Hljómsveitin 23/8 og Björkologi

Jazzbandið 23/8 mun ferðast um landið nú í lok mánaðar og spila prógram sem þau kalla Björkologi en það samanstendur af vel völdum lögum úr safni Bjarkar og útsett á jazzvísu. Bandið skipa tvær íslenskar stelpur og tveir útlenskir strákar, öll búsett í Stokkhólmi.

Ljóst er að allir alvöru jazzgeggjarar og aðdáendur Bjarkar hreinlega verða að láta sjá sig ef eitthvað er að marka meðfylgjandi tóndæmi:

Tónleikar 23/8 verða haldnir á eftirfarandi stöðum:

23. júlí kl.21:00 Bryggjan, Grindavík, ókeypis
24. júlí kl.20:00 Norræna Húsið, Reykjavík, 2000 kr.
25. júlí kl.20:00 Norræna Húsið, Reykjavík, 2000 kr.
26. júlí kl.20:00 Stykkishólmskirkja, ókeypis
28. júlí kl.21:00 Græni Hatturinn, Akureyri, 2000 kr.
29. júlí kl.22:00 Gamli Bærinn, Mývatni, ókeypis

Ný ábreiða frá Skurk – Gaggó Vest

Skurk

Akureyska hljómsveitin Skurk ákvað að fagna 70 ára afmæli Gunnars Þórðarsonar og 30 ára stórafmæli lagsins “Gaggó Vest” með því að taka það upp og deila með þeim sem vilja hlusta. Með Skurk eru söngvararnir Magni Ásgeirsson, Valur Hvanndal og sérstakur gestur er Björgvin (Böbbi) Sigurðsson. Haukur Pálmason tók upp og hljóðblandaði ásamt Herði Halldórssyni gítarleikara Skurk sem sá um upptökustjórn.

Sigga Eyrún – Lalíf

Eftir öll þessi ár hlaut að koma að því að einhver færði hið stórgóða lag Kjartans Ólafssonar, sem hann flutti með Smartbandinu á níunda áratugnum, í nýjan búning. Hér flytur tónlistarkonan Sigga Eyrún það í nýrri stórgóðri útsetningu. Lagið er af væntanlegri breiðskífu hennar Vaki eða sef.

Karl Olgeirsson leikur á öll hljóðfærin í laginu fyrir utan trommur sem voru í umsjá Sigtryggs Baldurssonar.

Ásgeir gefur út 7″ í tilefni Plötubúðadagsins

Ásgeir Record Store Day 7"

Plötubúðadeginum (Record Store Day) verður víða fagnað næst komandi laugardag, 19. apríl. Tónlistarmaðurinn Ásgeir ætlar ekki að láta sitt eftir liggja og gefur út 7″ myndavínyl með laginu “Here it Comes”, enska útgáfu af laginu “Nú hann blæs” sem frumflutt var í þættinum Stúdíó A á RÚV. Lagið er eftir Ásgeir Trausta en textann á Örvar Þóreyjarson Smárason, betur þekktur sem Örvar í múm. Ábreiða Ásgeirs af laginu “Heart-Shaped Box” með Nirvana skipar svo B-hliðina. Ásgeir tók sinn snúning á laginu fyrst í útvarpsþætti Dermot O’Leary á BBC Radio 2. Útgáfan vakti strax mikla lukku og var Ásgeir síðar beðinn um að gefa það út. Lagið var tekið upp í Hljóðrita en nýlegt stúdíómyndband við lagið má sjá hér að neðan.

Ljósmyndina sem prýðir vínylinn tók Jónatan Grétarsson en Snorri Eldjárn Snorrason hannaði útlit. Upptökum stjórnaði Guðmundur Kristinn Jónsson.

Vínyllinn kemur út í takmörkuðu upplagi og er fáanlegur í þeim plötubúðum sem taka þátt í Plötubúðadeginum. Verslanirnar er að finna á heimasíðu Record Store Day.

Moses Hightower gefur út remix plötu

Moses Hightower - Önnur Mósebók

Hljómsveitin Moses Hightower stendur fyrir hópfjármögnunarverkefni á karolinafund.com þessa dagana, en hún stefnir að plötuútgáfu í lok ágúst náist sett markmið í verkefninu.

Um er að ræða útgáfu á vínylplötu ásamt meðfylgjandi geisladiski, sem innihalda endurhljóðblandanir (remix) á lögum af síðustu plötu sveitarinnar, Annarri Mósebók. Sú kom út síðasta sumar og hlaut afar góðar undirtektir, frábæra dóma, Menningarverðlaun DV og Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir laga- og textasmíðar.

Meðal þeirra sem hafa tekið Aðra Mósebók til kostanna og gert eigin útgáfur af lögum af henni sem fara á plötuna eru Borko, Sin Fang, Nuke Dukem, Halli Civelek, illi vill, Kippi Kaninus, Samúel Jón Samúelsson, Pedro Pilatus, Hermigervill og hiphop-flokkurinn Forgotten Lores.

Á síðu verkefnisins inni á karolinafund.com er hægt að festa sér eintök af hinni óútgefnu plötu, fyrri plötur sveitarinnar á pakkatilboðum og annað góðmeti, gegn áheitum til verkefnisins sem aðeins verða innheimt ef öll upphæðin, €2500, næst í hús.

Hljómsveitin Líparít klæðir Sísí í nýjan búning

Hljómsveitin Líparít tók sig til nýverið og klæddi hinn gamla smell Grílanna um Súsúkískvísuna Sísí í seðjandi reggí-útgáfu. Lag og texti er eins og flestir vita eftir Ragnhildi Gísladóttur en um upptöku sá Páll Orri Pétursson.

Meðlimaskipan Líparít er þessi:

  • Söngur: Unnur Sara Eldjárn, Silja Rós Ragnarsdóttir
  • Gítar: Sindri Bergsson, Grétar Örn Axelsson
  • Bassi: Baldur Kristjánsson
  • Píanó: Jón Birgir Eiríksson
  • Trommur: Fróði Ploder

Sin Fang tekur Moody Blues

Sindri Már Sigfússon sendi nýverið frá sér, undir merkjum Sin Fang, þekju af laginu “Nights in white satin” sem The Moody Blues gerðu vinsælt upphaflega árið 1967.

Sin Fang – Nights in White Satin

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Euro Hákon

Eurovisjón unnandinn Stafrænn Hákon gaf í gær út stuttskífu þar sem hann fer mjúkum höndum um þrjú uppáhalds Evróvisjón-lögin sín. Þeirra á meðal er hinn yndislegi friðaróður “Ein Bisschen Frieden” sem hin 17 ára Nicole sigraði keppnina með árið 1982 og hið magnaða lag “Fly on the wings of love” sem Olsen Bræður brennimerktu í vitund okkar um síðustu aldamót.

Belle and Sebastian þekja Primitives

Í mars er væntanleg ný plata í LateNightTales útgáfuröðinni, sem eru safndiskar sérlega settir saman af ákveðnum hljómsveitum. Belle and Sebastian sjá nú í annað skiptið um valið, en meðal annarra sem komið hafa að útgáfuröðinni eru Air, MGMT og Flaming Lips.

Þema útgáfuraðarinnar er einfaldlega að gera safnplötur sem henta síðla um kvöld – og er hljómsveitunum því gefinn nokkur veginn lausur tauminn í lagavali. Yfirleitt láta þær svo fylgja eins og eitt áður óútgefið lag til að laða enn frekar að aðdáendur. Fyrir nýjustu LateNightTales þakti Belle and Sebastian því lag “Crash” sem breska jaðarpoppsveitin The Primitives gaf út árið 1988.

Úr herbúðum Belle and Sebastian er það þó helst að frétta að fyrirliðinn Stuart Murdoch er á fullu að undirbúa söngva- og dansamynd byggða á God Help The Girl plötunni. Ef nægir peningar safnast mun kvikmyndin vera tekin upp í sumar og jafnvel frumsýnd strax næsta vetur.

Gamlar hugmyndir og nýjir vinir

Leonard Cohen er líklega ódauðlegur. Hann virðist að minnsta kosti skrimta fram í það óendanlega og því til sönnunar sendi hann frá sér nýja plötu nú á dögunum. Skífan heitir Old Ideas og er tólfta hljóðversplata Cohens á 45 ára ferli. Í tilefni útgáfunnar hefur Columbia útgáfufyrirtækið fengið nokkra yngri listamenn til að þekja lög kallsins og  nefnist uppátæki Old Ideas With New Friends. Meðal þeirra sem taka þátt eru Cults, Cold War Kids, Mountain Goats og Deerhunter/Atlas Sound forsprakkinn Bradford Cox, en búast má við að fleiri þekjur bætist við á síðuna á næstu vikum.

 

Tónlistartímaritið MOJO er líka með puttann á púlsinum og safnaði saman ýmsum fínum Cohen þekjum fyrir nýjasta tölublaðið sitt. Búta má finna á Soundcloud:

Hermigervill leikur fleiri íslenzk lög

Tónlistarmaðurinn Hermigervill mun gefa út geisladiskinn Hermigervill leikur fleiri íslenzk lög mánudaginn 12. september. Þar er að finna 10 íslenskar dægurlagaperlur í nýjum búningi, þar á meðal hið sívinsæla “Gvendur á eyrinni”, hið hugljúfa “Ég veit þú kemur” og hið hressilega “Partýbær”. Platan hefur nú þegar verið gerð fáanleg á tónlistarvefnum www.tonlist.is í sérstakri forútgáfu, viku fyrir formlegan útgáfudag. Til gaman hefur tónlist.is tekið saman spilunarlista með upprunalegum útgáfum laganna og geta tónlistarunnendur skemmt sér við það bera saman nýjar útgáfur við þær gömlu.

Hermigervill mun fylgja plötunni eftir með tónleikahaldi í október og kemur meðal annars fram á Airwaves tónlistarhátíðinni.

Hermigervill leikur fleiri íslenzk lög

Kiriyama Family þekja Daft Punk cover

Hljómsveitin Kiriyama Family hefur setið sveitt við upptökur á sinni fyrstu breiðskífu undarfarnar vikur, en drengirnir ákváðu þó að taka stutta pásu og henda í eitt tökulag. Lagið heitir “Something About Us” og er af plötunni Discovery með franska dúettnum Daft Punk. Myndbandið fangar sveitina í æfingaplássi sínu með hjálp heimatilbúins snúningsapparats sem var sérstaklega smíðað fyrir þetta tilefni.

Hermigervill leikur fleiri íslenzk lög

Hermigervill fylgir nú eftir hinni geysivinsælu plötu Hermigervill leikur vinsæl íslenzk lög með hinni splúnkunýju Hermigervill leikur fleiri íslenzk lög. Platan mun koma út í byrjun september og inniheldur tíu perlur sem eru öllum landsmönnum vel kunn, þar á meðal hið sívinsæla “Gvendur á eyrinni”, hið hugljúfa “Ég veit þú kemur” og hið lauflétta “Nú liggur vel á mér”. Útgefandi er HG hljómplötur í góðu samstarfi við Kimi Records. Eru öll lögin klædd í hinn klassíska raf-búning Hermigervils, sem leikur sér með efnið á nýtízkulegan hátt, með hljóðgervlum, þeremínum og öðrum undratólum, en að sama skapi er ætíð þráður tilvitnanna til hljóðheims fortíðarinnar

Sunnudagskvöldið 28. ágúst mun Hermigervill halda upp á væntanlega útkomu plötunnar á Bakkus Bar. Um upphitun sér Geir Helgi Birgisson. Einnig verður frumsýnt myndband við lagið “Gvendur á Eyrinni” eftir Arnljót Sigurðsson. Dagskrá hefst kl. 21.

Hermigervill – Leikur Fleiri Íslenzk Lög

Græna plata Prúðuleikaranna

Næstkomandi þriðjudag er væntanleg safnplatan Muppets : The Green Album þar sem listamenn á borð við OK Go, The Fray, Weezer, My Morning Jacket og The Airborne Toxic Event spreyta sig á lögum tengdum Kermit og félaga í Prúðuleikurunum. Verður þetta að teljast afar forvitnilegt framtak og þá einna helst fyrir þá tónlistarunnendur sem eru á þeim aldri að hafa alist upp með þessum viðkunnanlegu sköpunarverkum Jim Henson sáluga.

Meðfylgjandi er lag Andrew Bird af plötunni sem nefnist “It’s not easy being green”.

Stereogum heldur upp á 10 ára afmæli “Is This It”

Tónlistarsíðan ágæta, Stereogum, fékk til liðs við sig nokkra vel valda listamenn til að fagna 10 ára útgáfuafmæli Is This It, frumburðs New York sveitarinnar The Strokes. Úr varð þessi líka fína tribjút plata þar sem m.a. Peter, Björn and John, Real Estate, Austra (sem koma mun fram á næstu Airwaves hátíð), The Morning Benders og Owen Pallet (sem einnig mun koma fram á Airwaves) færa lögin af Is This It í nýjan og spennandi búning.

Þessi óður til The Strokes kallast Stroked – A Tribute To Is This It og má heyra plötuna og hala niður í heild sinni á vef Stereogum.

Hér að neðan eru svo tvær útgáfur af “Hard to Explain”, önnur með Owen Pallet og hin, eins og hún kom af kúnni, með The Strokes.

Owen Pallet – Hard To Explain (Strokes cover)

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

The Strokes – Hard To Explain

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Smashing Pumpkins heiðruð

Lítið er lát á heiðurstónleikum merkra sveita fyrri tíma hér á landi en nú ætla nokkrir íslenskir tónlistarmenn að hópa sig saman og heiðra rokksveitina Smashing Pumpkins á Sódóma Reykjavík þann 18.júní. Sveitin er skipuð þeim Franz Gunnarssyni (Ensími/Dr.Spock o.fl.), Bjarna Þór Jenssyni (Cliff Clavin), Þórhalli Stefánssyni (Light on The Highway), Helga Rúnari Gunnarssyni (Benny Crespo´s Gang), Jón Svani Sveinssyni (Hoffmann) og Roland Hartwell & vinum úr Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hyggst sveitin renna í slagara af plötum Smashing Pumpkins á borð við Gish, Zeitgeist, Mellon Collie & The Infinite Sadness og hinni goðsagnakenndu Siamese Dream. Miðaverði er verulega stillt í hóf en aðeins kostar 1000 krónur inn og hefjast dyrnar upp á slaginu 23.00. Aldurstakmark er 18 ár.

Kallakór Kaffibarsins flytur Bonnie Tyler

Bartónar Kallakór Kaffibarsins hefur um nokkra mánaða skeið setið við æfingar á Bonnie Tyler slagaranum Total Eclypse of The Heart og hyggur á frumflutning á Kaffibarnum á morgun (laugardaginn 4.júní). Tilefnið mun vera hin árlega humarveisla Kaffibarsins, SumarHumar en ásamt kórnum munu plötusnúðarnir Andrés Níelsen og Árni Sveinsson leika listir sínar fyrir humarelskandi gesti fram á rauða nótt.

Aðgangur er ókeypis og hefjast hátíðahöldin klukkan 18.00.