Airwavesdagbók Daníels: Miðvikudagur

Það var ljúft að klára vinnuna þennan daginn. Þó þreytan væri þónokkur eftir erfiði dagsins, fylltist líkaminn gleði og hamingju yfir því að hátíðin væri loksins að hefjast. Frekar slæm ýsa í raspi var gleypt á Hressingarskálanum með góðum vin og haldið var í átt að óreiðu (stolið? neinei..). Á meðan kórbræður höfundar kyrjuðu ættjarðarlög í Hljómskálanum, undirbjuggu tónleika á Kaffibarnum og supu smá mjöð, ákvað höfundur að kynna sér opnunarkvöld hátíðarinnar og hafa það náðugt í faðmi íslenskrar tónlistar, mannmergðar og þetta kvöldið; grenjandi rigningar. Leiðin lá á hin nýenduropnaða Gauk á Stöng þar sem útgáfufyrirtækið Geimsteinn hugði á kynningarkvöld.

Eldar – Gaukur á Stöng

Eldar er samstarfsverkefni þeirra Valdimars Guðmundssonar (Valdimar) og Björgvins Ívars Baldurssonar (Lifun/Klassart) og koma þeir frá Keflavík. Það var suðurnesjastemmari á Gauk á Stöng þegar bandið tók á svið en kvöldið, tileinkað útgáfufyrirtækinu Geimsteini, hafði lagt staðinn undir sig þetta kvöldið. Ekkert nema gott mál. Húsið var hálffullt/hálftómt (fer eftir því hvernig er litið á það) þegar hinn geðþekki söngvari Valdimar kynnti sveitina. Þeim til halds og trausts (meðlimir hugsanlega?) voru nokkrir vinir en þar á meðal voru þeir Stefán Örn úr Buff og Lights on The Highway, Sigtryggur Baldursson (þúsundþjalatrymbill/Sykurmolarnir) og ein Fríða Dís úr Klassart. Samhljómurinn var frábær og treginn var mikill. Textar á íslensku og rómantísk melankólía sveif yfir vötnum. Hljómsveitin skilaði vel af sér og Valdimar sló við nýjan tón og hvarf í smástund frá sinni samnefndu hljómsveit í allt annan heim. Mjög gott mál. Einnig skemmdu ekki fyrir þær harmoníur sem þau Stefán Örn og Fríða Dís framkölluðu ásamt Björgvini. Allt í allt mjög heilsteypt en ef slípað er ögn betur gæti þetta verið næsta stórsveit landsins. Von er á breiðskífu frá sveitinni í nóvember og að sjálfsögðu kemur hún út á Geimsteini. Mun hún bera heitið (ef höfundi minnir rétt), Í Nálægð og Fjarlægð eða Nálægð/Fjarlægð. Bæði betra.

Klassart – Gaukur á Stöng

Eftir erfiðan vinnudag getur verið gott að hressa sig aðeins við. Þó er það vart í höndum meðlima Klassart að gera slíkt. Örlítið fækkaði í salnum en á sviði stigu meðlimir og smurðu í yndislega mjúkt og gott kántrýskotið blús/popp sem passar vel við smá viský og rigningu. Flutningurinn var góður og einlægðin greinileg. Hljómsveitin hefur stimplað sig vel inn í tónlistarlífið hérlendis og þá einna helst með laginu Gamli grafreiturinn sem tröllreið öldum ljósvakans hér um árið. Því fór þó miður, að fætur toguðu í sætaröð eða jafnvel sófa og var því ákveðið að yfirgefa húsið eftir aðeins tvö lög. Hugsanlega finna sér stað þar sem hægt væri að humm-a tóna bæði Klassart og Elda og um leið safna kröftum fyrir komandi kvöldstund/ir. Báðar sveitir þóttu þó afbragðsfærar í sínu en hefðu líklegast sómað sér betur þar sem gestir hefðu getað farið í setusleik í stað þess að liggja á gólfinu og fara í laumusleik. Eða hvað? Gólf er kannski bara meira spennandi.

Eftir huggulegheit Geimsteins var leiðinni haldið á Nasa við Austurvöll. Hið farsæla útgáfufyrirtæki Record Records hafði hersetið húsið þetta kvöldið og hugði á sigur. Var það bæði skemmtileg og furðuleg reynsla að labba inn á Nasa gjörsamlega stútfullan svona snemma kvölds á miðvikudegi.

Lockerbie – Nasa

Undanfarin ár hafa sveitir sem leika snemma á Nasa við Austurvöll á miðvikudegi í þurft að sætta sig við hálftóman/hálffullan sal af gestum en þetta kvöld var raunin allt önnur. Varla var hægt að fóta sig þegar inn í salinn var komið þar sem Lockerbie voru í miðju setti og gestir í fullkomnu jafnvægi. Eða svona næstum því. Lockerbie leikur post-rock/indie blöndu með brassi og var af nægu að taka. Þétt og flott keyrði sveitin í efni af frumburði sínum Ólgusjór og öryggið var gott. Sveitin er flott stadium band og sándið þeirra skilar sér einkar vel í þéttum og stórum sal af fólki. Hljómsveitir á borð við For A Minor Reflection og Hjaltalín koma upp í hugann þegar sveitin er upp á sitt besta og greinilega að áhrifavaldarnir eru bara af því fínasta. Ungt og efnilegt svo sannarlega og verður gaman að fylgjast með hvernig þessum drengjum gengur!

Mig hafði lengi vantað að sjá krakkana í Mammút en sveitin hefur farið frekar huldu höfði undanfarið og eytt tíma sínum í upptökur á væntanlegri plötu. Ég var frekar spenntur en ákvað að tylla mér aðeins í sófann á efri hæð Nasa og taka anda. Þegar hugljúf en þokkafull rödd Katrinu Mogensen færðist yfir í hátalarakerfi efri hæðarinnar, dreif ég mig niður.

Mammút – Nasa

Krakkarnir í Mammút tóku á stökk í múnderingu indjána (?) og fengu salinn gjörsamlega á sitt band. Ofursmellurinn Bakkus varð þriðja lag kvöldsins og stemmingin var frábær. Hljómsveitin var einnig verulega þétt og sándið alveg frábært! Þau eru svöl og vita það en sannleikurinn er sagna bestur og ekkert er um stæla. Gestir fíluðu Bang Gang ábreiðuna Follow og sýndu sveitinni að þeirra nærveru er verulega óskað við sem flest tilfelli. Æðisleg frammistaða og djöfull verður gaman að heyra afrakstur upptökuferlis krakkanna sem staðið hefur um þónokkurn tíma. Besta frammistaða þeirra hingað til að mínu mati en ekki hefði verið verra að heyra fleiri gömul með.

Sykur – Nasa

Stuð/partý/elektró-pop sveitin Sykur gaf nýverið út plötuna Mesópótamía og hefur fengið fína athygli fyrir vikið. Þó hefur sveitin verið á vörum dansþyrstra Íslendinga um þónokkurn tíma núna þrátt fyrir ungan aldur meðlima. Sveitin leikur 90´s blandað teknó á heimsklassa (fyrir þá sem fíla). Agnes Björt, söngkona sveitarinnar, náði að hrífa gesti með sér en fullt var útúr dyrum allt kvöldið á Nasa. Feikigóð söngkona sem gefur þessu fremur einfalda teknó-trans-dans-blandi aukið vægi og hjálpar til. Svona smá eins og Aretha Franklin og Florence Welch færu í trekant með tónlistarforriti á alsælu með sleikjó…eða já. Fínt, flott en ekki alveg minn tebolli. FM Belfast söngvarinn Árni Rúnar átti einnig skemmtilega innkomu í laginu Shed Those Tears. Það var gaman.

Agent Fresco – Nasa

Það er alltaf mikil eftirvænting eftir tónleikum Agent Fresco. Oft er það eins og að bíða eftir geggjuðum mat í ofninum eða jafnvel huggulegri píu til að fara úr að ofan eftir annars ágætis kvöld. Þetta skiptið var þó fremur dræmt. Maturinn var hálf brunninn og hugsanlega var þessi gella ekkert gella. Að öllu gríni slepptu voru þetta mikil vonbrigði. Hljómurinn var skrýtinn og lögin virtust bæði hægjast niður og hraðast upp á handahófskenndum augnablikum og ein af mest spennandi sveitum landsins var bara ekki nægilega þétt. Agent Fresco hafa fyrir löngu síðan hrifið undirritaðan á sitt band og séð til þess að andlegri alsælu sé fullnægt oftar en einu sinni en í þetta skiptið var ákveðið að fara snemma. Hugsanlega er þetta tengt þreytu, yfirfullum sal af fólki eða annarskonar streitu miðrar viku en ég held því miður ekki. Drengirnir áttu sína spretti en það dugði ekki til og kvaddi ég Nasa fremur súr þetta kvöld. Sveitin hyggur á frekari framkomur á Airwaves í ár og mun ég sannarlega gefa þeim tækifæri til að sannfæra mig á nýjan leik. Svo sannarlega.

Nokkur kvöld eftir og allt að byrja. Stundum eru hlutirnir ekki þeir sem maður vonaðist eftir og stundum eru þeir betri en allt annað sem hægt er að ímynda sér. Höfundur er viss um að komandi tónleikar, uppákomur og glens Iceland Airwaves 2011 eigi eftir að framkalla hjartayl, bros og eintóma gleði á komandi dögum. Áfram Airwaves, gleðilega hátíð og skál!

Nýtt myndband frá Who Knew

Hér er nýjasta myndbandið frá hinni frómu sveit Who Knew og er það við lagið “Tranquility”. Einar Baldvin Arason leikstýrði, myndataka var í höndum Hákons Pálssonar og Ármann Ingvi Ármannsson framleiddi.

Who Knew spila á Airwaves á föstudaginn á Gauk á Stöng klukkan 22:30.

Airwavesdagbók Kristjáns: Miðvikudagur

Gamalt fólk kvartar oft mikið. Hlutirnir voru víst alltaf betri í gamladaga. Það er erfitt að meta hvort manns eigin neikvæðni byggist á sömu tilfinningadrifnu og röklausu nostalgíu, eða hvort að stundum hafi hlutirnir einfaldlega verið betri áður fyrr.

Ég fór fyrst á Airwaves árið 2005. Þetta var á þeim tíma sem ég fór á alla tónleika sem táningi var hleypt inn á í Reykjavík og nágrenni. Ég fékk skilríki lánuð frá bróður vinar til að komast á hátíðina. Airwaves var alsæla, endalaust mikið af böndum – það skipti ekki máli hvort það var The Zutons eða I Adapt eða hvað sem er: Allt fannst mér stórkostlegt. Í dag myndi ég hins vegar eflaust fússa yfir því að The Zutons væru bókuð á hátíðina og standa svo aftast með krosslagðar hendur á I Adapt tónleikum.

Kannski er maður orðinn lífsreyndari, eða kannski bara meira anal og ömurlegur, en þegar ég lít yfir prógramið í ár og hlusta á listamennina sem munu spila er hins vegar óóósköp fátt sem vekur upp vott af eftirvæntingu. Hjá erlendum listamönnum hefur einhver óspennandi synthadrifinn og dansvænn indírokkpúki smám saman tekið yfir alla tónlistarsköpun – eða þannig virkar það allavega.

Og þrátt fyrir að það séu alveg rosalega margir íslenskir listamenn að gera mjög góða, flotta og skemmtilega hluti, þá er alveg fáránlega lítið nýtt í gangi. Sérstaklega fyrir þjóð sem þreytist ekki á því að monta sig yfir eigin tónlistarmönnum og viðheldur öllum mýtum um yfirskilvitlegt samband óspilltrar náttúru og tilraunakenndrar listsköpunar. Þvert á það sem umheimurinn heldur vantar nefnilega einhverja almennilega greddu og raunverulega frumlega sköpun í íslenska tónlist í dag.

Nú ætla ég alls ekki að kenna Airwaves hátíðinni um þessa þróun. (Ég segi þróun af því að ég held að þetta hafi ekki alltaf verið svona. Krúttið var t.d. uppfullt af listrænni greddu (mjög passífri jú) og ákaflega nýrri sköpun. Harðkjarnasenan hefur oft verið mjög spennandi og það sem stundum hefur verið kallað Póst-krútt – þ.e. FM Belfast, Retro Stefsson o.s.frv. – var eitthvað nýtt og áberandi spennandi fyrir þremur árum. Líklega kemur þetta bara í bylgjum. Þekktur breskur útvarpsmaður segir víst t.d. nóg að koma á hátíðina á þriggja ára fresti til að uppgötva eitthvað nýtt.) Stundum læðist hins vegar að mér sá grunur að þrátt fyrir öll þau jákvæðu áhrif sem Airwaves-hátíðin hafi haft á tónlistina í landinu, eigi hún líkan örlítinn þátt í geldingu íslenskrar tónlistarsköpunar.

Fyrir nokkrum árum sá ég góðan vin minn spila á Airwaves-tónleikum með frábærri hljómsveit. Tónleikarnir voru hins vegar hræðilegir. Það voru aðallega útlenskir blaðamenn á staðnum, en bara nokkrir aðdáendur. Hljómsveitin spilaði ofboðslega illa en einbeindi sér mest að því að líta vel út fyrir myndavélarnar. Nú leggur þessi vinur minn ekki neitt sérstaklega mikið upp úr því að meika það. En það er þessi óhjákvæmilega meðvitund listamannanna um tækifærin sem billjón útlenskir blaðamenn og útgefendur hafa í för með sér sem hefur, að ég held, vaxið með hverri hátíð. Auðvitað hefur það í för með sér meiri metnað af hálfu hljómsveitanna, en stundum finnst mér að það sé fyrst og fremst  metnaður til að láta mikilvægu fólki líka við sig.

Iceland Airwaves er bransahátíð og tónlistarbransinn, eins og allir aðrir bransar, snýst fyrst og fremst um pening – ekki fólk eða tónlist, áhorfendur eða tónlistarmenn. Ekki að það sé neinum ákveðnum aðila að kenna, fjárhagslegir hagsmunir flugfélags, útgáfufyrirtækja, tónlistarblaða og endalaust fleiri aðila gera það að verkum að svona ganga hlutirnir einfaldlega fyrir sig. Manni líður hins vegar oft eins og maður sé bara smurolía einhverrar stórrar maskínu. Við fáum jú að njóta ágóðans þ.e. tónleikanna og virðumst á yfirborðinu vera í aðalhlutverki. En ef maður skoðar þá staðreynd að Agent Fresco hafi launalaust  troðfyllt NASA og fengið hundruði gesta til að bíða í röð fyrir utan á besta tíma hátíðarinnar í fyrra og á sama tíma þurft að kaupa sér sinn eigin bjór til að svala þorstanum á meðan á giggi stóð (lítill flöskubjór NASA kostar btw 900 krónur) og þegar maður bíður í klukkutímaröð í skítaveðri á meðan blaðamenn og aðrir vinir hátíðarhaldara valsa inn og út, finnur maður greinilega fyrir eigin merkingarleysi í þessu samhengi. 

Kannski er þetta fyrirkomulag hið besta mögulega, og kannski á maður ekkert að vera að kvarta, en stundum finnst manni listin óhreinkast við þessi augljósu tengsl við peninga. Það er kannski óhjákvæmilegt , en just sayin… Þessar hugsanir herjuðu á mig allt miðvikudagskvöldið, fyrsta tónleikakvöld Iceland Airwaves 2011. Ég vonaði innilega að öllu mínu áhugaleysi og neikvæðu hugsunum yrði troðið aftur ofan í kokið á mér með einhverri listrænni flugeldasýningu.

Fyrsta band kvöldsins var Mammút á NASA. Þau voru í svaka stuði, þétt og aðlaðandi að venju og krádið fílaði þau greinilega í drasl. Tónlistin er í stöðugri þróun, og nú er hljóðgervill farinn að spila stórt hlutverk í nokkrum lögum. Bandið virtist vera að færa sig meira í yfir í myrkari og rafrænni átt (kannski svolítið í áttina að þeirri tónlist sem Austra er að gera). Þessi elektróníski bragur lætur Katrínu minna örlítið meira á Björk, en það hafa alltaf verið ákveðin element í söngnum sem virðast koma þaðan. Kover útgáfa af ,,Follow“ af Bang Gang kom svo mjög vel út með öskrum og óhljóðum.

Næst ætlaði ég að hlusta á Sóleyju Stefánsdóttur (úr Seabear og Sin Fang), sem að mínu mati er líklega áhugaverðasti ,,nýji“ íslenski listamaðurinn á hátíðinni. Röðin sem hafði myndast inni í Hörpunni var hins vegar gígantísk og ég ákvað að halda aftur út í óveðrið.

Á Faktorý spilaði nýtt íslenskt reggíband sem kallast Amaba Dama. Hljómsveitin virtist aðallega veruð skipuð meðlimum Ojba Rasta, en með kamelljónið Earmax a.k.a. Nagmús a.k.a Maximus a.k.a. Gnúsa Yones sem frontmann. Stemmningin var vel heit, svitinn lak af rúðunum og fólk dillti sér hæglátlega við tónana. Bandið var þétt og skemmtilegt á sviði en lagasmíðarnar frekar misjafnar. Frá koveri af Týndu Kynslóð Bjartmars til ofboðslega undarlegs lags um Bjössa Bollu og svo ágætis útgáfu af danshittara Gnúsa Yones ,,Fullkomna Ruglkona“.

IKEA SATAN er eitt skemmtilegasta hljómsveitarnafn hátíðarinnar. Hraðabreytingar, samsöngur og einstaka kaflar vöktu lukku en hljómurinn var þunnur  og í heildina var tónlistin sem hljómsveitin bauð upp á á Amsterdam bara frekar auðgleymanlegt bílskúrsrokk.

Til að slútta kvöldinu – HEY! – rölti ég yfir á NASA þar sem Of Monsters and Men voru hálfnuð með settið sitt – HEY! Það virðist vera svolítil lenska hjá böndum þessa dagana að safna saman fullt af fólki upp á svið í þeim tilgangi að bæta einhverju við  tónlistana – HEY! – en ef lögin kalla ekki hreinlega á það er það oftast óþarfi – HEY! Þannig var það með OMM sem mér finnst að ættu frekar að einbeita sér að því að mjólka tilfinningarnar sem þau eru að setja í lögin frekar en að búa til eitthvað über-kraftmikið show – HEY! Bandið var semsagt kraftmikið en vandræðalegt milli laga – HEY! – og visjúalið ágætt en bætti svosem engu við tónlistina – HEY! Slagarinn ,,Little Talks“ – HEY! – var lokalagið og sungu margir með, og óháð tilfinningum mínum gagnvart laginu verður það að viðurkennast að það er alveg óþolandi grípandi – HEY!

Fyrsta kvöld hátíðarinnar ár var engin listræn flugeldasýning, fátt nýtt eða frumlegt, en gott á sinn hátt. Kosturinn við að hafa litlar væntingar til hátíðarinnar er vonandi sá að maður verður allavega ekki fyrir neinum stórkostlegum vonbrigðum…

Airwavesdagbók Guðmundar: Miðvikudagur

Af stemningunni í miðbænum á miðvikudaginn mátti ráða að eitthvað var yfirvofandi. Eitthvað spennandi. Á hverju götuhorni tók við manni ný, erlend tunga og inn og út af öldurhúsum borgarinnar streymdu tæki og tól, hljóðfæri og fólk. Meira að segja í pottunum í Vesturbæjarlauginni mátti greina þetta, þar sem rithöfundar, tónlistarmenn og gamalmenni voru samankomin að spjalla um málefni líðandi stundar: Airwaves er að byrja. Tilfinning mín var sú að aldrei hafi fleiri útlendingar verið hingað komnir til að sjá, upplifa og heyra íslenska tónlist. Og dagskrá kvöldsins var svolítið eftir þessu; flestir listamennirnir voru íslenskir og marga hverja hafði maður séð spila oftar en einu sinni eða tvisvar. Ég tók því þann pólinn í hæðina að elta uppi það sem hafði áður framhjá mér farið.

Ég byrjaði kvöldið á Off-venjúi í boði Gogoyoko á Bar 11. Þar voru finnsku öldungarnir í 22-Pistepirkko að leika fyrir dansi. Ég ætla bara að gera hreint fyrir mínum dyrum; meiri tími fór í skeggræður yfir ölkrús en eiginlega inntöku á músík. Stundum náði bandið þó að grípa athygli mína með snjöllum gítarlínum og þokkaleg kraftmiklu rokkstuði svo samræðurnar voru settar á hold. Það er greinilegt að bandið hefur gert þetta lengi; virtist nokkuð öruggt í flutningi sínum en hafði mátt hafa meira gaman af þessu. Þó óhætt að mæla með að fólki kíki á þessa reynslubolta.

Pornopop voru næstir á dagskrá; aðrir öldungar sem ég hafði ekki séð áður. Pornopop samanstendur af tveimur bræðrum en þeim til halds og trausts voru Franz, úr Ensími, og Ingi Björn, bassa- og kyntröll. Tónlistin var áheyrileg; svona gítardrifið letirokk, minnti á köflum á American Analog Set. En framkoman var álíka letileg og tónlistin sjálf. Þeir spiluðu og sungu með lokuð augun; ekki af innlifun heldur frekar eins og þeir væru bara pínu þreyttir.

Á Faktorý voru það reggí-bönd Amaba Dama og Ojba Rasta sem áttu að slá botninn í tunnuna þar á bæ. Það fyrra hafði ég aldrei heyrt um áður, Amaba Dama, en það síðara er orðið landanum góðkunnugt. Það var vel hægt að dilla sér við Amaba Dama. Spilagleðin var í fyrirrúmi og sviðsframkoman lífleg; meðlimir klæddir fjöðrum og glingri. Því miður bliknuðu þau hinsvegar í samanburði við Rastana í Ojba. Bandið var þétt og vel spilandi, lögin grípandi og skemmtileg. Ekki skemmir fyrir að hafa Dubmaster innanborðs en hann gefur litríku bandinu enn meiri lit. Stemning var þar að auki orðin vel sveitt enda staðurinn stútfullur af fólk í miklu stuði. Því miður náði ég ekki að hlýða á tónleikana til enda því samverkamaður minn gerðist drukkinn og spjó. Ojbarasta!

Þetta kvöld var fínn forsmekkur fyrir það sem koma skal. Venjúarnir voru full fáir þetta kvöldið og því mynduðust raðir á ákveðnum stöðum. En þannig er það bara! Þar sem ég sit hér og rita þetta yfir kaffibolla finn ég vissulega fiðring fyrir kvöldinu í kvöld. Beach House er vafalaust það númer sem ég er spenntastur fyrir. Annars heilla norsku málmhausarnir í Deathcrush, kanadamennirnir í Young Galaxy og japansk-bandaríski dúettinn Fig. Þess má geta að Nels Cline, gítarsveinn Wilco, er annar helmingur Fig. Þetta verður eitthvað!

Þess má geta að myndum var stolið af Flickr-síðu Loftleiða og þær birtar án leyfis. Ég vona að ég fái ekki skömm í hattinn.

Artistar á Airwaves ´11: Árni Grétar (Futuregrapher)

Futuregrapher, sem greiðir skatt undir nafninu Árni Grétar Jóhannesson, hefur á undanförnum árum verið að stíga vel inn í íslenskt tónlistarlíf. Ferill þessa rétt tæplega þrítuga Tálknfirðings, hófst rétt fyrir aldamótin síðustu en Árni sat þá iðinn við raftónlistarsköpun ásamt langvini sínum Jónasi Snæbjörnssyni undir nafninu Equal. Þó Equal hafi liðið sitt skeið, lagðist Árni ekki í dvala og hóf að koma fram undir sviðsnafninu Futuregrapher nokkrum árum síðar. Plata hans Yellow Smile Girl vakti ágæta athygli árið 2009 en Árni vakti ekki síður athygli með nýjustu plötu sinni Tom Tom Bike, sem gefin var út í ár. Platan er gefin út af útgáfufyrirtæki Árna og Jóhanns Ómarssonar, Möller Records en saman hafa þeir félagar staðið fyrir vel heppnuðum Heiladans kvöldum á skemmtistaðnum Hemma og Valda undanfarið ár. Auk þessara tveggja platna hafa einnig komið út ágæt mix frá kauða (Acid Hverfisgata og Túngata) en báðar plöturnar (eflaust allar) eru taldar undir miklum áhrifum eins lærimeistara og liðins vinar Árna, Bjössa Biogen en Árni hefur aldrei farið leynt með það að hafa fengið mikla andlega og tónlistarlega aðstoð frá þeim liðna snilling rafsins.
Rjóminn hitti Futurgrapher á Kaffibarnum þar sem raftónlistin henti miðvikudegi Airwaves í gang og innti hann nokkurra svara.

DH: Hvernig kom það til að þú fórst að gera raftónlist, Árni?

ÁG: Ööööö….ég hafði mikinn áhuga á tónlist í gegnum pabba. Hann var alltaf að spila á gítar svona heima. Einn daginn kom hann með hljómborð heim. Nettan syntha. Þá var ég svona 13 ára og ég byrjaði eitthvað að fikta. Á sama tíma hlustaði ég mikið á The Prodigy og langaði að gera svona svipað og þeir. Ætli það hafi ekki verið byrjunarreiturinn.

DH: Þú heldur ansi villt partý þegar þú kemur fram. Hvað keyrir þig áfram í rokkinu?

ÁG: Adrenalínið og krafturinn frá gestum hvers kvölds. Ég er mjög meðvitaður um það þegar fólk er í góðum gír. Góðum partýfíling! Það er svona grunnurinn.

DH: Nú ert þú að vestan. Þú hefur aldrei íhugað að reyna að koma Fjallabræðrum inn í mixið?

ÁG: (Hlær). Ég þekki Dóra og Steinar úr kórnum mjög vel og nokkra aðra sömuleiðis. Fjallabræður eru að sjálfsögðu velkomnir í stúdíóið hvenær sem er!

DH: Hvað er annars framundan, Árni? Á að sökkva sér í útgáfur annarra og halda áfram því góða starfi eða á að halda góðu blandi af báðu í gangi áfram fram í eilífðar ró?

ÁG: Framundan er vinnsla á plötu sem átti að koma út í ár. Hún heitir Hrafnagil. Ég ákvað að seinka henni fram á næsta ár þar sem ég er að uppgötva nýjar aðferðir. Svo var ég auðvitað að gefa út TomTomBike nýlega og ætla að leyfa henni að lifa og gleðja aðeins lengur. Svo auðvitað verð ég með útgáfuna líka.

DH: Svona í lokin. Hvað hefur kveikt í þér einna mest við Airwaves í gegnum árin? Á að sjá eitthvað þrusandi stuð í ár eða jafnvel eitthvað allt annað?

ÁG: Það sem hefur kveikt mest í mér eru íslensku böndin! Þá sérstaklega nýgræðingar eins og í ár; Fu Kaisha t.d. sem ég hlakka mikið til að sjá. Yfirleitt eru íslensku böndin þau sem kveikja mest í mér. Svona þau sem ég þekki ekki. Uppgötvanir ef svo má kalla. Svo ætli ég reyni ekki að kveikja stemmarann í mér með því að sjá sem flesta nýgræðinga

Rjóminn þakkar Futuregrapher innilega fyrir spjallið og óskar honum og hans velgengni í komandi stríðum, leikjum og ástum.

Futuregrapher kemur fram á fimmtudagskvöldinu á Faktorý klukkan 23.40 ásamt fleiri góðum.

Futuregrapher – Tjarnarbiogen by Futuregrapher

Artistar á Airwaves ´11: Halli Valli (Æla)

Í gegnum árin hefur post-punk hljómsveitin Æla komið gestum Iceland Airwaves í fremur opna skjöldu en sveitin kemur nú fram í sjötta skipti á hátíðinni. Hvort sem það hefur verið í dragi, smóking, gallabuxum eða hænsnabúningum hefur söngvari sveitarinnar Hallbjörn Valgeir (Halli Valli) Rúnarsson leitt sveit sína í sveittum, öskrandi og yfirleitt þefjandi framkomum sem hlotið hafa athygli bæði hér á landi sem erlendis. Með frumburð sinn að vopni, Sýnið tillitsemi, ég er frávik, frá árinu 2006, hyggur sveitin á frekari frægð og vinnur nú að seinni plötu sinni sem beðið er í ofvæni. Auk Hallbjörns eru það þeir Sveinn Helgi (bassi), Ævar (gítar) og Hafþór (trommur) sem mynda Ælu.
Rjóminn settist niður með Halla Valla þar sem hann gerði klárt fyrir hátíðarhöld á sínu öðru heimili, Kaffibarnum og innti hann um hvað honum þætti mest spennandi við Iceland Airwaves hátíðina í ár og svona smávegis meira.

DH: Sæll Halli! Fáir vita söguna á bakvið þetta (oft óaðlaðandi) nafn, Æla. Segðu mér aðeins hvernig nafnið kom til og þið strákarnir fóruð að spila saman?

HV: Þetta er auðvitað spurning sem við fáum frekar oft sko. Þeir sem lesa heimasíðuna hjá hátíðinni fá í raunar afar rómantíska hugmynd af því hvernig við vinirnir ákváðum að stofna Ælu. Raunin er þó sú að hljómsveitin varð til fyrir einn bjórkassa. Við vorum beðnir um að stofna band til að hita upp fyrir sveitaballabandið Spútnik vegna sjómannaballsins í Sandgerði og við ákváðum að verða nettir uppreisnarseggir og stuða fólk aðeins með því að skíra hljómsveitina Ælu. Auk þess varð framkoman og þá klæðaburðurinn liður í því að stuða og hneyksla (ef svo má segja). Annað kom þó á daginn og hljómsveitin Æla átti eftir að draga mun betur að sér en Spútnik sem gerði það að verkum að stjörnur kvöldsins báðu Ælu að stíga af sviðinu eftir einungis tvö lög. Eftir þetta kvöld var ekki aftur snúið og við ákváðum að gera plötu.

DH: Hvað er að gerast í herbúðum Ælu þessa dagana? Þið fenguð ágæta athygli eftir síðustu hátíðir og fóruð m.a. erlendis og reynduð fyrir ykkur. Sömuleiðis hlutuð þið fína dóma fyrir framkomu ykkar á hátíðum liðins árs. Hvað er að frétta?

HV: Það hefur ansi margt drifið á daga okkar í einkalífinu. Barneignir, fráföll og önnur mál sem erfitt hefur verið að eiga við samhliða hljómsveitalífi. Í dag erum við þó allir klárir með nýja plötu og erum spenntir. Í raun er ekkert annað eftir en að ýta bara á REC eftir hátíðina og líta til framtíðar. Við erum bara ógeðslega spenntir og graðir fyrir framtíðinni og komandi Airwaves. Þó einna helst erum við spenntir fyrir því að sprengja stofuna hans Steinþórs (hlær).

DH: Þetta er sjötta árið ykkar sem hljómsveit á hátíðinni en hvað telur þú vera eftirminnilegast frá liðnum árum á hátíðinni (fyrir utan ykkar eigin heimsóknir)?

HV: Mér hefur alltaf fundist Blue Lagoon partýin mjög sæl minninga. Af erlendum listamönnum eru það líklega tónleikar The Fiery Furnaces árið 2005, The Rapture á Gauknum 2004 og vá, alveg hellingur af öðru. Hreinlega af allt of mörgu að taka!

DH: Já. Ég er sjálfur ekki frá því að The Rapture sitji vel í manni eftir öllu þessi ár! Takk fyrir spjallið en svona rétt í lokin; Hvað á að sjá í ár (Jú, fyrir utan Bláa Lónið)?

HV: Satt að segja hef ég ekkert náð að kynna mér listann í ár. Ég var þó frekar heppinn að sjá tUnE-yArds í Barcelona í sumar og mun ekki missa af henni. Dungen eru líka mjög spennandi en ég held að mín persónulegu plön miði að íslensku böndunum. Þar eru fremst á meðal jafningja Sin Fang, Cheek Mountain Thief, Reykjavík!, Sudden Weather Change og að sjálfsögðu Q4U! Jú og svo auðvitað Beach House. Þau eru frábær! Annars renni ég fremur blint í sjóinn líkt og fyrri ár og finnst það bara gaman.

Rjóminn þakkar Halla Valla innlitið og óskar honum og hljómsveit hans Ælu, góðs gengis á komandi Iceland Airwaves hátíð en Æla stígur á stokk á miðnætti á Café Amsterdam á sunnudeginum. Hljómsveitin kemur einnig fram á off-venue tónleikum Steinþórs Helga á heimili hans við Ingólfsstræti 8 á Live Project is House Party.

Aela on Icelandic Airwaves’10 from Thor Kristjansson on Vimeo.

Helgi Hrafn Jónsson gefur út Big Spring

Helgi er klassískt menntaður básúnuleikari sem útskrifaðist frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og hélt síðar í framhaldsnám í Graz í Austurríki. Hann hefur getið sér gott orð sem hljóðfæraleikari og samstarfsmaður hinna ýmsu listamanna, til að mynda Sigur Rós, Teit, Bedroom Community og Damien Rice en hefur aukinheldur verið duglegur að semja eigin tónlist og hefur gefið út þónokkrar plötur, síðast For the Rest of My Childhood (2008) við afar góðar undirtektir. Síðustu ár hefur Helgi Hrafn túrað vítt og breitt um heiminn, bæði með eigin hljómsveit, svo og dönsku tónlistarkonunni Tinu Dickow.

Big Spring inniheldur 12 lög og var tekin upp í Reykjavík og í Los Angeles. Helgi valdi meðspilara sína vel, en með honum á plötunni eru Þorvaldur Þór Þorvaldsson, Joel Shearer, Jonathan Estes og Tina Dickow. Fyrsta lagið sem fer í spilun er “Darkest Part of Town” sem hefur setið sem fastast á vinsældarlistanum í Þýskalandi síðan platan kom út þar. Big Spring er þegar farin að sanka að sér lofsamlegum dómum og fékk til að mynda 4 stjörnur í Rolling Stone Magazine og 5 stjörnur í danska tónlistartímaritinu Gaffa.

Framundan hjá Helga eru fjölmargir tónleikar. Þar ber fyrst að nefna Iceland Airwaves hátíðina, en Helgi spilar á fimmtudagskvöldið 13. október í Hörpu (Kaldalóni) kl. 23.20. Auk þeirra tónleika kemur hann tvisvar fram á svokölluðum ‘off-venue’ tónleikum, annars vegar í 12 Tónum Skólavörðustíg kl. 18.00 á föstudaginn og hins vegar á Bedroom Community tónleikum á Kaffibarnum kl 16.30 á laugardaginn.

Sólstafir með hlustunarveislu á Bakkusi

Rokkhljómsveitin Sólstafir stendur fyrir hlustunarveislu þar sem nýjasta platan þeirra, Svartir Sandar, verður spiluð í heild sinni fyrir utan eitt lag sem hljómsveitin mun spila “live”. Platan verður til sölu á staðnum og léttar veitingar í boði.

“Við erum mjög sáttir við viðtökurnar sem platan hefur fengið”, segir Sæþór Maríus Sæþórsson, gítarleikari hljómsveitarinnar, en nýjusta afurð Sólstafa hefur víða fengið fullt hús stiga hjá gagnrýnendum og fyrsta upplag er uppselt í forsölu. Platan kemur út föstudaginn 14. október í Evrópu og 18. október í Bandaríkjunum.

Fjöldi gesta úr ólíkum áttum koma fram á plötunni. Þar má nefna Gerði G. Bjarklind útvarpsþulu, Ragnheiði Eiríksdóttur úr Hellvar, Steinar Sigurðsson saxófónleikara, Halldór Á. Björnsson úr Esju (og Legend) og Hallgrím Jón Hallgrímsson sem áður var í Tenderfoot.

Hlustunarveislan verður á Bakkusi laugardaginn 15. október á milli kl. 18.30 og 20.00.

Sólstafir – Fjara

Kebab Diskó með Orphic Oxtra

Gróskan og sprettan í íslenskri plötuútgáfu er með ólíkindum og eykst jafnt og þétt eftir því sem nær líður að Mammonshátíðinni Jólum. Hér verður fjallað um eina ágætis plötu sem var að koma út og geta lesendur bölvað sér uppá að fjallað verður um fleiri slíkar, jafnt og þétt, á næstunni.

Kebab Diskó með Orphic Oxtra
Önnur breiðskífa Orphic Oxtra komin í forsölu á gogoyoko.com en sjálfur diskurinn kemur svo í verslanir núna á miðvikudagin. Orphic Oxtra leikur, eins og flestum ætti að vera kunnugt, hressandi balkan tónlist sem erfitt er að sitja undir nema maður geri einhverskonar tilraunir til dans eða sambærilegra hreyfinga.

Orpic Oxtra koma fram á Iceland Airwaves bæði þann 14., klukkan 20:00 á NASA, og sunnudaginn 16. á Gauki á Stöng (einnig klukkan 20:00).

Iceland Airwaves’11: Veronica Falls

Breska sveitin Veronica Falls var stofnuð í London árið 2009 upp úr rústum nokkurra lítt þekktra indíbanda. Á næstu tveimur árum smíðuðu þau nokkrar þrælskemmtilegar smáskífur og fengu svo loks útgáfusamning hjá Bella Union. Frumburðurinn, sem er samnefndur sveitinni, kom út fyrir skemmstu og hefur hlotið þessa fínu dóma.

Veronica Falls leikur indí-popp af breska skólanum með tvisti. Á köflum minnir bandið á sveitir eins og The Pastels og Belle and Sebastian. Veronica Falls seyðir þó fram mun skítugri og rokkaðri hljóm en fyrrnefnd bönd; mögulega mætti rekja það til upptökustjórans Guy Fixsen. Herramaður sá hefur unnið með böndum á borð við My Bloody Valentine, Stereolab og Slowdive. Hverju sem því líður þá er óhætt að mæla með sveitinni; að mínu mati er Veronica Falls eitt það áheyrilegasta sem Airwaves býður upp á þetta árið.

Veronica Falls leikur í Norðurljósum Hörpunnar kl. 20.50 á laugardeginum.

Veronica Falls – Come On Over

Iceland Airwaves 11′: Iceage

Eitt mest hæpaða rokkband ársins er danska unglingapönksveitin Iceage. Iceage spila gamaldags melódískt pönk með dassi af illa spilaðri nýbylgju og gotneskum undirtónum (þegar þetta blandast saman verður þetta reyndar bara nokkuð nútímalegt indírokk). Útlit sveitarinnar og allt myndmál er líka í þessum anda, með hefðbundnu pönkblæti fyrir skít, hráleika og hálffasískum táknum.

Einvaldur indíplötudóma, Pitchfork, gaf frumrauninni New Brigade 8,4 í einkunn og þar með var ísinn brotinn. Síðan þá hafa Iceage túrað heiminn og fært honum sudda og danskt unglingahelvíti.

Iceage spila laugardagskvöldið 15.október klukkan 00:20 á Gauk á Stöng.

Iceage – Remember

Dad Rocks! gefur út Mount Modern

Platan Mount Modern með Dad Rocks! mun koma út þriðjudaginn 11. október næstkomandi. Platan er gefin út hér á landi af Father Figure Records í samvinnu við jaðarútgáfuna Kimi Records. Dad Rocks! kemur fram á Iceland Airwaves í fyrsta sinn þann 15. október klukkan 22.30 í Kaldalónssal Hörpunnar.

Dad Rocks! er sólóverkefni Snævars Albertssonar en hann hefur verið búsettur í Árhúsum undanfarin ár og meðal annars getið sér gott orð sem liðsmaður dönsku sveitarinnar Mimas (sem kemur einnig fram á Iceland Airwaves). Snævar hefur safnað í kringum sig 8 manna hljómsveit og komið fram á virtum tónlistarhátíðum undanfarna mánuði, meðal annars Great Escape í Brighton, Spot hátíðinni í Danmörku og PopKomm hátíðinni í Berlín. Einnig mun hún koma fram á hinni virtu hátíð CMJ í New York í lok október mánaðar.

Tónlist Dad Rocks! má kalla þjóðlagasýrukántrípopp (e. country freak folk pop) og meðal áhrifavalda má nefna Why? og Bill Callahan. Íslendingum gefst svo tækifæri á að sjá Dad Rocks! Á tónleikum því hljómsveitin kemur fram á tónlistarhátíðinni Iceland Airwaves auk þess að koma fram á nokkrum tónleikum utan dagskrár.

A Turn in the Dream-Songs: Ný plata frá Jeffrey Lewis

Á mánudaginn kemur út ný plata frá, að mati undirritaðs, merkilegasta söngvaskáldi dagsins í dag: fjöllistamanninum Jeffrey Lewis. Platan nefnist A Turn in the Dream-Songs og er fyrsta sóló-stúdíóplata Jeffreys síðan ‘Em Are I kom út árið 2009. Við fyrstu hlustun virðist hljómurinn vera ósköp svipaður síðustu tveimur eða þremur plötum Lewis: áherslan er á fyrst og fremst á textana, upptökurnar eru nokkuð hráar og byggjast aðallega á akústískum hljóðfærum. Áhrifin frá hippaþjóðlagasýrutónlist eru áberandi líkt og á síðustu plötu. Það er því ólíklegt að skoðanir fólks á tónlist Lewis muni taka grundvallarbreytingum með þessari nýju plötu, en hún er a.m.k. mikill fengur fyrir aðdáendur. Mikið er um gestagang á A Turn in the Dream-Songs, en þar koma m.a. við sögu meðlimir hljómsveitanna Dr.Dog, The Wave Pictures og Au Revoir Simone.

Hægt er að streyma plötunni Breska dagblaðið The Guardian og þar skrifar Lewis einnig nokkrar línur um hvert lag.
http://www.guardian.co.uk/music/musicblog/2011/oct/05/jeffrey-lewis-turn-dream-songs

Iceland Airwaves ’11: SBTRKT

Fyrir þá sem ætla að reima á sig dansskónna á Airwaves ættu ekki að láta SBTRKT framhjá sér fara. SUBTKT, eða Subtract, er listamannsnafn bresks plötusnúðs sem vill helst að fólk viti sem minnst um sig. Þessvegna klæðist hann einhverskonar bangsagrímu á tónleikum og talar sem minnst um persónu sína viðtölum. Á síðustu þremur árum hefur hann gefið frá sér fjöldann allan af smáskífum, endurhljóðblöndunum og stuttskífum. Það var svo núna í lok júní að fyrsta breiðskífan leit dagsins ljós – en hún er samnefnd listamanninum. Á plötunni ægir saman ýmsum stefnum raftónlistarinnar með einkar dansvænni útkomu. Á tónleikum kemur kappinn venjulega fram einn og óstuddur – og reynir að eigin sögn að gera eitthvað meira en að fikta í lapptoppnum til að koma áhorfendum í stuð.

SBTRKT verður á NASA kl. 00.30 á aðfaranótt sunnudags.

SBTRKT – Wildfire

SBTRKT – Pharaohs

Iceland Airwaves ’11: Other Lives

Bandaríska indírokksveitin Other Lives var stofnuð í Oklahoma 2004, en þá undir nafninu Kunek. Sem Kunek gaf sveitin út eina plötu – en skipti síðan um nafn. Sem Other Lives hefur sveitin hinsvegar gefið út tvær plötur; þá fyrri 2006 og þá síðari núna á þessu ári en hún ber titilinn Tamer Animals. Bandið leikur lágstemmt og melódískt rokk sem sækir áhrif sín vítt og breytt um lönd. Hljómsveitin hitað upp fyrir Bon Iver á Norður-Ameríku túr hans í september – og eru það svosem ágætis meðmæli út af fyrir sig.

Other Lives leika á Listasafninu kl. 22.00 á laugardagskvöldinu.

Other Lives – For 12

Other Lives – Tamer Animals

Iceland Airwaves ’11: Beach House

Beach House er vafalaust eitt af stærstu nöfnum Airwaves hátíðarinnar í ár. Sveitin ætti nú að vera lesendum Rjómans góðkunnug enda höfnuðu bæði Devotions, frá 2008, og Teen Dream, frá 2010, á lista Rjómans yfir bestu plötur þeirra ára.

Beach House var stofnuð í Maryland-fylki árið 2004 af Victoriu Legrand og Alex Scally. Tveimur árum síðan leit frumburðuinn dagsins ljós, en hann heitir einfaldlega Beach House. Platan fékk mjög jákvæða dóma og endaði m.a. á árslista Pitchfork. Devotions, sem kom út tveimur árum síðar, gaf fyrri plötunni ekkert eftir og jók hróður sveitarinnar enn frekar. Beach House gekk síðan til liðs við herbúðir Sub Pop, gaf út sína þriðju breiðskífu, Teen Dream, og þá fóru hjólin að rúlla fyrir alvöru. Á plötunni útvíkkaði sveitin hljóðheim sinni töluvert og poppaði hann svolítið upp. Fyrir vikið uppskáru þau breiðari hlustendahóp.

Fyrir þá sem ekki þekkja til Beach House þá framreiðir dúettinn einskonar drauma-popp. Skemmtarar sjá gjarnan um hryjandina, raforgel og gítarlínur mynda saman dreymandi óm sem Victoria syngur svo yfir með sinni sérstæðu röddu (á köflum minnir hún smávegis á Nico). Á hljómleikum verður dúettinn gjarnan að tríó, en þá fá þau trommar sér til halds og trausts.

Beach House leikur fyrir dansi í Hafnarhúsinu kl. 23.00 á fimmtudaginum.

Beach House – Master of None (af Beach House)

Beach House – Gila (af Devotions)

Beach House – Zebra (af Teen Dream)

Útgáfutónleikar Eldberg

Hljómsveitin Eldberg mun fagna útkomu fyrstu hljómplötu sinnar með útgáfutónleikum, þar sem platan verður leikin í heild sinni, þann 6. október klukkan 20:00 í hátíðarsal FÍH. Frítt er inn á þá tónleika sem og tónleika sem haldnir verða þann 13. október á Græna Hattinum á Akureyri klukkan 21:00.

Platan er kominn í allar helstu hljómplötuverslanir landsins bæði á geisladisk, sem gefin er út af Mylodon Records, og á vinylhljómplötu sem sveitin gefur sjálf út en henni fylgir einmitt frítt niðurhal af gogoyoko. Platan er fáanleg í Hljómsýn, Lucky Records, Smekkleysu, 12 Tónum og Eymundsson á Akureyri.

Eldberg skipa þeir Eyþór Ingi Gunnlaugsson söngvari, Jakob Grétar Sigurðsson trymbill, Reynir Hauksson gítarleikari, Ásmundur Svavar Sigurðsson bassaleikari og Heimir Klemenzson hljómborðsleikari.

Eldberg – Ég er lífsins brauð

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Iceland Airwaves ’11: Liturgy

Allir verða að fá eitthvað fyrir sinn snúð. Og metal- og aðrir harðkjarnahausar ættu geta fengið eitthvað fyrir sinn hjá amerísku svartmáls sveitinni Liturgy. Bandið á að baki sér tvær breiðskífur; Renihilation, frá árinu 2009, og Aesthethica sem kom út í maí á þessu ári á vegum Thrill Jockey. Músíkin er níðþung, riffin þéttofin og sem betur fer: engir vandræðalegir, sinfonískir tilburðir. Þeir sem eru með blæti fyrir líkfarða verða því miður að leita á önnur mið, því eftir því sem ég best veit þá eru hér á ferðinni fjórir, Brooklynskir stælgæjar (þýðing á enska orðinu hipster, fundin í orðabók).

Liturgy þeyta flösunni aðfaranótt sunnudags kl. 00.20 á Amsterdam.

Liturgy – Returner (af Aesthethica)