Gímaldin og félagar gefa út

Gísli Magnússon, sem alla jafna svarar listamannsnafninu Gímaldin, hefur hóað saman valinkunnum mönnum úr tónlistarbransanum, Gísla Má Sigurjónssyni gítarleikara Bacon og Þorvaldi Gröndal trommuleikara sem margir þekkja úr eðalsveitum s.s. Trabant, Kanada og California Nestbox. Saman hafa þeir félagar nú hljóðritað og gefið út sjóðheita breiðskífu sem ber heitið Þú ert ekki sá sem ég valdi. Eftir að hafa fengið smá forsmekk af skífunni fannst Rjómanum ekki hægt annað en að taka hús á Gímaldin og forvitnast nánar um plötuna og samstarfið. Ágætt er að láta fyrstu tónana hljóma strax meðan rennt er yfir textann:

Gímaldin og félagar – Reggjað á Gulaþingi

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Þetta byrjaði eiginlega með því að við Gísli létum verða af samstarfi sem við höfðum lengi ætlað okkur, þetta var síðla á “uppbyggingarárinu” 2009, allir voru meira og minna atvinnulausir, listin blómstraði og pólitíkusar lofuðu botnlausu uppgengi. Ég var með bunka af lögum þegar ég kom frá Rússlandi, mest af þeim hafði farið á Sungið undir radar en eftir stóðu lög á sirka eina breiðskífu.

Gímaldin hafði á lager ógrynni af trommugrunnum sem upphaflega átti að nota í annað verkefni. Það var hinsvegar í biðstöðu og því hafði hann samið lögin ofan á þessa ónotuðu trommutakta.

Við Gísli fórum að spila þessi lög til, enda átti að útsetja lögin upp á nýtt, síðan fór Doddi að mæta en það var skemmtilegur tvistur þarsem hann hafði upprunalega trommað fyrir mig teikin sem lögin voru samin yfir. Auk laganna frá Rússlandi prófuðum við nokkur eldri lög og nokkur þeirra runnu strax inn í skemmtilega útsetningu og fóru með. Til að byrja með var bandið í því að kynna Sungið undir radar, en það var kanski ekki mjög markvisst enda spiluðum við aldrei neitt af henni. Við spiluðum bara þessi lög, sem áttu að fara á næstu plötu.

Já það má segja að það sé ekki mjög markvisst. En það er mikið lagt í textana á plötunni og útsetningar hugaðar þannig að tónlistin þjóni textanum frekar en öfugt. Þetta verður berlega ljóst þegar Gísli er spurður nánar út í textagerðina:

Textarnir urðu margir til útfrá aðferð þarsem merking og innihald er ekki kontretiseruð, heldur látin fljóta undir niðri meðan orðum er raðað saman útfrá túlkun og tifi tóneyrans. Á sama hátt og innihaldi er haldið frá því að mótast um of (þetta er gert til að forðast frasa og of almennar hugmyndir) er systematísk bygging, (endarím, útreiknanlegir stuðlar, jafnar braglínur), látin víkja fremur fyrir hinni óreglulegu innri byggingu sem áðurnefnd aðferð býr til. Það er hefðbundin kveðskapur inn á milli, eða hefðbundnari ef svo má segja – en hið fyrra finnst mér mun áhugaverðara í dag.

Hérna fylgja með nokkur lög af plötunni Þú ert ekki sá sem ég valdi, en hana  má versla í Smekkleysu á Laugavegi ellegar panta í gegnum Facebook síðuna. Þess verður heldur ekki langt að bíða að blásið verði til veglegra útgáfutónleika.

Gímaldin og félagar – Ballaðan um Íslensku Gereyðingarvopnin

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Myndband við lagið “Rassstelpan”

Gímaldin og félagar á Facebook

Eldar – Bráðum Burt

Meðfylgjandi er lag af komandi breiðskífu Elda, Fjarlæg Nálægð, sem heitir “Bráðum Burt”. Hljómsveitin er samstarfsverkefni þeirra Björgvins Ívars Baldurssonar, sem leikið hefur með Lifun og Klassart, og Valdimars Guðmundssonar sem er kunnastur fyrir að vera í forsprakki hljómsveitarinnar Valdimar.

Einfaldlega flókið

Hallgrímur Oddson hefur sent frá sér plötuna Einfaldlega Flókið og er nú hægt að heyra hana í heild sinni á gogogyoko. Hér eru á ferð veraldlegir mansöngvar klæddir í kántrí-skotna þjóðlagapoppbúninga (folk). Á plötunni er m.a. að finna meðfylgjandi lag sem kallast “360 gráður” og er það nokkuð snoturt og grípandi.

Árstíðir senda frá sér nýja plötu

Svefns og vöku skil er önnur breiðskífa hljómsveitarinnar Árstíðir og inniheldur hún 12 lög sem voru samin á tveggja ára tímabili. Upptökur fóru fram í Hljóðrita í júní og júlí 2011 og sá Ólafur Arnalds um upptökustjórn. Hljómur Árstíða hefur tekið nokkrum breytingum frá því á fyrstu skífu sveitarinnar og eru útsetningar tilkomumeiri og lagasmíðar á köflum örlítið tilraunarkenndari.

Nýtt lag og plata frá Nolo

Hljómsveitin Nolo hefur unnið hörðum höndum að sinni fyrstu breiðskífu síðastliðið ár. Kemur hún til með að heita Nology og mun streyma í verslanir 11. nóvember næstkomandi og kemur því út á þeim hressilega samhverfudegi 11.11.11. Aðdáendur sveitarinnar, sem geta ekki beðið svo lengi ,þurfa eigi að örvænta því Nology mun verða fáanleg í rafrænu formi frá 3. nóvember næstkomandi á tónlistarveitunni gogoyoko eða viku fyrir eiginlegan útgáfudag.

Platan er gefin út af Kimi Records.

Nolo – When You’re Gone

Gang Related senda frá sér breiðskífu

Fyrsta plata rokkhljómsveitarinnar Gang Related er komin út. Platan heitir Stunts & Rituals og inniheldur 10 lög og er gefin út af Brak hljómplötum. Meðlimir hljómsveitarinnar eru bræðurnir Albert og Gunnar Pétur sem syngja og spila á gítar, Helgi Pétur trommar og Jón Otti spilar á bassa.

Hljómsveitin spilar draumkennt rokk og sækir meðal annars áhrif frá The Kinks, Pavement og Bruce Springsteen. Öll lögin voru tekin upp í hljóðstofu Friðriks og Jóhanns. Albert söngvari sveitarinnar tók einnig þátt upptökum á plötunni og sá um hljóðblöndun. Platan var svo masteruð af Aroni Arnarsyni.

Hljómsveitin ætlar að fagna útgáfu plötunar með tónleikum á Bakkus föstudagskvöldið þann 28. október ásamt góðum gestum og svo aftur laugardaginn þann 29. október á Gauk á stöng á hrekkjavöku tónleikum með hljómsveitunum Bárujárni, The Dandelion Seeds og Súr.

Gang Related – Mona

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Sykur sendir frá sér nýja breiðskífu

Record Records gaf í gær út aðra breiðskífu hljómsveitarinnar Sykur. Nýja skífan heitir Mesópótamía og fylgir á eftir frumburði sveitarinnar, Frábært eða frábært, frá árinu 2009.

Sykur var stofnuð árið 2008 og hefur komið fram með ýmsum söngvurum síðan þá, má þar nefna; BlazRoca, Rakel Mjöll Leifsdóttir (Útidúr) og Katrína Mogensen (Mammút). Nú nýverið gekk til liðs við sveitina nýr fullgildur meðlimur sem sér um söng, hún heitir Agnes Björt Andradóttir og hefur vakið mikla lukku og athygli með sveitinni undanfarið og nú síðast á nýliðinni Iceland Airwaves hátíð þar sem sveitin fékk mjög góða dóma í erlendum fjölmiðlum.Sykur fær þó gesti til liðs við sig á nýju plötunni í tveimur lögum en Árni Vilhjálmsson úr FM Belfast syngur fyrstu smáskífu plötunnar, “Shed Those Tears” og Kormákur Örn Axelsson syngur lagið “7am”.

Sykur sá um upptökur plötunnar en Styrmir Hauksson hljóðblandaði og tónjafnaði. Myndskreyting og hönnun umslags var í höndum Sigga Odds.

Quarashi Anthology

Út er komin safnplata hljómsveitarinnar Quarashi sem nefnist Anthology en um er að ræða 42 laga safnpakka frá 8 ára ferli hljómsveitarinnar. Tónlist.is býður uppá tvö áður óútgefin (og óheyrð) Quarashi lög í kaupbæti með plötunni en þau verða aðeins fáanleg hjá okkur. Þetta eru lögin “Shady Lives” sem var gert með Opee árið 2003, stuttlega eftir að “Mess it Up” varð vinsælt og lagið “An Abductee” sem var gert fyrir Jinx en rataði ekki á plötuna.

Anthology pakkinn sjálfur er svo stútfullur af vinsælu og sjaldgæfu efni frá Quarashi. Sjaldan eða aldrei hefur hljómsveit náð að gera upp feril sinn með jafn skilvirkum hætti án þess þó að vera einungis að gefa út áður útgefið efni. Pakkinn er því bæði hugsaður fyrir þá sem vilja eignast öll vinsælustu lög sveitarinnar í hvelli og hörðustu aðdáendurna sem vilja fá meira fyrir sinn snúð. Þannig vill sveitin kveðja aðdáendur sína – með því að tryggja að hinsta útgáfa Quarashi sé sem glæsilegust.

Quarashi – Shady Lives (feat. Opee)

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Náttfari gefur út plötur eftir 10 ára töf

Hljómsveitin Náttfari gaf út sína fyrstu breiðskífu „Töf “ í dag og inniheldur hún níu lög sem tekin voru upp í Reykjavík í desember 2010.

Náttfari var stofnuð árið 2000 og lét að sér kveða í reykvísku neðanjarðarrokksenunni upp úr aldamótunum. Sveitin fékk afgerandi góða dóma fyrir spilamennsku sína, m.a. í New York Times eftir Iceland Airwaves 2001 þar sem blaðamaður lýsti tónleikum hennar sem „mind-blowing performance“.

Sveitin kom aftur saman árið 2010 eftir 8 ára hlé. Hún spilaði á Airwaves það árið og voru tónleikar hennar valdir eitt af 15 bestu atriðunum á hátíðinni af Reykjavík Grapevine tímaritinu. Tónleikar sveitarinnar á nýliðinni Airwaves hátíð vöktu ekki síður athygli og fengu m.a. fjögurra stjörnu dóm í Fréttablaðinu.

Tónlist Náttfara mætti lýsa sem draumkenndu síðrokki með kraftmiklum trommuleik og melódískum hljóðfæraleik.

Meðlimir Náttfara eru Nói Steinn Einarsson, Andri Ásgrímsson, Haraldur Þorsteinsson og Ólafur Josephson.

Vafasöm Síðmótun

Pönksveitin Vafasöm Síðmótun hefur gefið út EP plötuna Bylting og étin börn en á henni mun ort um “fokking kreppuna” eins og hljómsveitarmeðlimir orða það sjálfir. Það er eiginlega best að gefa sveitinni orðið og segja okkur aðeins frá:

Platan fjallar um fokking kreppunna og á henni er lag sem við gerðum sem vann keppni á RÁS 2 þegar einhver fáviti vildi gera söngleik um pönk svo hann gerði söngleik og lét pönkhljómsveitir gera lag við texta sem hann samdi sem var ekki pönk. Við spiluðum í Kastljósinu og lagið okkar fór í söngleikinn í Þjóðleikhúsinu en þeir breyttu því svo það varð lélegt og söngleikurinn ömurlegur og allir voru sammála. Lagið okkar var gott samt. Lagið hét ,,Ísland er fokk“ en heitir núna ,,Arðrán hinnar nýju valdastéttar“ sem er gott nafn og rétt stafstett.

Vafasöm Síðmótun er skipuð þeim h8people á trommum, Osama Bin Laden á gítar, (lochness) Monster á bassa og Tourette Hostage sem sér um söng.

Pönksveitin Vafasöm Síðmótun, geriði svo vel!

Vafasöm Síðmótun – Arðrán hinnar nýju valdastéttar

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Platan á gogoyoko

Airwavesdagbók Kristjáns: Laugardagur

Laugardagurinn hófst rétt fyrir klukkan eitt með bratwurst og bjór á Kex Hostel. Þar var sænska rokksveitin Dungen að gera sig klára til að spila. Vegna bráðaofnæmis míns fyrir þeim glymjanda sem stundum hefur verið rangnefndur ,,hljómburður” Listasafns Reykjavíkur hafði ég ákveðið að sleppa því að sjá þá kvöldinu áður og beið því spenntur.

Dungen spiluðu órafmagnað á hostelinu, byrjuðu á nýjasta hittaranum ,,Skit i Alt”, spiluðu svo m.a. ,,Festival” af Ta Det Lugnt og enduðu á tímalausu snilldinni ,,E för fin för mig”. Þar á milli léku þeir tvö lög þar sem Hr.Dungen; Gustav Ejstes, lék á þverflautu. Performansinn var dáleiðandi en þó léttur. Hljómsveitin var greinilega að skemmta sér ágætlega. Ég vildi að allir dagar byrjuðu svona.

Þegar ég mætti í bæinn seinna um kvöldið byrjaði ég á því að hlýða á Fallega Menn í húspartýinu á Ingólfsstræti 8. Íbúðin var stappfull og ekki gerð fyrir fólk með félagsfælni. Til að kaupa súpuna eða bjórinn sem var í boði var nauðsynlegt að hafa þónokkra hugmyndaauðgi, maður þurfti að troða sér í gegnum hverja einastu glufu sem myndaðist milli líkamanna en hefði helst þurft að klifra yfir hrúguna til að komast í hinn enda íbúðarinnar. Að alvöru húspartýja sið var hljóðið í Fallegum Mönnum hræðilegt. Það heyrðist ekki í sumum míkrófónum á meðan aðrir fídbökkuðu út í eitt. En þegar full stofa af fólki öskraði með ,,Ra-ta-ta-ta! Það er komið tími fyrir annað Baader-Meinhof!” var ljóst að það skipti nákvæmlega engu máli.

Rokkkvintettinn Jón Þór byrjaði kvöldið í Iðnó og spilaði að venju tilgerðarlaust háskólarokk eins og það var spilað á tíunda áratugnum. Mér finnst frábært þegar tónlistarmenn ögra alræði enskunnar sem söngmáli ákveðinna tónlistarstefna, s.s. háskólarokks. Mig grunar að ég gefi þeim þá ómeðvitað alltaf prik fyrir einhverskonar heilindi. Ég held að lógíkin í heilanum mínum virki einhvern veginn svona:

Íslenskur texti => listamaðurinn er ekki að stefna að því að verða frægur => er að gera tónlist tónlistarinnar vegna => góð tónlist.

Þeramínleikarinn passar líka alveg furðuvel við þetta alltsaman.

Kiriyama Family sem spiluðu á sama tíma á NASA voru hins vegar ekki að gera neitt fyrir mig. Þeir voru eiginlega bara allt of slípaðir, of vel út lítandi, allt sem átti að vera sjarmerandi eða spennandi var of fyrirframákveðið, tónlistin of áhættulaus og pottþétt – Pottþétt Syntharokk 2011

Í tónlistarlegum skilningi ákvað ég því að flýja hinum megin á hnöttinn. Á eftri hæðinni á Faktorý voru Ghostigital nefnilega næstir. Að venju var krafturinn yfirdrifinn og tónlist furðulega grípandi þrátt fyrir undarleikann og aggressjónina.

Á neðri hæðinni á sama stað spiluðu Jungle Fiction og svo Samaris. Samaris laðaði þónokkuð magn af fólki að. Hið letilega trip-hop er klárlega efnilegt og ferskt  (það minnti mig á einhvern undarlegan hátt jafnvel á sumt af eldra dótinu með múm á köflum). Hvíslandi röddin í söngkonunni er flott en þyrfti samt mögulega meiri kraft; meiri trega; meiri sál.

Á Kaffi Amsterdam voru Muck að sprengja hljóðhimnur með sínu suddalega þungapönki. Hljómurinn á Amsterdam var eins og meirihluta hátíðarinnar til skammar en krafturinn í þessu nýja flaggskipi þungarokksenunnar var svo gígantískur að það skipti ekki máli. Nýjustu lögin hljómuðu mjög vel og bíður undirritaður með mold í hálsinum eftir plötu.

Eftir örlítinn vott af valkvíða ákvað ég að halda mig við hávaðann frekar en að sjá John Grant, Team Me eða Austra. Mér til mikillar furðu var reyndar nokkur röð á Gauk á Stöng þar sem dönsku táningapönkararnir Iceage áttu að spila eftir klukkutíma. Það sem meira var: röðin haggaðist varla. Ég furðaði mig um stund á þessum nýtilkomna áhuga íslendinga á pönki. Þær vangaveltur reyndust hinsvegar ótímabærar enda komst ég að því þegar ég kom inn að fólkið var allt komið til að sjá rokkabillý swingara að nafni JD McPherson. Ég pantaði mér bjór og horfði á troðfullan sal Gauksins syngja hástöfum og dansa með lagi manns sem ég hafði aldrei heyrt nefndan á nafn fyrr en í röðinni.

Um leið og McPherson lauk sér af varð nánast 100% rótering í áhorfendaskaranum, allir sem voru inni fóru út og ég sá að hálftímabið í röð hafði verið fullkomlega tilgangslaus. Hinu tónlistarlegu landamæri milli mín og þeirra voru greinilega meiri en ég hélt. Ég velti fyrir mér hvernig það gat farið svo að þessum tveimur gjörsamlega ólíku böndum var stillt upp hlið við hlið. Hvort að ekki hefði verið skemmtilegra að leyfa Iceage að spila við hlið annarra þunga- eða indírokkara og JD á meðal annarra skrallpoppara. Auðvitað getur verið skemmtilegt að setja ólík bönd á eftir hvoru öðru á svið, en þegar meginviðhorf til tónlistarinnar og hvatar sköpunarinnar er jafn gjörólíkir og hjá þessum tveimur böndum er ólíklegt að nokkur grundvöllur til að finna nokkra tónlistarlega snertifleti sé til staðar. Sá sem hlustar á JD McPherson, næstum því by definition fílar ekki Iceage. JD kóperar nánast gamla tónlist til þess að skemmta fólki: hann þakkar fyrir tónleikana og lofar að koma aftur. Iceage semja nýmóðins tónlist og virðast frekar vilja forðast áhorfendur: þeir segja ekki orð (nema til að reka ljósmyndara frá sviðinu) á milli laga allt giggið og pakka fýlulega niður á meðan fólk reynir að klappa þá upp.  Nýbylgjuskotið pönkrokkið átti það þó sameiginlegt með rokkabillýinu að koma fólki á hreyfingu, hins vegar með örlítið aðferða svo að öryggisverðir staðarins sáu sér þann einn kostan færan að standa á milli pittsins og rólegri áhorfenda. Einstaklega hressandi.

Sögur voru komnar á kreik að James Murphy úr LCD Soundsystem myndi þeyta skífum á Kaffibarnum eftir giggið sitt á Faktorý og ég stefndi því þangað. Eftir því sem ég best veit reyndast þetta hins vegar ekki vera satt en svo gæti það allt eins að hann hafi verið þarna. Maður getur bara höndlað ákveðið magn af tónlist á dag – og ég var hættur að hlusta.

Airwavesdagbók Guðmundar: Föstudagur

Ég skyldi við vini mína fyrir utan NASA klukkan hálf-tíu. Þau ætluðu sér inn að sjá Young Magic. Það hafði upphaflega verið planið mitt líka, en þar sem hin örstutta pressuröð hreyfðist ekkert þá ákvað ég að sjá eitthvað í stað þess að standa fyrir utan í kuldanum. Lay Low var að byrja eftir smástund. Var það eitthvað? Ég hef áður skemmt mér ágætlega á tónleikum með stúlkunni. Hví ekki að freista gæfunnar aftur?

Ég lagðist því leið mína inn í Iðnó. Keypti mér flöskubjór á uppsprengdu verði og kom mér fyrir aftarlegar, voða spekingslegur á svip. Á tónleikunum lék Lovísa ný lög í bland við eldri. Hún á marga eldri smelli – en nýja efnið hljómar bara enn smellnara. Sjálfur hef ég ekki heyrt Brostin streng, nýju plötuna hennar, en lögin sem hún spilaði þarna hljómuðu bara déskoti vel. Mér varð hugsað til þess þegar ég sá hana fyrst spila; þetta var í porti þar sem verslunin Illgresi stóð. Þar var hún ein með kassagítar, feimnisleg að sjá og fámál á milli laga. Það er óhætt að segja að hún hefur vaxið mikið og dafnað sem tónlistarkona. Á tónleikunum var hún í góðu sambandi við áhorfendur, flutti tónlistina af innlifun og virtist hafa alveg jafn gaman af og áhorfendur. Hún er flottur performer og sýndi það og sannað þarna. Vel gert!

Ár og öld eru liðin síðan ég hef farið á tónleika með Megasi; held að það hafi verið síðast á NASA hérna um árið þegar hann lék Loftmynd í heild sinni. Það vildi svo heppilega til að Megas var u.þ.b. að hefjast þegar Lay Low lauk sér af. En eitthvað verð ég þó að bíða lengur eftir að sjá meistarann því hann sá sér ekki fært að mæta þetta kvöldið. Á sviðinu í Tjarnabíói sat tónlistarkonan Sóley, studd af trommara, og tilkynnti mér þetta. Ég hlýddi þó á nokkur lög; hafði gaman af en var svolítið svekktur yfir að Sóley væri ekki Megas.

Klukkan var að verða ellefu þegar ég snéri aftur á NASA. Röðin orðin enn lengri, enda margir vafalaust spenntir fyrir að sjá Tune-yards. Ég komst fljótt að því að röðin hafði hreinlega ekkert færst áfram síðustu tvo tímana. Vinir mínur voru staddir á nákvæmlega sama stað og ég skildi við þá: fimm metrum frá innganginum.

„Þetta er fáránlegt!“ „Við nennum þessu ekki lengur . . .“ „Dyravörður – afhverju segir þú ekki fólki að þú ætlir ekki að hleypa þeim inn?“ „Fokkðis – förum á Ham . . .“

Sjálfur hefði ég kannski komist inn, enda fékk ég fríkeypis band frá Airwaves sem hleypti mér fram fyrir röð. En á þessum tímapunkti fannst mér það bara ekki viðeigandi. Þarna var samankomið fólk sem hafði pungað út tæpum 17.000 krónum en þurfti samt að bíða tvo tíma í skíta-október-þræsingi. Og var engu nær að fá það sem greitt var fyrir dýru gjaldi. Já, fokkðis. Ég fór á Ham.

Áður en gengið var inn í Hafnarhús var tekið pittstopp á Bakkusi; fólk var þyrst, þreytt og þurfi. Þar inni var eitthvað band að leika músík sem ég veitti enga athygli.  Við teyguðum bjórinn nokkuð örugglega og bölsótuðumst út í hátíðina. Vissulega sumir meira en aðrir. Þetta var toppurinn á kvöldinu hjá flestum sem voru með mér – þ.e. þeim sem ekki fóru á Ham. Ég held að við höfum síðan klárað kolluna á svipuðum tíma og Dungen kláraði settið sitt.

Í mátulega stöppuðu Hafnarhúsi stigu nokkrir fúlskeggjaðir, miðaldra menn á svið. Þeir léku þungt rokk með greinilegri vísun í níunda áratuginn. Flestir þeirra starfa við músík í hjáverkum. Þeir gáfu út plötu fyrir skemmstu, en einhver tuttugu ár eru síðan síðasta skífa þeirra leit dagsins ljós. Samanlagður aldur meðlimir myndi telja, samkvæmt nákvæmum útreikningum, samanlagaðan aldur þrettán fullskipaðra Retro Stefson-hljómsveita. En. Það var þessum mönnum sem tókst að veita mér bestu tónleikaupplifun hátíðarinnar. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um þetta: Ham voru þrusuþéttir, þungir og viðbjóðslega skemmtilegir. Ungir sem aldnir, stutthærðir sem síðhærðir, þeyttu höfðinu með krampakenndum hreyfingum. Mikil stemningin, mikil snilld. Sjáið bara:

Þetta kvöld var ekki farið á fleiri tónleika. Útivera og raðamenning heilluðu bara hreinlega ekki. Við vildum vera inni – og helst í einhverri óreiðu. Þetta kvöld hafði orðið eitthvað sem það átti alls ekki að vera; og ég er nokkuð viss um að ég var ekki einn um líða þannig. Ham björguðu þessu þó og vil ég þakka þeim kærlega fyrir að vera til. Ó, Ham, þið eru svo sannarlega dýrðlegar skepnur!

Myndir teknar á lélegan Nokia-síma sem er í eigu greinarhöfundar.

Airwavesdagbók Kristjáns: Föstudagur

16:35 Just Another Snake Cult á Kaffistofnni Hverfisgötu. Hrópandi hippar að spila sörfað skrýtipopp. Vildi að ég væri þau.
17:05 Bíð eftir Sindra Eldoni á Kaffistofunni. Gigginu er hins vegar frestað á síðustu stundu.
17:15 Sé Mammút spila nokkur lög  í kjallara á Laufásvegi. Lofthæð 2,30 m.
17:45 Hitti sæta stelpu, spjalla við hana.
18:05 Hlusta á Rakeli Mjöll og Gabby Maiden spila nokkur sæt úkúlelelög í Nýlenduverzlun Hemma og Valda.
19:15 Kíki á Gang Related á Amsterdam. Sindri Eldon stendur við barinn. Gang Related hljóma ágætlega en valda mér smá vonbrigðum. Kannski er ég bara með hugann við eitthvað annað. Verð líklega að gefa þeim annan sjéns seinna.
19:27 Sæta stelpan hringir. Spyr hvað planið sé í kvöld.
19:30 Fæ mér kjúklingadöner og kaffi á Ali Baba
19:40 Á leiðinni í bílinn lendi ég í rigningarstormi. Gegnblautur.
19:55 Fer í leikhús. Síðasta sýning á Zombíljóðunum.
21:47 Mæti í röðina á NASA – hún nær að miðju Alþingishúsinu.
21:49 Hitti gott fólk í miðri röðinni. Spjalla þangað til að ég er orðinn viðurkenndur hluti hópsins.
22:09 Röðin gengur ekkert.
22:11 Næ að nota menntaskólaþýskuna mína til að small-talka við þjóðverja.
22:14 Sæta stelpan mætir. Hún treður sér líka inn í röðina.
22:30 Röðin gengur ekkert.
22:45 Ákveðum að hætta þessu rugli og fara yfir í Iðnó.
22:51 Whiskí – 1000 krónur.
22:54 Puzzle Muteson spilar lágstemmda tónlist. Fólk talar hátt. Enginn virðist vera að hlusta.
23:30 Owen Pallett byrjar.
23:34 Owen Pallett er frábær.
23:39 Ég laumast til að taka í hendina á sætu stelpunni
23:46 Owen Pallett verður bara bakgrunnstónlist þegar ég tek utan um sætu stelpuna. Langar að kyssa hana en ákveð að það sé ekki við hæfi.
Síminn deyr og tímaskyn hverfur.
Owen Pallett er búinn. Ég kaupi mér bjór og kjúklingasamloku.
Gleymi að sjá Oy af því að ég er að kenna skoskum manni að segja ,,heftari“. Heyrði seinna að hún hefði verið frábær: hljóðtilraunir með blöðrur, brúður og lög um náin kynni lítilla barna. Hljómar áhugavert.
Annar bjór.
Útidúr byrja að spila. 12 manns. Það heyrist ekkert í söngkonunni.
Þau eru að blanda house-tónlist við hið hefðbundna stuðkrúttindípopp sitt. Ég dansa.
Iðnó er lokað.
Ennþá smá röð á NASA.
Sæta stelpan ætlar ásamt öðrum á Faktory. Ég fylgi. Fæ smók af blárri sígarettu. Merkilegt.
Á Faktorý er mikil röð. Þar er Kasper Björke víst að þeyta skífum. Fólk dansar á fótboltabilljarðborðinu fyrir utan staðinn. Við bíðum lengi.
Ölvun er horfin. Sæta stelpan segist vera þreytt.
Ég er líka þreyttur.
Förum heim.
Kemst að því að hafi ekkert pælt í tónleikum kvöldsins. Verð víst að skálda eitthvað upp fyrir Rjómann á morgun.

Airwavesdagbók Guðmundar: Fimmtudagur

Eftir sjávarrétti og hvítvín í góðra vina hópi héllt ég út í kvöldið í mínu fínasta pússi. Eða svona næstum því. Eitthvað áttum við erfitt með að ákveða hvað skildi sjá en fljótlega var stefnan sett á Norðurljós Hörpunnar. Rétt rúmlega níu steig dúettinn Fig á stokk. Í stuttu máli voru vonbrigðin jafn mikil og eftirvæntingin hafði verið. Ég er mikil aðdáandi Wilco og veit fyrir víst að herra Cline hefur verið að gera eitursvala hluti utan þess. En tilraunirnar sem hann gerði hér með japönsku samstarfskonu sinni voru álíka áhugaverðar og það sem fram fer í tónmennt í fjórða bekk. Eftir 15 mínútur af undarlegu gítargutli og effektafikti gafst ég upp og labbaði út. Afsakið frönskuna mína; en þetta sökkaði. Annars getið þið séð stutt brot af tónleikunum hér að neðan. Það hefði nægt mér.

Fig @ Airwaves ’11


Fyrir forvitnis sakir ákvað ég að rölta niður í Kaldalón þar sem arftakar krúttsins, Pascal Pinon, voru að spila sitt lágstemmda popp. Stúlkurnar gerðu sitt vel og lítið hægt að kvarta undan frammistöðu þeirra. Stemningin var ofboðslega notaleg og tónar og textar einkar hugljúfir. Ég var að koma inn í þennan sal í fyrsta skipti – og kunni vel við mig þarna. Nálægðin við bandið gerði þeim stöllum bara gott. Þær gætu þó talað svolítið hærra og skýrar á milli laga; en ætli þessi feimni sé ekki hluti af sjóvinu.

Áður en ég kom mér inn í Hafnarhús ákvað ég að taka stuttu stopp á NASA. Þar voru Young Galaxy að framreiða tóna – og mikla eðaltóna! Hljómur bandsins var virkilega flottur og slípaður og rafmettað popprokkið leikið af miklu öryggi. Karl og kona (hjón að mér skilst) skiptust á að syngja og harmoneruðu þau vel saman. Við hlýddum á einhvern þrjú lög yfir staupi af Fernet Branca; og höfðum bara mjög gaman af. Efnileg sveit hér á ferð.

Beach House. Já, Beach House var án nokkurs vafa það besta sem ég sá þetta kvöldið. Sveitin lék lög af síðustu tveimur plötum sínum við mikinn fögnuð tónleikagesta. Flutningurinn var óaðfinnanlegur og lagavalið frábært. Sviðsframkoman var svöl og sjarmerandi, kannski ekki persónuleg eða einlæg – en það gerði ekkert til. Ég hafði gert mér í hugarlund að Victoria Legrand væri þessi hlédræga, dularfulla týpa en hún virtist í miklu stuði þar sem hún þeytti flösunni hressilega og heillaði lýðinn upp úr skónum eins og sírena með söng sínum. Hljómurinn var góður þetta kvöldið í Hafnarhúsinu og vel staðið að lýsingu. Ég labbaði út alsæll. Svona á þetta að vera!

Áður en haldið var heim í koju var tekið pittstopp á Amsterdam. Hin norska Deathcrush var síðasta sveit á svið. Aftur virtust spádómsgáfur mínar bregðast mér; þetta var bara frekar slæmt gigg. Flutningurinn alls ekki nógu góður – sándið flatt og leiðinlegt. Hálfgerð óreiða, og þá á slæman hátt. Lítið hardkor á þessu svæði.

Framhaldið? Ég ætla ekki að taka neina sénsa í kvöld heldur tippa á það sem hefur öruggasta stuðulinn. Tune-yards lofar góðu, borgarpólitíkusarnir í HAM ættu að vera gott aksjón og Prinsinn Póló er iðulega hress. Einhvern nefndi stuðbandið Totally Enormous Extinct Dinosaur – er það eitthvað? Sjáum til.

Þess verð ég að geta að myndirnar voru teknar af öðlingnum honum Benjamin Mark Stacey.

Airwaves dagbók Kristjáns: Fimmtudagur

Dagurinn minn byrjaði í 12 tónum þar sem söngvaskáldið Þórir Georg bar tilfinningar sínar ofur-hreinskilnislega á borð að venju. Textarnir eru núna allir á íslensku og finnst mér það vel. Það virtist heldur ekki trufla dolfallna útlendingana. Það er synd og skömm að Þórir skuli ekki vera að spila á hátíðinni ár en hann hefur verið fastagestur síðustu árin. Eftir innilegt lokalag Þóris hitti ég óvænt góða vini sem sögðu mér að þeir færu að fara spila á sínum fyrstu tónleikum í plötubúðinni eftir nokkrar mínútur. Ég ákvað að staldra við.

Sonic Youth bolur trommarans og ítrekaðar ábendingar söngvarans um að hækka í öllu gáfu vísbendingar um hvað væri í vændum. Tónlistin var einhvers konar twee-shoegaze með stráka-stelpu dúettasöng . Hljómsveitir eins og My Bloody Valentine, Sonic Youth og jafnvel Deerhof og Brian Jonestown Massacre komu fyrst upp í hugann. Lögin lofa ótrúlega góðu og þrátt fyrir að hljómsveitin, sem kallar sig í augnablikinu O-Yama (ekki endanlegt nafn þó), hafi einungis spilað saman í tvo mánuði gengu tónleikarnir mjög vel. Meðlimirnir eru enda engir nýgræðingar og hafa gert garðinn frægan m.a. með rokkböndum á borð við Me, The Slumbering Napoleon, Fist Fokkers, Skelkur í Bringu og Swords of Chaos. Óvænt og alveg ótrúlega ánægjuleg uppgötvun og mæli ég sterklega með að þið fylgist með þessu bandi á næstunni. Ánægjan með þetta nýja band var svo mikil að ég steingleymdi að fara að sjá annað band spila sína fyrstu tónleika: drungapönkbandið NORN. Ég vona innilega að sú sveit muni spila aftur á næstunni.

Næstu viðkomustaður var Eldborgarsalur Hörpunnar þar sem Sinfóníuhljómsveit Íslands, undir stjórn Daníels Bjarnasonar, spilaði tónlist Valgeirs Sigurðssonar úr kvikmyndinni Draumalandið. Tónleikarnir hófust á ,,Grýlukvæði”, stórskemmtilegu þjóðlagi sem bandaríkjamaðurinn Sam Amidon syngur á íslensku. Valgeir, skeggjaður og klæddur í síða svarta kuflslega skyrtu og víðar buxur, minnti helst á japanskan ninjameistara þar sem hann sat spakur á bakvið tölvu og sá til þess að allt færi eðlilega fram. Fyrir utan fyrsta lagið voru verkin að mestu leyti, eins og kvikmyndatónlist er venjulega, fljótandi tilfinningaþrungin bakgrunnstónlist með stöðugri uppbyggingu. Tónlist Valgeirs reynir að draga fram andstæðurnar milli íslenskrar náttúru og stóriðjunnar sem draumaland markaðarins byggir á. Stundum komu því inn lífrænir industrial taktar sem minnti á hina hlið peningsins. Einstaklega glæsilegt.

Nú varð ég að taka ákvörðun um hvort að ég ætti að fara og standa í röð til að ná Beach House í Hafnarhúsinu eða að sjá Víking Heiðar leika verk Daníels Bjarnasonar ,,Processions“ og ,,Birting“ með Sinfóníunni. Ég ákvað að halda mig í Hörpunni og sá ekki eftir því.

Það gleður mig alveg rosalega mikið að Airwaves-hátíðin skuli vera að færa út kvíarnar og auka fjölbreytnina í tónlistarvali. Á síðustu árum hafa klassísk tónlist og alternatíf popptónlist verið að blandast saman m.a. með listamönnum á borð við Ólaf Arnalds, Nico Muhly og öllu Bedroom Community genginu. Þessir listamenn eru að nýta sér ákveðna hluta fagurfræðinnar úr tilraunakenndu alternatífu poppi til að búa til ný-klassíska tónlist og svo klassískari útsetningar til að styðja við popplagasmíðar. Því er innkoma Sinfóníunnar á indítónlistarhátíð á einhvern hátt mjög eðlileg. (Nú vantar bara vettvang á hátíðinni fyrir enn tilraunakenndari tónlist, hvar eru t.d. tónskáldin úr S.L.Á.T.U.R.?)

Tónlist Daníels Bjarnasonar er á vissan hátt aggressífari heldur en tónlist Valgeirs. Daníel skapar ofboðslega mikla dýnamík í verkunum með því að nýta sér andstæður lágra píanónóta og sínfónísks hávaða.  (Vá, maður er aleg týndur þegar maður reynir að skrifa um klassíska tónlist, engin bönd til að vísa í, maður þekkir ekki stílana og getur þar af leiðandi ekki lokað listina í kassa.) Daníel dansaði fagmannlega um með sprotann og stjórnaði áslætti, strengjum og blásturshljóðfærum sem spiluðu öll vegamikil hlutverk. Aðalleikarinn var þó Víkingur Heiðar sem var stórkostlegur. Píanóleikurinn stundum allt að því manískur og fyrir óvant eyra jafnvel falskur. Slíkt skapaði því sterkt tilfinningalegt viðbragð. Ryþminn í píanóleiknum var fastur og Víkingur Heiðar sagði víst að síðasti hluti ,,Birtinga” væri teknó… eins og það ætti að vera. Stórkostlegt.

Það var reyndar alveg ofboðslega pirrandi að fólki var hleypt inn löngu eftir að tónleikarnir hófust og trufluðu sífellt ráp upplifinina að einhverju leyti.

Eftir Sinfóníuna lagði í að stað í átt að Hafnarhúsinu. Þar náði röðin u.þ.b. að Kolaportinu, en þar sem ég var vel búinn (húfa og regnstakkur) lét ég mig hafa það. Hálftíma seinna hafði myndast mikil útilegustemmning í röðinni: þjóðverjar buðu upp á hnetur og fólk var sent í bjórleiðangur á Zimsen. Hins vegar sá ég ekki fram á að ná inn á tónleikana fyrr en langt yrði liðið á giggið svo ég lét mig hverfa til að sjá Sin Fang enn einu sinni.

Hvítklædd og ofvirk Caged Animals voru að slá síðasta tóninn þegar ég gekk inn í Iðnó. Ég keypti mér bjór og beið.

Það er orðin svolítil hefð fyrir því að nefna letilegt fas Sindra þegar skrifað erum Sin Fang. Ótrúlegt en satt þá virtist hann reyndar bara frekar hress og brosmildur í þetta skiptið þó að míkrófónstatíf hafi ekki höndlað að halda uppi öllum þrem míkrófónunum hans. Upphafslagið var ,,Clangour and Flutes” og kom mjög vel út með klappi hljómsveitarinnar sem taktmæli. Mér finnst ég stundum hafa séð Sin Fang betri og nýja lagið þeirra virtist svolítið stirt. En ágætir tónleikar hjá Sin Fang eru þó betri en góðir hjá flestum böndum.

Ég náði síðustu þremur lögunum hjá Fist Fokkers. Vafnir inn í jólaseríur voru þeir að hamast á Sinead O‘Connor með sinni útgáfu af ,,Nothing Compares 2 U”. Svo renndu þeir í kóver af Kelly Clarkson og Beastie Boys með miklum krafti. Hljóðmaðurinn reyndi að taka þá úr sambandi en lýðurinn trylltist. „Besta band á Íslandi“ sagði einhver í krádinu. Og ég get alveg tekið undir það að Fist Fokkers eru eitt skemmtilegasta tónleikaband landsins.

Einhver hafði sagt mér að Space Chiefs 3 sem lokuðu kvöldinu í Iðnó, spiluðu Balkan-metal og annars staðar hafði ég heyrt að bandið innihéldi meðlimi Mr.Bungle. Það var því ekkert annað í stöðunni en að stökkva aftur inn í Iðnó og athuga hvað væri í gangi. Space Chiefs voru klæddir í svarta hettukufla og með fiðluleikara með dulu fyrir andlitinu. Hljómsveitin bauð svo upp á einhverja geðsturluðustu tónleikaupplifun sem mögulegt er. Hún tók rúnk-attitúd Fusion tónlistar yfir á annað level með því að bræða saman austræna þjóðlagatónlist, balkanbrjálæði, hryllingsvestramúsík og grjótharðan sýrumetal. Ég varð líkamlega þreyttur af þvi að horfa á átök fiðluleikarans og andlega þreyttur af endalausri keyrslunni. Ég vissi ekki hvort ég ætti að hlæja eða gráta. Þó að tónlistin sé ekki eitthvað sem ég myndi skella á fóninn heima var þetta svo sannarlega þess virði að upplifa.

Mynd 1: Reykjavík Grapevine – Mynd 2: Alexander Matukhno – Mynd 4: Katrín Ólafs