Fjáröflunartónleikar Angistar

Hljómsveitin Angist hefur undanfarið verið að taka upp sína fyrstu útgáfu, EP sem inniheldur fimm lög og eru þau öll ný, þ.e.a.s hafa ekki verið tekin upp áður. Verið að leggja lokahönd á plötuna og ætlar sveitin því að halda fjáröflunartónleika til þess að koma gripnum út.

Föstudaginn 1. júlí verður því haldin heljarinnar veisla á Sódómu. Angist til halds og trausts verða hljómveitirnar Chao, Bloodfeud, Bastard og Abominor. Litlar 1000 kr. kostar inn og opnar húsið kl. 22:00 en fyrsta band fer á svið klukkan 22:30 stundvíslega.

Ophidian I gera samning við SFC Record

Dauðarokks hljómsveitin Ophidian I skrifaði nýverið undir plötusamning við SFC Records (Soul Flesh Collector). verður það að teljast afar góður árangur miðað við að sveitin hefur aðeins spilað á tvennum tónleikum og voru þeir báðir haldnir hérlendis.

SFC Records hefur gefið út bönd eins og Sickening Horror, Katalepsy, Cephalic Impurity ofl. Von er á plötunni í byrjun árs 2012, og verður plötuumslagið gert af Marco Hasmann en hann þykir með bestu myndlistarmönnum innan dauðarokks senunar.

Ophidian I inniheldur m.a. meðlimi úr tveim stærstu dauðarokks hljómveitum íslands, þeim Severed Crotch og Beneath.

Ophidian I – The Discontinuity Of a Fundamental Element

Sólstafir landa stórum samningi

Hljómsveitin Sólstafir skrifaði nýverið undir veigamikinn samning við franska/ameríska útgáfufyrirtækið Season of Mist. Upptökur og hljóðblöndun nýrrar plötu eru langt komnar og ný tvöföld geislaplata væntanleg í haust.

Season of Mist er ungt og ört stækkandi fyrirtæki sem hefur nokkra af risunum í þungarokksheiminum á sínum snærum. Þar ber helst að nefna hljómsveitirnar Morbid Angel, Mayhem, Jarboe, Watain, Atheist, The Dillenger Escape Plan og Cynic.

„Við vorum í samningaviðræðum við þrú stór fyrirtæki, en fleiri sýndu einnig áhuga“ útskýrir Sæþór Maríus Sæþórsson, gítarleikari Sólstafa. „Hin tvö fyrirtækin eru reyndar stærri en Seasons, en annað þeirra er hálfgerð risaeðla á meðan Seasons of Mist hefur verið á stöðugri uppleið síðustu ár. Þeir samþykktu einnig flesta okkar skilmála og voru virkilega reiðubúnir til að koma til móts við okkur. Til að mynda lofa þeir okkur „priority release“ sem þýðir í raun að okkar útgáfa verður aðal útgáfa þeirra á því tímabili sem platan kemur út.“

Sólstafir hafa verið við upptökur á nýrri plötu síðastliðinn mánuð og er von á tvöfaldri geilsaplötu frá þeim í haust. „Við höfðum áhyggjur af því að nýja efnið okkar væri of langt fyrir venjulegan geisladisk og þegar á hólminn var komið reyndist það rétt“, segir Sæþór. „Við bjuggumst ekki við því að Seasons tæki það í mál að gefa út tvöfaldan geisladisk, en þegar við bárum þetta undir þá tóku þeir mjög vel í hugmyndina. Þegar þar var komið við sögu gátum við enganveginn beislað sköpunarkraftinn og sömdum því eitt lag til viðbótar í hljóðverinu, en það er nú ekki dæmigert fyrir okkur.“

Season of Mist gefur út nýja tvöfalda geislaplötu með Sólstöfum í haust og í kjölfarið hefst þéttskipuð tónleikadagskrá þar sem hljómsveitin spilar víðast hvar um Evrópu og einnig í Bandaríkjunum.

Sólstafir – Köld

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Skálmöld og Sólstafir á Nasa

Föstudaginn 29. apríl næstkomandi leiða tvær af stærstu þungarokkshljómsveitum landsins saman hesta sína og halda stórtónleika á Nasa við Austurvöll. Skálmöld og Sólstafir eru fyrir margra hluta sakir ólíkar sveitir og hafa ólíkan bakgrunn, en sameinast í kraftmiklu, þjóðlegu þungarokki sem snertir taugar bæði hins almenna Íslendings og hörðustu rokkara.

Báðar hljómsveitirnar hafa nýlega skrifað undir plötusamninga erlendis og er heilmikil spilamennska framundan það sem eftir lifir ári hér heima og utan. Velgengninni þykir því rétt að fagna með þessum stórtónleikum þar sem ekkert verður til sparað.

Miðasala fer fram á www.midi.is og er miðaverð 2.500 krónur.

Reykjavik Music Mess: Fossils (DK)

Danski ofurdúettinn Fossils heimsækir klakann með tromuskinn og bassagítar að vopni. Þungarokkið er keyrt í botn og fuzz-ið er til fyrirmyndar. Hraðinn er góður og stuðið mergjað. Aðdáendur hinnar amerísk/íslensku sveitar DLX/ATX ættu hér að faðma frændur sína í Fossils.

Fossils sendu frá sér plötuna Meat Rush í nóvember síðastliðinn og er hægt að hlusta á plötuna í heild sinni á vefsíðu þeirra en platan inniheldur 9 frumsamin rokklög þar sem bassaleikur og trommuleikur er afbragð.

Fossils frá Danmörku stíga á svið föstudagskvöldið (í kvöld) klukkan 23.30 á Sódóma Reykjavík og hita flösuþeytingar frygðina upp fyrir kvöldið.

Reykjavík Music Mess: Swords of Chaos

Ólátabelgirnir í Swords of Chaos troða upp á Reykjavík Music Mess rétt eftir miðnætti í kvöld á Sódóma.

Piltarnir eru nýkomnir úr tónleikaferð um Bandaríkin sem tókst prýðisvel og var tónleikum sveitarinnar hrósað í hástert. Rjóminn tekur undir það hrós og hlakkar til að sjá þá á Sódóma enda staður sem hentar sveitinni vel hvað varðar hljóð og nánd.

Hljómsveitarmeðlimir hafa komið víða við og spilað með alls kyns hljómsveitum, t.d. Útidúr, Fist Fokkers, Klive, Jónsa og The Heavy Experience. Þeir gáfu út plötuna The End Is As Near As Your Teeth árið 2010 sem féll vel í kramið, hjá þungarokksunnendum sem og þeim sem alla jafna hlusta á tónlist í léttari kantinum.

The End Is As Near As Your Teeth má hlusta á í heild sinni á gogoyoko en ef lesendur vilja finna beinin skjálfa og tennurnar nötra er mælt með að þeir hlusti á tónlistina í botni – þeas á tónleikum Swords of Chaos í kvöld.

Erlendar útgáfur í apríl

Apríl mánuður er rúmlega hálfnaður og státar svo sannarlega af spennandi útgáfum hljómplatna utan landsteina Íslands. Gruggið lifir, hip-hop-ið heillar, gamlir vinir minna á sig og ferskar sveitir reyna frumraun sína í einni erfiðustu samkeppni heims; tónlistarbransanum. Skoðum nokkrar safaríkar plötur sem koma út í apríl.

Atmosphere – The Family Sign
Goðsagnir neðanjarðar hip-hop senunnar í Bandaríkjunum, Atmosphere, gefa út sína sjöundu breiðskífu en sveitin var stofnuð í kringum árið 1990. Rímnaflæði sveitarinnar hefur staðið sjálfstætt allt frá stofnun sveitarinnar og er sveitin ekki einungis þekkt fyrir ljúffengar rímur og mjúka takta, heldur einnig fyrir að standa á eigin fótum og vinna flest allt sjálf. The Family Sign frá Atmosphere er væntanleg í apríl.

Elbow – Build A Rocket Boys!
Eftir 20 ár í bransanum er fimmta breiðskífa Elbow væntanleg í apríl. Platan ber heitið Build A Rocket Boys! og fylgir eftir eðalskífunni The Seldom Seen Kid frá árinu 2008. Velgengni plötunnar færði Elbow inn í hóp virtustu poppsveita Bretlands og verðlaunahafið baðaði sveitina árið 2009. Nú er að sjá hvort sprengja The Seldom Seen Kid sé dauð úr öllum glæðum eða hvort Build A Rocket Boys! standi undir nafni?Foo Fighters – Wasting Light
Dave Grohl og félagar í Foo Fighters gáfu út sína sjöundu breiðskífu þann 12.apríl sl. Hljómsveitinni hefur vaxið ásmegin allt frá árinu 1995 þegar fyrsta plata sveitarinnar, Foo Fighters, leit dagsins ljós. Aðdáendur sveitarinnar fengu ágætis högg í andlitið fyrir stuttu síðan þegar hljómsveitin sleppti frá sér fyrstu smáskífu Wasting Light, White Limo en þar fór sveitin mikinn með Lemmy úr Motörhead í forgrunni og mikil læti og spurningin er hvort gullöld Grohl og félaga sé liðin eða rétt að hefjast.

Low – C´Mon
Íslandsvinirnir í hinni ljúfu Low eiga meira inni en jólalög. Það sannar sveitin án efa með útgáfu sinnar níundu breiðskífu, C´Mon þann 12.apríl sl. Low hefur verið starfandi allt frá árinu 1993 en í dag mynda þau Alan Sparhawk, Mimi Parker og Steve Garrington tríóið mjúka. Hljómsveitin hefur gefið út undir merkjum Seattle-útgáfunnar Sub Pop allt frá árinu 2005 og er engin breyting á að þessu sinni. Sjáum hvað setur.

Meat Puppets – Lollipop
Þrettánda breiðskífa Kirkwood bræðra í Meat Puppets, Lollipop, er væntanleg í apríl. Hljómsveitin var stofnuð árið 1980 og er vel komin til ára sinna. Þó hefur hún verið iðin við útgáfu og aldrei lagt árar í bát. Flestir tengja sveitina við órafmagnaða tónleika hinnar liðnu Nirvana frá árinu 1993 en sjálfstæð stendur sveitin þó huldu höfði hafi hún farið í nær þrjátíu ár. Nú er að sjá hvort Kirkwood bræður ætli að láta minnast sín í nútíð sem og fortíð.

Panda Bear – Tomboy
Undanfarið hefur Rjóminn veitt Panda Bear ágæta athygli. Animal Collective aðdáendur ættu ekki að vera þessu einstaklingsverkefni Noah Benjamin Lennox ókunnir en Lennox er einn stofnenda þeirrar ágætu sveitar. Tomboy mun vera fjórða sólóbreiðskífa Lennox en allt frá árinu 1998 hefur kauði verið iðinn við útgáfu bæði á sínu eigin efni sem og með hljómsveit sinni. Rjóminn hefur beðið með eftirvæntingu eftir þessu verki Lennox og er viss um að lesendur séu á sama máli. Hún er komin. Gó nöts!

TV on The Radio – Nine Types of Light
Tunde Adebimpe og félagar í TV on The Radio hafa sent frá sér sína fimmtu breiðskífu. Sveitin, sem stofnuð var árið 2001 í Brooklyn í New York, hefur vakið athygli fyrir óheflaða tónlistarstefnu og lifandi og skemmtilega sviðsframkomu. Hljómsveitin hefur sömuleiðis gengið í gegnum ýmsar mannabreytingar frá ári til árs en ætíð hefur Adebimpe staðið fastur í sínu og leikur nú við hlið þeirra Kyp Malone, David Sitek, Gerard Smith og Jaleel Bunton.

Converge til landsins

Hjarta harðkjarnaunnenda missti úr slag í dag þegar Facebook logaði af fregnum um að konungar stefnunnar – Converge – væru að fara að spila á Íslandi í sumar.

Þessar fréttir virðast vera réttar, ef marka má heimasíðu sveitarinnar, en þar telja þeir upp nokkra áfangastaði hljómleikaferðalags þeirra 2011 og er Reykjavík einn af áfangastöðunum – nánar tiltekið Faktorý þann 20. júní!

Þetta verða að teljast frábærar fréttir enda hljómsveit sem virðist breyta öllu sem hún snertir í gull. Tónleikar sveitarinnar eru lofaðir í hástert og má í því samhengi nefna tónleika þeirra á Íslandi fyrir nokkrum árum en undirrituð hefur það frá flestum sem fóru að þeir tónleikar hafi mögulega verið þeir einna bestu hér á landi.

Converge sendu frá sér plötuna Axe to Fall árið 2009 og fékk hún frábærar viðtökur. Þeir hafa áður gefið út plötur á borð við You Fail Me og Jane Doe sem nú eru orðnar skyldueign á hvert harðkjarnaheimili.

Rjóminn lætur sig sko ekki vanta á þessa tónleika og mælir með því að þú gerir það ekki heldur!

Antares

Frá Hornafirði kemur með látum melódíska dauðarokkssveitin Antares en þessum þétta kvintett hef verið lýst sem Lamb of God okkar íslendinga. Sveitin hefur enn ekki afrekað að spila með sumum af stærri spámönnum þessa tónlistargeira hérlendis en slíkt mun sannarlega standa til bóta, enda vakti sveitin verðskuldaða athygli fyrir tveimur árum á Músíktilraunum.

Antares hefur þegar gefið út, á eigin vegum, EP plötuna Insomnia en sveitin leitar nú að útgáfufélagi sem aðstoða mun hana við frekari útgáfu og væntanlega landvinninga.

Meðfylgjandi eru tvö lög af áðurnefndri EP plötu.

Antares – Fatal Words

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Antares – Insomnia

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Today is the Day

Hin fornfræga noise-rocksveit Today is the Day kemur fram á tónleikum á Sódóma Reykjavík Laugardaginn 2. Apríl. Frægust er hljómsveitin fyrir plötur sínar Temple of the Morning Star frá 1997 og noise-coremeistaraverkið In the Eyes of God frá 1999, en sú síðarnefnda var samin í samstarfi við Brann Dailor, trommara Mastodon, sem var trommari sveitarinar á þessum tíma en gítarleikar Mastodon, Bill Kelliher, spilaði á bassa á plötuni. Í ljósi þessa var einmitt fyrsta Mastodon platan, Remission, undir miklum áhrifum af In the Eyes of God.

Forsprakki hljómsveitarinar, og eini stofnmeðlimur sem er ennþá í henni, Steve Austin er þekktur upptökustjóri í metalheiminum og hefur m.a tekið upp plötur með Lamb of God, Converge og Deadguy. Einnig er hann þekktur fyrir sérvisku sína og að það sé erfitt að vinna með honum, enda er sveitin á sínum ellefta trommara, en á síðustu plötu sinni, þeirri fyrstu og einu sem gefin var út af eigin útgáfufyrirtæki Steve´s, Supernove Records, áður en hann samdi við Black Market Activities, er einmitt níðlag er fjallar um Relapse Records, heimili Today is the Day í heilan áratug.

Today is the Day er hljómsveit sem allir 25+ kannast við, enda var hún mikið í deigluni hér á landi á gullaldarárum sínum, en nú er tækifæri til þess að bera arfleifð þeirra áfram til næstu kynslóðar.

Sveitin leikur á tveimur tónleikum sama dag. Hinir fyrri eru fyrir alla aldurshópa og hefjast kl 15:00, en hinir síðari eru með 20 ára aldurstakmarki og opnar húsið kl 22:00. Á seinni tónleikunum hita sveitirnar Klink, Momentum og Celestine upp, en þær eru allar að koma úr lævpásum og frumflytja nýtt efni á tónleikunum.

Today is the Day – The Descent

Músíktilraunir : A Day In December

Meðlimir A day in december, sem stofnuð var þann 11.maí 2010, segja svo frá sjálfum sér : “Við hittumst allir í fyrsta skiptið daginn sem sveitn var stofnuð. Í framhaldinu fórum við að æfa í bílskúr í Salahverfi og höfum spilað á nokkrum tónleikum síðan þá og þar á meðal opnunartónleikum Ljósanætur 2010. Við spilum Heavy Metal og höfum gaman af.”

Svo mörg voru þau orð. A Day In December gjörið svo vel.

A day in december – Blood on your doorstep

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

The Neighbours, Klikk og Chino á Dillon í kvöld

Þrjár þungarokkshljómsveitir sem ekki er í boði að sjá á sviði á hverjum degi verða komnar saman með það eitt fyrir stafni að fá fólk til að slamma harkalega.

Chino er harðkjarnasveit frá Egilsstöðum. Chino gáfu út EP plötuna The Clockwork Sabotage árið 2009 og fékk hún góða dóma. Þeir spila ekki oft í Reykjavík og því er um að gera að tékka á þeim.

The Neighbours spila þungarokk í bland við pönk. Þeir hafa látið lítið fyrir sér fara undanfarið en verið duglegir að semja og munu nær einungis spila nýtt efni á tónleikunum. Ferskleikinn ætti því að leka af sviðinu.

Klikk inniheldur meðal annars meðlimi hljómsveitanna Logn og Swords Of Chaos, en þeir spila níðþungt rokk. Hljómsveitin er tiltölulega ný á nálinni og er æskilegt að hvetja alla þá sem kunna vel að meta þungarokk að kíkja á þá.

Fyrsta hljómsveit mun stíga á svið 22:30 og það kostar ekkert inn. Bjór á barnum og 20 ára aldurstakmark.

Momentum, Ask the Slave og Caterpillarmen á Faktorý

Momentum hefur lengi verið talin ein öflugasta hljómsveit sem íslenskt öfgarokk hefur gefið af sér. Nýjasta plata sveitarinnar Fixation, at Rest hefur komið viða við á listum yfir bestu plötur ársins 2010 og hefur hlotið frábæra dóma á íslandi og í erlendum tímaritum á borð við Metalhammer og Kerrang.

Ask the Slave hafa undanfarið vakið athygli fyrir myndband þeirra við lagið “Sleep Now”. Stutt er síðan sveitin gaf út sína aðra breiðskífu The Order of Things sem var ein af plötum ársins 2010 að mati Ómars Eyþórssonar á X.977.

Caterpillarmen spila tilraunakennda tónlist sem einkennist af spilagleið og líflegri sviðsframkomu. Þeir gáfu nýverið út sína aðra breiðskífu er nefnist einfaldlega Caterpillarmen.

Tónleikar verða Laugardaginn 12. mars á Faktorý, Smiðjustíg 6, 101 Reykjavík. Þeir hefjast kl 23:00 og er aðgangseyrir 1000 kr.

Mike Starr allur

Upprunalegi bassaleikari gruggrokksveitarinnar Alice in Chains fannst látinn á heimili sínu í Salt Lake í gærdag, 44 ára að aldri. Dánarorsök er enn ókunn en talið er að um misnotkun lyfja hafi átt hlut í dauða bassaleikarans en Starr hefur lengi barist við eiturlyfjafíkn sína opinberlega.
Mike Starr var einn af stofnmeðlimum Alice in Chains á 9.áratuginum ásamt þeim Jerry Cantrell, Sean Kinney og hinum liðna Layne Staley, sem lést af völdum ofneyslu eiturlyfja árið 2002. Dauði Starr minnir óhugnanlega á dauða Staley en báðir fundust þeir einir og yfirgefnir á heimili sínu, umvafnir óæskilegum lyfjum.

Starr var meðlimur Alice in Chains allt til ársins 1993 þegar félagar hans báðu hann að taka pokann sinn á miðju tónleikaferðalagi einnar stærstu plötu sveitarinnar, Dirt, sem út kom árið 1992. Í stað Starr kom nafni hans Mike nokkur Inez og tók við bassanum.
Mun þetta vera enn eitt áfallið fyrir rokkheiminn og sannarlega mikill missir fyrir núlifandi stofnmeðlimi Alice in Chains, þá Jerry Cantrell og Sean Kinney sem tóku nýverið upp þar sem frá var horfið með Mike Inez sér við hlið ásamt söngvaranum William DuVall.

Rjóminn biður einn meistaranna á bakvið plöturnar Facelift, Sap og Dirt að hvíla í friði.

Músiktilraunir : Askur Yggdrasils

Askur Yggdrasils var stofnuð í Janúar árið 2007 og hefur verið misvirk síðan þá en á síðustu misserum, eftir að hafa loks mannað sveitina, hefur gangur hennar verið á uppávið. Undanfarið hefur sveitin haldið tónleikar verið nær allar helgar og hafa m.a. troðið upp með Skálmöld, Wistaria, Earendel, Dánarbeði ofl. Askur Yggdrasils spilar tilkomumikið þjóðlagaþungarokk.

Askur Yggdrasils – The Cold Sea

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Fist Fokkers gefa út Emilio Estavez

Loksins, loksins hefur frumburður drullupönkdúettsins Fist Fokkers litið ljós. Barnið var skýrt í höfuðið á eðalleikaranum og Mighty Ducks stjörnunni  Emilio Estevez, sem hefur lítið verið í sviðsljósinu undanfarið (ólíkt bróður sínum Charlie Sheen).

EP-platan inniheldur 8 lög: gamalkunna slagara á borð við “Hysteria” og “Energy”, en einnig brakandi ferska tóna. Hljómurinn er hrár og nær vel að fanga skítugan kraftinn af tónleikum sveitarinnar.

Fist Fokkers hafa ekki verið mjög virkir við tónleikahald undanfarið, enda eru meðlimirnir einstaklega uppteknir menn sem hafa m.a. spilað með gæðaböndunum Swords of Chaos, Útidúr, Klikk og Lalli & the Luv Triangle. Þeir hafa líka lofað undirrituðum tónleikum í lok mars, um leið og Úlfur söngvari kemur heim úr tónleikaferð með fyrstnefndu sveitinni.

Emilio Estevez kemur út hjá Brak útgáfunni, og er fáanleg stafrænt á bæði bandcamp og gogoyoko.

Swords of Chaos hita upp fyrir SXSW

Hljómsveitin Swords of Chaos er á leiðinni til Norður Ameríku í næstu viku þar sem sveitin mun spila nokkra tónleika í New York borg og halda síðan í átt að miðríkjunum og spila á tónlistarhátíðinni South by Southwest í Austin, Texas. Sveitin ætlar að skella í eina tónleika fyrir landann áður en hún leggur af stað, en það verður 3. mars á skemmtistaðnum Bakkus ásamt stærðfræði-sludge-bandinu Me, The Slumbering Napoleon og hinum allt of sjaldséðu effektavirtúósum í Bob. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:30 og er frítt inn.

Wacken Metal Battle 2011

Hljómsveitakeppnin Wacken Metal Battle verður haldin á Sódóma Reykjavík laugardaginn 5. mars. 6 hljómsveitir berjast um heiðurinn af því að komast út til að spila á Wacken Open Air í Þýskalandi og taka þátt í lokakeppni Wacken Metal Battle þar. Til mikils er að vinna, því sigurhljómsveitin fær plötusamning, heilan haug af hljóðfærum og græjum og verður bókuð til að koma fram ári síðar á hátíðinni sem eitt af númerum hennar.

Sigurhljómsveitin í undankeppninni er valin af dómnefnd, skipuð bæði innlendum sem erlendum aðilum, þar á meðal ritstjóra Metal Hammer í Bretlandi.

Sveitirnar sem munu bítast um hnossið í ár eru svo sannarlega með því besta sem landið hefur upp á að bjóða í þungu rokki:

Angist : www.myspace.com/angisttheband
Atrum : – www.myspace.com/atrumiceland
Gruesome Glory : – www.myspace.com/gonepostalmetal
Ophidian I : www.myspace.com/gruesomeglory
Gone Postal : www.myspace.com/ophidian
Carpe Nortem : www.myspace.com/carpenoctemiceland

Að auki koma fram gestasveitirnar Skálmöld, sem þegar hefur verið valin til að spila á Wacken, Wistaria, sigurvegarar íslensku Wacken Metal Battle keppninnar í fyrra, og Moldun.

Miðasalan er hafin á Miði.is og er miðaverð aðeins 1.000 kr.