Melchior sendir frá sér Jólasmell

Hljómsveitin Melchior kynnir jólalagið, “Jólin koma brátt”. Það laðar fram þann spenning sem unga fólkinu er svo eiginlegur í aðdraganda jólanna. Lagið er Melchiorlegt en nokkuð rokkað. Er það aðgengilegt á tonlist.is, gogoyoko og Fésbókarsíðu sveitarinnar.

“Jólin koma brátt” var samið fyrir kvikmynd Hilmars Oddssonar, Desember, sem verður í jóladagskrá RÚV í ár. Þar er það sungið sérstaklega smekklega af Lay Low.

Lagið verður líka á næstu plötu Melchiors, en upptökur fyrir plötuna eru langt komnar og kennir þar ýmissa safaríkra Melchiorgrasa.

Hljómsveitin Melchior er skipuð þeim Hilmari Oddssyni, Hróðmari I Sigurbjörnssyni og Karli Roth, sem syngja og leika á gítara og hljómborð, Kristínu Jóhannsdóttur söngkonu, Gunnari Hrafnssyni bassaleikara og Kjartani Guðnasyni slagverksleikara. Í jólalaginu leikur Steingrímur Guðmundsson á trommur.

Hljómasveitin Ég – Ímynd Fíflsins

Hljómsveitin Ég hefur gefið út sína fjórðu hljómplötu og ber hún nafnið ÍMYND FÍFLSINS. Hljómsveitin hefur verið iðin á síðasta ári við að fylgja eftir plötu sinni LÚXUS UPPLIFUN sem hvarvetna fékk frábæra dóma og var m.a annars tilnefnd sem “Plata ársins” ásamt því að fá tilnefningu fyrir textasmíði ársins. Þetta var í annað skipti í röð sem hljómsveitin er tilnefnd fyrir plötu ársins, en áður hafði plata þeirra: PLATA ÁRSINS verið tilnefnd árið 2005.

Hljómsveitin Ég hlaut að auki plötuverðlaun Kraums fyrir framúrskarandi hljómplötu í desember 2010 fyrir LÚXUS UPPLIFUN.

ÍMYND FÍFLSINS hefur að geyma 13 frumsamin lög, öll sungin á íslensku. Efnistök texta er m.a: Heimska, Kóngafólk, Maðurinn og tenging hans við Sauðkindur og Hollywood-ást. Í umbúðum geisladisksins fylgir veglegt hefti þar sem hægt er að lesa textana. Mun þetta vera metnaðarfyllsta plata sem Hljómsveitin Ég hefur gert.

Hljómsveitin Ég mun byrja að kynna plötuna á tónleikum á Akureyri 2. desember og á Húsavík 3. desesember nk. Útgáfutónleikar í Reykjavík verða auglýstir síðar.

Hljómsveitin Ég – Heimska

Útgáfufögnuður For a Minor Reflection

Hljómsveitin For a Minor Reflection sendi á dögunum að frá sér stuttskífu sem ber hið einfalda heiti „EP” og inniheldur fjögur lög. Af því tilefni efnir sveitin til útgáfufagnaðar miðvikudaginn 30. nóvember nk. á Faktorý þar sem öllu verður tjaldað til. Þeim til halds og trausts verða We Made God og Lockerbie. Húsið opnar kl. 20:00 og herlegheitin byrja síðan stundvíslega kl. 21:00. Miðaverð er einungis 1000 kr. og verður „EP” til sölu á 1500 kr.

Platan var tekin upp í ReFlex Studio í ágúst síðastliðnum undir stjórn Axels Árnasonar, betur þekktur sem Flex. Þetta er þriðja skífa For a Minor Reflection, en á undan „EP” komu „Höldum í átt að óreiðu” frá 2010 og „Reistu þig við, sólin er komin á loft…” frá árinu 2007. Það er óhætt að segja að hljómsveitin feti ótroðnar slóðir á „EP“ sem hefur fengið prýðis viðtökur og dóma.

Hlustið á „EP“ á gogoyoko hér

Low Roar komin út um allan heim

Fyrsta plata Low Roar, sem er einstaklingsverkefni Ryan Karazija, er komin út þann 1. þessa mánaðar um heimsbyggða alla. Ryan, sem búsettur hefur verið hér álandi í nær tvö ár og er giftur íslenskri konu, samdi plötuna og tók upp að mestu heima í stofu síðasta vetur. Segja má að þessi fallega en ljúfsára platan endurspegli að miklu leiti tilfinningar höfundarins á þessum tímamótum sínum hér í ókunnugu landi og lífið sem hann skyldi við heima.

Diskurinn er kominn í vel valdar búðir hér á landi eins og t.d. Smekkleysu, 12 Tóna og Eymundsson auk þess sem hægt er að kaupa hann á gogoyoko.

Meðfylgjandi er eitt besta lag plötunnar og eitt af betri lögum ársins hér á landi þetta árið.

Nology er komin út

Hljómsveitin Nolo hefur unnið hörðum höndum að sinni fyrstu breiðskífu síðastliðið ár með þeim Svavari Pétri (Prinspóló og Skakkamanage) og Loga Höskuldssyni (Sudden Weather Change og Prinspóló). Nology er nú loks komin út hjá Kimi Records og fáanleg í íslenskum hljómplötu- og bókaverslunum. Platan hefur verið fáanleg á tónlistarveitunni Gogoyoko síðustu viku og hefur vægast sagt fengið frábærar viðtökur hjá tónlistarunnendum, sem keppast við að ausa hana lofi.

Nolo er skipuð þeim Ívari Björnssyni og Jóni Lorange og á rætur að rekja í úthverfi höfuðborgarsvæðisins. Hljómsveitin var stofnuð um mitt ár 2009 og frá stofnun hafa þeir verið iðnir við lagasmíðar, tónleikahald og upptökur, fóru þeir meðal annars á Sumargleðitúr Kimi Records sumarið 2010. Eftir þá liggja fjölmargar smáskífur á Gogoyoko því þeir hafa verið óhræddir við að senda frá sér lög og demo við ýmis tækifæri. Snemma árs 2010 kom svo út platan No-Lo-Fi sem er 8 laga stuttskífa sem var tekin upp að öllu leiti í svefnherbergjum piltanna. Hlaut hún mikið lof gagnrýnenda og fékk meðal annars hin virtu Kraumsverðlaun sem og tilnefningu til hljómplötuverðlauna Norðurlanda.

Nology var eins og áður sagði tekin upp af Svavari Pétri Eysteinssyni og Loga Höskuldssyni og hljóðblönduð af þeim ásamt Gunnari Tynes (múm). Um hljómjöfnun sá Biggi Sundlaugarvörður og umslagshönnun var á höndum Bobby Breiðholt. Ljósmyndir tók Jónína de la Rosa.

Nolo – When You’re Gone

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Fotoshop

Það langt síðan maður hefur heyrt eitthvað frá frændum vorum finnum. Síðast þegar ég heyrði eitthvað finnskt þá voru það ellismellirnir síungu í 22 Pistepirkko að spila við góðar undirtektir á nýliðinni Airwaves hátíð. En í morgun barst mér til eyrna hreint ágæt fyrsta plata Jarno-Erik Faarinen, undir listamannsnafninu Fotoshop, sem nefnist Lifeforms. Ég verð að játa að ekki finnst mér nú listamannsnafnið merkilegt og þá sérstaklega sterk tenging við ákveðinn myndvinnsluhugbúnað sem flestir ættu að átta sig á strax. En tónlistin er bara nokkuð góð. Draumkennt og allt umliggjandi hljóðgerflapopp með hæfilegu magni af tilfinningum, slaka og fortíðarljóma.

Eins og ég sagði, bara nokkuð gott.

Tarnús jr. gefur út plötuna My God Is Mad

Lo-Fi jálkurinn Tarnús jr. stígur hér fram á völlinn á ný með svefnherbergisplötuna I. Þessi tilraunakenndi tónlistarbræðingur inniheldur 8 angurvær og hættulega kynþokkafull indí popplög og platan fylgir frumburðinum Original Cowboy sem hann gaf sjálfur út árið 2006

Tarnús jr. er listamannsnafn Grétars Magnúsar Grétarssonar (Tarnús eldri er listmálari og faðir hans). Grétar Magnús starfrækir einnig hljómsveitina Rafgashaus sem hefur ávallt komið hressilega á óvart þá sjaldan að hún skýtur upp kollinum á tónleikum. Voru þeir m.a kallaðir hetjur kvöldsins í dómi um tónleikakvöld á Airwaves hátíðinni í fyrra

Hellvar hefur nýlega endurhljóðblandað lagið “Pussycat” af fyrri plötu Tarnús jr. og mun það poppa fram í dagsljósið fyrr en seinna.

Platan My God Is Mad verður einungis gefin út stafrænt og er hún fáanleg á öllum helstu tónlistarveitum netsins. Plötuútgáfan CCBB (Ching Ching Bling Bling) hljóðjafnar, styður við og dreifir.

Snorri Helgason – Mockingbird

Tónlistarmaðurinn Snorri Helgason var að senda frá sér nýtt lag, hið hugljúfa “Mockingbird”. Lagið er að finna á plötunni Winter Sun, en hún kom út í ágúst síðastliðnum. Platan hefur fengið frábærar viðtökur og án undantekninga góða dóma, meðal annars fullt hús í Fréttatímanum og 9,5 hjá Andreu í Popplandi.

Lagið er töluvert frábrugið þeim lögum sem áður hafa heyrst af plötunni á öldum ljósvakans að undanförnu, “River” og “Julie”, að því leiti að það er byggt á trommuheilagrunni sem leiðir lagið í alls kyns ævintýri. Ítalski listamaðurinn Elisa Vendramin vinnur um þessar mundir að gerð myndbands við “Mockingbird” sem verður frumsýnt um miðjan desember.

Snorri Helgason – Mockingbird

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Nýtt lag frá Jónsa

Já, þó að Inni Sigur Rósar sé enn glóðvolg þá opinberaði Jónsi nýtt lag nú í vikunni. Um er að ræða lagið “Gathering Stories” sem hann samdi ásamt leikstjóranum Cameron Crowe, en lagið er einmitt að finna í væntanlegri kvikmynd Crowe’s We Bought A Zoo. Jónsi sér reyndar um allt hljóðskorið og er það væntanlegt á diski þann 13. desember. Diskurinn er 15 laga og inniheldur að mestu ný lög og stemmur auk nokkurra kunnuglegra vina, en “Boy Lilikoi”, “Go Do” og “Sinking Friendships” af Go og “Hoppípolla” af Takk Sigur Rósar er einnig að finna þar.

Jónsi – Gathering Stories

Nýtt erlent

Það er allt of langt síðan tekin hefur verið góð yfirferð yfir hvað er um að ske tónlistarlega séð utan landsteinanna. Allt of langt. Ákvað því að einhenda í einn góðan lagalista án frekari útskýringa. Leyfum tónlistinn að njóta sín. Gjörið svo vel.

Embers – Tunnel Vision

Tennis – Origins

Crystal Stilts – Radiant Door EP


Slow Magic – Feel Flows

Victories At Sea – Future GoldWe Are Trees – Girlfriend

Dems – House

We Are Augustines – Rise Ye Sunken Ships

BASTILLE – Laura Palmer

Francis Neve – Dance Around The Fire EP

Ben Frost & Daníel Bjarnason gefa út SÓLARIS

Platan SÓLARIS eftir Ben Frost & Daníel Bjarnason er komin út á alheimsvísu á vegum Bedroom Community. Hún er þegar farin að fá prýðis dóma, til að mynda 8 stjörnur af 10 á hinni virtu tónlistarsíðu Drowned in Sound.

Um er að ræða tónverk eftir Ben Frost og Daníel Bjarnason en íslenskur frumflutningur á verkinu var á Listahátíð í Reykjavík í júní síðastliðnum. Það var Unsound hátíðin í Kraká sem pantaði verkið í tilefni þess að fimmtíu ár eru liðin frá útgáfu skáldsögunnar Solaris eftir pólska rithöfundinn Stanislaw Lem, en verkið er unnið fyrir Krakársinfóníettuna.

SÓLARIS er samið fyrir þrjátiu strengja- og ásláttarleikara, gítara, rafhljóðfæri og breytt píanó. Um kvikmyndaverk með tónlistinni sáu Brian Eno og Nick Robertson þar sem unnið var upp úr römmum úr Solaris-kvikmynd Andrei Tarkovsky frá árinu 1972.

Hljómskálinn

Hinn ágæti tónlistarþáttur Hljómskálinn hefur farið vel af stað hjá ríkissjónvarpinu. Í hverju þætti koma saman tveir ólíkir og óskyldir listamenn sem flytja saman frumsamið lag og er útkoman ansi skemmtileg. Alls eru lögin orðin þrjú en meðfylgjandi er lagið “Feel So Fine” þar sem FM Belfast og Jóhann Helgason leiða saman hesta sína.

FM Belfast & Jóhann Helgason – Feel so Fine

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Eldar – Fjarlægð nálægð

Út er komin fyrsta plata Elda en sveitin sú er samstarfsverkefni keflvíkingana Björgvins Ívars Baldurssonar og Valdimars Guðmundssonar. Platan inniheldur 10 lög og þar á meðal fyrstu smáskífuna “Bráðum burt”. Meðal þeirra sem koma fram á plötunni eru Stefán Örn Gunnlaugsson, Fríða Dís Guðmundsdóttir, Sigtryggur Baldursson, Védís Hervör Árnadóttir, Örn Eldjárn og Ragnhildur Gunnarsdóttir.

Dad Rocks komin út

Platan Mount Modern með Dad Rocks! kom nýverið út hér á Íslandi sem og í Bretlandi og Danmörku. Platan er gefin út hér á landi af Father Figure Records í samvinnu við jaðarútgáfuna Kimi Records. Dad Rocks! er sólóverkefni Snævars Albertssonar en hann hefur verið búsettur í Árhúsum undanfarin ár og meðal annars getið sér gott orð sem liðsmaður dönsku sveitarinnar Mimas. Snævar hefur safnað í kringum sig 8 manna hljómsveit og komið fram á virtum tónlistarhátíðum undanfarna mánuði, meðal annars Great Escape í Brighton, Spot hátíðinni í Danmörkum PopKomm hátíðinni í Berlín, Iceland Airwaves og hinni virtu CMJ tónlistarhátíð í New York.

Aðeins Meira Pollapönk

Á föstudaginn kom út þriðja plata Pollapönks, Aðeins Meira Pollapönk, eftir ekkert svo langa bið en sveitin sendi frá sé Meira Pollapönk í maí á síðasta ári. Aðeins Meira Pollapönk inniheldur 12 splunkuný frumsamin lög. Eins og áður er eitt laganna tileinkað þekktri íslenskri hetju líkt og á Meira Pollapönk þegar Ómar Ragnarsson var lofsunginn. Nú tileinka Pollarnir Bjartmari Guðlaugssyni lag á plötunni þar sem þeir syngja saman um Æris koffí og undramalt, karlakókið er betra kalt o.s.frv. en lagið heitir einfaldlega “Bjartmar”. Í byrjun sumars fengum við að heyra fyrsta lag plötunnar, “Ættarmót” og nú er farið af stað lagið “Hananú” sem er algjört heilalím.

Stefnt er að útgáfutónleikum í tilefni plötunnar í desember.

Pollapönk – Hananú

Nýtt og gott: Sandro Perri – Impossible Spaces

Líklega besta nýja platan sem ég hef heyrt í nokkrar vikur er platan Impossible Spaces með Toronto-búanum Sandro Perri. Sandro tekst á lúmskan hátt að blanda saman tilraunamennsku og pabbatónlist. Hann notar bæði jazzhljóma, pólýryþma, blásturshljóðfæri og elektróník til að búa til vinalega dramatískt þjóðlagapopp. Kannski hljómar þetta ekki spennandi, en stundum eru það einmitt hlutirnir sem virka ekki á blaði sem virka fullkomlega í hljómi. Það er hægt að hlusta á Impossible Spaces í heild sinni á heimasíðu Constellation Records útgáfunnar, eða þá bara hérna fyrir neðan. Þú gætir allavega notað næstu 10 mínútur í mun heimskulegri hluti en að hlusta á lagið  “Wolfman”.

Myndband með Logn

Út er komið myndband við lagið “Blóðormar” með þungarokksveitinni eiturfersku Logn.  Lagið verður á væntanlegri breiðskífu Logn: Í fráhvarfi ljóss, myrkrið lifnar við. Myndbandið gerði einn meðlimur hljómsveitarinnar Ægir Sindri Bjarnason með hjálp frá Fritz Hendrik Bernden og Sindri Ström. Þetta er stöff til að brjóta tennur við.

Nýtt 24 tíma lag frá The Flaming Lips

Það hefði kannski frekar verið við hæfi að hafa nýja 24 tíma lagið með The Flaming Lips, “7 Skies H3” sem rjómalag dagsins. Hægt er að hlýða á lagið í live-streami á netinu í dag og væri því upplagt að hringja í Sigga Sýru, bjóða honum í heimsókn og hanga inni í allan dag og hlusta á nýja tónlist með Flaming Lips. Ef maður er hins vegar upptekinn getur maður bara keypt lagið á USB-lykli sem er inni í alvöru hauskúpu af manneskju. Kostar litla 5000 dollara.

Hlustið eða kaupið á http://flaminglipstwentyfourhoursong.com/