Airwavesdagbók Guðmundar: Föstudagur

Ég skyldi við vini mína fyrir utan NASA klukkan hálf-tíu. Þau ætluðu sér inn að sjá Young Magic. Það hafði upphaflega verið planið mitt líka, en þar sem hin örstutta pressuröð hreyfðist ekkert þá ákvað ég að sjá eitthvað í stað þess að standa fyrir utan í kuldanum. Lay Low var að byrja eftir smástund. Var það eitthvað? Ég hef áður skemmt mér ágætlega á tónleikum með stúlkunni. Hví ekki að freista gæfunnar aftur?

Ég lagðist því leið mína inn í Iðnó. Keypti mér flöskubjór á uppsprengdu verði og kom mér fyrir aftarlegar, voða spekingslegur á svip. Á tónleikunum lék Lovísa ný lög í bland við eldri. Hún á marga eldri smelli – en nýja efnið hljómar bara enn smellnara. Sjálfur hef ég ekki heyrt Brostin streng, nýju plötuna hennar, en lögin sem hún spilaði þarna hljómuðu bara déskoti vel. Mér varð hugsað til þess þegar ég sá hana fyrst spila; þetta var í porti þar sem verslunin Illgresi stóð. Þar var hún ein með kassagítar, feimnisleg að sjá og fámál á milli laga. Það er óhætt að segja að hún hefur vaxið mikið og dafnað sem tónlistarkona. Á tónleikunum var hún í góðu sambandi við áhorfendur, flutti tónlistina af innlifun og virtist hafa alveg jafn gaman af og áhorfendur. Hún er flottur performer og sýndi það og sannað þarna. Vel gert!

Ár og öld eru liðin síðan ég hef farið á tónleika með Megasi; held að það hafi verið síðast á NASA hérna um árið þegar hann lék Loftmynd í heild sinni. Það vildi svo heppilega til að Megas var u.þ.b. að hefjast þegar Lay Low lauk sér af. En eitthvað verð ég þó að bíða lengur eftir að sjá meistarann því hann sá sér ekki fært að mæta þetta kvöldið. Á sviðinu í Tjarnabíói sat tónlistarkonan Sóley, studd af trommara, og tilkynnti mér þetta. Ég hlýddi þó á nokkur lög; hafði gaman af en var svolítið svekktur yfir að Sóley væri ekki Megas.

Klukkan var að verða ellefu þegar ég snéri aftur á NASA. Röðin orðin enn lengri, enda margir vafalaust spenntir fyrir að sjá Tune-yards. Ég komst fljótt að því að röðin hafði hreinlega ekkert færst áfram síðustu tvo tímana. Vinir mínur voru staddir á nákvæmlega sama stað og ég skildi við þá: fimm metrum frá innganginum.

„Þetta er fáránlegt!“ „Við nennum þessu ekki lengur . . .“ „Dyravörður – afhverju segir þú ekki fólki að þú ætlir ekki að hleypa þeim inn?“ „Fokkðis – förum á Ham . . .“

Sjálfur hefði ég kannski komist inn, enda fékk ég fríkeypis band frá Airwaves sem hleypti mér fram fyrir röð. En á þessum tímapunkti fannst mér það bara ekki viðeigandi. Þarna var samankomið fólk sem hafði pungað út tæpum 17.000 krónum en þurfti samt að bíða tvo tíma í skíta-október-þræsingi. Og var engu nær að fá það sem greitt var fyrir dýru gjaldi. Já, fokkðis. Ég fór á Ham.

Áður en gengið var inn í Hafnarhús var tekið pittstopp á Bakkusi; fólk var þyrst, þreytt og þurfi. Þar inni var eitthvað band að leika músík sem ég veitti enga athygli.  Við teyguðum bjórinn nokkuð örugglega og bölsótuðumst út í hátíðina. Vissulega sumir meira en aðrir. Þetta var toppurinn á kvöldinu hjá flestum sem voru með mér – þ.e. þeim sem ekki fóru á Ham. Ég held að við höfum síðan klárað kolluna á svipuðum tíma og Dungen kláraði settið sitt.

Í mátulega stöppuðu Hafnarhúsi stigu nokkrir fúlskeggjaðir, miðaldra menn á svið. Þeir léku þungt rokk með greinilegri vísun í níunda áratuginn. Flestir þeirra starfa við músík í hjáverkum. Þeir gáfu út plötu fyrir skemmstu, en einhver tuttugu ár eru síðan síðasta skífa þeirra leit dagsins ljós. Samanlagður aldur meðlimir myndi telja, samkvæmt nákvæmum útreikningum, samanlagaðan aldur þrettán fullskipaðra Retro Stefson-hljómsveita. En. Það var þessum mönnum sem tókst að veita mér bestu tónleikaupplifun hátíðarinnar. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um þetta: Ham voru þrusuþéttir, þungir og viðbjóðslega skemmtilegir. Ungir sem aldnir, stutthærðir sem síðhærðir, þeyttu höfðinu með krampakenndum hreyfingum. Mikil stemningin, mikil snilld. Sjáið bara:

Þetta kvöld var ekki farið á fleiri tónleika. Útivera og raðamenning heilluðu bara hreinlega ekki. Við vildum vera inni – og helst í einhverri óreiðu. Þetta kvöld hafði orðið eitthvað sem það átti alls ekki að vera; og ég er nokkuð viss um að ég var ekki einn um líða þannig. Ham björguðu þessu þó og vil ég þakka þeim kærlega fyrir að vera til. Ó, Ham, þið eru svo sannarlega dýrðlegar skepnur!

Myndir teknar á lélegan Nokia-síma sem er í eigu greinarhöfundar.

Airwavesdagbók Guðmundar: Fimmtudagur

Eftir sjávarrétti og hvítvín í góðra vina hópi héllt ég út í kvöldið í mínu fínasta pússi. Eða svona næstum því. Eitthvað áttum við erfitt með að ákveða hvað skildi sjá en fljótlega var stefnan sett á Norðurljós Hörpunnar. Rétt rúmlega níu steig dúettinn Fig á stokk. Í stuttu máli voru vonbrigðin jafn mikil og eftirvæntingin hafði verið. Ég er mikil aðdáandi Wilco og veit fyrir víst að herra Cline hefur verið að gera eitursvala hluti utan þess. En tilraunirnar sem hann gerði hér með japönsku samstarfskonu sinni voru álíka áhugaverðar og það sem fram fer í tónmennt í fjórða bekk. Eftir 15 mínútur af undarlegu gítargutli og effektafikti gafst ég upp og labbaði út. Afsakið frönskuna mína; en þetta sökkaði. Annars getið þið séð stutt brot af tónleikunum hér að neðan. Það hefði nægt mér.

Fig @ Airwaves ’11


Fyrir forvitnis sakir ákvað ég að rölta niður í Kaldalón þar sem arftakar krúttsins, Pascal Pinon, voru að spila sitt lágstemmda popp. Stúlkurnar gerðu sitt vel og lítið hægt að kvarta undan frammistöðu þeirra. Stemningin var ofboðslega notaleg og tónar og textar einkar hugljúfir. Ég var að koma inn í þennan sal í fyrsta skipti – og kunni vel við mig þarna. Nálægðin við bandið gerði þeim stöllum bara gott. Þær gætu þó talað svolítið hærra og skýrar á milli laga; en ætli þessi feimni sé ekki hluti af sjóvinu.

Áður en ég kom mér inn í Hafnarhús ákvað ég að taka stuttu stopp á NASA. Þar voru Young Galaxy að framreiða tóna – og mikla eðaltóna! Hljómur bandsins var virkilega flottur og slípaður og rafmettað popprokkið leikið af miklu öryggi. Karl og kona (hjón að mér skilst) skiptust á að syngja og harmoneruðu þau vel saman. Við hlýddum á einhvern þrjú lög yfir staupi af Fernet Branca; og höfðum bara mjög gaman af. Efnileg sveit hér á ferð.

Beach House. Já, Beach House var án nokkurs vafa það besta sem ég sá þetta kvöldið. Sveitin lék lög af síðustu tveimur plötum sínum við mikinn fögnuð tónleikagesta. Flutningurinn var óaðfinnanlegur og lagavalið frábært. Sviðsframkoman var svöl og sjarmerandi, kannski ekki persónuleg eða einlæg – en það gerði ekkert til. Ég hafði gert mér í hugarlund að Victoria Legrand væri þessi hlédræga, dularfulla týpa en hún virtist í miklu stuði þar sem hún þeytti flösunni hressilega og heillaði lýðinn upp úr skónum eins og sírena með söng sínum. Hljómurinn var góður þetta kvöldið í Hafnarhúsinu og vel staðið að lýsingu. Ég labbaði út alsæll. Svona á þetta að vera!

Áður en haldið var heim í koju var tekið pittstopp á Amsterdam. Hin norska Deathcrush var síðasta sveit á svið. Aftur virtust spádómsgáfur mínar bregðast mér; þetta var bara frekar slæmt gigg. Flutningurinn alls ekki nógu góður – sándið flatt og leiðinlegt. Hálfgerð óreiða, og þá á slæman hátt. Lítið hardkor á þessu svæði.

Framhaldið? Ég ætla ekki að taka neina sénsa í kvöld heldur tippa á það sem hefur öruggasta stuðulinn. Tune-yards lofar góðu, borgarpólitíkusarnir í HAM ættu að vera gott aksjón og Prinsinn Póló er iðulega hress. Einhvern nefndi stuðbandið Totally Enormous Extinct Dinosaur – er það eitthvað? Sjáum til.

Þess verð ég að geta að myndirnar voru teknar af öðlingnum honum Benjamin Mark Stacey.

Airwavesdagbók Guðmundar: Miðvikudagur

Af stemningunni í miðbænum á miðvikudaginn mátti ráða að eitthvað var yfirvofandi. Eitthvað spennandi. Á hverju götuhorni tók við manni ný, erlend tunga og inn og út af öldurhúsum borgarinnar streymdu tæki og tól, hljóðfæri og fólk. Meira að segja í pottunum í Vesturbæjarlauginni mátti greina þetta, þar sem rithöfundar, tónlistarmenn og gamalmenni voru samankomin að spjalla um málefni líðandi stundar: Airwaves er að byrja. Tilfinning mín var sú að aldrei hafi fleiri útlendingar verið hingað komnir til að sjá, upplifa og heyra íslenska tónlist. Og dagskrá kvöldsins var svolítið eftir þessu; flestir listamennirnir voru íslenskir og marga hverja hafði maður séð spila oftar en einu sinni eða tvisvar. Ég tók því þann pólinn í hæðina að elta uppi það sem hafði áður framhjá mér farið.

Ég byrjaði kvöldið á Off-venjúi í boði Gogoyoko á Bar 11. Þar voru finnsku öldungarnir í 22-Pistepirkko að leika fyrir dansi. Ég ætla bara að gera hreint fyrir mínum dyrum; meiri tími fór í skeggræður yfir ölkrús en eiginlega inntöku á músík. Stundum náði bandið þó að grípa athygli mína með snjöllum gítarlínum og þokkaleg kraftmiklu rokkstuði svo samræðurnar voru settar á hold. Það er greinilegt að bandið hefur gert þetta lengi; virtist nokkuð öruggt í flutningi sínum en hafði mátt hafa meira gaman af þessu. Þó óhætt að mæla með að fólki kíki á þessa reynslubolta.

Pornopop voru næstir á dagskrá; aðrir öldungar sem ég hafði ekki séð áður. Pornopop samanstendur af tveimur bræðrum en þeim til halds og trausts voru Franz, úr Ensími, og Ingi Björn, bassa- og kyntröll. Tónlistin var áheyrileg; svona gítardrifið letirokk, minnti á köflum á American Analog Set. En framkoman var álíka letileg og tónlistin sjálf. Þeir spiluðu og sungu með lokuð augun; ekki af innlifun heldur frekar eins og þeir væru bara pínu þreyttir.

Á Faktorý voru það reggí-bönd Amaba Dama og Ojba Rasta sem áttu að slá botninn í tunnuna þar á bæ. Það fyrra hafði ég aldrei heyrt um áður, Amaba Dama, en það síðara er orðið landanum góðkunnugt. Það var vel hægt að dilla sér við Amaba Dama. Spilagleðin var í fyrirrúmi og sviðsframkoman lífleg; meðlimir klæddir fjöðrum og glingri. Því miður bliknuðu þau hinsvegar í samanburði við Rastana í Ojba. Bandið var þétt og vel spilandi, lögin grípandi og skemmtileg. Ekki skemmir fyrir að hafa Dubmaster innanborðs en hann gefur litríku bandinu enn meiri lit. Stemning var þar að auki orðin vel sveitt enda staðurinn stútfullur af fólk í miklu stuði. Því miður náði ég ekki að hlýða á tónleikana til enda því samverkamaður minn gerðist drukkinn og spjó. Ojbarasta!

Þetta kvöld var fínn forsmekkur fyrir það sem koma skal. Venjúarnir voru full fáir þetta kvöldið og því mynduðust raðir á ákveðnum stöðum. En þannig er það bara! Þar sem ég sit hér og rita þetta yfir kaffibolla finn ég vissulega fiðring fyrir kvöldinu í kvöld. Beach House er vafalaust það númer sem ég er spenntastur fyrir. Annars heilla norsku málmhausarnir í Deathcrush, kanadamennirnir í Young Galaxy og japansk-bandaríski dúettinn Fig. Þess má geta að Nels Cline, gítarsveinn Wilco, er annar helmingur Fig. Þetta verður eitthvað!

Þess má geta að myndum var stolið af Flickr-síðu Loftleiða og þær birtar án leyfis. Ég vona að ég fái ekki skömm í hattinn.

Iceland Airwaves’11: Veronica Falls

Breska sveitin Veronica Falls var stofnuð í London árið 2009 upp úr rústum nokkurra lítt þekktra indíbanda. Á næstu tveimur árum smíðuðu þau nokkrar þrælskemmtilegar smáskífur og fengu svo loks útgáfusamning hjá Bella Union. Frumburðurinn, sem er samnefndur sveitinni, kom út fyrir skemmstu og hefur hlotið þessa fínu dóma.

Veronica Falls leikur indí-popp af breska skólanum með tvisti. Á köflum minnir bandið á sveitir eins og The Pastels og Belle and Sebastian. Veronica Falls seyðir þó fram mun skítugri og rokkaðri hljóm en fyrrnefnd bönd; mögulega mætti rekja það til upptökustjórans Guy Fixsen. Herramaður sá hefur unnið með böndum á borð við My Bloody Valentine, Stereolab og Slowdive. Hverju sem því líður þá er óhætt að mæla með sveitinni; að mínu mati er Veronica Falls eitt það áheyrilegasta sem Airwaves býður upp á þetta árið.

Veronica Falls leikur í Norðurljósum Hörpunnar kl. 20.50 á laugardeginum.

Veronica Falls – Come On Over

Iceland Airwaves ’11: SBTRKT

Fyrir þá sem ætla að reima á sig dansskónna á Airwaves ættu ekki að láta SBTRKT framhjá sér fara. SUBTKT, eða Subtract, er listamannsnafn bresks plötusnúðs sem vill helst að fólk viti sem minnst um sig. Þessvegna klæðist hann einhverskonar bangsagrímu á tónleikum og talar sem minnst um persónu sína viðtölum. Á síðustu þremur árum hefur hann gefið frá sér fjöldann allan af smáskífum, endurhljóðblöndunum og stuttskífum. Það var svo núna í lok júní að fyrsta breiðskífan leit dagsins ljós – en hún er samnefnd listamanninum. Á plötunni ægir saman ýmsum stefnum raftónlistarinnar með einkar dansvænni útkomu. Á tónleikum kemur kappinn venjulega fram einn og óstuddur – og reynir að eigin sögn að gera eitthvað meira en að fikta í lapptoppnum til að koma áhorfendum í stuð.

SBTRKT verður á NASA kl. 00.30 á aðfaranótt sunnudags.

SBTRKT – Wildfire

SBTRKT – Pharaohs

Iceland Airwaves ’11: Other Lives

Bandaríska indírokksveitin Other Lives var stofnuð í Oklahoma 2004, en þá undir nafninu Kunek. Sem Kunek gaf sveitin út eina plötu – en skipti síðan um nafn. Sem Other Lives hefur sveitin hinsvegar gefið út tvær plötur; þá fyrri 2006 og þá síðari núna á þessu ári en hún ber titilinn Tamer Animals. Bandið leikur lágstemmt og melódískt rokk sem sækir áhrif sín vítt og breytt um lönd. Hljómsveitin hitað upp fyrir Bon Iver á Norður-Ameríku túr hans í september – og eru það svosem ágætis meðmæli út af fyrir sig.

Other Lives leika á Listasafninu kl. 22.00 á laugardagskvöldinu.

Other Lives – For 12

Other Lives – Tamer Animals

Iceland Airwaves ’11: Beach House

Beach House er vafalaust eitt af stærstu nöfnum Airwaves hátíðarinnar í ár. Sveitin ætti nú að vera lesendum Rjómans góðkunnug enda höfnuðu bæði Devotions, frá 2008, og Teen Dream, frá 2010, á lista Rjómans yfir bestu plötur þeirra ára.

Beach House var stofnuð í Maryland-fylki árið 2004 af Victoriu Legrand og Alex Scally. Tveimur árum síðan leit frumburðuinn dagsins ljós, en hann heitir einfaldlega Beach House. Platan fékk mjög jákvæða dóma og endaði m.a. á árslista Pitchfork. Devotions, sem kom út tveimur árum síðar, gaf fyrri plötunni ekkert eftir og jók hróður sveitarinnar enn frekar. Beach House gekk síðan til liðs við herbúðir Sub Pop, gaf út sína þriðju breiðskífu, Teen Dream, og þá fóru hjólin að rúlla fyrir alvöru. Á plötunni útvíkkaði sveitin hljóðheim sinni töluvert og poppaði hann svolítið upp. Fyrir vikið uppskáru þau breiðari hlustendahóp.

Fyrir þá sem ekki þekkja til Beach House þá framreiðir dúettinn einskonar drauma-popp. Skemmtarar sjá gjarnan um hryjandina, raforgel og gítarlínur mynda saman dreymandi óm sem Victoria syngur svo yfir með sinni sérstæðu röddu (á köflum minnir hún smávegis á Nico). Á hljómleikum verður dúettinn gjarnan að tríó, en þá fá þau trommar sér til halds og trausts.

Beach House leikur fyrir dansi í Hafnarhúsinu kl. 23.00 á fimmtudaginum.

Beach House – Master of None (af Beach House)

Beach House – Gila (af Devotions)

Beach House – Zebra (af Teen Dream)

Iceland Airwaves ’11: Liturgy

Allir verða að fá eitthvað fyrir sinn snúð. Og metal- og aðrir harðkjarnahausar ættu geta fengið eitthvað fyrir sinn hjá amerísku svartmáls sveitinni Liturgy. Bandið á að baki sér tvær breiðskífur; Renihilation, frá árinu 2009, og Aesthethica sem kom út í maí á þessu ári á vegum Thrill Jockey. Músíkin er níðþung, riffin þéttofin og sem betur fer: engir vandræðalegir, sinfonískir tilburðir. Þeir sem eru með blæti fyrir líkfarða verða því miður að leita á önnur mið, því eftir því sem ég best veit þá eru hér á ferðinni fjórir, Brooklynskir stælgæjar (þýðing á enska orðinu hipster, fundin í orðabók).

Liturgy þeyta flösunni aðfaranótt sunnudags kl. 00.20 á Amsterdam.

Liturgy – Returner (af Aesthethica)

Iceland Airwaves ’11: tUnE-yArDs

Söngkonan Merrill Garbus skipar bandarísku “eins-manns-sveitina” Tune-yards. Hún hefur hlotið mikið lof gangrýnenda að undanförnu fyrir aðra breiðskífu sína, w h o k i l l, sem kom út í apríl á þessu ári á vegum 4AD. Tvö lög af plötunni, “Bizness” og “Gangsta”, hafa þar að auki farið um netið eins og eldur í sinu. Stúlkan skapar tilraunakennda popptónlist þar sem rödd og söngur leikur stórt hlutverk.

Á tónleikum notar Tune-yards mikið lúppur sem hún skapar á staðnum ýmist með rödd sinni, ukulele og/eða trommum. Henni til halds og trausts eru svo saxófónar og rafbassi. Fyrir vikið verður flutningurinn hálfgerður bræðingur af elektrónískum og lifandi elementum.

Tune-yards eiga bókað pláss á NASA kl. 23.30 á föstudeginum.

Tuneyards – Bizness

Tuneyards – Gangsta

Iceland Airwaves ’11: Dale Earnhardt Jr. Jr.

Ætla má að dúettinn Dale Earnhardt Jr. Jr. sé einskonar tónlistarlegt afkvæmi NASCAR-ökumannsins Dale Earnheart Jr.  Það er þó ekki bara nafnið sem tengist akstri og ökutækjum; meðlimir sveitarinnar, þeir Josh og Daniel, koma frá mekka bílaiðnaðarins, Detroit, og fyrsta EP-plata Dale var nefnd Horse Power.  Á plötunni mátti m.a. annars finna ábreiðu af Beach Boys laginu “God Only Knows” – og heyra má hana hér að neðan. Í sumar gáfu þeir ökuþórar svo út sína fyrstu breiðskífu, It’s A Corporate World. Músíkinni mætti lýsa sem rafskotnu indípoppi með greinilegri vísun í Brian Wilson og félaga í Beach Boys. Bandi hefur hlotið lof fyrir tónleika sína og því bara að krossa fingur og vona að Dale verði í miklu stuði á Airwaves.

Dale Earnhardt Jr. Jr. – Nothing But Our Love (af Horse Power EP)

Dale Earnhardt Jr. Jr. – Simple Girl (af It’s A Corporate World)

Dale Earnhardt Jr. Jr. – God Only Knows (af Horse Power EP)

Rjómalagið 29. september: Gold Panda – An Iceberg Hurtled Northwards Through Clouds

Rjómalagið í dag er dansvænt sökum þess að fimmtudagur er hinn nýi föstudagur, að mér skilst. Það kemur úr smiðju breska raftónlistarmannsins Derwin Panda, eða Gold Panda, eins og hann vill víst láta kalla sig. Lagið er tekið af væntanlegri plötu sem kappinn vann fyrir DJ Kicks seríuna.

Gold Panda – An Iceberg Hurtled Northwards Through Clouds

Nýtt efni frá Tom Waits

Sérvitringurinn Tom Waits hefur loksins vaknað úr dvala. Sjö ár eru liðin síðan síðasta eiginlega breiðskífa Waits leit dagsins ljós, en það var Real Gone árið 2004. Þessu á hinsvegar að bæta úr 21. október þegar Bad as Me kemur út í gegnum Anti-. Platan mun innihalda 13 lög og í fréttatilkynningu frá plötufyrirtækinu kemur fram að lagasmíðarnar séu einkar fjölbreytilegar: “Bad As Me displays the full career range of Waits’ songwriting”. Eins og svo oft áður er það eiginkona Waits, Kathleen Brennan, sem pródúserar.

Í síðasta mánuði birtist fyrsti síngúlinn á iTunes, titillagið, “Bad As Me”, og í gær kom númer tvö í röðinni, lagið “Back in the Crowd”.

Tom Waits – Back in the Crowd

Tom Waits – Bad as Me

4AD Sessions

Ég veit vel, að ókeypis er allt það sem er best. Og það vita kumpánarnir hjá 4AD líka. Þessvegna eru þeir að gefa út ókeypis safnskífu á netinu sem kallast hreinlega 4AD Sessions og hefur að geyma læv upptökur af nokkrum helstu listamönnum útgáfunnar. Mætti þar nefna Ariel Pink, Iron & Wine, Tune-yards, Blonde Redhead og Deerhunter. Hér fyrir neðan geta áhugasamir niðurhalað góssinu eða hlýtt á það.

4AD Sessions

Gauntlet Hair eftir Gauntlet Hair

Gauntlet Hair samanstendur af Andy og Craig, tveimur gaurum frá Colorado, sem hafa í nokkur ár búið til tónlist saman. Í fyrra sendu þeir frá sér tvær smáskífur og vöktu athygli í netheimum – m.a. hjá útgáfufyrirtækinu Dead Oceans. Átjánda október næstkomandi kemur út fyrsta verk þeirra í fullri lengd, skífan Gauntlet Hair. Tvö lög af plötunni er nú þegar aðgengileg á netinu og hafa vakið mikla lukku hjá undirrituðum. Tónlistinni mætti lýsa sem einskonar samsuðu af Animal Collective og Deerhunter á krakki. Svo verður bara að koma í ljós hvort frumraunin reynist jafn bragðgóð og forsmekkurinn.

Gauntlet Hair – Keep Time

Battles hjá Blogotheque

Á rápi mínu um netið rakst ég á tvö læv myndbönd af Battles frá hinni stórskemmtilegu síðu Blogotheque.  Þar má sjá tríóinn leika tvö lög af hinni frábæru Gloss Drop í mjög svo konunglegum sal einhversstaðar í Parísarborg. Meðlimir sveitarinnar eru augljóslega í miklu stuði og má sjá þá súpu rauðvín á milli þess sem þeir hálfpartinn ganga af göflunum.

Hér fyrir neðan má svo líka sjá nýlegt myndband Battles við lagið “My Machines”. Aðalleikarar eru Gary Numan og ónefndur maður sem á í einhverjum vandræðum með að koma sér úr rúllustiga.

Battles – Wall Street (frá Blogotheque.net)

Battles – Futura (frá Blogotheque.net)

Battles feat. Gary Numan – My Machines

Nýtt efni frá Atlas Sound

Bradford Cox, forsprakki Deerhunter, er að gera sig kláran fyrir útkomu þriðju breiðskífu eins-manns-bandsins Atlas Sound. Platan hefur fengið nafnið Parallax og kemur út á vegum 4AD eftir örfáar vikur. Í lok sumars birti Cox kover plötunnar ásamt því að gefa aðdáendum svolítinn forsmekk, þ.e. lagið “Terra Icognita”. Og nú fyrir helgi vippaði hann út öðru lagi, “Te Amo”, sem einnig mun prýða plötuna. Að vanda mun Cox sjálfur pródúsera og útsetja – ásamt því að flytja mest allt sjálfur. Hlustið á “Te Amo” og “Terra Icognita” hér að neðan.

Atlas Sound – Te Amo

Atlas Sound – Terra Icognita

Nokkrar áhugaverðar útgáfur í september

Annie Clark, betur þekkt sem St. Vincent, sendi frá sér sína þriðju hljóðversplötu í vikunni. Spekúlantar höfðu beðið skífunnar af mikilli óþreygju enda hefur stúlkan stimplað sig inn sem sérlega hugmyndríkur og frambærilegur lagasmiður á síðustu árum. Platan ber titilinn Strange Mercy og hefur raunar hlotið einróma lof gagnrýnenda á undanförnum dögum. Lagið hér að neðan, “Surgeon”, er fyrsti singúll plötunnar og gefur fögur fyrirheit.

St. Vincent – Surgeon

Spencer Seim og Zach Hill eru aðalsprautur stærðfræðirokksveitarinnar Hella. Tripper, fimmta breiðskífa bandsins, kom út núna á dögunum og getur undirritaður vottað að platan er full af eðal gítarhávaða og taktrúnki. Á síðustu breiðskífu dúetsins var dúettnum breytt í kvintett en á þessari skífu eru félagarnir aftur orðnir tveir. Hlýðið á fyrstu smáskífuna, “Yubacore”, hér að neðan.

Hella – Yubacore

Bandaríski tónlistarmaðurinn Toro y Moi kom og lék fyrir Airwaves-gesti í fyrra. Þá til að kynna sína fyrsu breiðskífu Causers of This. Núna er númer tvö komin út, Underneath the Pine, og gefur hún þeirri fyrri ekkert eftir. Toro y Moi framreiður hrærigraut af rokki, poppi, elektróník og fólki og er útkoman nokkuð hressileg. “How I Know” er þriðja smáskífa plötunnar.

Toro y Moi – How I Know

Wilco, með Jeff Tweedy fremstan meðal jafningja, gefur út sína áttundu hljóðversplötu í lok mánaðarins. The Whole Love kallast gripurinn og er það dBpm, útgáfufélag Wilco-manna, sem gefur út. Fyrsta lagið af plötunni, “I Might”, hefur nú fengið sjálfstætt líf á netinu og ber lagið þess merki að dulítil stefnubreyting eigi sér stað frá síðustu plötu. Allt gott og blesssað.

Wilco – I Might

Svo er um að gera að kíkja á ögn eldri færslur, ef þær skildu hafa farið framhjá ykkur, því:

Sóley í hljómsveitinni Seabear gaf út sína fyrstu breiðskífu, We Sink, á dögunum.

Rokkafarnir í Ham sendu frá sér Svik, Harm og Dauða.

Hljómsveitin 1860 gáfu út sína Sögu.

Hermigervill gaf út ábreiður af vinsælum íslenzkum lögum.

Hellvar smellti í breiðskífuna Stop the Noise.

Rjómalagið 13. september: Los Campesinos! – By Your Hand

Velska indípoppsveitin Los Campesinos! á Rjómalagið í dag. Lagið, “By Your Hand”, er tekið af væntanlegri plötu þeirra Hello Sadness. Orðið hryggð er þó ekki það fyrsta sem kemur upp í huga manns við fyrstu hlustun, enda er hér á ferð einkar sólríkur gleðisöngur. Hello Sadness kemur út um miðjan nóvember og mun vera fjórða stúdíóskífa Los Campesinos!

Los Campesinos! – By Your Hand