Sudden @ Gogoyoko

Enn bætist í myndbandaseríu Gogoyoko en í þetta skipti eru það Sudden Weather Change sem flytja lag sitt “1.6 Facilitate Access”. Leyfum bara mynd og hljóði að tala.

Sudden Weather Change – 1.6 Facilitate Access


Animal Crack Box

crackboxAnimal Collective mun gefa út Animal Crack Box í byrjun sumars, í gegnum Catsup Plate, en útgáfudagur verður tilkynntur síðar. Um er að ræða box með þremur plötum sem inniheldur ‘live’ upptökur af æfingum og tónleikum sveitarinnar frá árunum 2002-2003. Mörg þeirra laga sem á plötunum verður að finna, hafa ekki verið gefin út áður. Enn sem komið er hefur eingöngu verið tilkynnt um útgáfu á vinyl-formi en mögulega mun þetta góss skila sér á plast með tímanum (já, eða á .MP3). Animal Crack Box mun ekki fara í almenna dreyfingu en verður fáanlegt í gegnum netverslunina Fusetronsound.com.

Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem að Animal Collective gefa út ‘live’-disk, því árið 2006 var Hollinndagain endurútgefin, plata sem upphaflega kom út 2002 í mjög takmörkuðu upplagi. Á henni eru að finna upptökur af ýmsum tónleikum sem AC hélt ásamt Black Dice.

Animal Collective – There’s An Arrow (af Hollinndagain)

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Skrípa-fólk*

francois_virot*heiðarleg tilraun til þess að þýða hugtakið ‘freak-folk’.

Fransmaðurinn Francois Virot sendi frá sér plötuna Yes or No síðla árs 2008. Platan fór þó alveg framhjá mér þar til nú. Tónlistinni væri sennilega best líst sem einhverskonar ‘freak-folk’. Virot framreiður undarlega, akústíska fólkmúsík þar sem óreiðukennd lófaklöpp slá taktinn. Upptökurnar eru naumhyggjulegar en tónlistin er gædd einhverjum frumstæðum krafti. Virot er listamaður sem aðdáendur Dodos ættu ekki að láta framhjá sér fara.

Francois Virot – Cascade Kisses

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

shamecovereyeAmeríski kvintettinn Woods gaf nýverið út sína fjórðu plötu, Songs of Shame. Bandið er undir sterkum áhrifum frá hefðbundinni fólk-tónlist en leyfir sér þó að fara ótroðnar slóðir í sköpun sinni. Söngrödd Jeremy Earl er dæmd til þess að slá í geng eða floppa allsvakalega.

Woods –   Military Madness

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Kanadískt góðmeti

081104-clues_0Í Montreal-borg virðist tala ‘áhugaverðra indí-rokk banda per capita’ vera sú hæsta í heiminum – borgin er botnlaus uppspretta frjórra tónlistarmanna. Clues er mögulega nýjasta ‘hæpið’ frá Montreal, hálfgert ofurband skipað þeim Alden Penner, fyrrum liðsmanni The Unicorns, og Brendan Reed, úr The Arcade Fire. Clues sendir frá sér sína fyrstu skífu, Clues, þann 19. Maí hjá plötufyrirtækinu Constellation.

Clues – Perfect Fit  (.m4a)

patrick-watsonSéníið Patrick Watson gefur út sína fjórðu breiðskífu í lok Apríl.  Platan mun bera nafnið Wooden Arms og segir sagan að hluti hennar hafi verið tekinn upp hér á landi. Watson sendi síðast frá sér efni árið 2006, hina stórgóðu Close to Paradise. Watson hefur gjarnan verið líkt við tónlistarmenn eins og Jeff Buckley og Rufus Wainwright en ég vil þó meina að það sé meira í Watson spunnið en eftirhermuhæfileikar.

Patrick Watson – Tracy’s Waters

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Viðtal við Sudden Weather Change

Hljómsveitin Sudden Weather Change hefur hlotið mjög jákvætt umtal að undanförnu. Pitchfork Media lofaðil_42ee17baf5fc2df4d5cf93b2743859d2 bandið hástöfum í umfjöllun sinni um Airwaves-hátíðina og sérfræðingar Fréttblaðsins titluðu drengina sem björtustu von íslenskrar tónlistar. Kvintettinn er skipaður þeim Benjamin (gítar/söngur), Loga (gítar/söngur), Berg (bassi/söngur), Degi (gítar/hljómborð) og Odd (trommur). Um miðjan maí kemur út fyrsta breiðskífa bandsins sem ber hið einfalda nafn: Stop! Handgrenade in the name of Crib Death ‘nderstand? Rjóminn tók Loga Höskuldsson, einn af þremur röddum bandsins, á létt spjall.

Rjómi: Ég man óljóst eftir að hafa séð Sudden Weather Change spila í FB fyrir einhverjum 4 árum – ýmislegt hefur nú breyst síðan þá?

Logi: Já, ég ætla nú rétt að vona að þú sért búinn að gleyma hvernig þessir tónleikar voru í FB! Það sem hefur fyrst og fremst breyst á þessum 4 árum eru mannabreytingar. Sigurður Ingi hætti sem bassaleikari og við fengum Berg Thomas Anderson og Benjamin Mark Stacey til liðs við okkur, tvo stráka af erlendu bergi brotnu. Beggi kom úr ofur-bandinu Big Kahuna og Benni var bara mjög áhugaverður gaur með skemmtilegar pælingar – þeir voru bara svo góðir tónlistamenn að það bjargaði okkur alveg. En hlutirnir fóru að gerast frekar hratt eftir þetta: fljótlega var komin EP-skífa sem seldist upp, fjöldinn allur af tónleikum og tvær Airwaves-hátíðir sem heppnuðust vel hjá okkur. Og svo loksins er breiðskífa að líta dagsins ljós.

Rjómi: Getið þið sagt mér eitthvað um upptökurnar á plötunni?

Logi: Við eyddum tveimur síðustu vikunum í ágúst í elsta húsi Borgarfjarðar, sem nefnist ‘Trönur’, og tókum þar upp. Við ákváðum að vera einir úti í sveit til að hafa sem mesta einbeitingu á meðan að upptökur fóru fram. Við vildum ekki vera í Reykjavík þar sem við myndum vakna seint á daginn og hætta síðla kvöld – vera í endalausu kapphlaupi við klukkuna. Vinur okkar, Friðrik Helgason (trommuleikari Bob), var að fara að vinna lokaverkefninu sínu í upptökuskólanum á sama tíma og við vorum að fara að taka upp – svo okkur fannst upplagt að fá hann til liðs við okkur ná fram svona “fyrsta platan okkar og fyrsta platan hans”-fíling. Friðrik passaði líka fullkomlega að hugmyndum okkar um hvernig platan átti að vera og hljóma. Þar að auki er hann frábær gaur! Við fengum mikið af dóti frá vinum og kunningjum sem höfðu áhuga á að hjálpa okkur að búa til stúdíó uppí sveit, til dæmis Gunnar Þórðarson, svo að þetta var ekkert rosalega mikið mál. Við tókum plötuna fyrst upp ‘live’: trommur, bassi og gítar. Svo voru hinir tveir gítarar teknir upp seinna.

Rjómi: Hvað var eiginlega málið með CCP?

Logi: Þeir beiluðu rétt áður en við fórum í upptökur – þannig ég held að CCP sé ‘no go’ fyrir okkur

Rjómi: En Kimi – hvernig kom það til?

Logi: Ég hreint og beint man það ekki! Við höfðum spurt þá einhverntímann áður um að gefa okkur út en þá sögðu þeir nei. Þegar platan var svo næstum tilbúin leyfðum við þeim að heyra hana – þá voru þeir til í slaginn með okkur. Við hefðum ekki getað verið heppnari með plötufyrirtæki.

Rjómi: Stop! Handgrenade in the name of Crib Death ‘nderstand? – ég skil ekki alveg..?swccover_300_300

Logi: S!HIT NO CD’?

Rjómi: En hvað er svo næst á dagskránni hjá ykkur?

Logi:Það á að reyna að kom okkur á túr um Bandaríkin og Evrópu, en það er ekkert staðfest í þeim efnum – hvað veit maður á þessum krepputímum? Vonandi ferðumst við bara um allan heim, en í millitíðinni erum við að fara í hringferð um landið með sumargleði Kimi Records.

Stop! Handgrenade in the name of Crib Death ‘nderstand? kemur glóðvolg í búðir um miðjan maí en fyrsti singúlinn er nú þegar fáanlegur á Tónlist.is og ber nafnið St. Peter’s Day.

Sudden Weather Change – St. Peters Day

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Calder – Lower

Einkunn: 3,0
Útgáfuár: 2008
Label: Make Mine Music

Lower með Calder? Eða Calder með Lower? Ég var ekki viss, ég hafði aldrei heyrt um þessa útgáfu fyrr en mér barstcalder-lowerfront hún í hendur. Eftir að hafa slegið orðunum tveimur í leitarvél, komst ég að því að Calder er íslenskt ambient-dúó, skipað þeim Ólafi Josephssyni (betur þekktur sem Stafrænn Hákon) og Lárusi Sigurðssyni. Þeir hittust fyrir slysni og einhvernvegin varð Calder til úr þeim kynnum.

Calder-menn notast að mestu við strengi í lagasmíðum sínum, kassagítar og píanó, og því verða hljómhrif plötunnar mjög lífræn. Það er alltaf ánægjulegt að heyra vel lukkaða raftónlist þar sem akústísk hljóðfæri mæta rafmagnsverkfærum. Stengjadútls-lagagrunnarnir er svo skreyttir með klukknaspili, elektrónískum töktum og ýmsum hljóðfærum og hljóðum sem þeytt er í gegnum endurómunar-pedala og hljóðbrellu súpur.

Lower er mjög notaleg, liðast áfram án átaka og láta. Óhljóðin sem Calder kallar fram eru alltaf ljúf, og melódíur sem og rythmar grípandi og aðlaðandi. Þetta gerir það að verkum að Lower er ein af þessum skífum sem geta runnið í gegn án allrar eftirtektar – og því nýtur hlustandinn töfra hljóðheimsins best í heyrnartólum.

Hvað taktsmíði Calder varðar, þá þykir mér hún fremur þunnt kaffi: byggist að mestu upp á lítilfjörlegum smellum og skruðningum sem seytla um lögin. Að sjálfsögðu býður tónlistin ekki upp á neinn hamagang, ‘off-beat’ pælingar og sundursneidda takta – en það er nú víst til millivegur. Allt hlýtur nú að hafa sinn tilgang en fyrir rafperra eins og mig, þá orkar þetta á mig sem galli.

Lower er fín plata, og á köflum mjög fín plata! Eins og fyrr kemur fram, þá fellur Calder þó í þá gryfju að verða oft hreinræktuð stemningartónlist – en svo er það kannski bara yfirlíst stefna bandsins? Lower er fullkomið sándtrakk fyrir göngutúr um sumarnóttina – björt og fögur en pínulítið einmanaleg. Kærkomin viðbót í íslensku raftónlistarsenuna!

Hljóðdæmi af Lower má finna á Myspace-plássi Calder.

Er Aphex Twin að koma úr felum?

Það hefur lítið farið fyrir séníinu Richard D. James (Aphex Twin, AFX, Blue Calx, Bradley Strider, The Dice Man, etc.) á yfirborðinu síðan hin tvíbreiða Drukqs komopsyroc156p4 út árið 2001. Hann hefur þó ekki sitið auðum höndum í öll þess ár, heldur unnið að Analord-verkefninu: 11 platna sería sem gefin var út á vinyl í takmörkuðu upplagi. Chosen Lords koma svo út 2006, en platan er úrval af lögum Analord.

Einnig telja margir spekúlantar að elektrógrúbban The Tuss sem gefinn er út af Rephlex Records, plötufyrirtæki Richards, sé í raun þrefalt hliðarsjálf Richard, enda ber The Tuss mörg af aðalsmerkjun Aphex. The Tuss framreiður vel sýrt tekknó af gamla skólanum þar sem analog hljóðgervlar og vintage trommu-maskínur spila aðalhlutverkið.

The Tuss – Synthacon 9

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Snemma í Mars tilkynnti svo Steve Beckett hjá Warp Records að von væri á nýrri Aphex skífu á þessu ári. Platan hefur hvorki fengið nafn né útgáfudag, en það eitt að orðrómurinn sé kominn á kreik gleður undirritaðan innilega. Richard er þó mikill sérvitringur og alls óvíst hvort þessi plata muni líta dagsins ljós í ár – já, eða undir hvort hún mun koma út undir nafninu Aphex Twin.

The Wooden Birds

Lítið hefur spurst til hinnar frábæru American Analog Set síðan bandið gaf út Set Free, fyrir tæpum fimm árum.333 Andrew Kenny, forsprakki sveitarinnar, er þó komin á kreik að nýju með flúnkunýtt hliðarverkefni. The Wooden Birds er hugarsmíði Kenny og er búist við útgáfu fyrstu plötu sveitarinnar í ár, en hún mun bera nafið Magnolia.  Þetta er þó annað hliðarverkefnið sem Kenny hefur komið að síðan AmAnSet gáfu út sína síðustu skífu, en árið 2006 kom út Home EP,  sem hann vann að ásamt Ben Gibbard, söngvara Death Cab for Cutie.

Aðdáendur American Analog Set ættu að kannast við ýmis minni og stef á plötunni enda er The Wooden Birds alls ekki svo ólík síðar verkum AnAmSet: að mestu akústískt og naumhyggjulegt indí-popp. Kassagítar, hristur og tambúrínur spila lykilhlutverk í tónlistinni að ógleymdri notalegri rödd Kenny.

The Wooden Birds – False Alarm

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

2 x Paw Tracks

Í byrjun Febrúar sendi Paw Tracks, útgáfufyrirtæki dentmayfirstAnimal Collective, frá sér plötu eftir listamann að nafni Dent May. Sagan segir að félagarnir í Animal Collective hafi séð þennan unga manna spila á tónleikum eitt sinn í Missisippi og boðið honum plötusamning samstundis. Pilturinn skapar einhversskonar kitsch-ukulele-lounge-músík sem sækir þemu í kaffihús Parísarborgar, strandlengjur Kaliforníu og bóhemalíf á börum New York.  The Good Feeling Music of Dent May & His Magnificent Ukulele er bráðskemmtileg en umfram allt hugguleg plata.

Dent May & His Magnificent Ukulele – Meet Me in the Garden

Önnur áhugaverð útgáfa sem Paw Tracks er með í bígerð er töluvert frábrugðin þeirri fyrrnefndu.blackdice_18nov06_01 Það er New York tríóinn Black Dice sem gefur út sína nýjustu plötu, Repo. Þetta er önnur útgáfa þeirra hjá Paw Tracks, en þeir voru á samning hjá DFA og Fat Cat þar á undan. Black Dice framreiðir tilraunakennda raftónlist í bland við hávaðarokk með krassandi útkomu. Þess má geta að einn meðlimur Black Dice, Eric Copeland, hefur unnið að hliðarverkefni með Panda Bear, meðlim Animal Collective, sem þeir kalla Terrestrial Tones.

Nite creme (af Repo)

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Ný plata með Grizzly Bear

Veckatimest_coverÞann 26. Maí n.k. kemur út þriðja breiðskífa Brooklyn-kvartettsins Grizzly Bear hjá Warp útgáfunni og mun platan bera nafnið Veckatimest. Þann 2. mars vildi svo (ó)heppilega til að platan lak í heild sinni á veraldarvefinn, sem gerði æstum aðdáendum biðina bærilegri.

Grizzly Bear gátu sér gott orð með síðustu skífu sinni, Yellow House, sem kom út 2006 og innihélt m.a. hið stórgóða lag “Knife” (sjá meðfylgjandi YouTube myndband).

Grizzly Bear – Knife

Rjóminn getur af sjálfsögðu ekki mælt með því að lesendur niðurhali plötunni ólöglega. Þvert á móti mælum við með því að fólk næli sér í eintak á plasti eftir rúma tvo mánuði – peningana virði, enda frábær plata.

Grizzly Bear – Two Weeks

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Animal Collective – Merriweather Post Pavilion

Einkunn: 4,5
Útgáfuár: 2009
Label: Domino

Merriweather Post PavilionAnimal Collective hafa á níu árum gefið út níu breiðskífur, þrjár stuttskífur, sex smáskífur og eina split-skífu, unnið að heilu sólkerfi af hliðar-, samstarfs- og sólóverkefnum og starfrækt sitt eigið plötufyrirtæki. Þrátt fyrir þessi ótrúlegu afköst, þá hefur Animal Collective ávallt tekist að koma okkur á óvart með litríkum og frumlegum plötum þar sem sköpunargleði svífur yfir vötnum.

Í plötudómum er gjarnan talað um ‘rökrétt framhald’ eða ‘eðlilega þróun’ frá einni plötu til annarrar – þetta á ekki við Animal Collective. Þvert á móti hafa AC farið með okkur í óútreiknanlega salíbunu um ólíka hljóðheima. Á fyrstu verkum grúbbunnar átti sér stað samruni spunakenndrar raftónlistar og gítarpopps og á síðari plötum hljómsveitarinnar, Feels og Strawberry Jam, flexa strákarnir indí-rokk vöðvana. Í millitíðinni heyrðum við annarlegt skrípa-fólk Sung Tungs og Panda Bear bræddi saman taktlúppum og 60’s sækadelliku á sólóplötu sinni, Person Pitch. Já, og stundum hljóma þeir hreinlega eins og ekkert annað sem þú hefur heyrt: rispuð upptaka af hóp af indiánum að dansa í kringum varðeld, taka sýru og borða sykurpúða. Þessi brauðmylsnuslóð sem þeir skilja eftir sig leiðir okkur ekkert endilega að nýjustu afurðinni.

acMerriweather Post Pavilion er poppskífa Animal Collective. Hún er af sjálfsögðu ekki poppskífa í eiginlegum skilningi, heldur fremur tækifæri fyrir AC að bæta aðdáendum í hópinn. Af hverju? Fyrst ber að nefna aðlaðandi og heilsteyptan hljóminn sem nýtur sín út alla plötuna. Í öðru lagi er Deakin (gítarleikari sveitarinnar) í pásu, sem þýðir að fólk-áhrifin eru að mestu horfinn og eftir stendur dilluvænt rafpopp. Og í þriðja lagi er það undraverður hæfileiki AC til að semja skemmtilegar melódíur og hrynjandi. Þetta er eitthvað sem hefur alltaf einkennt bandið: ef lögin eru strípuð niður, þá er liggur í felum grípandi laglína.

Hvað einstök lög varðar, þá er nokkra augljósa slagara að finna. “My Girls”, fyrsti singúllinn, er bráðskemmtileg smíði þar sem skoppandi runuhljóðgervill leiðir hlustandann um lagskiptingar af röddum, lúppum, melódíum og hrópum. “Bluish” væri annar augljós kandídat: fallegur ástar- og lostasöngur, kveðinn yfir draumkennda syntha og mjúka takta. “Brothersport” sæmir sér líka vel í þessum hóp: lagið er töluvert óhefðbundnari í uppbyggingu en þau fyrrnefndu en raddir Avey Tare og Panda Bear harmónera fullkomlega við leiðslukennda áferðina. Svolítil flækja á köflum sem AC greiða listilega úr.

Það eru þó fleiri dýrgripi að finna á plötunni, “In the Flowers” opnar plötuna og hentar vel í þá rullu. “Taste” er spunakennt fyrirbæri sem hægt og rólega byggist upp að skemmtilegri sing-along kyrjun. Og svo er það “Daily Routine”, annað leiðslukennt lag þar sem orgvél þjónar bæði duttlungafullum taktinum og styður við bakið á melódískri laglínunni – hápunktur plötunnar að mínu mati.

Sár söknuðurinn fylgir vissulega fjarveru Deakins – sérviskulegt gítarspil hans hefur verið eitt af einkennismerkjum Animal Collective. En hinir þrír liðsmenn sveitarinnar eru engu að síður að gera stórkostlega hluti. Platan ber merki um mikinn metnað, fullkomlega ígrundaðan hljóm og sennilega hafa raddir Avey Tare og Panda Bear aldrei farið betur saman en nú. Það sem eftir stendur er stórkostleg semi-poppskífa, full af áhugaverðum lagasmíðum og ferskleika. Merriweather Post Pavilion er ekki beint meistaraverk bandsins, en sannfærir mig í þeirri trú minni að hér sé um að ræða athyglisverðustu sveit 21. aldarinnar. Það væri synd að láta þetta framhjá sér fara . . .

Animal Collective – Daily Routine

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Pivot – O Soundtrack My Heart

Einkunn: 4
Utgafuar: 2009
Label: Warp Records

Yndislegur B-klassa vísindaskáldskapur í hljóðformi. Ein af bestu plötum síðasta árs.

Pivot - O Soundtrack My HeartÚtgáfufélagið Warp Records er þekktast sem (ó)krýndur konungur IDM stefnunnar. Á tveimur áratugum hafa margir af áhrifamestu raftónlistarmönnum samtímans sprottið fram á þeirra vegum: Autechre, Squarepusher, Boards of Canada og að ógleymdum Aphex Twin. En undanfarið hefur Warp verið að sækja í sig veðrið í rokksenunni, með bönd eins og Grizzly Bear, !!! og Battles á sínum snærum. Ástralski tríóinn Pivot bættist svo við á tilkomumikinn flytjendalistann í lok árs með sinni annari breiðskífu, O Soundtrack My Heart.

Það má segja að tónlistarsköpun Pivot rísi upp úr rústum síðrokksins – og ýmislegt (og misáhugavert) hefur nú komið þaðan. Pivot fellur í hóp post-rokk sveita eins og Mogwai og Errors sem í endurfæðingunni sóttu til raf- og danstónlistar. En það er auðveldlega hægt að greina önnur minni úr sögu rokktónlistarinnar en einungis post-rokk: þarna er kraut, math og þesslags stærðfræðiformúlur, smá sækadellika, 8-bæta popp og jafnvel nett glys. Hvað elektrónísku hlið Pivot varðar, þá sækja þremenningarnir enn lengra aftur í tímann en fyrrnefndar sveitir; mér dettur helst í hug Kraftverk og Mike Oldfield. Og á köflum B-klassa vísindaskáldskapur frá Hollywood einhverntímann á áttunda áratugnum. Þetta er aðlaðandi og ferskur hljóðheimur – sérstaklega á tímum þar sem endurkoma níunda áratugarins virðist tröllríða allri elektrónískri tónlistarsköpun.

Já, B-klassa vísindatryllir er ekki svo fjarri lagi! Inngangslagið „October“ staðsetur þig og neglir stemninguna með tölvupípi: ekki plánetan jörð heldur eitthvað framandi landslag, annarleg birtuskilyrði og mögulega er einhver geimmaður þarna á reiki. Í titillagi plötunnar, „O Soundtrack My Heart“, er klikkaði vísindamaðurinn (og aðal illmenni vellunnar) kynntur til leiks með fyrsta digital hljóðgervli sögunnar og suddalegum rokk-rythma. Brjálæðisleg áform hans koma svo fram eins og hreðjaspark með vælandi gítar. Í „Fool in Rain“ er flogið um í geimskutlu og í óteljandi mæliglösum mallar marglitur vökvi. „My Heart Like Marching Band“ ómar undir þegar að söguhetjan kyssir stúlkuna einu, eftir að hafa nýlokið við að slátra slímugri veru. Og auðvitað deyr stúlkan í upphafi „Epsilon“ af völdum vísindamannsins svo að söguhetjan eltir hann eftir allri endilangri vetrarbrautina og drepur rétt undir lok með laser-kjarnorku-sprengjuvörpu. Að lokum er honum tekið eins og keisara við heimkomu sína í „Sing, You Sinners“ með kyrjandi áströlum, síendurteknum gítarriffum og taktsmellum.

Þetta er sennilega fremur torskilið, gerum þetta skipulega! Það sem Pivot gerir, er að færa framsækna rokktónlist inn í þematískan hljóðheim, skapaðan úr elektróník af gamla skólanum. Lagasmíðarnar eru bæði í senn melódískar og rythmískar; á köflum epískar eða jafnvel hetjulegar, frá því að vera einungis dáleiðandi hljóðumhverfi og andrúmsloft og yfir í að vera sundurtætt stemning með tíðum kaflaskiptingum. Þremenningarnir eru líka óhræddir við tilraunastarfsemi og hittir hún yfirleitt í mark.

O Soundtrack My Heart hljómar í fyrstu eins og eitthvað sem vinur þinn sýnir þér og þú segir: „Auj! Kúl“ en hlustar svo ekkert meira á. En ef plötunni er leyft að veltast um í spilaranum nokkrum sinnum, þá vinnur hún skuggalega á! Hví? Jú, hrynjandi og melódíur kallast á við hvort annað í snilldarlegu jafnvægi. Sköpunargleðin skín i gegn og lagasmíðarnar óvæntar og skemmtilegar. Og síðan er frumlegur, dáleiðandi hljóðheimur listilega fléttaður við herlegheitin. Að mínu mati, án efa, sjöunda besta plata síðasta árs!

Pivot – O Soundtrack My Heart

Fimm Frí Emm Pí Þrí

Fimm Frí Emm Pí Þrí

Æðislegt, íslenzkt og ókeypis!
Klive – Comon Wealth Raftónlistarmaðurinn Klive sendi frá sér hina stórgóðu Sweaty Psalms í sumar við góðar undirtektir Rjómans sem gaf plötunni 4.0. Í Common Wealth fær hann Rósu úr Sometime til liðs við sig og á rödd Rósu vel við brotna takta og hljóðskúlptúra Klive. Bæði fyrir harða raftónlistarunnendur rétt eins og þá sem vilja bara svala forvitninni . . .

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Sudden Weather Change – St. Peter’s Day Sudden eru þekktir fyrir þrusugóða tónleika sem einkennast að ansi hressandi keyrslu og stemningu. Í byrjun næsta árs kemur kvintettinn svo loks á plast og má búast við að áhugafólk um jaðarrokk verði ánægt með glaðninginn. Og koma svo: ”Oh my god! I hate Nicholas Cage!”

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Intro Beats – Ertu með Addi Intro er best þekktur sem DJ Forgotten Lores. Út var að koma sólóplata frá honum, Tivoli Chillout, þar sem hann fær marga færustu rímnasmiði landsins með sér í lið. Í laginu Ertu með eru það G. Maris og Birkir B. sem kveða. Gott stöff sem vert er að kíkja á!

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Geir Harðar – Bíða Öðlingurinn ofan af Skaga, hann Geir Harðar var að senda frá sér sína aðra plötu og nefnist hún Týndi Sauðurinn. Þetta er fyrsta platan sem Huldar Freyr Arnarson tekur upp en auk þess útsetti hann flest lögin ásamt Geir. Persónuleg og einlæg plata sem á erindi til okkar flestra . . .

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Sykur – Sykur Þó svo að strákarnir í Sykur séu ungir að aldri, þá eru þeir engir nýgræðingar í danstónlist. Fólk hefur kannski séð þeim bregða fyrir, enda búnir að vera að spila með böndum eins og Hjaltalín og Sprengjuhöllinni. Sykur er skemmtilegur og óldskúl dansslagari! Njótið!

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

ATH! Öll lög eru birt með góðfúslegu leyfi tónlistarmannanna. Við viljum nýta tækifærið og þakka þeim kærlega fyrir!

TV on the Radio – Dear Science

Einkunn: 4
Utgafuar: 2008
Label: 4AD/Interscope

Ekki gallalaus – en það sem er gott, er MJÖG gott!

TV on the Radio - Dear ScienceFyrir rúmum tveimur árum vakti platan Return to Cookie Mountain mikla lukku hjá áhugafólki um frumlega rokkmúsík. Í kringum gerð plötunnar var söfnuður fimm gjörólíkra einstaklinga með mismunandi bakgrunn í tónlist og í oflæti sínu skelltu meðlimir saman stefnum og straumum í harkalegan árekstur. Kölluðu sig svo rokkband og komust upp með allt saman! Dear Science er þriðja breiðskífa TVOTR sem fyllir mann efasemdum um þetta rokk-brennimerki sem hljómsveitin ber.

Á fyrstu plötu sveitarinnar, Desperate Youth, Blood Thirsty Babes, einkenndist hljómurinn mjög af síendurteknum takt-lúppum kæfðum í fuzzy rafgítar og svo var einhver annarleg acapella stemningu á köflum. Fyrsta lag plötunnar, “Halfway Home”, er trú þeim resept. Bætum þó við soul-söng Adebimpe og Malone, drynjandi elektrónískum töktum, lófaklöppum og þéttu rokk aksjóni. Mjög hressandi upphaf!

En síðan er slökkt á overdrive-pedalanum og nokkur varfærnisleg skref tekinn nær popptónlist. Það er daðrað við hip-hop, fönk, nýbylgjurokk og danstónlist og ofan á það eru svo breidd lög af brassi, strengjum, hljóðgervlum og raddpælingum. “Stork and Owl” er dæmi um lag sem grípur þessi element þéttum tökum: raddirnar látnar fylgja syntha-stefi á skemmtilegan máta, bítið er flott og grípandi og strengirnir gefa svo fremur einfaldri lagasmíðinni dýpt. “Crying” er annað lag sem vert er að minnast á: semi-fönkaður rafbræðingur þar sem brassið mætir í partí og Adebimpe syngur grípandi söngmelódíuna á sinn yndislega hátt. Textinn er líka andskoti góður! (og reyndar eru textarnir flestir mjög metnaðarfullir.)

TVOTR kunna þó fleira en að rokka og dansa til að gleyma. Þeir hafa vald á því að semja gullfalleg lög, sem dæmi má nefna “Tonight” af Cookie Mountain. “Love Dog” er sorgarvísa sungin við virkilega flott bít, Rhodes-píanó og strengi – hittir beint í mark! “Family Tree” er svo hreinræktuð ballaðra: fallegt píanóstef tekið i gegnum delay, hálfvæmnar beiskt/sætar strengja útsetningar og sárþjáð rödd Adebimpe túlkar texta um forboðnar ástir. Og undir lok lags lauma þeir svo inn látlausum takti sem rekur smiðshöggið á snilldina! Bræðir stálhjörtu eins og smjör . . .

En platan er alls ekki gallalaus. Í dag væri nærtækast að sækja myndmálið í kreppuna: það vantar samstöðu í lagahópinn. Óreiðukennt er þotið úr einu í annað og hljómur laganna er svo ólíkur að hlustendur verða kolringlaðir í höfðinu. Kannski væri bara nóg að breyta uppröðun laganna, byrja hátt og enda lágt – já, eða bara öfugt! Nokkur lögin er heldur ekkert til að hrópa húrra! fyrir: “Red Dress” og “Golden Age” væri helst að nefna, frekar ódýrir en dansvænir popparar sem falla ekki inn í þennan fyrrnefnda laga-hóp.

Ég las viðtal við Adebimpe fyrir stuttu þar sem hann sagðist hafa reykt um 300 grömm af grasi á mánuði við gerð síðustu plötu en á þessari hafi hann verið að mestu leiti edrú. Þetta skilar sér, því það er stigið upp úr mókinu og ærslagangur listamannanna birtist í músíkinni. Því þó svo að TVOTR vilja láta taka sig alvarlega þá gera þeir það svo kannski ekkert sjálfir. Húmorinn og hressleikinn gerir plötunni bara gott!

Dear Science er án efa aðgengilegasta plata sveitarinnar. Þeir sem ekki hafa skilið TV on the Radio til þessa, fá núna séns til þess. Platan er melódísk og grípandi, frumleg en sækir engu að síður í það klassíska og skiptist á milli að vera hress og glaðleg og sorgmædd og tregafull. Og þó svo að hún beri nokkra auma marbletti, þá er það sem gott er á skífunni, hreinlega MJÖG gott! TV on the Radio er eitt að þessum “hæpuðu” böndum sem verðskulda alveg athyglina . . .

TV on the Radio – Dancing Choose

Bang Gang – Ghosts from the Past

Einkunn: 2.5
Utgafuar: 2008
Label: Cod Music

Flottur hljómur Barða nær ekki að draga athyglina frá gölluðum lagasmíðum.

Bang Gang - Ghosts from the PastBarði Jóhannsson er vissulega búinn að sannfæra okkur um það, í gegnum árin, að hann sé mjög hæfileikaríkur tónlistarmaður. Og ekki bara það, heldur líka mjög fjölhæfur í sköpun sinni: frá rafpoppi á You yfir í nýklassík á Haxan, frá skilnaðarsálmum Bubba Morthens yfir vaxtaræktar teknó Merzedes Clubs.

Ghosts from the Past er nýjasta afurð Barða, hans þriðja breiðskífa sem Bang Gang. Á fyrri plötum Bang Gang sáu gestasöngkonur nærri alfarið um að fronta tónlistina, þ.a.m. Esther Thalía og Keren Ann, en nú er það í fyrsta sinn sem Barði er frontmaður sinnar eins-manns-sveitar. Söngrödd Barða er sérstök en einstaklega skemmtileg og smellur við tónlistina eins og flís við rass. Gefur mikla dýpt í hljóm plötunnar sem sérlega flottur, fínpússaður og tær. Útsetningar og pródúsering eru líka til fyrirmyndar þannig öll umgjörð laganna er virkilega flott.

En það er ekki nóg – poppaðar lagasmíðar plötunnar eru hreinlega ekki nógu sterkar. Eins og ránfugl með þrastarvængi, þá ná lögin aldrei flugi, grípa ekki hlustandann og hreyfa hann með sér. Þau hljóma ofboðslega vel, eins og eitthvað sem auðvelt væri að taka ástfóstri við, en ná sér aldrei upp úr þessu miðjumalli. Sum eru hreinlega pirrandi, til að mynda lagið „Black Parade“: rokklag sem rúllar áfram einsleitt með ofboðslega þreytandi gítarriffi og sírenuvæli.

Platan á þó sína spretti. Upphafslagið, „The World is Grey“, er fallegt indí-popp sem sver sig í ætt við „Something Wrong“, aðra plötu Barða. Fyrsta smáskífan, „I Know You Sleep“ er taktfastur popprokks slagari með grípandi viðlagi – en því miður endist lagið þó ekki ekki lengi í spilaranum. Einnig er lagið „Lost in Wonderland“ skemmtilegt: instrumental lag sem hefst á einföldu píanóstefi sem Barði magnar svo upp með rafgítar, grípandi bassalínu og rafskúlptúrum. „One More Trip“ er líka sæmileg smíði: kassagítardútl sem Barði skreytir með píanói, einföldum trommutakti og kvenkyns bakröddum.

Í síðustu tveimur lögum plötunnar fær Barði Anthony Gonzalez (M83) með sér í lið. Fyrra lagið, „You Won’t Get Out“ er flott – minnir satt að segja mikið á eldri tónlist M83: seiðandi analog hljóðgervlar, hvíslandi rödd Gonzalez sem leiða svo áheyranda út í kraftmikið rokk-aksjón. Seinna lagið, „Stay Home“ er þó hreint og klárt uppfyllingarefni sem gerir ekkert fyrir plötuna – nema þá helst að veikja hana. Þrjár mínútur af síendurtekinni píanólínu, drynjandi syntha og Gonzalez að segja þér að „vera heima“. Ótrúlegt að tveir snillingar, sameinaðir, skuli ekki gera betur en svo – gríðarleg vonbrigði!

Ghosts from the Past er fín á köflum, svo að ég reyndi að vera þolinmóður við Barða: renndi disknum margoft í gegn en varð svo þreyttur á plötunni áður en ég náði að sættast við lögin. Svo virðist vera að Barði hafi gefið Shell, Bubba og Gillz allar byssukúlurnar sínar og skjóti nú tómu púðri út í loftið. Einstaklega flottur hljómurinn nær ekki að draga athyglina frá gölluðum lagasmíðum. En við missum ekki trú á Barða, hann er frjór í sköpun sinni og allir taka víst nokkur feilspor á lífsleiðinni.

I Know You Sleep – Bang Gang

M83 – Saturdays = Youth

Einkunn: 4.5
Utgafuar: 2008
Label: Mute

Hrífandi óður til níunda áratugarins. Besta plata M83 til þessa!

M83 - Saturdays = YouthM83 er listamannsnafn Anthony nokkurs Gonzalez og Anthony þessi er pervert. Ekki misskilja mig: hann er hvorki sado/maso pervert né bearnaise-sósu pervert. Hann er einn af þessum hljóðgervla öfuguggum sem eru eins og viljalaust verkfæri í tónlistarsköpun sinni án analog syntha. Saturdays = Youth er fimmta breiðskífa M83 en er á henni sleginn töluvert annar tónn en á fyrri plötunum. Sagt er skilið við þessa rokkskotnu raftónlist og ortur einskonar óður til popptónlistar níunda áratugarins – ferðalag um liðinn tíma.

Ferðalagið hefst strax í fyrsta lagi plötunnar, „You, Appearing“, þar sem þú ert sóttur á rúntinn af rólegri píanó ballöðru sem stigmagnast svo og keyrir þig beina leið inn í hljóðheim níunda áratugarins. Það margt kunnulegt á ferðinni þinni: í „Graveyard Girl“ er gítarlína sem gæti allteins verið ættuð frá „The Cure“, lagið „Up!“ hefði sæmt sér vel sem Cindy Lauper smáskífa og „Couleurs“ hefði án efa gert allt vitlaust í house-partíunum í New York. Þau „Kim & Jessie“ bjóða þér í heimsókn með sitt fullkomna, slípaða eitís-sánd, í lagasmíði sem minnir einhvernveginn á My Bloody Valentine, Brian Eno og Peter Gabriel á sama tíma – með hvíslandi söng Gonzalez undir. „Skin of the Night“ er svo grípandi lag þar sem vintage-trommuheilar og analog hljóðgervlar Gonzalez fara á stefnumót við Kate Bush og í „Midnight Souls Still Remain“, lokalagi plötunnar ert þú sendur inn í ljúfan draumaheim – 11 mínútna ambient-stykki a la Eno.

Vegna allra þessa mismundandi áhrifa sem M83 sækir í, þá hljómar platan við fyrstu hlustanir eins og sándtrakkið við The Breakfast Club 2. Lög sem fylgja hvort á eftir öðru samhengislaust. Aftur á móti nær Gonzalez að flétta þessum áhrifum saman með sínum sérstæða stíl: hvíslandi söngur, effekta-drekktur gítar, grípandi bassalínur, melódísk syntha-riff og þéttriðnir róbotta taktar. Platan vinnur mann því fljótt á sitt band, full af fegurð og angist, melódíum og nostalgíum, rólegheitum og æsingi. Eftir að hafa fínkembt plötuna nokkrum sinnum er ómögulegt að finna á henni veikan blett: lagasmíðarnar framúrskarandi og sándið einhvernveginn ‘ekta’. Þetta er hreinlega besta plata M83 til þessa!

Þó hafa eflaust sumir aðdáendur M83 fussað yfir plötunni, enda er hún að mestu leiti úr takt við það sem áður hefur heyrst frá kappanum. En það er núna í fyrsta sinn sem að hr. M83 sættir sig við hvar rætur hans í tónlistarsköpun liggja – hvert sándtrakkið var við unglingsár hans, við ástina og dramað. Hann er tilbúinn til þess að vefja sig utan um þá hallærislegu hluti sem níundi áratugurinn færði honum og brúka þá til góðs: hvort sem þeir valda nostalgískum kjánahrolli eða rísandi hárum af unaði, þá er markmiðinu náð. Platan er nefnilega ofboðslega heiðarleg þó svo að hún hljómi tilgerðarleg í fyrstu. Sagt er að unglingsárin séu sætustu ár lífsins og því kominn tími til að sættast við þau og búa til eitthvað úr þeim annað en tilvistarkreppu: í þetta skiptið undurfögur, melódísk mixtúra hrærð saman af alúð við rafpopp, skógláp, ambient og danstónlist. Undarlegt að níundi áratugurinn hafi fært okkur eina bestu plötu ársins 2008…

„Kim & Jessie“