Drekka á Íslandi

Drekka er alter-ego tilraunartónlistarmannsins og Blue Sanct gúrúsins Michael Anderson frá Bloomington, Indiana. Einhverjir ættu að kannast við Drekka, enda hefur hann komið og spilað í Reykjavík margoft á síðasta áratug. Tónlist Drekka er draumkennd og myndræn og er oft líkt við industrial sveitir níunda áratugarins á borð við Coil og cindytalk. Undanfarnar vikur hefur listamaðurinn verið á tónleikaferð um Evrópu með  Canid og lýkur tónleikaferð þeirra í Reykjavík dagana 4. og 5. Febrúar.

Tvennir tónleikar verða haldnir, þeir fyrri þann 4. Febrúar í Artíma Gallerí við Smiðjustíg 10. Ásamt Drekka og Canid spilar hljómsveitin MVNVMVNTS og hefjast tónleikarnir klukkan 20:00

Síðari tónleikarnir verða á Bakkus við Laugarveg 22 þann 5. Febrúar og hefjast 21:00. Í þetta skiptið sér Þórir Georg um upphitun, en í síðasta mánuði gaf hann út hina stórgóðu vetrarplötu Janúar.

Ekki verður rukkað inn á tónleikana en beðið er um 500 – 1000 króna framlög til túrandi listamannanna.Myndband frá Orphic Oxtra

Það er komið myndband við lagið Skeletons Having Sex on a Tin Roof með hressustu hljómsveit Íslands, súrbalkankrökkunum í Orphic Oxtra. Lagið er lauslega byggt á lagi með sama nafni eftir hljómsveitina Swords of Chaos. Lagið er hinni frábæru plötu “Kebab Diskó”, sem kom út í fyrra og hefði alveg mátt vera á einhverjum listum yfir besta eitthvað. Myndbandið sem er gert af Bergrúnu Snæbjörnsdóttur og Sigrúnu Jónsdóttur er skemmtilega súrt og skemmtilegt á súran hátt eins og við mátti búast.

Lily and Fox

Lily and the Fox er nýtt verkefni Hildar Kristínar Stefánsdóttur söng- og sellóleikkonu hljómsveitarinnar Rökkurró. Hildur hefur undanfarið hafst við í Tókýó í Japan þar sem hún semur tónlist á milli þess sem hún kynnir sér menningu og tungumál landsins. Fyrsta lagið sem heyrist frá Lily and Fox er kóverútgáfa af laginu “Nightcall” með Kavinsky (og Lovefoxx). “Þetta lag var búið að vera fast í hausnum á mér í tvo mánuði áður en ákvað að reyna við það ” segir hún á youtube síðunni sinni. Myndbandið er hér fyrir neðan, og svo er hægt er að fylgjast með Lily and Fox á

http://soundcloud.com/lilyandfoxwww.lilyandfox.comwww.twitter.com/lilyandfox

Öll Bítlalögin í einu

Hey, hversu mikið fílaru Bítlana? Nógu mikið til að hlusta á öll lögin í einu? Um daginn rakst ég á hljóðskrá þar sem einhver hefur tekið saman öll 226 lögin sem komu út með Bítlunum, sett þau saman  og stillt þau þannig af að þau enda á sama tíma. Það krefst mikils úthalds að komast í gegnum “lagið”. Eða eins og einn netverji sagði: ,,Þetta verður rosalega flókið undir lokin. En svoleiðis enduðu Bítlarnir líka.”

All Together Now – Everything the Beatles Ever Did

Rjómalagið 18.nóvember: Masshysteri – Låt Dom Hata Oss

Mér var bent á sænsku pönksveitina Masshysteri um daginn og get ég svo sannarlega mælt með henni fyrir þá sem fíla poppað pönk, texta á sænsku, strák-stelpu dúettasöng o.s.frv. Masshysteri er stofnuð í pönkbænum Umeå árið 2008 upp úr ösku hljómsveitarinnar The Vicious. Í þeirri sveit var sungið á ensku en með Masshysteri ákvað söngvarinn Robert Petterson að skipta yfir á móðurmálið. “Ég gat bara þóst syngja á Ensku – ég get púllað allar klisjurnar. Stundum er það í lagi, en það kemur í rauninni ekki frá hjartanu. Svona líður með betur með þetta. Færri skilja textana en það er miklu heiðarlegra.”

Sveitin hefur gefið út tvær plötur og rjómalagið “Låt Dom Hata Oss” er á þeirri nýrri, sem er samnefnd sveitinni og kom út í fyrra.

Masshysteri – Låt Dom Hata Oss

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

 

Amma Lo-Fi

Amma Lo-Fi er stuttheimildarmynd Orra Jónssonar og Kristínar Bjarkar Kristjánsdóttur með hreyfimyndum Ingibjargar Birgisdóttur um þýsk-dansk-íslensku tónlistarkonuna Sigríði Níelsdóttur. Sigríður er fædd 1930 en hóf að taka upp eigin tónlist þegar hún var komin yfir sjötugt og 7 árum seinna hafði hún gert fleiri en 600 lög sem hún hafði gefið út á 59 geisladiskum (eflaust eitthvað búið að bætast við síðan þá). Sigríður er greinilega ein af þeim fjölmörgu manneskjum sem láta lítið fyrir sér fara og eru eilítið á skjön við það sem eðlilegt þykir í samfélaginu, en þrátt fyrir það (eða einmitt þess vegna) búa yfir fullkomlega ósjálfsmeðvitaðri snilligáfu. Krúttsenan tók hana upp á sína arma, enda passar öll fagurfræði Sigríðar – dótahljóðfæri, eldhúsáhöld, gamaldags heimilisleiki, lo-fi – eins og flís að krúttrassinum.

Fyrir þá sem vilja vita meira, þá er hægt að finna viðtal sem Stuart Rogers tók við Sigríði og Kiru Kiru fyrir nokkrum árum hér.

Öppdeit: Myndin verður víst frumsýmd í Kaupmannahöfn um helgina

Nýtt og gott: Sandro Perri – Impossible Spaces

Líklega besta nýja platan sem ég hef heyrt í nokkrar vikur er platan Impossible Spaces með Toronto-búanum Sandro Perri. Sandro tekst á lúmskan hátt að blanda saman tilraunamennsku og pabbatónlist. Hann notar bæði jazzhljóma, pólýryþma, blásturshljóðfæri og elektróník til að búa til vinalega dramatískt þjóðlagapopp. Kannski hljómar þetta ekki spennandi, en stundum eru það einmitt hlutirnir sem virka ekki á blaði sem virka fullkomlega í hljómi. Það er hægt að hlusta á Impossible Spaces í heild sinni á heimasíðu Constellation Records útgáfunnar, eða þá bara hérna fyrir neðan. Þú gætir allavega notað næstu 10 mínútur í mun heimskulegri hluti en að hlusta á lagið  “Wolfman”.

Rjómalagið 2.nóvember: Savanna Tríóið – Á Sprengisandi

Það virðist vera hálfgerð regla að þegar tónlistarmenn ætla að leita í hinn íslenska þjóðlagaarf þurfa þeir að gera það á steingeldan og leiðinlegan hátt.  Sem er merkilegt því að arfleifð íslenskrar tónlistar er á vissan hátt mjög spennandi – rímur, langspil (wikipedia kallar það “traditional icelandic drone zither”! Hversu geggjað er það?), þorraþrælar, draugar og svo framvegis. Þjóðlagatónlist virðist fyrst og fremst vera ætluð útlendingum með fantasískar hugmyndir um landið, en ekki af kreatívum Íslendingum sem vilja leita í söguna til að skapa eitthvað nýtt. Á þessu eru þó nokkrar undantekningar að sjálfsögðu – Hrafnagaldur Sigur Rósar er kannski besta dæmið (held reyndar að það sé ekki hægt að takast illa til ef þú færð Steindór Andersen með þér í lið).  Svo hefur reyndar sumum tekist að taka útlendingapakkann með trompi. Savanna Tríóið gerði a.m.k. eina eðalplötu með íslenskum þjóðlögum: Folk Songs From Iceland árið 1964.  Reyndar er hún greinilegt viðbragð við þjóðlagavakningunni sem var í gangi á sama tíma í Bandaríkjunum. Það breytir því þó ekki að hún er stórkostlega skemmtileg – og þá sérstaklega upphafslagið, banjódrifin útgáfa af “Á Sprengisandi” eftir Sigvalda Kaldalóns við texta Gríms Thomsen.

Savanna Tríóið – Á Sprengisandi

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Myndband með Logn

Út er komið myndband við lagið “Blóðormar” með þungarokksveitinni eiturfersku Logn.  Lagið verður á væntanlegri breiðskífu Logn: Í fráhvarfi ljóss, myrkrið lifnar við. Myndbandið gerði einn meðlimur hljómsveitarinnar Ægir Sindri Bjarnason með hjálp frá Fritz Hendrik Bernden og Sindri Ström. Þetta er stöff til að brjóta tennur við.

Nýtt 24 tíma lag frá The Flaming Lips

Það hefði kannski frekar verið við hæfi að hafa nýja 24 tíma lagið með The Flaming Lips, “7 Skies H3” sem rjómalag dagsins. Hægt er að hlýða á lagið í live-streami á netinu í dag og væri því upplagt að hringja í Sigga Sýru, bjóða honum í heimsókn og hanga inni í allan dag og hlusta á nýja tónlist með Flaming Lips. Ef maður er hins vegar upptekinn getur maður bara keypt lagið á USB-lykli sem er inni í alvöru hauskúpu af manneskju. Kostar litla 5000 dollara.

Hlustið eða kaupið á http://flaminglipstwentyfourhoursong.com/

Rjómalagið 31.október: A-Cads – Down the Road

Suður-Afríska 60’s bílskúrsrokkbandið A-Cads átti a.m.k. einn megahittara í heimalandinu “Hungry for Love” en náði ekki að slá í gegn annars staðar í heiminum og varð bandið mjög skammlíft. Ég man ekkert hvar ég rakst fyrst á “Down the Road” en lagið hefur ítrekað fengið að hljóma í iTunes-inu mínu síðan. Það heitir í sinni upprunalegu útgáfu “(That Place) Down the Road a Piece” og er eftir lagahöfundinn og skemmtikraftinn Don Raye. The Rolling Stones, Chuck Berry og Jerry Lee Lewis hafa allir spreytt sig á laginu en engum tekist jafn vel til og A-Cads.

A-Cads – Down the Road

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

p.s. þessi útgáfa er reyndar frekar geggjuð líka.

Rjómalagið 30.október: The Books – Free Translator

Eitt frumlegasta og hugmyndaríkasta band síðustu ára er, að mínu mati, hollensk-ameríska hljómsveitin The Books. Tónlist sveitarinnar er að mestu leyti unnin upp úr og í kringum hljóð sem meðlimirnir finna á förnum vegi og klippa saman í nýja heild. Ólíkt t.d. Girl Talk sem blandar allskonar tónlist saman í mash-up, notast The Books að miklu leyti við talað mál og búa þannig til frásögn eða söguþráð sem tónlistin er unnin í kringum. Í sköpun hljóðmyndarinnar notast The Books oftast við rafræn hljóð til að túlka slagverk og svo órafmögnuð hljóðfæri, gítar og selló, ofan á.  Klippimyndaviðhorfið til listarinnar nær þó lengra en einungis til þess að blanda inn í tónlistina gömlum hljóðbútum, því að ef sveitin syngur sjálf eru textarnir unnir upp úr orðum annarra. Gott dæmi er lagið “Free Translator” af nýjustu plötu sveitarinnar The Way Out sem kom út í fyrra. Gítarleikarinn og söngvarinn Nick Zammuto segir frá tilurð texta lagsins.

“Fyrir þetta lag tókum við þekkt þjóðlag (sem okkur hefur verið ráðlagt að nefna ekki) og með því að nota frían þýðingarbúnað, þýddum við textann milli mála: til dæmis yfir á þýsku, þaðan yfir á ítölsku, úr henni yfir á frönsku, svo á sænsku og svo að lokum yfir á ensku. Útkoman var mögnuð. Allt myndmálið varð fullkomlega öfugsnúið, setningabyggingin var snilldarlega brengluð,  óvenjuleg nafnorð birtust óútskýranlega í undarlegum samhengjum… þetta vað frjálst hugsanaflæði tölvunnar byggt á upprunalega textanum að svo miklu marki að “kóverið” var orðið að nýju lagi. Þegar hingað var komið var því algjörlega óljóst hver hafði samið lagið… þetta var einhverskonar fjöldasamstarf málfræðinga, forritara og lagasmiða. Bæði Paul [de Jong sellóleikari og hinn helmingur The Books] og ég þýddum og endurþýddum textann þangað til nýju stafirnir fóru smám saman að birtast og þá söfnuðum við bestu augnablikunum saman í textann okkar.”

Það hafa verið færð nokkuð sannfærandi rök fyrir því að lagið sem um ræðir sé “Subterranean Homesick Blues” eftir Bob Dylan, en ég sel það ekki dýrara en ég keypti það.

Undirleikurinn í laginu er svo m.a. unninn upp úr gamalli gítarkennsluplötu og Svissneskri heimildarplötu.

The Books – Free Translator

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Airwavesdagbók Kristjáns: Laugardagur

Laugardagurinn hófst rétt fyrir klukkan eitt með bratwurst og bjór á Kex Hostel. Þar var sænska rokksveitin Dungen að gera sig klára til að spila. Vegna bráðaofnæmis míns fyrir þeim glymjanda sem stundum hefur verið rangnefndur ,,hljómburður” Listasafns Reykjavíkur hafði ég ákveðið að sleppa því að sjá þá kvöldinu áður og beið því spenntur.

Dungen spiluðu órafmagnað á hostelinu, byrjuðu á nýjasta hittaranum ,,Skit i Alt”, spiluðu svo m.a. ,,Festival” af Ta Det Lugnt og enduðu á tímalausu snilldinni ,,E för fin för mig”. Þar á milli léku þeir tvö lög þar sem Hr.Dungen; Gustav Ejstes, lék á þverflautu. Performansinn var dáleiðandi en þó léttur. Hljómsveitin var greinilega að skemmta sér ágætlega. Ég vildi að allir dagar byrjuðu svona.

Þegar ég mætti í bæinn seinna um kvöldið byrjaði ég á því að hlýða á Fallega Menn í húspartýinu á Ingólfsstræti 8. Íbúðin var stappfull og ekki gerð fyrir fólk með félagsfælni. Til að kaupa súpuna eða bjórinn sem var í boði var nauðsynlegt að hafa þónokkra hugmyndaauðgi, maður þurfti að troða sér í gegnum hverja einastu glufu sem myndaðist milli líkamanna en hefði helst þurft að klifra yfir hrúguna til að komast í hinn enda íbúðarinnar. Að alvöru húspartýja sið var hljóðið í Fallegum Mönnum hræðilegt. Það heyrðist ekki í sumum míkrófónum á meðan aðrir fídbökkuðu út í eitt. En þegar full stofa af fólki öskraði með ,,Ra-ta-ta-ta! Það er komið tími fyrir annað Baader-Meinhof!” var ljóst að það skipti nákvæmlega engu máli.

Rokkkvintettinn Jón Þór byrjaði kvöldið í Iðnó og spilaði að venju tilgerðarlaust háskólarokk eins og það var spilað á tíunda áratugnum. Mér finnst frábært þegar tónlistarmenn ögra alræði enskunnar sem söngmáli ákveðinna tónlistarstefna, s.s. háskólarokks. Mig grunar að ég gefi þeim þá ómeðvitað alltaf prik fyrir einhverskonar heilindi. Ég held að lógíkin í heilanum mínum virki einhvern veginn svona:

Íslenskur texti => listamaðurinn er ekki að stefna að því að verða frægur => er að gera tónlist tónlistarinnar vegna => góð tónlist.

Þeramínleikarinn passar líka alveg furðuvel við þetta alltsaman.

Kiriyama Family sem spiluðu á sama tíma á NASA voru hins vegar ekki að gera neitt fyrir mig. Þeir voru eiginlega bara allt of slípaðir, of vel út lítandi, allt sem átti að vera sjarmerandi eða spennandi var of fyrirframákveðið, tónlistin of áhættulaus og pottþétt – Pottþétt Syntharokk 2011

Í tónlistarlegum skilningi ákvað ég því að flýja hinum megin á hnöttinn. Á eftri hæðinni á Faktorý voru Ghostigital nefnilega næstir. Að venju var krafturinn yfirdrifinn og tónlist furðulega grípandi þrátt fyrir undarleikann og aggressjónina.

Á neðri hæðinni á sama stað spiluðu Jungle Fiction og svo Samaris. Samaris laðaði þónokkuð magn af fólki að. Hið letilega trip-hop er klárlega efnilegt og ferskt  (það minnti mig á einhvern undarlegan hátt jafnvel á sumt af eldra dótinu með múm á köflum). Hvíslandi röddin í söngkonunni er flott en þyrfti samt mögulega meiri kraft; meiri trega; meiri sál.

Á Kaffi Amsterdam voru Muck að sprengja hljóðhimnur með sínu suddalega þungapönki. Hljómurinn á Amsterdam var eins og meirihluta hátíðarinnar til skammar en krafturinn í þessu nýja flaggskipi þungarokksenunnar var svo gígantískur að það skipti ekki máli. Nýjustu lögin hljómuðu mjög vel og bíður undirritaður með mold í hálsinum eftir plötu.

Eftir örlítinn vott af valkvíða ákvað ég að halda mig við hávaðann frekar en að sjá John Grant, Team Me eða Austra. Mér til mikillar furðu var reyndar nokkur röð á Gauk á Stöng þar sem dönsku táningapönkararnir Iceage áttu að spila eftir klukkutíma. Það sem meira var: röðin haggaðist varla. Ég furðaði mig um stund á þessum nýtilkomna áhuga íslendinga á pönki. Þær vangaveltur reyndust hinsvegar ótímabærar enda komst ég að því þegar ég kom inn að fólkið var allt komið til að sjá rokkabillý swingara að nafni JD McPherson. Ég pantaði mér bjór og horfði á troðfullan sal Gauksins syngja hástöfum og dansa með lagi manns sem ég hafði aldrei heyrt nefndan á nafn fyrr en í röðinni.

Um leið og McPherson lauk sér af varð nánast 100% rótering í áhorfendaskaranum, allir sem voru inni fóru út og ég sá að hálftímabið í röð hafði verið fullkomlega tilgangslaus. Hinu tónlistarlegu landamæri milli mín og þeirra voru greinilega meiri en ég hélt. Ég velti fyrir mér hvernig það gat farið svo að þessum tveimur gjörsamlega ólíku böndum var stillt upp hlið við hlið. Hvort að ekki hefði verið skemmtilegra að leyfa Iceage að spila við hlið annarra þunga- eða indírokkara og JD á meðal annarra skrallpoppara. Auðvitað getur verið skemmtilegt að setja ólík bönd á eftir hvoru öðru á svið, en þegar meginviðhorf til tónlistarinnar og hvatar sköpunarinnar er jafn gjörólíkir og hjá þessum tveimur böndum er ólíklegt að nokkur grundvöllur til að finna nokkra tónlistarlega snertifleti sé til staðar. Sá sem hlustar á JD McPherson, næstum því by definition fílar ekki Iceage. JD kóperar nánast gamla tónlist til þess að skemmta fólki: hann þakkar fyrir tónleikana og lofar að koma aftur. Iceage semja nýmóðins tónlist og virðast frekar vilja forðast áhorfendur: þeir segja ekki orð (nema til að reka ljósmyndara frá sviðinu) á milli laga allt giggið og pakka fýlulega niður á meðan fólk reynir að klappa þá upp.  Nýbylgjuskotið pönkrokkið átti það þó sameiginlegt með rokkabillýinu að koma fólki á hreyfingu, hins vegar með örlítið aðferða svo að öryggisverðir staðarins sáu sér þann einn kostan færan að standa á milli pittsins og rólegri áhorfenda. Einstaklega hressandi.

Sögur voru komnar á kreik að James Murphy úr LCD Soundsystem myndi þeyta skífum á Kaffibarnum eftir giggið sitt á Faktorý og ég stefndi því þangað. Eftir því sem ég best veit reyndast þetta hins vegar ekki vera satt en svo gæti það allt eins að hann hafi verið þarna. Maður getur bara höndlað ákveðið magn af tónlist á dag – og ég var hættur að hlusta.

Airwavesdagbók Kristjáns: Föstudagur

16:35 Just Another Snake Cult á Kaffistofnni Hverfisgötu. Hrópandi hippar að spila sörfað skrýtipopp. Vildi að ég væri þau.
17:05 Bíð eftir Sindra Eldoni á Kaffistofunni. Gigginu er hins vegar frestað á síðustu stundu.
17:15 Sé Mammút spila nokkur lög  í kjallara á Laufásvegi. Lofthæð 2,30 m.
17:45 Hitti sæta stelpu, spjalla við hana.
18:05 Hlusta á Rakeli Mjöll og Gabby Maiden spila nokkur sæt úkúlelelög í Nýlenduverzlun Hemma og Valda.
19:15 Kíki á Gang Related á Amsterdam. Sindri Eldon stendur við barinn. Gang Related hljóma ágætlega en valda mér smá vonbrigðum. Kannski er ég bara með hugann við eitthvað annað. Verð líklega að gefa þeim annan sjéns seinna.
19:27 Sæta stelpan hringir. Spyr hvað planið sé í kvöld.
19:30 Fæ mér kjúklingadöner og kaffi á Ali Baba
19:40 Á leiðinni í bílinn lendi ég í rigningarstormi. Gegnblautur.
19:55 Fer í leikhús. Síðasta sýning á Zombíljóðunum.
21:47 Mæti í röðina á NASA – hún nær að miðju Alþingishúsinu.
21:49 Hitti gott fólk í miðri röðinni. Spjalla þangað til að ég er orðinn viðurkenndur hluti hópsins.
22:09 Röðin gengur ekkert.
22:11 Næ að nota menntaskólaþýskuna mína til að small-talka við þjóðverja.
22:14 Sæta stelpan mætir. Hún treður sér líka inn í röðina.
22:30 Röðin gengur ekkert.
22:45 Ákveðum að hætta þessu rugli og fara yfir í Iðnó.
22:51 Whiskí – 1000 krónur.
22:54 Puzzle Muteson spilar lágstemmda tónlist. Fólk talar hátt. Enginn virðist vera að hlusta.
23:30 Owen Pallett byrjar.
23:34 Owen Pallett er frábær.
23:39 Ég laumast til að taka í hendina á sætu stelpunni
23:46 Owen Pallett verður bara bakgrunnstónlist þegar ég tek utan um sætu stelpuna. Langar að kyssa hana en ákveð að það sé ekki við hæfi.
Síminn deyr og tímaskyn hverfur.
Owen Pallett er búinn. Ég kaupi mér bjór og kjúklingasamloku.
Gleymi að sjá Oy af því að ég er að kenna skoskum manni að segja ,,heftari“. Heyrði seinna að hún hefði verið frábær: hljóðtilraunir með blöðrur, brúður og lög um náin kynni lítilla barna. Hljómar áhugavert.
Annar bjór.
Útidúr byrja að spila. 12 manns. Það heyrist ekkert í söngkonunni.
Þau eru að blanda house-tónlist við hið hefðbundna stuðkrúttindípopp sitt. Ég dansa.
Iðnó er lokað.
Ennþá smá röð á NASA.
Sæta stelpan ætlar ásamt öðrum á Faktory. Ég fylgi. Fæ smók af blárri sígarettu. Merkilegt.
Á Faktorý er mikil röð. Þar er Kasper Björke víst að þeyta skífum. Fólk dansar á fótboltabilljarðborðinu fyrir utan staðinn. Við bíðum lengi.
Ölvun er horfin. Sæta stelpan segist vera þreytt.
Ég er líka þreyttur.
Förum heim.
Kemst að því að hafi ekkert pælt í tónleikum kvöldsins. Verð víst að skálda eitthvað upp fyrir Rjómann á morgun.

Airwaves dagbók Kristjáns: Fimmtudagur

Dagurinn minn byrjaði í 12 tónum þar sem söngvaskáldið Þórir Georg bar tilfinningar sínar ofur-hreinskilnislega á borð að venju. Textarnir eru núna allir á íslensku og finnst mér það vel. Það virtist heldur ekki trufla dolfallna útlendingana. Það er synd og skömm að Þórir skuli ekki vera að spila á hátíðinni ár en hann hefur verið fastagestur síðustu árin. Eftir innilegt lokalag Þóris hitti ég óvænt góða vini sem sögðu mér að þeir færu að fara spila á sínum fyrstu tónleikum í plötubúðinni eftir nokkrar mínútur. Ég ákvað að staldra við.

Sonic Youth bolur trommarans og ítrekaðar ábendingar söngvarans um að hækka í öllu gáfu vísbendingar um hvað væri í vændum. Tónlistin var einhvers konar twee-shoegaze með stráka-stelpu dúettasöng . Hljómsveitir eins og My Bloody Valentine, Sonic Youth og jafnvel Deerhof og Brian Jonestown Massacre komu fyrst upp í hugann. Lögin lofa ótrúlega góðu og þrátt fyrir að hljómsveitin, sem kallar sig í augnablikinu O-Yama (ekki endanlegt nafn þó), hafi einungis spilað saman í tvo mánuði gengu tónleikarnir mjög vel. Meðlimirnir eru enda engir nýgræðingar og hafa gert garðinn frægan m.a. með rokkböndum á borð við Me, The Slumbering Napoleon, Fist Fokkers, Skelkur í Bringu og Swords of Chaos. Óvænt og alveg ótrúlega ánægjuleg uppgötvun og mæli ég sterklega með að þið fylgist með þessu bandi á næstunni. Ánægjan með þetta nýja band var svo mikil að ég steingleymdi að fara að sjá annað band spila sína fyrstu tónleika: drungapönkbandið NORN. Ég vona innilega að sú sveit muni spila aftur á næstunni.

Næstu viðkomustaður var Eldborgarsalur Hörpunnar þar sem Sinfóníuhljómsveit Íslands, undir stjórn Daníels Bjarnasonar, spilaði tónlist Valgeirs Sigurðssonar úr kvikmyndinni Draumalandið. Tónleikarnir hófust á ,,Grýlukvæði”, stórskemmtilegu þjóðlagi sem bandaríkjamaðurinn Sam Amidon syngur á íslensku. Valgeir, skeggjaður og klæddur í síða svarta kuflslega skyrtu og víðar buxur, minnti helst á japanskan ninjameistara þar sem hann sat spakur á bakvið tölvu og sá til þess að allt færi eðlilega fram. Fyrir utan fyrsta lagið voru verkin að mestu leyti, eins og kvikmyndatónlist er venjulega, fljótandi tilfinningaþrungin bakgrunnstónlist með stöðugri uppbyggingu. Tónlist Valgeirs reynir að draga fram andstæðurnar milli íslenskrar náttúru og stóriðjunnar sem draumaland markaðarins byggir á. Stundum komu því inn lífrænir industrial taktar sem minnti á hina hlið peningsins. Einstaklega glæsilegt.

Nú varð ég að taka ákvörðun um hvort að ég ætti að fara og standa í röð til að ná Beach House í Hafnarhúsinu eða að sjá Víking Heiðar leika verk Daníels Bjarnasonar ,,Processions“ og ,,Birting“ með Sinfóníunni. Ég ákvað að halda mig í Hörpunni og sá ekki eftir því.

Það gleður mig alveg rosalega mikið að Airwaves-hátíðin skuli vera að færa út kvíarnar og auka fjölbreytnina í tónlistarvali. Á síðustu árum hafa klassísk tónlist og alternatíf popptónlist verið að blandast saman m.a. með listamönnum á borð við Ólaf Arnalds, Nico Muhly og öllu Bedroom Community genginu. Þessir listamenn eru að nýta sér ákveðna hluta fagurfræðinnar úr tilraunakenndu alternatífu poppi til að búa til ný-klassíska tónlist og svo klassískari útsetningar til að styðja við popplagasmíðar. Því er innkoma Sinfóníunnar á indítónlistarhátíð á einhvern hátt mjög eðlileg. (Nú vantar bara vettvang á hátíðinni fyrir enn tilraunakenndari tónlist, hvar eru t.d. tónskáldin úr S.L.Á.T.U.R.?)

Tónlist Daníels Bjarnasonar er á vissan hátt aggressífari heldur en tónlist Valgeirs. Daníel skapar ofboðslega mikla dýnamík í verkunum með því að nýta sér andstæður lágra píanónóta og sínfónísks hávaða.  (Vá, maður er aleg týndur þegar maður reynir að skrifa um klassíska tónlist, engin bönd til að vísa í, maður þekkir ekki stílana og getur þar af leiðandi ekki lokað listina í kassa.) Daníel dansaði fagmannlega um með sprotann og stjórnaði áslætti, strengjum og blásturshljóðfærum sem spiluðu öll vegamikil hlutverk. Aðalleikarinn var þó Víkingur Heiðar sem var stórkostlegur. Píanóleikurinn stundum allt að því manískur og fyrir óvant eyra jafnvel falskur. Slíkt skapaði því sterkt tilfinningalegt viðbragð. Ryþminn í píanóleiknum var fastur og Víkingur Heiðar sagði víst að síðasti hluti ,,Birtinga” væri teknó… eins og það ætti að vera. Stórkostlegt.

Það var reyndar alveg ofboðslega pirrandi að fólki var hleypt inn löngu eftir að tónleikarnir hófust og trufluðu sífellt ráp upplifinina að einhverju leyti.

Eftir Sinfóníuna lagði í að stað í átt að Hafnarhúsinu. Þar náði röðin u.þ.b. að Kolaportinu, en þar sem ég var vel búinn (húfa og regnstakkur) lét ég mig hafa það. Hálftíma seinna hafði myndast mikil útilegustemmning í röðinni: þjóðverjar buðu upp á hnetur og fólk var sent í bjórleiðangur á Zimsen. Hins vegar sá ég ekki fram á að ná inn á tónleikana fyrr en langt yrði liðið á giggið svo ég lét mig hverfa til að sjá Sin Fang enn einu sinni.

Hvítklædd og ofvirk Caged Animals voru að slá síðasta tóninn þegar ég gekk inn í Iðnó. Ég keypti mér bjór og beið.

Það er orðin svolítil hefð fyrir því að nefna letilegt fas Sindra þegar skrifað erum Sin Fang. Ótrúlegt en satt þá virtist hann reyndar bara frekar hress og brosmildur í þetta skiptið þó að míkrófónstatíf hafi ekki höndlað að halda uppi öllum þrem míkrófónunum hans. Upphafslagið var ,,Clangour and Flutes” og kom mjög vel út með klappi hljómsveitarinnar sem taktmæli. Mér finnst ég stundum hafa séð Sin Fang betri og nýja lagið þeirra virtist svolítið stirt. En ágætir tónleikar hjá Sin Fang eru þó betri en góðir hjá flestum böndum.

Ég náði síðustu þremur lögunum hjá Fist Fokkers. Vafnir inn í jólaseríur voru þeir að hamast á Sinead O‘Connor með sinni útgáfu af ,,Nothing Compares 2 U”. Svo renndu þeir í kóver af Kelly Clarkson og Beastie Boys með miklum krafti. Hljóðmaðurinn reyndi að taka þá úr sambandi en lýðurinn trylltist. „Besta band á Íslandi“ sagði einhver í krádinu. Og ég get alveg tekið undir það að Fist Fokkers eru eitt skemmtilegasta tónleikaband landsins.

Einhver hafði sagt mér að Space Chiefs 3 sem lokuðu kvöldinu í Iðnó, spiluðu Balkan-metal og annars staðar hafði ég heyrt að bandið innihéldi meðlimi Mr.Bungle. Það var því ekkert annað í stöðunni en að stökkva aftur inn í Iðnó og athuga hvað væri í gangi. Space Chiefs voru klæddir í svarta hettukufla og með fiðluleikara með dulu fyrir andlitinu. Hljómsveitin bauð svo upp á einhverja geðsturluðustu tónleikaupplifun sem mögulegt er. Hún tók rúnk-attitúd Fusion tónlistar yfir á annað level með því að bræða saman austræna þjóðlagatónlist, balkanbrjálæði, hryllingsvestramúsík og grjótharðan sýrumetal. Ég varð líkamlega þreyttur af þvi að horfa á átök fiðluleikarans og andlega þreyttur af endalausri keyrslunni. Ég vissi ekki hvort ég ætti að hlæja eða gráta. Þó að tónlistin sé ekki eitthvað sem ég myndi skella á fóninn heima var þetta svo sannarlega þess virði að upplifa.

Mynd 1: Reykjavík Grapevine – Mynd 2: Alexander Matukhno – Mynd 4: Katrín Ólafs

Airwavesdagbók Kristjáns: Miðvikudagur

Gamalt fólk kvartar oft mikið. Hlutirnir voru víst alltaf betri í gamladaga. Það er erfitt að meta hvort manns eigin neikvæðni byggist á sömu tilfinningadrifnu og röklausu nostalgíu, eða hvort að stundum hafi hlutirnir einfaldlega verið betri áður fyrr.

Ég fór fyrst á Airwaves árið 2005. Þetta var á þeim tíma sem ég fór á alla tónleika sem táningi var hleypt inn á í Reykjavík og nágrenni. Ég fékk skilríki lánuð frá bróður vinar til að komast á hátíðina. Airwaves var alsæla, endalaust mikið af böndum – það skipti ekki máli hvort það var The Zutons eða I Adapt eða hvað sem er: Allt fannst mér stórkostlegt. Í dag myndi ég hins vegar eflaust fússa yfir því að The Zutons væru bókuð á hátíðina og standa svo aftast með krosslagðar hendur á I Adapt tónleikum.

Kannski er maður orðinn lífsreyndari, eða kannski bara meira anal og ömurlegur, en þegar ég lít yfir prógramið í ár og hlusta á listamennina sem munu spila er hins vegar óóósköp fátt sem vekur upp vott af eftirvæntingu. Hjá erlendum listamönnum hefur einhver óspennandi synthadrifinn og dansvænn indírokkpúki smám saman tekið yfir alla tónlistarsköpun – eða þannig virkar það allavega.

Og þrátt fyrir að það séu alveg rosalega margir íslenskir listamenn að gera mjög góða, flotta og skemmtilega hluti, þá er alveg fáránlega lítið nýtt í gangi. Sérstaklega fyrir þjóð sem þreytist ekki á því að monta sig yfir eigin tónlistarmönnum og viðheldur öllum mýtum um yfirskilvitlegt samband óspilltrar náttúru og tilraunakenndrar listsköpunar. Þvert á það sem umheimurinn heldur vantar nefnilega einhverja almennilega greddu og raunverulega frumlega sköpun í íslenska tónlist í dag.

Nú ætla ég alls ekki að kenna Airwaves hátíðinni um þessa þróun. (Ég segi þróun af því að ég held að þetta hafi ekki alltaf verið svona. Krúttið var t.d. uppfullt af listrænni greddu (mjög passífri jú) og ákaflega nýrri sköpun. Harðkjarnasenan hefur oft verið mjög spennandi og það sem stundum hefur verið kallað Póst-krútt – þ.e. FM Belfast, Retro Stefsson o.s.frv. – var eitthvað nýtt og áberandi spennandi fyrir þremur árum. Líklega kemur þetta bara í bylgjum. Þekktur breskur útvarpsmaður segir víst t.d. nóg að koma á hátíðina á þriggja ára fresti til að uppgötva eitthvað nýtt.) Stundum læðist hins vegar að mér sá grunur að þrátt fyrir öll þau jákvæðu áhrif sem Airwaves-hátíðin hafi haft á tónlistina í landinu, eigi hún líkan örlítinn þátt í geldingu íslenskrar tónlistarsköpunar.

Fyrir nokkrum árum sá ég góðan vin minn spila á Airwaves-tónleikum með frábærri hljómsveit. Tónleikarnir voru hins vegar hræðilegir. Það voru aðallega útlenskir blaðamenn á staðnum, en bara nokkrir aðdáendur. Hljómsveitin spilaði ofboðslega illa en einbeindi sér mest að því að líta vel út fyrir myndavélarnar. Nú leggur þessi vinur minn ekki neitt sérstaklega mikið upp úr því að meika það. En það er þessi óhjákvæmilega meðvitund listamannanna um tækifærin sem billjón útlenskir blaðamenn og útgefendur hafa í för með sér sem hefur, að ég held, vaxið með hverri hátíð. Auðvitað hefur það í för með sér meiri metnað af hálfu hljómsveitanna, en stundum finnst mér að það sé fyrst og fremst  metnaður til að láta mikilvægu fólki líka við sig.

Iceland Airwaves er bransahátíð og tónlistarbransinn, eins og allir aðrir bransar, snýst fyrst og fremst um pening – ekki fólk eða tónlist, áhorfendur eða tónlistarmenn. Ekki að það sé neinum ákveðnum aðila að kenna, fjárhagslegir hagsmunir flugfélags, útgáfufyrirtækja, tónlistarblaða og endalaust fleiri aðila gera það að verkum að svona ganga hlutirnir einfaldlega fyrir sig. Manni líður hins vegar oft eins og maður sé bara smurolía einhverrar stórrar maskínu. Við fáum jú að njóta ágóðans þ.e. tónleikanna og virðumst á yfirborðinu vera í aðalhlutverki. En ef maður skoðar þá staðreynd að Agent Fresco hafi launalaust  troðfyllt NASA og fengið hundruði gesta til að bíða í röð fyrir utan á besta tíma hátíðarinnar í fyrra og á sama tíma þurft að kaupa sér sinn eigin bjór til að svala þorstanum á meðan á giggi stóð (lítill flöskubjór NASA kostar btw 900 krónur) og þegar maður bíður í klukkutímaröð í skítaveðri á meðan blaðamenn og aðrir vinir hátíðarhaldara valsa inn og út, finnur maður greinilega fyrir eigin merkingarleysi í þessu samhengi. 

Kannski er þetta fyrirkomulag hið besta mögulega, og kannski á maður ekkert að vera að kvarta, en stundum finnst manni listin óhreinkast við þessi augljósu tengsl við peninga. Það er kannski óhjákvæmilegt , en just sayin… Þessar hugsanir herjuðu á mig allt miðvikudagskvöldið, fyrsta tónleikakvöld Iceland Airwaves 2011. Ég vonaði innilega að öllu mínu áhugaleysi og neikvæðu hugsunum yrði troðið aftur ofan í kokið á mér með einhverri listrænni flugeldasýningu.

Fyrsta band kvöldsins var Mammút á NASA. Þau voru í svaka stuði, þétt og aðlaðandi að venju og krádið fílaði þau greinilega í drasl. Tónlistin er í stöðugri þróun, og nú er hljóðgervill farinn að spila stórt hlutverk í nokkrum lögum. Bandið virtist vera að færa sig meira í yfir í myrkari og rafrænni átt (kannski svolítið í áttina að þeirri tónlist sem Austra er að gera). Þessi elektróníski bragur lætur Katrínu minna örlítið meira á Björk, en það hafa alltaf verið ákveðin element í söngnum sem virðast koma þaðan. Kover útgáfa af ,,Follow“ af Bang Gang kom svo mjög vel út með öskrum og óhljóðum.

Næst ætlaði ég að hlusta á Sóleyju Stefánsdóttur (úr Seabear og Sin Fang), sem að mínu mati er líklega áhugaverðasti ,,nýji“ íslenski listamaðurinn á hátíðinni. Röðin sem hafði myndast inni í Hörpunni var hins vegar gígantísk og ég ákvað að halda aftur út í óveðrið.

Á Faktorý spilaði nýtt íslenskt reggíband sem kallast Amaba Dama. Hljómsveitin virtist aðallega veruð skipuð meðlimum Ojba Rasta, en með kamelljónið Earmax a.k.a. Nagmús a.k.a Maximus a.k.a. Gnúsa Yones sem frontmann. Stemmningin var vel heit, svitinn lak af rúðunum og fólk dillti sér hæglátlega við tónana. Bandið var þétt og skemmtilegt á sviði en lagasmíðarnar frekar misjafnar. Frá koveri af Týndu Kynslóð Bjartmars til ofboðslega undarlegs lags um Bjössa Bollu og svo ágætis útgáfu af danshittara Gnúsa Yones ,,Fullkomna Ruglkona“.

IKEA SATAN er eitt skemmtilegasta hljómsveitarnafn hátíðarinnar. Hraðabreytingar, samsöngur og einstaka kaflar vöktu lukku en hljómurinn var þunnur  og í heildina var tónlistin sem hljómsveitin bauð upp á á Amsterdam bara frekar auðgleymanlegt bílskúrsrokk.

Til að slútta kvöldinu – HEY! – rölti ég yfir á NASA þar sem Of Monsters and Men voru hálfnuð með settið sitt – HEY! Það virðist vera svolítil lenska hjá böndum þessa dagana að safna saman fullt af fólki upp á svið í þeim tilgangi að bæta einhverju við  tónlistana – HEY! – en ef lögin kalla ekki hreinlega á það er það oftast óþarfi – HEY! Þannig var það með OMM sem mér finnst að ættu frekar að einbeita sér að því að mjólka tilfinningarnar sem þau eru að setja í lögin frekar en að búa til eitthvað über-kraftmikið show – HEY! Bandið var semsagt kraftmikið en vandræðalegt milli laga – HEY! – og visjúalið ágætt en bætti svosem engu við tónlistina – HEY! Slagarinn ,,Little Talks“ – HEY! – var lokalagið og sungu margir með, og óháð tilfinningum mínum gagnvart laginu verður það að viðurkennast að það er alveg óþolandi grípandi – HEY!

Fyrsta kvöld hátíðarinnar ár var engin listræn flugeldasýning, fátt nýtt eða frumlegt, en gott á sinn hátt. Kosturinn við að hafa litlar væntingar til hátíðarinnar er vonandi sá að maður verður allavega ekki fyrir neinum stórkostlegum vonbrigðum…

Iceland Airwaves 11′: Iceage

Eitt mest hæpaða rokkband ársins er danska unglingapönksveitin Iceage. Iceage spila gamaldags melódískt pönk með dassi af illa spilaðri nýbylgju og gotneskum undirtónum (þegar þetta blandast saman verður þetta reyndar bara nokkuð nútímalegt indírokk). Útlit sveitarinnar og allt myndmál er líka í þessum anda, með hefðbundnu pönkblæti fyrir skít, hráleika og hálffasískum táknum.

Einvaldur indíplötudóma, Pitchfork, gaf frumrauninni New Brigade 8,4 í einkunn og þar með var ísinn brotinn. Síðan þá hafa Iceage túrað heiminn og fært honum sudda og danskt unglingahelvíti.

Iceage spila laugardagskvöldið 15.október klukkan 00:20 á Gauk á Stöng.

Iceage – Remember

A Turn in the Dream-Songs: Ný plata frá Jeffrey Lewis

Á mánudaginn kemur út ný plata frá, að mati undirritaðs, merkilegasta söngvaskáldi dagsins í dag: fjöllistamanninum Jeffrey Lewis. Platan nefnist A Turn in the Dream-Songs og er fyrsta sóló-stúdíóplata Jeffreys síðan ‘Em Are I kom út árið 2009. Við fyrstu hlustun virðist hljómurinn vera ósköp svipaður síðustu tveimur eða þremur plötum Lewis: áherslan er á fyrst og fremst á textana, upptökurnar eru nokkuð hráar og byggjast aðallega á akústískum hljóðfærum. Áhrifin frá hippaþjóðlagasýrutónlist eru áberandi líkt og á síðustu plötu. Það er því ólíklegt að skoðanir fólks á tónlist Lewis muni taka grundvallarbreytingum með þessari nýju plötu, en hún er a.m.k. mikill fengur fyrir aðdáendur. Mikið er um gestagang á A Turn in the Dream-Songs, en þar koma m.a. við sögu meðlimir hljómsveitanna Dr.Dog, The Wave Pictures og Au Revoir Simone.

Hægt er að streyma plötunni Breska dagblaðið The Guardian og þar skrifar Lewis einnig nokkrar línur um hvert lag.
http://www.guardian.co.uk/music/musicblog/2011/oct/05/jeffrey-lewis-turn-dream-songs