Bon Iver gefur út Bon Iver

Það er óhætt að merkja við 21. júní í dagbókinni því þá þurfum við Bon Iver fíklarnir ekki að bíða lengur eftir nýrri plötu frá þessum magnaða tónlistarmanni. For Emma, Forever Ago kom út árið 2008 og sló heldur betur í gegn en eins og frægt er tók hann alla plötuna upp í fjallakofa í Wisconsin. Síðan þá hefur verið mikið flug á Justin Vernon og hefur hann m.a. gefið út með Kanye West, Anais Mitchell, Lia Ices og Volcano Choir.

Nýja platan, sem mun einfaldlega kallast Bon Iver, ber þess kannski merki að Vernon hefur verið mikið á ferðinni en flest laganna 10 bera staðanöfn s.s. Calgary, Lisbon OH og Perth en hún er reyndar öll tekin upp og hljóðblönduð í hljóðveri í Wisconsin. Hann er þar á heimaslóðum enda ekki nema örfáa kílómetra frá æskuheimili hans.

Síðar á árinu mun hann svo halda í ferðalag með nýju plötuna, vel studdur af 9 manna bandi. Er Harpan ekki laus?

Bon Iver – Blood Bank

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Þriðjudagsmyndbönd

Ég veit ekki með ykkur hin en ég bíð í ofvæni eftir nýrri plötu Okkervil River. Hún mun kallast I Am Very Far og kemur út fyrri hluta maímánaðar og eins og áður er það útgáfufyrirtækið Jagjaguwar sem gefur sveitina út. Nú nýlega sendu þau frá sér myndband við lagið “Wake and Be Fine”.

Okkervil River – Wake and Be Fine

Ekki er langt síðan Rjóminn greindi frá nýju lagi frá The National sem má heyra í kvikmyndinni Win Win. Lagið heitir “Think You Can Wait” og skartar Sharon Van Etten í bakröddum. Að ósekju hefði mátt leyfa laginu að njóta sín betur í myndbandinu og sleppa hljóðrásinni úr myndinni en hvað veit ég svo sem…

The National – Think You Can Wait

Raphael Saadiq er enginn venjulegur töffari en þessi 44 ára gamli Ameríkani spilar alvöru sálartónlist. Hann sendi nýverið frá sér myndband við lagið “Stone Rollin” sem má finna á samnefndri plötu hans sem kemur út í næsta mánuði. Hér drýpur smjör.

Raphel Saadiq – Stone Rollin’

Að lokum hafa svo strákarnir í Fleet Foxes skilað frá sér myndbandi við lagið “Grown Ocean” en eins og hvert mannsbarn veit er ekki nema tæpur mánuður í að plata þeirra, Helplessness Blues, komi út.

Fleet Foxes – Grown Ocean

Ný plata frá Vetiver

Folkpoppararnir í Vetiver hafa boðað nýja plötu í júní. Platan kemur í kjölfar þeirrar stórgóðu Tight Knit sem kom út 2009 og var þeirra fyrsta undir merkjum Sub Pop. Nýja platan, sem er tekin upp ‘live’, verður þeirra fimmta stóra plata og hún kemur til með að kallast The Errant Charm.

Þeir segja að nýja platan sé fullkominn félagi í gönguferðir eftir að hafa hangið í tölvunni allan daginn en aðalspaði Vetiver, Andy Cabic, gekk ófáa kílómetrana um San Fransisco hlustandi á ókláraðar upptökur og formúleraði framhaldið. Enn sem komið er hafa lögin ekki ratað á netið svo við látum okkur nægja gamlan smell í bili.

Vetiver – Everyday

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Mánudagsmyndbönd

The National hafa gert rándýrt myndband við lagið “Conversation 16” af High Violet. Með aðalhlutverk fara þau John Slattery, sem er kannski þekktastur fyrir hlutverk sitt í Mad Men og Kristen Schaal, sem fer reglulega á kostum í The Daily Show with John Stewart. Gallsúrt myndband við stórkostlegt lag.

The National – Conversation 16

Um daginn sendu Foo Fighters frá sér myndband við lagið “Rope” sem er fyrsta smáskífan af væntanlegri plötu þeirra, Wasting Light. Eins og einhver sagði þá er þetta bara ‘simple rock and Grohl.’

Foo Fighters – Rope

Þetta myndband frá Kristian Matsson er svo sem ekki glænýtt en einhverra hluta vegna hef ég skautað fram hjá því hingað til. Þetta er fallegt á allan hátt.

The Tallest Man on Earth – Love is All

The Low Anthem voru að gefa út sína fjórðu plötu, Smart Flesh. Þeir skutu þetta myndband við þetta snaggaralega lag sem hreinlega krefst þess að maður hlusti.

The Low Anthem – Boeing 737

Nýtt lag frá The National

Strákarnir í The National gerðu frábæra hluti á síðustu plötu sinni High Violet og nú hefur nýtt lag dottið inn á netið en það kemur fyrir í myndinni Win Win sem frumsýnd verður á Sundance kvikmyndahátíðinni. Lagið heitir ‘Think You Can Wait’ og syngur Sharon van Etten þar bakraddir.

The National – Think You Can Wait

Ivan & Alyosha

Á flandri mínu um vegleysur netsins rakst ég á Ivan & Alyosha sem eru folk-popparar frá Seattle. Bandið var upprunalega sólóverkefni Tim Wilson en 2007 bættist Ryan Carbary við og síðar hefur áfram fjölgað í bandinu. Nafnið sóttu þeir á ekki ómerkari stað en í verk Dostojevskí. Þeir verða kannski ekki sakaðir um að vera ofvirkir í útgáfunni en það eru komnar frá þeim tvær EP plötur. Sú fyrri kom út 2009 og kallast The Verse, The Chorus en sú seinni, Fathers Be Kind, kom út fyrir rétt rúmum mánuði síðan og inniheldur 5 lög. Tónlist þeirra er kunnulegt stef þessa dagana, dreymandi raddanir og hæfilegur skammtur af amerískri sveit. Rödd Tim Wilson nær þó í gegn en það er ekki til neins að tala þetta í rot. Fáum tóndæmi.

Ivan & Alyosha – Easy to Love (af The Verse, The Chorus)

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Ivan & Alyosha – Glorify (af Fathers Be Kind)

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Það má hlusta á, og að sjálfsögðu kaupa Father Be Kind á heimasíðu Ivan & Alyosha. Svo er ekki úr vegi að kíkja á myndband af heimsókn þeirra til NPR.

Ivan & Alyosha – NPR Tiny Desk Concert

Agent Fresco og Orphic Oxtra eru Rafmagnslaus á Norðurpólnum

Á fimmtudagskvöldið kemur verða haldnir fyrstu tónleikarnir í nýrri tónleikaröð sem ber heitið Rafmagnslaust á Norðurpólnum. Eins og nafnið bendir til fara tónleikarnir fram í húsnæði Norðurpólsins úti á Seltjarnarnesi og verður eins lítið rafmagn og kostur er notað til flutningsins. Á hverju tónleikakvöldi koma fram tvær ólíkar hljómsveitir í sitt hvoru lagi ásamt því að eiga með sér samstarf í einhverri mynd en það er síðan í höndum hljómsveitanna að útfæra það frekar.

Balkansveitin Orphic Oxtra og hinir mögnuðu Agent Fresco fá þann heiður að hefja tónleikaröðina á fimmtudagskvöldið. Hróður hinnar 13 manna gleðisveitar Orphic Oxtra hefur farið mjög vaxandi en hljómsveitin spilar lífræna, dansvæna tónlist undir balkan áhrifum. Fyrsta plata þeirra, sem ber titil hljómsveitarinnar, kom út 1. nóvember síðastliðinn og er afar skemmtileg viðbót við íslenskt tónlistarlíf. Sveitin kom fram á Aldrei fór ég suður og Airwaves í fyrra en hún hefur vakið athygli fyrir hressandi sviðsframkomu og mikla spilagleði.

Agent Fresco fer mikinn þessa dagana en drengirnir héldu fyrir skemmstu afar vel heppnaða útgáfutónleika í Austurbæ. Þá fengu þeir þrjár tilnefningar til íslensku tónlistarverðlaunanna, sem tónlistarflytjandi ársins, rödd ársins og fyrir hljómplötu ársins en auk þess eru þeir tilnefndir til menningarverðlauna DV fyrir árið 2010. Í janúar síðastliðnum komu þeir fram í Danmörku með akústískt sett ásamt Mugison og Lay Low við mjög góðar undirtektir.

Miðaverð er 1500 krónur og fæst 10% afsláttur í Lucky Records við Hverfisgötu gegn framvísun miðans. Tónleikarnir hefjast stundvíslega kl.21:00 og opnar húsið kl.20:00. Rjóminn verður á staðnum og fylgist með.

Agent Fresco – Eyes of a Cloud Catcher (acoustic)

Orphic Oxtra – Núna

Mánudagsmyndbönd

Þá er komið að ráðlögðum mánudagsskammti af nýjum og nýlegum myndböndum sem hafa náð mér til eyrna og augna síðustu vikuna. NY-rokkararnir í The Walkmen sendu frá sér tvö afar ólík myndbönd í síðustu viku. Fyrra lagið er “While I Shovel the Snow” af plötunni Lisbon sem kom út í haust. Hið seinna er b-hlið af sömu plötu og nefnist “Orange Sunday”.

The Walkmen – While I Shovel the Snow

The Walkmen – Orange Sunday

Salvo er 12-hluta myndbandasería eða söngleikur í fullri lengd frá Edward Sharpe and the Magnetic Zeros. Þriðji hluti í þessu metnaðarfulla verkefni birtist loks eftir langa bið nú síðastliðinn föstudag. Myndbandið er við lagið “40 Day Dream” en hljómsveitin er enn að túra með sína fyrstu plötu. Eins og Rjóminn greindi nýlega frá kemur fyrsta sólóplata Alex Ebert, söngvara sveitarinnar, út núna í vikunni en henni má streyma í heild sinni á heimasíðu hans.

Edward Sharpe and the Magnetic Zeros – 40 Day Dream

Laura Marling stoppaði við á enn einni verðlaunaafhendingunni um daginn og frumflutti nýtt lag, “Flicker and Fail”. Lagið er reyndar endurvinnsla af yfir 30 ára gömlu lagi föður hennar en hún fiktaði víst aðeins í melódíunni og textanum og útkoman er ekta folk. Nú er bara að sjá hvort þetta lag nái inn á nýja plötu hennar en stefnt er að því að hún komi út í haust.

Laura Marling – Flicker and Fail

Mánudagsmyndbönd

Það er gott að byrja vikuna með nokkrum nýjum myndböndum. Þessi fjögur hafa hafa náð athygli minni að undanförnu. Byrjum á fyrirbærinu sem er Bonnie ‘Prince’ Billy sem er hér ásamt The Cairo Gang. 10” skífa er væntanleg frá þeim til styrktar uppbyggingu á Haítí. Um er að ræða tvö lög, “Island Brothers” og “New Wonder”. Nánar á heimasíðu Edge Outreach.

Bonnie ‘Prince’ Billy & The Cairo Gang – New Wonder

Platan Grown Unknown frá Lia Ices kom út í janúar á vegum Jagjaguwar og hún var að senda frá sér spánnýtt myndband við lagið “Daphne”. Hún fær ekki ómerkari mann en Justin Vernon til að gaula í bakröddum fyrir sig. Ég mæli með að fólk hafi þolinmæði til að spila allt lagið því það kemur einstaklega flott skipting eftir um tvær og hálfa mínútu.

Lia Ices – Daphne (feat. Justin Vernon)

James Blake hefur heldur betur hrært uppí bresku tónlistarpressunni sem hefur verið verulega dugleg við að blása í hornið hans. Þó er örlítið farið að bera á því að hæpið sé eitthvað að dala í kjölfar LP plötu hans og t.a.m. fær hann ekki nema 6/10 hjá NME. Kíkjum á “The Wilhelm Scream”.

James Blake – The Wilhelm Scream

The Black Keys hafa sjálfsagt aldrei haft það betra. Nýjasta myndbandið þeirra er í Tarantino stíl og það er greinilega nóg af stjörnum sem eru tilbúnar til að spóka sig fyrir þá.

The Black Keys – Howlin’ For You

John Grant – Queen of Denmark

Fyrsta sólóplata John Grant kom út um mitt síðasta ár á vegum Bella Union. Queen of Denmark vakti svo sem ekki verulega athygli fyrst um sinn en henni hefur smám saman vaxið fiskur um hrygg. Áður hafði Grant gefið út plötur með hljómsveitinni The Czars sem sló aldrei verulega í gegn á 10 ára ferli en hún lagði upp laupana 2004.

Platan var tekin upp í tveimur hollum 2008 og 2009. Það voru folk-rokkararnir í Midlake sem hvöttu Grant áfram við gerð plötunnar en þeir lánuðu honum hljóðverið sitt auk þess að sjá um undirleik. Platan er nokkurs konar uppgjör Grant við erfiða ævi sína og yfirlýsing um hver hann er. Hann er samkynhneigður, alin upp í strangtrúuðu samfélagi í miðvesturríkjum Bandaríkjanna og fékk snemma að vita að samkynhneigð væri ekki vel séð. Hann varð fyrir alvarlegu einelti, leiddist út í mikla eiturlyfjanotkun og hefur barist við sjálfshatur, þunglyndi og sjálfsvígshugsanir. Ekki beinlínis neinn gleðigjafi. En platan er mögnuð svo ekki sé meira sagt. Hljómurinn er svolítið gamaldags og sækir í tónlist áttunda áratugarins.

Textar plötunnar eru áhugaverð blanda af trega, heiðarleika og húmor. Baritón-rödd Grant nýtur sín vel en söngurinn er tekinn upp á tvær rásir og nær þannig sérstökum hljómi, minnir svolítið á Rufus Wainright. Lagið “I wanna go to Marz” hefur náð nokkrum vinsældum en þar syngur Grant um sælgætisbúð sem hann sótti í æsku og er nokkur konar athvarf þar sem hann hverfur aftur í einfaldari og saklausan heim. Textinn vekur strax athygli manns en hann samanstendur af nöfnum á ísréttum og sælgæti sem fengust í búðinni.

John Grant – I wanna go to Marz

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Meðal annarra hápunkta má nefna “Sigourney Weaver” sem lýsir því hvernig Grant leið þegar hann kom í nýjan skóla, algjörlega utangátta. Stórkostlega sniðugur texti. “Jesus hates faggots” lýsir því hvernig hann upplifði æskuna en það fær væntanlega ekki mikla útvarpspilun í Ameríku enda notar hann þar orð sem fá ameríska vini mína til að hrópa upp yfir sig og grípa fyrir eyrum.

John Grant – Sigourney Weaver (Strongroom Session)

Platan öll er raunar afar sterk og tilfinningaþrungin og ég get ekki mælt nóg með henni. Ef ég hefði haft eirð í mér til að gera árslista hefði Queen of Denmark auðveldlega komist á topp 5.

John Grant – Where dreams go to die (Strongroom Session)

Rafmagnslaust á Norðurpólnum!

Rjóminn hefur hlerað að verið sé að hleypa af stokkunum nýrri tónleikaröð í byrjun mars á Norðurpólnum sem hingað til hefur helst verið þekktur sem sviðlistamiðstöð. Hugmyndin er að stefna saman tveimur ólíkum hljómsveitum á einu kvöldi og nota eins lítið rafmagn og kostur er við flutninginn. Böndin koma fram í sitthvoru lagi og auk þess er ætlunin að þau vinni saman í einhverri mynd, t.d. í formi myndbands, lags, gjörnings eða jafnvel myndlistar. Tónleikarnir verða fyrsta fimmtudag hvers mánaðar fram á haustið og verða þeir fyrstu haldnir 3. mars.

Á meðal hljómsveita sem hafa staðfest þátttöku sína eru Orphic Oxtra, Valdimar, Of Monsters and Men, Mugison og Stórsveit Reykjavíkur með Samúel J. Samúelsson í broddi fylkingar.

Rjóminn heldur áfram að hlera og mun flytja frekari fregnir af þessum spennandi viðburði!

Mugison – Haglél

Orphic Oxtra – Ekki núna

Valdimar – Næturrölt

Of Monsters and Men – Little talks

Treefight for Sunlight

Frá Danmörku kemur Treefight for Sunlight flokkurinn sem samanstendur af fjórum æskufélögum. Þeir spila sækadelískt sólarpopp sem er afar upplífgandi þegar við Frónarbúar búum við myrkur, frost og él. Smáskífa þeirra “What Became of You and I” greip mig strax við fyrstu hlustun og ég hlakka verulega til að hlusta á breiðskífu þeirra sem kemur út 14. febrúar á vegum Bella Union. Kaupmannahöfn með viðkomu í Kaliforníu.

Treefight for Sunlight – What Became of You and I

Þessir herramenn hafa verið að spila mikið að undanförnu og hituðu m.a. upp fyrir The Walkmen á túr þeirra um England. Þeir munu spila á by:Larm í Noregi síðar í mánuðinum en þar koma koma fram fyrir Íslands hönd Ólöf Arnalds, Hjálmar, Retro Stefson, Mammút, Pascal Pinon og Who Knew.

Treefight for Sunlight – Facing the Sun

Látum fylgja með upptöku frá tónleikum þar sem þeir máta skóna hennar Kate Bush en þeir virðast bara smellpassa!

Treefight for Sunlight – Wuthering Heights

Sonic Iceland

Þeir Marcel Kruger og Kai Muller eyddu júnímánuði hér á landi síðasta sumar til að viða að sér efni tengdu íslenskri tónlist. Til stendur að gefa út bók um ævintýrið en fyrst um sinn birtast kaflar og ljósmyndir á heimasíðu sem þeir settu upp í tengslum við verkefnið sem kallast Sonic-Iceland.

Umfjöllunin er portrett af Íslandi og íslenskri samtímatónlist og er skemmtilegur bræðingur af ferðasögu og tónlistartíðindum. Þeir félagar fóru alla leið í verkefninu og t.a.m. segjast þeir hafa tekið viðtöl við 26 hljómsveitir og listamenn, tekið yfir 5000 ljósmyndir, séð um 60 tónleika og innbyrt um 100 lítra af Víking.

Þegar þetta er ritað hafa 4 kaflar þegar birst en mun fleiri eru á leiðinni. Vert er að benda sérstaklega á ljósmyndirnar sem birtast á síðunni og fyrir græjuperverta er nauðsynlegt að taka fram að flestar eru teknar á stafræna Leica M9.

Einleikur Alex Ebert – Alexander

Edward Sharpe and the Magnetic Zeros áttu einn vinsælasta og líklega mest upplífgandi smell síðasta árs, “Home”. Maðurinn á bakvið bandið heitir reyndar alls ekkert Edward Sharpe heldur Alexander Michael Tahquitz Ebert. Þann 1.mars kemur sólóskífa frá honum sem kallast einfaldlega Alexander. Ebert kemur iðulega fram berfættur, hvítklæddur eða ber að ofan og með þetta útlit hafa margir velt því fyrir sér hvort hann sé með einhverskonar Messíasar komplex.

Hvað sem því líður þá er Alex kominn nokkuð langt frá rapparanum sem hann ætlaði sér að verða þegar hann var yngri og á fyrstu smáskífu plötunnar, “Truth”, má heyra greinilega áhrif frá Ennio Morricone. En það er samt hip-hop undirtónn og hann fer sennilega ekki mikið nær rappinu en þetta. Stórkostlegt lag.

Alexander Ebert – Truth

Plötuna vann Alex heima hjá sér, algjörlega einn og hann spilar á öll hljóðfærin, blístrar, slær sér á lær, klappar og bregður fyrir sig ýmsum búkhljóðum. Hljóðin sem hann framkallar segir hann vera innblásin frá uppáhalds lögum hans eins og “In the Summertime” með Mungo Jerry, sem hann blístrar víst og syngur allar stundir, svo og Disney lagið “Zip a Dee Doo Dah!”.

Platan er bara býsna góð þó það sé kannski fátt sem komi þar sérlega á óvart – það er hvort sem er löngu búið að finna upp hjólið. Ballaðan “Glimpses” er sérlega falleg en þar grípur Alex til fiðlunnar sem hann hafði raunar aldrei spilað á áður. “In the Twilight” skartar áberandi, einfaldri bassalínu og er skemmtilega hressilegt þar sem hann syngur sjálfur bakraddir í falsettu. Alex Ebert var að henda öðru lagi á netið en það kallast “A Million Years” og er eitt af betri lögum plötunnar að mínu mati.

Alex Ebert – A million years

Það er ekki svo úr vegi að láta fylgja með myndband sem var tekið upp í Tiny Desk seríu NPR þar sem þetta fjölmenna band, Edward Sharpe and the Magnetic Zeros, tróð sér inn á skrifstofu NPR og flutti sína helstu smelli. Von er á nýju efni frá þeim síðar á árinu.

Viðtal við Mugison: Með tvær plötur í vinnslu

Það hafði frést að Mugison stefndi á útgáfu með hækkandi sól og reyndar kom í ljós að plöturnar eru tvær sem hann vinnur að. Rjóminn hafði samband og átti gott spjall við kappann með hjálp alnetsins þar sem hann sagði okkur m.a. frá plötunum, hinu heimasmíðaða mirstument og tónlistarhátíðinni Aldrei fór ég suður.

Hvernig gengur vinna við nýja plötu? Eru lagasmíðar langt komnar?
Já, nokkuð langt komnar. Ég myndi segja að það væri ekki langt í land, þetta er bara spurning um tíma og vinnslu. Ég vona að platan komi snemma í sumar eða um mitt sumar. Ég stefni á að gefa eitt lag á netinu á næstu vikum.

Hvaða hátt hefur þú á vinnutímanum við lagasmíðarnar?
Ég reyni að vinna frá 8-4 og stundum þegar strákarnir eru sofnaðir. En maður vinnur aldrei alveg í 8 tíma. Ég er líka með útgáfuna og einhverra hluta vegna vinnur maður eiginlega aldrei meira en í 4 tíma og svo fer restin af deginum í að hlusta á músík, spila og spjalla við vini og helvítis fésið tekur oft einhvern óþarfa hálftíma. Þannig að þessir 8 tímar fara ekki í að búa til tónlist þó þeir ættu að gera það. Oft finnst mér betra að semja texta á kvöldin eða nóttunni hvernig sem á því stendur.

Hverjir koma til með að spila undir með þér á plötunni?
Ég veit það ekki. Eins og er er þetta bara kassagítarsplata sem ég vinn hérna heima en mig langar samt að henda í session og hluti af plötunni verði einhvers konar band. Það fer bara eftir því hverjir verða lausir þegar ég kýli á session en ég vona að það verði bara vinir og vandamenn. Sjáum til…

Mugiboogie var samsuða alls konar stíla, verður ný plata í ætt við hana?
Þessi íslenska plata er soldið svona blúsuð þjóðlög. Ónýtir gítarar og ég vona hún verði nú eitthvað öðruvísi. Ég stefni bara á góða plötu. Svo er ég náttúrulega að vinna í enskri plötu með mirstrumentinu mínu sem við Palli Einars bjuggum til. En ég veit ekki hvenær hún verður tilbúin, Palli er búinn að vera með mirstrumentið í viðgerð í mánuð. Það tekur tíma að læra á þetta kvikindi en ég var kominn ágætlega á leið áður en það fór í viðgerð. En hún verður meiri geðveiki vona ég. Annars veit maður aldrei, þetta bara gerist allt saman.

Mugison – Murr Murr

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Það hefur einmitt verið mikið rætt og ritað um þetta nýja hljóðfæri þitt “mirstrument”. Getur þú sagt okkur aðeins meira frá því?
Það er gamall draumur hjá mér að vera með eitt kit. Þeir sem eru duglegir að brasa á sínu eigin heimili, eiga sumarbústað eða eru áhugamenn um bíla eða hjól þekkja að þegar maður er með verkfærin sín útum allt þá fer svo mikill tími í að finna verkfærin, stilla þeim upp og allt það. Ég held að fólk þekki þessa löngun að hafa bara eitt megakit. Þaðan er hugmyndin komin því í gamla daga var ég með endalaust mikið af drasli með mér alltaf þegar ég var tölvutrúbador. Mig hefur lengi langað að fara þangað aftur og þetta er gömul pæling hjá mér og Palla Einars sem gerði þetta með mér. Við fundum svona hljómborðssetup frá framleiðanda sem heitir C-Thru Music og þetta byggir á einhverju sem heitir The Natural Harmonic Table en það sem þetta er í raun er bara alls konar drasl sem við tókum í sundur og settum í nýjan líkama. Svo fer hellings tími í að stilla þessu upp og græja hugbúnaðinn. Við notum mikið Reaktor sem er hugbúnaður frá Native Instruments og er skemmtilega opinn og ótrúlega öflugur. Það er samt komin lítil reynsla á að spila með þetta live þannig séð en það er gaman að leika sér á þetta. Ég var mjög duglegur að æfa mig síðasta sumar en ég þarf að finna meiri tíma, einhverja klukkutíma á dag, til að ná upp færni. En svo er líka hluti af þessu hljóðfæri svona ljósarigg sem er tengt við græjuna svo ég get staðið undir ljósunum, með gítarinn og móðurstöðina á gólfinu sem við erum að klára að smíða, en allt tekur þetta tíma. Þegar hugmyndin kviknaði þá fannst manni þetta geta gerst á tveimur dögum en svo eru bara bráðum tvö ár.

Ertu þá að stefna á að túra með minni mannskap með tilkomu mirstrument?
Ekkert endilega. Ég gaf út Mugiboogie sem er svona hljómsveitaplata með strákunum og þá var alveg nauðsynlegt að vera með bandið, líka af því að það var svo gaman að spila í hljómsveit. En núna langar mig líka að hafa þann valmöguleika að geta farið einn og þá ekki bara með kassagítar heldur með draslið með mér þannig að ég er kannski aftur að opna á þennan möguleika að vera einn, með þessa galdragræju. En alls ekki að loka á bandið. Það er bara soldið dýrt að túra með band. Fleiri flugmiðar, fleiri hótelherbergi, stærri bílar, leigja trommusett og magnara og þetta. Ég prófaði fyrir um ári að fara smá túr um Evrópu með mirstrumentið og ég gat gert það bara í lest og það munar um það. Hugmyndin er þá að geta farið með mirstrumentið og geta tekið þau gigg og svo þar sem að fólk er til í að borga betur að taka þá strákana með… skella í gott partý.

Mugison – I Want You

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Plötuumslögin þín hafa verið asni skemmtileg. Eru komnar hugmyndir að plötuumslagi?
Já, ég reyni að safna eins mikið af hugmyndum og ég get. Ég tek þær mikið upp á símann og krota niður. Ég er með fullt af hugmyndum og á síðustu stundu fer maður í dótakassann og bræðir saman nokkrar hugmyndir. Ég er samt ekki búinn að negla hvað ég ætla að gera. Ég er reyndar að gefa út fjögurra diska settið, Lonely Mountain, Monkey Music, Mugiboogie og Ítrekun saman í plastsetti, kannski helst hugsað fyrir túrista. Ég þarf að koma mér í að föndra, þeir eru að verða búnir hjá mér gömlu diskarnir. En vonandi get ég boðið uppá þetta í sumar.

En hvernig gengur undirbúningur á Aldrei fór ég suður?
Nokkuð vel. Við erum búnir að hittast nokkrum sinnum strákarnir og erum á leið í bæinn að finna hugsanlega styrktaraðila. Við vorum tæpir með að halda þetta í ár. Það var komin þreyta í mannskapinn, það er margt búið að breytast, þetta er að verða áttunda hátíðin og flestir komnir með börn sem áttu ekki börn fyrir og þetta náttúrulega heltekur okkur þennan tíma sem þetta stendur yfir og menn gera ekki mikið annað amk 10 daga í kringum þetta og svo er hellings undirbúningur fyrir það. Í gegnum tíðina hafa nokkrir dottið út og þetta var orðið spurning um hvort við þessir fáu sem voru eftir og fara alla leið ættum að nenna þessu. En svo erum við einhvern veginn búnir að gíra okkur í einhvern geggjaðan fílílng og leituðum til Ísafjarðarbæjar með að fá aðstoð frá þeim og virkja fólk til að hjálpa okkur, stækka hópinn. Ég held að við stækkum ekki mikið hátíðina uppúr þessu, hún er orðin ansi stór og flest allt gistirými undanfarin ár hefur verið uppbókað. Persónulega langar mig að þetta verði meira stuð, meiri gleði. Ekki það að þetta hafi ekki verið stöðug gleði… það er bara alltaf hægt að hafa meira gaman!

Rjóminn bíður með óþreyju eftir nýja efninu en lætur sér nægja í bili að kíkja á lagið “Stingum af” en það var frumflutt síðasta sumar á tónlistarhátíð á Laugarhóli á Ströndum. Mugison tók þetta myndband upp í heimastúdíóinu sínu í Súðavík og skellti inn á heimasíðu sína www.mugison.com. Ef vel er að gáð má sjá glitta í hið göldrótta mirstrument. Svo má auðvitað finna Mugison á Facebook og þar er líka Aldrei fór ég suður.

Mugison – Stingum af

Danger Mouse & Daniele Luppi kynna Rome

Brian Joseph Burton, betur þekktur sem Danger Mouse, er sjóðandi heitur þessa dagana. Hann er kannski þekktastur fyrir að vera annar helmingur Gnarls Barkley og fyrir upptökustjórn með listamönnum á borð við Gorillaz og Beck. Nú síðast myndaði hann tvíeykið Broken Bells með James Mercer úr The Shins og þá er hann að snúa tökkum fyrir strákabandið U2.

En síðan árið 2005 hefur hann, ásamt félaga sínum Daniele Luppi, unnið að þemaplötu. Platan mun bera titilinn Rome og kemur út í mars. Þeir félagar deila ást á ítölskum bíómyndum, sér í lagi spaghetti vestrum Sergio Leone þar sem tónlist Ennio Morricone spilar stóra rullu og er platan undir miklum áhrifum frá þeim. Upptökurnar eru analog og fóru fram í Róm í hljóðveri sem Morricone setti á fót og voru m.a. fengnir hljóðfæraleikarar sem störfuðu með Morricone á sínum tíma og eru margir hverjir á áttræðisaldri.

Norah Jones og Jack White ljá svo rödd sína þremur lögum hvort svo það er óhætt að segja að uppskriftin að þessari 15 laga plötu sé verulega spennandi. Kremið á kökuna er svo Chris Milk sem hannar sjónræna hluta plötunnar en hann gerði The Wilderness Downtown verkefnið við lag Arcade Fire, “We Used to Wait”.

Bútar úr nokkrum lögum hafa birst á netinu og það væri hreint glapræði að hlusta ekki.

Öll svörin: Óli Palli

Ólafur Páll Gunnarsson, keisari Rokklands á Rás 2, fjallabróðir og söngvari blússveitarinnar Magnús, hristi öll svörin fram úr erminni. Sjáum hvað hann segir.

Besta lag í heimi er… “Rockin in the freeworld” með Neil Young.

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Besta plata í heimi er… Joshue Tree með U2.

Af hverju eru ekki allir að hlusta á… Ólöfu Arnalds.

Öll börn ættu að sofna við að hlusta á… Neil Young.

Allir ættu að hlusta að minnsta kosti einu sinni á… Bat out of hell með Meatloaf.

Bestu tónleikar sem ég hef séð voru… Led Zeppelin í London 2007.

Þeir tónleikar sem ég sá ekki en vildi hafa séð… Led Zeppelin í Laugardalshöll.

Platan sem mótaði unglingsárin mín er… Geislavirkir með Utangarðsmönnum.

Þegar ég geng í kringum Tjörnina á elliárunum vil ég hlusta á… endurnar og þyt í laufi.

Ég er það sem ég er vegna þess að ég hlustaði á… Utangarðsmenn, Clash og Sex Pistols.

Ég vildi að ég hefði samið… “Tvær stjörnur”.

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Sá texti sem hrærir mest í hjarta mínu er… “Beautiful boy” eftir John Lennon.

Besta bömmerlag í heimi er… “Love will tear us apart” með Joy Division.

Í eigin hugarheimi gangandi um öngstræti lífsins hlusta ég helst á… Richard Hawley.

Þegar ryksugutónarnir óma finnst mér að undir eigi að hljóma… U2.

Ég var ástfangnastur unglingur þegar ég hlustaði á… Bob Marley.

Í sturtunni er best að syngja… Dean Martin.

Ég myndi helst vilja spila í bandi með (lífs eða liðnir)… Crazy Horse.

Vanmetnasta hljómsveit í heimi er… U2.

Ofmetnasta hljómsveit í heimi er… Radiohead.

Þú ættir að hlusta á… allt ofantalið!