Músíktilraunir 2013

Músiktilraunir 2013

Músíktilraunir 2013 verða haldnar í Silfurbergi, Hörpunni. Undankvöldin verða frá 17. til 20.mars og úrslitakvöldið þann 23.mars. Einnig hefur heimasíða Músíktilrauna 2013 verið sett í gang. Þetta er frábært tækifæri til að taka þátt í skemmtilegum og spennandi viðburði í glæsilegu umhverfi og kynna sig og kynnast öðrum í leiðinni. Miðasala verður á www.harpa.is

Nú er því um að gera að dusta rykið af hljóðfærunum og byrja æfingar. Við munum opna fyrir skráningu 18. febrúar nk. og henni lýkur svo 3.mars. Skráningargjald verður það sama og síðast, 7000 kr. Fylgist með á www.musiktilraunir.is , en skráning mun verða aðgengileg þaðan.

Hitt Húsið ætlar að bjóða upp á aðstöðu fyrir tónlistarfólk til að koma og æfa lögin sín í góðu hljóðkerfi, mögnurum o.fl. Einnig verður starfsfólk hússins á staðnum til skrafs og ráðagerða um allt er varðar tilraunirnar og undirbúning fyrir þær. Í kjölfarið af þessu geta hljómsveitirnar/tónlistarfólkið sótt um að taka upp demo í Hinu Húsinu til að skila í skráningu Músíktilrauna 2013.
Dagsetningar sem í boði eru:

-Æfing / spjall : Fimmtudagurinn 14.febrúar kl.17-22.
-Demóupptökur: Laugardagurinn 16.febrúar

Takmarkað pláss er í boði, hafið því samband sem fyrst í musiktilraunir@itr.is og í síma 411-5527.

Besta tónlistarmyndbandið 2012

Leikstjórar og listmenn geta nú skráð tónlistarmyndbönd sín til þátttöku í Íslensku tónlistarverðlaununum 2012. Í fyrra var tekið upp á því að verðlauna aftur í þessum flokki en með samfélagsmiðlum og ódýrrari tækni hefur það færst mjög í aukana undanfarið að tónlistarmenn láti búa til myndbönd við tónlist sína. Í fyrra sigraði Ingibjörg Birgisdóttir í þessum flokki fyrir myndband sitt við lag Sóleyjar, “Smashed Birds”.

Gjaldgeng til þátttöku eru þau myndbönd við verk íslenskra flytjenda eða flytjenda sem búa og starfa á Íslandi sem lögð eru fram til fagnefndar og voru frumsýnd á tímabilinu (30. nóv 2011 – 15. nóv 2012), óháð upphaflegu útgáfuári tónlistarinnar. Frestur til innsendingar er til hádegis mánudaginn 4. febrúar. Verkunum má skila með hlekk á Youtube og aðrar síður eða með því að nota Dropbox eða síður eins og We Transfer. Netfang Íslensku tónlistarverðlaunanna er iston@iston.is. Athugið að koma upplýsingum á framfæri um leikstjóra, hljómsveit og lag.

Sérstök fagnefnd fer yfir innsend verk en hún er skipuð þeim Guðmundi Oddi Magnússyni (Goddi), Dögg Mósesdóttur og Gunnari Lárusi Hjálmarssyni. Þessi nefnd tilnefnir einnig plötuumslög ársins. Þeir sem ekki hafa skilað inn eintökum af hljómplötum sínum en vilja tryggja að þær verði teknar til greina í flokknum Plötuumslag ársins ættu endilega að koma eintökum (helst þremur) á skrifstofu FÍH, Rauðagerði 27, RVK hið snarasta (merkt Íslensku tónlistarverðlaununum).

Íslensku tónlistarverðlaunin fara fram í Hörpu, miðvikudaginn 20. febrúar 2013.

ÚTÓN auglýsir eftir umsóknum fyrir Made in Iceland 6 safndiskinn

Síðustu fimm ár hafa ÚTÓN og Iceland Naturally staðið fyrir verkefninu Made in Iceland í Bandaríkjunum. Markmiðið með verkefninu er að kynna nýja frumsamda tónlist frá Íslandi í Bandaríkjunum og vekja athygli háskólaútvarpsstöðva og kaupenda á tónlist í myndefni á nýútgefinni tónlist frá Íslandi.

Lögð er áhersla á að kynna lög af nýjum útgáfum á Íslandi sem ætlaðar eru fyrir alþjóðlega útgáfu og komið hafa út seinni hluta ársins 2012 eða eru væntanlegar á markað fyrri hluta árs 2013. Stefnt er að því safndiskurinn innihaldi lög með 15–20 listamönnum sem endurspegla fjölbreytileika og gæði íslenskrar tónlistar um þessar mundir.

Áhugasamir geta kynnt sér umsóknarferlið nánar á vef ÚTÓN.

Pétur Ben á Slippbarnum

Pétur Ben - God's Lonely Man

Heineken í samstarfi við tónlistarveituna gogoyoko kynna fjórðu tónleikana í röðinni Heineken Music sem fram fer á Slippbarnum einn fimmtudag í hverjum mánuði. Það er tónlistarmaðurinn geðprúði Pétur Ben sem mun ásamt hljómsveit sinni leika lög m.a. af nýrri plötu, God’s Lonely Man, sem hefur verið að fá glimrandi dóma og viðtökur hvarvetna og var hún t.a.m. valin 5. besta plata ársins á gogoyoko.

Slippbarinn, Hótel Marina
Fimmtudaginn 17. janúar
Stuðið hefst kl. 22:00. Ókeypis aðgangur í boði Heineken.

Flowers er þriðja breiðskífa Sin Fang

Sin Fang - Flowers

Tónlistarmaðurinn Sin Fang mun senda frá sér sína þriðju plötu þann 1. febrúar næstkomandi og mun hún heita Flowers. Platan er tekin upp og framleidd í samstarfi við Alex Somers, en hann hefur áður framleitt músík með Jónsa, Sigur Rós, Úlfi, Pascal Pinon og fleirum.

Sin Fang er einmenningsverkefni Sindra Más Sigfússonar og varð til í fríum og pásum hljómsveitarinnar Seabear, sem Sindri einmitt stofnaði á sínum tíma. Sin Fang hefur áður gefið út breiðskífurnar Clangour og Summer Echoes og stuttskífuna Half Dreams sem kom út á síðasta ári.

Kraumslistinn 2012 – Verðlaunaplötur

Kraumslistinn 2012, árleg plötuverðlaun Kraums tónlistarsjóðs, var kynntur í dag.

Á Kraumslistanum er að finna sex plötur sem allar bera þess merki að mikið hefur verið í þær lagt. Hér er að finna vönduð verk eftir leitandi, framsækið og umfram allt framúrskarandi tónlistarfólk.

Vinningshafar 2012

Plöturnar sem skáru framúr í ár og skipa listann eiga það sameiginlegt að vera frumlegar, spennandi og afar metnaðarfullar en 20 plötur voru tilnefndar til verðlaunanna og skipuðu Úrvalslista Kraums. Það var ekki auðvelt verkefni að gera upp á milli allra þeirra góðu platna sem skipuðu Úrvalslistann og komu út á árinu. Það liggur enginn vafi á því að tónlistarárið 2012 var gjöfult og gott og ekki er annað að sjá en að framtíðin sé björt fyrir íslenska tónlist. Hljómar vissulega eins og klisja en það er bara ekki annað hægt að segja því staðan er þannig.

Árni Matthíasson, formaður dómnefndar, tilkynnti niðurstöðu um val verðlaunaplatna sem líkt og síðustu tvö ár eru sex talsins. Afhending verðlaunanna fór fram í húsnæði Kraums tónlistarsjóðs að Vonarstræti 4b að viðstöddum hópi gesta.

Kraumslistinn 2012 – Verðlaunaplötur

 • Ásgeir Trausti – Dýrð í dauðaþögn
 • Hjaltalín – Enter 4
 • Moses Hightower – Önnur Mósebók
 • Ojba Rasta – Ojba Rasta
 • Pétur Ben – God’s Lonely Man
 • Retro Stefson – Retro Stefson

Fjandinn Metalfest 14. og 15. desember

Um miðjan desember verður boðið upp á sannkallaða veislu fyrir rokkþyrsta íslendinga þegar til landsins mæta frönsku þungarokkssveitirnar L’ESPRIT DU CLAN og HANGMAN’S CHAIR.

Er hátíð þessi hugarfóstur Íslandsvinarins Kalchat sem hefur skipulagt hana síðan 2007. Vinnur hann hjá bókunarskrifstofunni Rage Tour sem þykir me þeim stærri í bransanum og sér m.a. um að bóka tónleika fyrir sveitir eins og: Napalm Death, Entombed, Hatebreed, Sepultura og Brutal Truth, ýmist í Frakklandi eða út um alla Evrópu.

Hefur hátíðin ferðast um allt Frakkland og er nú komið að því að halda hana á Íslandi en hátíðin er tveggja daga hátíð þar sem fyrri dagurinn fer fram 14. des á Gauki á Stöng í Reykjavík, og sá seinni á Græna Hattinum á Akureyri 15. des.

Risastór hópur af vinahópi Kalchat mætir hingað með honum (við erum að tala um nokkra tugi manna) og hér verður mikið partý og rokk og metalhausum landsins er boðið til veislu. Miðaverði er stillt í algjört hóf miðað við umfang.

Lænöppið fyrir kvöldin er sem hér segir:

Reykjavík

 • L’ESPRIT DU CLAN
 • HANGMAN’S CHAIR
 • MOMENTUM
 • DIMMA
 • ANGIST
 • MOLDUN
 • OPHIDIAN I
 • ásamt DJ KIDDA ROKK

Akureyri

 • L’ESPRIT DU CLAN
 • HANGMAN’S CHAIR
 • MOMENTUM
 • SKURK

Miðaverð: 1.500 í Reykjavík / 2.000 á Akureyri
Aldurstakmark: 18 ára
Húsin opna kl. 20:00 en lætin hefjast kl. 21:00.

Ný plata frá Samúel Jón Samúelsson Big Band

Samúel Jón Samúelsson Big Band sendir frá sér sína 4. hljómplötu stútfulla af sjóðandi hrynheitri músík. Tónlistin sem er eftir Samúel er undir áhrifum frá Nígerísku Afróbíti, Eþíópískum jazzi, brasilískum samba töktum, bandarísku funki og stórsveitarjazzi blandað við íslenska veðursveiflu og eyjaskeggja þrjósku.

Platan, sem heitir 4 hliðar, mun koma á 2 vinilplötum annars vegar og 2 geisladiskum hins vegar og hefur 4 album cover.

Útgáfutónleikar verða í Gamla Bíó fimmtudag 20.12. árið 2012 kl 20:12
miðasala á www.midi.is

Kraumslistinn – Úrvalslisti 2012 tilkynntur

Öldungaráð Kraums hefur tilnefnt 20 plötur á Úrvalslista Kraums en í næstu viku kemur í ljós hvaða 5 – 6 plötur af þessum tuttugu munu skipa Kraumslistann 2012. Markmið Kraumslistans er að kynna og styðja við plötuútgáfu íslenskra hljómsveita og listamanna með sérstöku tilliti til þeirra sem yngri eru. Viðurkenna og vekja sérstaka athygli á þeim verkum sem skara fram úr í gæðum, metnaði og frumleika.

Framkvæmd Kraumslistans 2012 er með þeim hætti að níu manna dómnefnd útnefnir 20 plötur á Úrvalslista Kraums en við honum tekur svo 20 manna dómnefnd og velur bestu plöturnar þannig að eftir standa 5 til 6 verðlaunaplötur.

Dómnefnd Kraumsverðlaunanna er skipuð fólki sem hefur mikla reynslu af því að hlusta á og fjalla um íslenska tónlist á ýmsum sviðum. Formaður dómnefndar er Árni Matthíasson.

Í Öldungaráði sem vann að forvalinu áttu sæti ásamt Árna Matthíassyni: Ása Dýradóttir, Benedikt Reynisson, Guðni Tómasson, Egill Harðar, Helena Þrastardóttir, Hildur Maral Hamíðsdóttir, Ólafur Halldór Ólafsson og Trausti Júlíusson.

Úrvalslisti Kraums 2012 – listinn er birtur í stafrófsröð:

 • adhd – adhd4
 • Ásgeir Trausti – Dýrð í dauðaþögn
 • Borko – Born To Be Free
 • Davíð Þór Jónsson – Improvised Piano Works 1
 • Duo Harpverk – Greenhouse Sessions
 • Futuregrapher – LP
 • Ghostigital – Division of Culture & Tourism
 • Hilmar Örn Hilmarsson & Steindór Andersen – Stafnbúi
 • Hjaltalín – Enter 4
 • Moses Hightower – Önnur Mósebók
 • Muck – Slaves
 • Nóra – Himinbrim
 • Ojba Rasta – Ojba Rasta
 • Pascal Pinon – Twosomeness
 • Pétur Ben – God’s Lonely Man
 • Retro Stefson – Retro Stefson
 • Sin Fang – Half Dreams EP
 • The Heavy Experience – Slowscope
 • Tilbury – Exorcise
 • Þórir Georg – I Will Die and You Will Die and it Will be Alright

Tilkynnt verður hvaða plötur vinna sér sæti á Kraumslistanum miðvikudaginn 19. desember.

IMMO sendir frá sér Barcelona

IMMO, sem gefið hefur út tvær plötur með Original Melody, gefur nú út sína fyrstu sólóplötu sem ber nafnið Barcelona en hún kemur í búðir 14.desember næstkomandi. Titillag plötunnar fjallar um afdrifaríkt atvik sem átti sér stað í Barcelona þegar ókunnugur maður beit neðri vör rapparans af.

Á plötunni fær IMMO góða gesti í lið með sér. Retro Stefson bræðurnir, Unnsteinn og Logi, koma við sögu í sitthvoru laginu þar sem þeir sýna á sér skemmtilega hlið. Söngkonan Valborg Ólafsdóttir (The Lovely Lion) syngur í lagi þar sem IMMO fjallar um hvernig hann tekst á við þær afleiðingar Barcelona atviksins. Þá slær IMMO á létta strengi með Friðriki Dór en á plötunni má einnig finna bandarískan rappara að nafni LO, Opee og söngvarana Þorstein Kára og Jason Nemor. Öll lög plötunnar eru pródúseruð af Fonetik Simbol, nema eitt, þar sem Logi úr Retro Stefson leysir Fonetik af.

Nýtt lag frá Einari Lövdahl

Tónlistarmaðurinn Einar Lövdahl sendi á dögunum frá sér sína aðra smáskífu á netinu sem ber nafnið “Traust”. Einar er höfundur lags og texta en um útsetningar og upptökur sáu Halldór Eldjárn (Sykur) og Egill Jónsson.

Lagið er önnur smáskífan af væntanlegri plötuútgáfu sem Einar hyggur á næstkomandi vor. Áður hefur hann sent frá sér lagið “Tímar án ráða” sem rataði inn á Vinsældalista Rásar 2 fyrr í haust.

Jólaglaðningur frá Bedroom Community

Þriðja árið í röð býður Bedroom Community hlustendum sínum upp á frítt jólamix, Yule, þegar keypt er í gegnum vefbúð útgáfunnar. Mix þetta inniheldur áður óútgefin lög frá öllum Bedroom Community listamönnunum: Ben Frost, Valgeiri Sigurðssyni, Nico Muhly, Daníel Bjarnasyni, Sam Amidon, Puzzle Muteson & Paul Corley – auk gesta á borð við söngkonuna Dawn Landes, raftónlistarmanninn Scanner og víóluleikarann Nadiu Sirota.

Pétur Ben gefur út plötuna God’s Lonely Man

Pétur Ben hefur sent frá sér sína aðra sólóplötu, God’s Lonely Man. Rúm fjögur ár eru liðin frá því að Pétur sendi frá sér sína fyrstu sólóplötu Wine for my weakness, en hún vann meðal annars til Íslenski tónlistarverðlaunanna árið 2008. Pétur gefur sjáfur út God’s Lonely Man og fór hann heldur óhefbundna leið til að fjármagna gerð hennar. Platan var fjármögnum í gegnum Karolina sjóðinn, En þar gafst fólki víðsvegar um heim tækifæri til að leggja sitt af mörkum til að aðstoða við útgáfuna.

Pétur hefur undafarin ár unnið með fjölda tónlistarmann bæði sem samverkamaður og upptökustjóri. Hann hefur einnig samið tónlist fyrir þrjár kvikmyndir ásamt því að vinna þess á milli að gerð God’s Lonely Man.

Fimmtudaginn 6 desember kemur Pétur fram á tónleikum á Gamla Gauknum ásamt Oyama og Láru Rúnars. Tónleikarnir hefjast stundvíslega klukkan hálf ellefu og er miðverð litlar 1500kr.

Asonat – Forever We Ran EP

Rafsveitin Asonat gaf í gær út stuttskífuna Forever We Ran. Asonat er samvinnuverkefni tveggja reynslubolta í raftónlistarsenunni. Annars vegar er það Jónas Þór Guðmundsson, sem hefur verið best þekktur í undirheimum raftónlistarinnar undir dulnefninu Ruxpin og hins vegar Fannar Ásgrímsson, sem er annar helmingur rafpoppsveitarinnar Plastik Joy. Á stuttskífunni njóta þeir aðstoðar frönsku söngkonunnar Oléna Simon, en hún var einnig tíður gestur á breiðskífu sveitarinnar Love in Times of Repetition sem út kom fyrr á árinu. Bandaríska útgáfufyrirtækið n5MD sér um útgáfuna, en báðir fastir meðlimir Asonat hafa gefið út sínar síðustu breiðskífur þar.

Asonat – Rökkurró

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

www.n5md.comwww.facebook.com/asonatmusic | www.soundcloud.com/asonat

Monterey – Time Passing Time

Hljómsveitin Monterey hefur sent frá sér sína fyrstu plötu og ber hún heitið Time Passing Time. Monterey, sem m.a. er ættuð úr Breiðholti, kom fyrst fram árið 2007 undir nafninu April og hefur verið starfandi síðan með hléum og nokkrum mannabreytingum. Í fyrra var nafninu formlega breytt í Monterey, og var það gert í höfuðið á smábæ í Kaliforníu þar sem margar flottar tónlistarhátíðir hafa verið haldnar, sú frægasta sennilega Monterey Pop Festival 1967.

Forsprakki hljómsveitarinnar er Steindór Ingi Snorrason sem syngur og spilar á gítar og með honum í bandinu í dag eru Andri Geir Árnason á trommur, Arnar Ingi Hreiðarsson á bassa og Baldur Sívertsen á gítar.

Tónlist Monterey mætti lýsa sem hugljúfri og fallegri poppmúsik undir sterkum áhrifum frá síðbítlarokki sjöunda og áttunda áratugarins, en þó telur sveitin að músikin sé sniðin að hugarheimi tuttugustu og fyrstu aldar mannsins. Hljómplatan var hljóðrituð hér og þar í Reykjavík á árunum 2011-2012 og gefa strákarnir plötuna út sjálfir. Mix og mastering var í höndum Ebergs.

Bræðurnir Óskar og Ómar Guðjónssynir á hringferð um landið

Bræðurnir Ómar og Óskar Guðjónssynir flytja tónlist af tveim breiðskífum sem komu út nú fyrir jólin. Annars vegar eru það sönglög Ómars “Útí Geim” sem hann mun leika ásamt hljómsveit sinni í síðari hluta hljómleikanna og hins vegar er það Brazilíski íslandsvinurinn Ife Tolentino sem mun leiða tónleikagesti inn í sinn huglúfa og seiðandi Bossa Nova heim í fyrri hluta tónleikanna ásamt Óskari. Þeir félagar voru einmitt að senda frá sér geislaplötuna “Voce Passou Aqui”.

Hringferð þeirra bræðra:

Borganes
Mánudagurinn 3. des kl. 21.00 – Landnámssetrið
Stykkishólmur
Þriðjudagurinn 4. des kl. 21.00 – Hótel Sykkishólmur
Siglufjörður
Miðvikudagurinn 5. des kl. 21.00 – Kaffi Rauðka
Akureyri
Fimmtudagurinn 6. des kl 21.00 – Græni Hatturinn
Neskaupsstaður
Föstudagurinn 7. des kl. 22.00 – Blúskjallarinn
Höfn í Hornafiði
Laugardagurinn 8. des kl. 21.00 – Pakkhúsið

Veistu Hvað? – Ómar Guðjónsson

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Útgáfutónleikar Pascal Pinon

Dúettinn Pascal Pinon, skipaður tvíburasystrunum Jófríði og Ásthildi Ákadætrum, gaf nýverið út sína aðra breiðskífu, plötuna Twosomeness, hjá þýska útgáfufélaginu Morr Music. Í tilefni af því munu þær halda útgáfutónleika núna í byrjun desember.

Útgáfutónleikar fyrir Twosomeness verða haldnir í Fríkirkjunni þann 8. desember kl. 21:00. Arnljótur Sigurðsson og Klarinettkór Tónlistarskóla Reykjavíkur munu sjá um upphitun. Miðaverð er 1.500 kr. í forsölu og fer hún fram á www.midi.is. Miðaverð við hurð er 2.000 kr.