinn frá gestum hvers kvölds. Ég er mjög meðvitaður um það þegar fólk er í góðum gír. Góðum partýfíling! Það er svona grunnurinn.

DH: Nú ert þú að vestan. Þú hefur aldrei íhugað að reyna að koma Fjallabræðrum inn í mixið?

ÁG: (Hlær). Ég þekki Dóra og Steinar úr kórnum mjög vel og nokkra aðra sömuleiðis. Fjallabræður eru að sjálfsögðu velkomnir í stúdíóið hvenær sem er!

DH: Hvað er annars framundan, Árni? Á að sökkva sér í útgáfur annarra og halda áfram því góða starfi eða á að halda góðu blandi af báðu í gangi áfram fram í eilífðar ró?

ÁG: Framundan er vinnsla á plötu sem átti að koma út í ár. Hún heitir Hrafnagil. Ég ákvað að seinka henni fram á næsta ár þar sem ég er að uppgötva nýjar aðferðir. Svo var ég auðvitað að gefa út TomTomBike nýlega og ætla að leyfa henni að lifa og gleðja aðeins lengur. Svo auðvitað verð ég með útgáfuna líka.

DH: Svona í lokin. Hvað hefur kveikt í þér einna mest við Airwaves í gegnum árin? Á að sjá eitthvað þrusandi stuð í ár eða jafnvel eitthvað allt annað?

ÁG: Það sem hefur kveikt mest í mér eru íslensku böndin! Þá sérstaklega nýgræðingar eins og í ár; Fu Kaisha t.d. sem ég hlakka mikið til að sjá. Yfirleitt eru íslensku böndin þau sem kveikja mest í mér. Svona þau sem ég þekki ekki. Uppgötvanir ef svo má kalla. Svo ætli ég reyni ekki að kveikja stemmarann í mér með því að sjá sem flesta nýgræðinga

Rjóminn þakkar Futuregrapher innilega fyrir spjallið og óskar honum og hans velgengni í komandi stríðum, leikjum og ástum.

Futuregrapher kemur fram á fimmtudagskvöldinu á Faktorý klukkan 23.40 ásamt fleiri góðum.

Futuregrapher – Tjarnarbiogen by Futuregrapher

Artistar á Airwaves ´11: Halli Valli (Æla)

Í gegnum árin hefur post-punk hljómsveitin Æla komið gestum Iceland Airwaves í fremur opna skjöldu en sveitin kemur nú fram í sjötta skipti á hátíðinni. Hvort sem það hefur verið í dragi, smóking, gallabuxum eða hænsnabúningum hefur söngvari sveitarinnar Hallbjörn Valgeir (Halli Valli) Rúnarsson leitt sveit sína í sveittum, öskrandi og yfirleitt þefjandi framkomum sem hlotið hafa athygli bæði hér á landi sem erlendis. Með frumburð sinn að vopni, Sýnið tillitsemi, ég er frávik, frá árinu 2006, hyggur sveitin á frekari frægð og vinnur nú að seinni plötu sinni sem beðið er í ofvæni. Auk Hallbjörns eru það þeir Sveinn Helgi (bassi), Ævar (gítar) og Hafþór (trommur) sem mynda Ælu.
Rjóminn settist niður með Halla Valla þar sem hann gerði klárt fyrir hátíðarhöld á sínu öðru heimili, Kaffibarnum og innti hann um hvað honum þætti mest spennandi við Iceland Airwaves hátíðina í ár og svona smávegis meira.

DH: Sæll Halli! Fáir vita söguna á bakvið þetta (oft óaðlaðandi) nafn, Æla. Segðu mér aðeins hvernig nafnið kom til og þið strákarnir fóruð að spila saman?

HV: Þetta er auðvitað spurning sem við fáum frekar oft sko. Þeir sem lesa heimasíðuna hjá hátíðinni fá í raunar afar rómantíska hugmynd af því hvernig við vinirnir ákváðum að stofna Ælu. Raunin er þó sú að hljómsveitin varð til fyrir einn bjórkassa. Við vorum beðnir um að stofna band til að hita upp fyrir sveitaballabandið Spútnik vegna sjómannaballsins í Sandgerði og við ákváðum að verða nettir uppreisnarseggir og stuða fólk aðeins með því að skíra hljómsveitina Ælu. Auk þess varð framkoman og þá klæðaburðurinn liður í því að stuða og hneyksla (ef svo má segja). Annað kom þó á daginn og hljómsveitin Æla átti eftir að draga mun betur að sér en Spútnik sem gerði það að verkum að stjörnur kvöldsins báðu Ælu að stíga af sviðinu eftir einungis tvö lög. Eftir þetta kvöld var ekki aftur snúið og við ákváðum að gera plötu.

DH: Hvað er að gerast í herbúðum Ælu þessa dagana? Þið fenguð ágæta athygli eftir síðustu hátíðir og fóruð m.a. erlendis og reynduð fyrir ykkur. Sömuleiðis hlutuð þið fína dóma fyrir framkomu ykkar á hátíðum liðins árs. Hvað er að frétta?

HV: Það hefur ansi margt drifið á daga okkar í einkalífinu. Barneignir, fráföll og önnur mál sem erfitt hefur verið að eiga við samhliða hljómsveitalífi. Í dag erum við þó allir klárir með nýja plötu og erum spenntir. Í raun er ekkert annað eftir en að ýta bara á REC eftir hátíðina og líta til framtíðar. Við erum bara ógeðslega spenntir og graðir fyrir framtíðinni og komandi Airwaves. Þó einna helst erum við spenntir fyrir því að sprengja stofuna hans Steinþórs (hlær).

DH: Þetta er sjötta árið ykkar sem hljómsveit á hátíðinni en hvað telur þú vera eftirminnilegast frá liðnum árum á hátíðinni (fyrir utan ykkar eigin heimsóknir)?

HV: Mér hefur alltaf fundist Blue Lagoon partýin mjög sæl minninga. Af erlendum listamönnum eru það líklega tónleikar The Fiery Furnaces árið 2005, The Rapture á Gauknum 2004 og vá, alveg hellingur af öðru. Hreinlega af allt of mörgu að taka!

DH: Já. Ég er sjálfur ekki frá því að The Rapture sitji vel í manni eftir öllu þessi ár! Takk fyrir spjallið en svona rétt í lokin; Hvað á að sjá í ár (Jú, fyrir utan Bláa Lónið)?

HV: Satt að segja hef ég ekkert náð að kynna mér listann í ár. Ég var þó frekar heppinn að sjá tUnE-yArds í Barcelona í sumar og mun ekki missa af henni. Dungen eru líka mjög spennandi en ég held að mín persónulegu plön miði að íslensku böndunum. Þar eru fremst á meðal jafningja Sin Fang, Cheek Mountain Thief, Reykjavík!, Sudden Weather Change og að sjálfsögðu Q4U! Jú og svo auðvitað Beach House. Þau eru frábær! Annars renni ég fremur blint í sjóinn líkt og fyrri ár og finnst það bara gaman.

Rjóminn þakkar Halla Valla innlitið og óskar honum og hljómsveit hans Ælu, góðs gengis á komandi Iceland Airwaves hátíð en Æla stígur á stokk á miðnætti á Café Amsterdam á sunnudeginum. Hljómsveitin kemur einnig fram á off-venue tónleikum Steinþórs Helga á heimili hans við Ingólfsstræti 8 á Live Project is House Party.

Aela on Icelandic Airwaves’10 from Thor Kristjansson on Vimeo.

Iceland Airwaves ´11: JD McPherson

Elvis er steindauður! Hins vegar er tónlist herra Presley og félaga frá árdögum 6.áratugarins langt í frá týnd og tröllum gefin. Það er að minnsta kosti ekki hugar hins magnaða rockabilly(hunds) JD McPherson frá Alabama-fylki í Bandaríkjunum. Með fjölskyldbakgrunn sinn (hörkuvinnandi föður og guðhrædda móður) afar suðurríkja/Cash/Presley-ilmandi, gítar, rödd sem selur grimmt og brilliantín í hárinu hefur McPherson endurreist trú heimsins á þessari einstaklega heillandi tónlistarstefnu, rockabilly. Þó svo megininntak tónlistar kappans sé tengd fyrrnefndri stefnu hefur McPherson náð að blanda áhrifum frá Talking Heads og Bad Brains inn í lagasmíðar sínar og er það einfaldlega alveg geggjaðslega spennandi. Frumburðurinn Signs & Signifiers hefur vakið mikla lukku í tónlistarheiminum en platan, sem kom út fyrir sléttu ári síðan, hefur alið af sér súpersmellinn North Side Gal og Fire Bug. Hafa fáir ölþyrstir næturgalar vart misst af rokk og ról sveiflu við undirleik McPherson á knæpum landans og er nú um að gera að henda brilliantíni í hárið, henda sér í gallann, pússa stígvélin vel og ná JD McPherson á Iceland Airwaves 2011. Ætli það verði ekki hól lott of sjeikíng góin on? Ef Jerry Lee Lewis er sama. Já, svo er vert að minnast á að sólgleraugu innandyra eru fyrirgefin þetta kvöldið.

JD McPherson stígur á svið á Gauk á Stöng laugardagskvöldið 15.október klukkan 23.20.

Nevermind á Gauknum

Í tilefni 20 ára afmælis plötunnar Nevermind eftir hina goðsagnakenndu sveit Nirvana hefur hópur tónlistarmanna tekið sig saman og hyggst halda heiðurstónleika á Gauk á Stöng (áður Sódóma Reykjavík) annað kvöld. Nevermind, sem út kom þann 24.september árið 1991, hefur lengi verið talin ein áhrifamesta rokkplata 20.aldarinnar en platan hefur nú selst í ríflega 26 milljónum eintaka út um allan heim. Platan hlaut ekki síður vægi eftir andlát Kurt Cobain árið 1994 og lifir góðu lífi enn þann í dag. Það eru þeir félagar Franz Gunnarsson (Ensími/Dr.Spock), Þórhallur Stefánsson (Lights On The Highway) og Jón S. Sveinsson (Hoffman) sem leika gruggið þetta kvöldið en þremenningarnir þessir ættu að vera orðnir flestum kunnir eftir heiðurstónleika hljómsveita á borð við Alice in Chains, Stone Temple Pilots og Smashing Pumpkins (svo eitthvað sé nefnt). Það er þó í hlutverki Einars Vilbergs Einarssonar að túlka hinn goðsagnakennda Kurt Cobain á sinn eigin hátt en Einar ættu flestir að þekkja sem forsprakka rokksveitarinnar noise. Ekki þarf að hamra á hollustu þessara félaga til Nirvana en allir hafa þeir verið undir miklum áhrifum þessarar sveitar í sínum eigin lagasmíðum í gegnum árin. Auk þeirra mun Agnar Eldberg úr hljómsveitunum Lights on The Highway og Klink vera sérstakur gestur.

Nú þegar 20 ár eru liðin frá útgáfu einnar áhrifamestu rokkplötu sögunnar er ekki seinna vænna en að halda niður á Gauk á Stöng, ungnir sem aldnir og taka þátt í gleðinni. Dyrnar opna á slaginu 22:00 og er miðaverð 1500 kr. Aldurstakmark að þessu sinni eru 18 ár. Fuglinn hvíslar að hljómsveitin mundi sín vopn á slaginu 23.30.

Rjóminn hvetur lesendur til að fikta við nostalgíuna, þeyta flösu og athuga hvernig Gaukur á Stöng lítur út eftir endurlífgun.

 

 

Sage Francis á Sódóma 3.september

Bandaríski rapparinn/ljóðskáldið Sage Francis sækir landann heim nú á laugardag og mun koma fram á Sódóma Reykjavík við Tryggvagötu laugardaginn 3.september nk. Ásamt Francis mun rapparinn B.Dolan troða upp en báðir koma þeir frá Providence í Rhode Island fylki í Bandaríkjunum.

Sage Francis hefur um nær áratugaskeið hrist vel upp í rappheiminum með hreinskilnum textum sínum, oftar en ekki í töluðum stíl (spoken word) og með því að storka hinum almenna tónlistarstíl nútímarapptónlistar en breiðskífa hans, Personal Journals, frá árinu 2002, hlaut einróma lof gagnrýnanda. Francis heimsækir nú Ísland í annað sinn með rúmlega sjö breiðskífur að baki en rapparinn gekk á land árið 2002. Nýjasta breiðskífa Francis, Li(f)e, kom út árið 2010 og lagið “The Best of Times” náði gríðarlegum vinsældum ásamt því að myndbandið við lagið gerði lukku. Francis er eigandi neðanjarðarplötufyrirtækisins Strange Famous Records en B.Dolan er einmitt einn af listamönnunum þar á bæ. Auk þess má nefna Buck 65, annan Íslandsvin í sambandi við fyrirtækið.

Miðasala á tónleika Sage Francis og B.Dolan á Sódóma Reykjavík þann 3.september nk. fer fram á miði.is og er miðaverð 3.000 krónur.  Rjóminn hvetur áhugafólk um rapptónlist, rímur og flæði að líta við á þessa félaga frá Rhode Island næstkomandi laugardagskvöld.

Extreme Chill Festival 2011: Undir Jökli. Fyrri hluti

Snæfellsjökull heilsaði hvítur, fagur og máttugur þegar komið var inn að Hellisandi á fimmtudagskvöldið. Sólin var að setjast og eitthvað lá í loftinu en þó, engar geimverur sjáanlegar. Önnur Extreme Chill raftónlistarhátíðin var að hefjast. Leiðinni var haldið að fallegu, svörtu timburhúsi þar sem snemmboðnir gestir voru boðnir velkomnir með heitri og sterkri fiskisúpu, köldum bjór og útsýni yfir hafið sem auðveldlega bræddi hjörtu hörðustu manna. Slökunarstemming tók völdin og einkenndist fyrsta kvöld hátíðarinnar af einstaklega mjúkri raftónlist, sófakúri skipuleggjanda (þeirra Andra M. Arnlaugssonar, Pan Thorarensen og fjölskyldu) og nærstaddra, kertaljósum og rólegheitum. Sannkallað logn á undan storminum.

Næsta dag tók að bæta í fjöldann og heimildir voru um að helgarpassar, sem seldir voru í forsölu á miði.is, væru að klárast. Aðstandendur héldu niður að Félagsheimilinu Röst þar sem áætlað var að hýsa hátt í 30 innlenda, sem erlenda raftónlistarmenn, næstu tvö kvöld. Gamla félagsheimilið breyttist hægt og rólega í tónleikahöll í hæsta klassa þar sem Óli Ofur og hljóðkerfi hans tók að fylla sviðið og myndlistarmaðurinn Guðmundur Þór “Mummi” Bjargmundsson kom fyrir sýningartjöldum. Á meðan aðstandendur og fjölskylda gerðu að fiskisúpu morgundagsins í eldhúsi félagsheimilisins og kláruðu síðustu pússanir, héldu hátíðargestir á tjaldstæðið rétt við bæinn þar sem útigrillin voru tendruð og fólk nærði sig. Fyrir þá sem ekki vildu tún og hraun var kaffihúsið Sif hinn besti kostur. Þar gátu hátíðargestir nært sig með köldum kranabjór, háklassa kjúklingabringu a la Sif og eins og einu staupi af íslensku brennivíni.

Um klukkan 20.00 hófust leikar og hafði bæst virkilega í hópinn. Grófar tölur áætluðu að hátt í 300 manns myndu sækja hátíðina að þessu sinni. Hafði þá fjöldi gesta margfaldast frá jómfrúarhátíðinni árið áður. Það var í höndum þeirra Árna Vektor og DJ Andre (eins skipuleggjenda hátíðarinnar) að bjóða fólkið velkomið í Félagsheimilið Röst og gerðu þeir það með sóma. Þeim fylgdu svo Inferno 5/Jafet Melge og í samblandi við myndlistaverk Guðmunds Þórs (Mumma) virkaði þetta allt saman stórfenglega. “Mummi” sýndi retro og svarthvítar hreyfimyndir í bland við landslagsfilmur sem hann hafði einnig tekið upp á staðnum við komu sína þetta árið. Frábært! Ekki var hljóðkerfi Óla Ofur síðra og áttu þeir Tonik (Anton Kaldal) og síðar Steve Sampling eftir að nýta sér það til fulls. Sá síðarnefndi hefur undanfarið fengið frábæra dóma fyrir plötu sína, The Optimist, sem út kom í apríl sl. undir merkjum TomTom Records. Tonik hefur sömuleiðis sent frá sér breiðskífu í samstarfi við TomTom en gripur sá nefnist Snapshot One og kom út í febrúar. Stemmingin og andinn innan sem utan veggja félagsheimilisins var magnaður. Voru það ekki einungis rafþyrstir tónleikagestir sem sáu sér fært að líta á kvöldið, heldur höfðu kanínur, hvítir kettir og fuglar ákveðið að fylgja með. Dýralífið, fegurð nærliggjandi náttúru, tónlistin og viðhorf og viðmót gesta sýndi það og sannaði í eitt skipti fyrir öll að elektrónísk tónlist á svo sannarlega upp á borðið hér á landi.

Skurken (Jóhann Ómarsson) hefur löngum verið einn af þekktari rafónlistarmönnum hérlendis og henti í góða blöndu af dansvænni og þægilegri elektróník sem sýndi og sannaði styrk hans á sínu sviði. Ögn drifkeyrðara en fyrri listamenn kvöldsins sem gerði það að verkum að fólk gat dillað sér örlítið og gaf næstu mönnum, Plat, byr undir báða vængi. Plat blönduðu (líkt og Tonik fyrr um kvöldið) hljóðfærum á borð við gítara og bassa í sitt sett og kom það mjög vel út. Hönd í hönd leiðist tónlistin og því meira bland, því betra. Loks var það í höndum Orang Volante (Atli Þorvaldsson) og Captain Fufanu að klára kvöldið. Klukkan var orðin nokk margt, eða um tvö og dreifðust gestir um reykrými, hátíðarsalinn og baksviðssvæði mun meira en áður en bæði bönd sáu vel um sitt og áttu gott sett. Captain Fufanu á framtíðina fyrir sér í rafheiminum en þessir ungu strákar hófu að koma fram fyrir ekki svo löngu síðan og hafa áunnið sér gott orðspor fyrir hresst og þétt elektró. Meira af þessu strákar! Kapteinninn henti fólki út á vit ævintýrana en um þrjúleytið dreifðist fólk jafnt um tjaldstæði sem önnur svæði Hellisands og tók gleðin völd. Safnaðist brosmilt og ánægt fólk að bifreiðum sínum og tjöldum og keyrði tónlistina og gleðina fram undir morgun. Það heyrðist vel og sát að tónleikagestir höfðu ekki séð eftir því að líta við á Extreme Chill Festival 2011: Undir Jökli. (Von er á myndum ásamt myndbrotum frá hátíðinni á næstu dögum)

Hátíð fer að höndum ein

Þar sem Hróarskelduhátíðin 2011 hefst í næstu viku er tilvalið að henda í einn góðan blandlista, faðma að sér helgina, sólina og fara að hlakka til. Veðurspáin rokkar upp og niður fyrir Danaveldið og geta hátíðargestir því gert vel við sig með stígvélakaupum auk þess að gefa hlýrabolnum og stuttbuxunum pláss í ferðatöskunni. Þrátt fyrir dræmar undirtektir við val skipuleggjenda á listamönnum í ár er uppselt á hátíðina og virðist tilfinningin vera með einu og öllu frábær. Við skulum hlýða og virða fyrir okkur nokkrar áhugaverðar sveitir sem fram koma á hátíðinni í ár, opna einn kaldan, fara að dansa og pakka niður. Lesendur hafa þó án efa tekið eftir dálítilli umfjöllun undanfarið og geta því gert sér glaðan dag og litið yfir þær færslur. Rjóminn verður að sjálfsögðu á svæðinu og færir fréttir af fréttnæmu fjöri eins fljótt og auðið er. Skál!

Í lokin smá kitl í mallann frá Roskilde 2008 en þessir piltar snúa aftur í ár og ætla sér að loka Orange sviðinu á sunnudagskvöldið.

….og svo miklu miklu meira! Sjáumst.

Smashing Pumpkins heiðruð

Lítið er lát á heiðurstónleikum merkra sveita fyrri tíma hér á landi en nú ætla nokkrir íslenskir tónlistarmenn að hópa sig saman og heiðra rokksveitina Smashing Pumpkins á Sódóma Reykjavík þann 18.júní. Sveitin er skipuð þeim Franz Gunnarssyni (Ensími/Dr.Spock o.fl.), Bjarna Þór Jenssyni (Cliff Clavin), Þórhalli Stefánssyni (Light on The Highway), Helga Rúnari Gunnarssyni (Benny Crespo´s Gang), Jón Svani Sveinssyni (Hoffmann) og Roland Hartwell & vinum úr Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hyggst sveitin renna í slagara af plötum Smashing Pumpkins á borð við Gish, Zeitgeist, Mellon Collie & The Infinite Sadness og hinni goðsagnakenndu Siamese Dream. Miðaverði er verulega stillt í hóf en aðeins kostar 1000 krónur inn og hefjast dyrnar upp á slaginu 23.00. Aldurstakmark er 18 ár.