Kjarr

Frumraun tónlistarmannsins Kjarr (Kjartan Ólafsson) er nú komin út. Breiðskífan, sem ber nafn höfundar síns, var þrjú ár í vinnslu og fór vinnsla plötunnar fram í Reykjavík, Hafnarfirði og Glasgow. Öll lögin eru úr hugarheimi Kjartans Ólafssonar, sem gerði garðinn frægann með hljómsveitunum Ampop og Leaves, og eru þau öll í gegnsýrðum stíl fyrir neðan marka meðvitaðrar skynjunar. Platan er nú einungis fáanleg á hinum íslenska tónlistarvef Gogoyoko, en kemur út viku síðar í geisladiskaformi í allar helstu plötubúðir landsins.

Bix – Animalog

Þann 7. september síðastliðinn kom út breiðskífan Animalog með raftónlistamanninum Bix (Birgir Sigurðsson).  Bix hefur verið síðustu þrettán árin starfandi í Nýju Jórvík og Borg Englanna og getið sér gott orð í auglýsingabransanum þar ytra. Hann hefur m.a. unnið  auglýsingar fyrir leikjarisann EA Games, Replay Jeans og Austin Mini Cooper.

Nú hefur týndi sonurinn snúið heim og hefur verið að trylla lýðinn á raftónlistarkvöldum hér og þar. Nú kætir hann okkur enn frekar með útgáfu þessarar nýju breiðskífu sem hefur að geyma vandaðar rafsmíðar og vel heppnaðar taktvinnslur, eins og honum er einum lagið. Platan kemur út á hans eigin vegum, Muhaha Records, og hefur að geyma tíu vel heppnaðar lagasmíðar.

Nýja platan Animalog er fáanlega á Bandcamp fyrir einungis 9,99 dollara (1,157 isk samkvæmt núverandi gengi).

Haglél komin í verslanir

Nýjasta breiðskífa Mugison, Haglél, kom í verslanir þann 1. október síðsastliðinn, en hún hefur einnig verið fáanleg á heimasíðu Mugison, www.mugison.is. Þar er einnig hægt að kaupa miða á tónleika Mugison sem hann mun halda víðsvegar um landið á næstu vikum.

Platan er hans fjórða breiðskífa og hefur verið beðið eftir nýrri plötu frá drengnum síðan að Mugiboogie sló öll met fyrir um 4 árum. Haglél inniheldur 11 lög sem öll eru sungin á íslensku og þar er meðal annars að finna lögin “Haglél” og “Stingum af” sem bæði hafa notið mikilla vinsælda í útvarpi og farið á topp íslenskra vinsældalista.

Iceland Airwaves ’11: Dale Earnhardt Jr. Jr.

Ætla má að dúettinn Dale Earnhardt Jr. Jr. sé einskonar tónlistarlegt afkvæmi NASCAR-ökumannsins Dale Earnheart Jr.  Það er þó ekki bara nafnið sem tengist akstri og ökutækjum; meðlimir sveitarinnar, þeir Josh og Daniel, koma frá mekka bílaiðnaðarins, Detroit, og fyrsta EP-plata Dale var nefnd Horse Power.  Á plötunni mátti m.a. annars finna ábreiðu af Beach Boys laginu “God Only Knows” – og heyra má hana hér að neðan. Í sumar gáfu þeir ökuþórar svo út sína fyrstu breiðskífu, It’s A Corporate World. Músíkinni mætti lýsa sem rafskotnu indípoppi með greinilegri vísun í Brian Wilson og félaga í Beach Boys. Bandi hefur hlotið lof fyrir tónleika sína og því bara að krossa fingur og vona að Dale verði í miklu stuði á Airwaves.

Dale Earnhardt Jr. Jr. – Nothing But Our Love (af Horse Power EP)

Dale Earnhardt Jr. Jr. – Simple Girl (af It’s A Corporate World)

Dale Earnhardt Jr. Jr. – God Only Knows (af Horse Power EP)

Hjálmar – Ég teikna stjörnu

Hér er nýtt lag frá skeggjuðu lopareggísveitinni Hjálmum sem heitir “Ég teikna stjörnu” og mun verða á væntanlegri plötu sveitarinnar sem nefnist Órar. Lag og& texti er eftir Þorsteinn Einarsson.

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Náttfari – Töf

Náttfari var stofnuð árið 2000 og byrjaði snemma að taka upp sitt eigið efni og spila á tónleikum víðs vegar um bæinn. Hljómsveitin kom fram á Airwaves árið 2001 og hlaut afbragðsundirtektir, m.a. umfjöllun í New York Times og fleiri stöðum. Viðræður áttu sér stað við nokkur plötufyrirtæki en ekkert varð úr útgáfu og sveitin lagði upp laupana árið 2002.

Hún kom saman aftur sumarið 2010 og spilaði á Airwaves það ár og voru tónleikarnir valdir eitt af 15 bestu atriðunum á Airwaves af Reykjavik Grapevine. Í framhaldi af Airwaves hélt sveitin í stúdíó og tók upp sína fyrstu plötu sem nú er á leiðinni og kemur út um miðjan október. Platan hefur fengið nafnið Töf.

Tónlist sveitarinnar er að mestu ósungin og í ætt við síðrokk en þó með áhrifum frá ólíkum áttum eins og rokki, jazzi og elektrónískri músík.

Náttfari – Sumardagurinn Fyrsti

Rjómalagið 29. september: Gold Panda – An Iceberg Hurtled Northwards Through Clouds

Rjómalagið í dag er dansvænt sökum þess að fimmtudagur er hinn nýi föstudagur, að mér skilst. Það kemur úr smiðju breska raftónlistarmannsins Derwin Panda, eða Gold Panda, eins og hann vill víst láta kalla sig. Lagið er tekið af væntanlegri plötu sem kappinn vann fyrir DJ Kicks seríuna.

Gold Panda – An Iceberg Hurtled Northwards Through Clouds

Nýtt efni frá Tom Waits

Sérvitringurinn Tom Waits hefur loksins vaknað úr dvala. Sjö ár eru liðin síðan síðasta eiginlega breiðskífa Waits leit dagsins ljós, en það var Real Gone árið 2004. Þessu á hinsvegar að bæta úr 21. október þegar Bad as Me kemur út í gegnum Anti-. Platan mun innihalda 13 lög og í fréttatilkynningu frá plötufyrirtækinu kemur fram að lagasmíðarnar séu einkar fjölbreytilegar: “Bad As Me displays the full career range of Waits’ songwriting”. Eins og svo oft áður er það eiginkona Waits, Kathleen Brennan, sem pródúserar.

Í síðasta mánuði birtist fyrsti síngúlinn á iTunes, titillagið, “Bad As Me”, og í gær kom númer tvö í röðinni, lagið “Back in the Crowd”.

Tom Waits – Back in the Crowd

Tom Waits – Bad as Me

4AD Sessions

Ég veit vel, að ókeypis er allt það sem er best. Og það vita kumpánarnir hjá 4AD líka. Þessvegna eru þeir að gefa út ókeypis safnskífu á netinu sem kallast hreinlega 4AD Sessions og hefur að geyma læv upptökur af nokkrum helstu listamönnum útgáfunnar. Mætti þar nefna Ariel Pink, Iron & Wine, Tune-yards, Blonde Redhead og Deerhunter. Hér fyrir neðan geta áhugasamir niðurhalað góssinu eða hlýtt á það.

4AD Sessions

Gauntlet Hair eftir Gauntlet Hair

Gauntlet Hair samanstendur af Andy og Craig, tveimur gaurum frá Colorado, sem hafa í nokkur ár búið til tónlist saman. Í fyrra sendu þeir frá sér tvær smáskífur og vöktu athygli í netheimum – m.a. hjá útgáfufyrirtækinu Dead Oceans. Átjánda október næstkomandi kemur út fyrsta verk þeirra í fullri lengd, skífan Gauntlet Hair. Tvö lög af plötunni er nú þegar aðgengileg á netinu og hafa vakið mikla lukku hjá undirrituðum. Tónlistinni mætti lýsa sem einskonar samsuðu af Animal Collective og Deerhunter á krakki. Svo verður bara að koma í ljós hvort frumraunin reynist jafn bragðgóð og forsmekkurinn.

Gauntlet Hair – Keep Time

Nevermind á Gauknum

Í tilefni 20 ára afmælis plötunnar Nevermind eftir hina goðsagnakenndu sveit Nirvana hefur hópur tónlistarmanna tekið sig saman og hyggst halda heiðurstónleika á Gauk á Stöng (áður Sódóma Reykjavík) annað kvöld. Nevermind, sem út kom þann 24.september árið 1991, hefur lengi verið talin ein áhrifamesta rokkplata 20.aldarinnar en platan hefur nú selst í ríflega 26 milljónum eintaka út um allan heim. Platan hlaut ekki síður vægi eftir andlát Kurt Cobain árið 1994 og lifir góðu lífi enn þann í dag. Það eru þeir félagar Franz Gunnarsson (Ensími/Dr.Spock), Þórhallur Stefánsson (Lights On The Highway) og Jón S. Sveinsson (Hoffman) sem leika gruggið þetta kvöldið en þremenningarnir þessir ættu að vera orðnir flestum kunnir eftir heiðurstónleika hljómsveita á borð við Alice in Chains, Stone Temple Pilots og Smashing Pumpkins (svo eitthvað sé nefnt). Það er þó í hlutverki Einars Vilbergs Einarssonar að túlka hinn goðsagnakennda Kurt Cobain á sinn eigin hátt en Einar ættu flestir að þekkja sem forsprakka rokksveitarinnar noise. Ekki þarf að hamra á hollustu þessara félaga til Nirvana en allir hafa þeir verið undir miklum áhrifum þessarar sveitar í sínum eigin lagasmíðum í gegnum árin. Auk þeirra mun Agnar Eldberg úr hljómsveitunum Lights on The Highway og Klink vera sérstakur gestur.

Nú þegar 20 ár eru liðin frá útgáfu einnar áhrifamestu rokkplötu sögunnar er ekki seinna vænna en að halda niður á Gauk á Stöng, ungnir sem aldnir og taka þátt í gleðinni. Dyrnar opna á slaginu 22:00 og er miðaverð 1500 kr. Aldurstakmark að þessu sinni eru 18 ár. Fuglinn hvíslar að hljómsveitin mundi sín vopn á slaginu 23.30.

Rjóminn hvetur lesendur til að fikta við nostalgíuna, þeyta flösu og athuga hvernig Gaukur á Stöng lítur út eftir endurlífgun.

 

 

Battles hjá Blogotheque

Á rápi mínu um netið rakst ég á tvö læv myndbönd af Battles frá hinni stórskemmtilegu síðu Blogotheque.  Þar má sjá tríóinn leika tvö lög af hinni frábæru Gloss Drop í mjög svo konunglegum sal einhversstaðar í Parísarborg. Meðlimir sveitarinnar eru augljóslega í miklu stuði og má sjá þá súpu rauðvín á milli þess sem þeir hálfpartinn ganga af göflunum.

Hér fyrir neðan má svo líka sjá nýlegt myndband Battles við lagið “My Machines”. Aðalleikarar eru Gary Numan og ónefndur maður sem á í einhverjum vandræðum með að koma sér úr rúllustiga.

Battles – Wall Street (frá Blogotheque.net)

Battles – Futura (frá Blogotheque.net)

Battles feat. Gary Numan – My Machines

PressPausePlay

Ein allra athyglisverðasta heimildamynd ársins er án efa PressPausePlay eftir þá David Dworsky og Victor Köhler. Fjallar hún um stafræna byltingu síðasta áratugar og áhrif hennar á sköpunargáfuna og möguleikana sem okkur nú bjóðast til að koma hæfileikum okkar á framfæri. Í myndinni er einnig velt upp þeirri spurningu hvort menning okkar sé betri eða verri fyrir vikið og hvort aukið framboð og gæði haldist í hendur.

Meðal þeirra sem fram koma í myndinni eru Ólafur Arnalds, Moby, Robyn, Hot Chip og Sean Parker höfundur Napster.

Þórir Georg sendir frá sér nýtt lag

Tónlistarmaðurinn Þórir Georg er iðinn við kolann og ávallt með mörg járn í eldinum. Snemma í ár sendi hann frá sér sína fyrstu plötu á íslensku og ber hún nafnið Afsakið og inniheldur hún lagið „Er sem er“ sem er það fyrsta sem fær að hljóma af plötunni. Eins og heyra má er tónlistin ennþá melódískt og tregablandin með persónulegum sögum Þóris úr daglega lífinu í fyrirrúmi. Afsakið hefur verið vel tekið en enn sem komið er hefur hún aðeins verið til á gogoyoko en nú styttist óðum í að fyrstu eintökin birtist í verslunum en þau eru væntanleg 26. september.

Þórir á sér langa sögu sem tónlistarmaður og hefur verið að senda frá sér plötur síðan hann var táningur. Hann hefur starfað með hljómsveitum á borð við Ofvitarnir, Gavin Portland, The Deathmetal Supersquad og Fighting Shit en fyrsta sólóplatan hans sem My Summer As a Salvation Soldier, I Belive in This, kom út hjá 12 Tónum árið 2004. Þá var Þórir Georg aðeins 19 ára gamall og fékk platan lofsamlega dóma hjá tónlistargagnrýnendum. Plöturnar Anarchists Are Hopeless Romantics og Activism fylgdu svo í kjölfarið og líkt og frumraun Þóris fengu þær einnig góða dóma hjá gagnrýnendum. Allar þessar plötur eru nú uppseldar hjá útgefanda en til stendur að gera mikla bragarbót á því en væntanleg er vegleg safnplata með því besta af þessum þremur plötum auk áður óútgefnu efni My Summer as a Savation Soldier. Á meðan Þórir starfaði undir merkjum M.S.A.S.S. spilað hann yfir 100 tónleika í Evrópu og Bandaríkjunum, þar á meðal á South by Southwest árið 2006.

Þórir Georg – Er Sem Er

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Nýtt efni frá Atlas Sound

Bradford Cox, forsprakki Deerhunter, er að gera sig kláran fyrir útkomu þriðju breiðskífu eins-manns-bandsins Atlas Sound. Platan hefur fengið nafnið Parallax og kemur út á vegum 4AD eftir örfáar vikur. Í lok sumars birti Cox kover plötunnar ásamt því að gefa aðdáendum svolítinn forsmekk, þ.e. lagið “Terra Icognita”. Og nú fyrir helgi vippaði hann út öðru lagi, “Te Amo”, sem einnig mun prýða plötuna. Að vanda mun Cox sjálfur pródúsera og útsetja – ásamt því að flytja mest allt sjálfur. Hlustið á “Te Amo” og “Terra Icognita” hér að neðan.

Atlas Sound – Te Amo

Atlas Sound – Terra Icognita