Bestu tónlistarmyndbönd og plötuumslög ársins 2012

Fagnefnd skipuð þeim Gunnari Lárusi Hjálmarssyni, Dögg Mósesdóttur og Goddi hefur lokið yfirferð yfir plötuumslög og tónlistarmyndbönd ársins 2012. Hér fyrir neðan má líta tilnefningarnar en tilkynnt verður um sigurvegarana í Kastljósi RÚV á næstu dögum.

Tónlistarmyndbönd

Úlfur – Black Shore : Máni Sigfússon.

Sykur – Curling :Addi Atlondres, Þorgeir F. Óðinsson og Einar Bragi Rögnvaldsson.

FM Belfast – Delorean : Magnús Leifsson

Retro Stefson – Glow : Magnús Leifsson

Bjӧrk – Mutual Core : Andrew Thomas Huang

Plötuumslög

Box Tree

Skúli Sverrisson og Óskar Guðjónsson – The Box Tree – Ingibjörg Birgisdóttir og Orri Jónsson

Sigur Rós - Valtari

Sigur rós – Valtari – Ingibjörg og Lilja Birgisdætur

Borko - Born To Be Free

Borko – Born To Be Free – Bobby Breiðholt

Retro Stefson

Retro Stefson – Retro Stefson – Halli Civelek

Ojba Rasta - Ojba Rasta

Ojba Rasta – Ojba Rasta – Ragnar Fjalar Lárusson

Bestu plötur ársins

Árslisti Rjómans er óhefðbundinn að þessu sinni að því leiti að tilkynntar verða 15 bestu innlendu og 5 bestu erlendu plöturnar sem þóttu bera af á árinu og verður einungis fjallað um 5 efstu í hvorum flokk sérstaklega.

Tvær megin ástæður eru fyrir þessu. Í fyrsta lagi breytti Rjóminn áherslum sínum í ár yfir í að fjalla nær engöngu um íslenska tónlist og þótti undirrituðum því lítið vit í því að fjalla ítarlega um fjölda erlenda platna sem ekki höfðu fengið umfjöllun á síðum vefsins. Í öðru lagi var tónlistarárið hér heima óvenjulega gott og var eiginlega annað ógerningur en að birta minnst 15 bestu plöturnar (sem reyndist líka með eindæmum erfitt).

Árslisti Rjómans fyrir árið 2012 er því sem hér segir:

Tilbury - Excorsie

Innlendar plötur ársins 2012

#1 Tilbury – Exorcise

Fyrsta platan súpergrúbbunar Tilbury er plata ársins að mati Rjómans. Við tónlistarnördarnir biðum spenntir eftir þessari plötu og urðum vel flestir svo sannarlega ekki fyrir vonbrigðum. Tónsmíðarnar eru marglaga og frumlega uppbyggðar, taktfastar og með áhugaverðri skírskotun í klassíska tónlist á köflum. Yfir öllu saman flýtur svo brothætt rödd söngvarans sem ljáir lögunum manneskjulegan blæ og magnar upp dramatíkina í þeim.

#2 Ásgeir Trausti – Dýrð í dauðaþögn

Ég man hreinlega ekki eftir sterkari nýliðun í íslenskri tónlist og magnaðri innkomu Ásgeirs Trausta. Ásgeir stekkur fram á sjónarsviðið að því er virðist fullskapaður tónlistarmaður og er Dýrð í dauðaþögn glæsilegur vitnisburður um hæfileika hans sem lagasmiðs og flytjanda. Lögin á plötunni hafa hvert af öðru fengið ítrekaða spilun hjá útvarpsstöðvum landsins og virðast þau höfða jafnt til allra óháð aldri og tónlistarsmekks. Þessi hæfileiki, að höfða til jafn breiðs hóps og Ásgeir virðist gera, er á fárra færi og undirstrikar enn frekar ágæti hans sem listamanns.

#3 Jónas Sigurðsson – Þar sem himinn ber við haf

Jónas stimplar sig inn sem einn af dáðustu tónlistarmönnum landsins með þessari þriðju plötu sinni. Á henni flakkar hann á milli aðgengilegra poppsöngva og áhugaverðra tilrauna með raftónlist á einkar vel heppnaðan hátt. Platan er talsvert persónulegri og dramatískari en fyrri plötur Jónasar, sem kemur á köflum aðeins niður á kraftinum og stuðinu sem við vorum farin að venjast, en hann kemur lögum og texta frá sér á það einlægan hátt að maður getur ekki annað en hrifist með.

#4 Ojba Rasta – Ojba Rasta

Þegar maður hélt að Hjálmar væru búnir að kreista síðasta dropann úr reggea-tónlistinni hér heima koma Ojba Rasta henni til bjargar með ferskum straumum, góðum tónsmíðum og almennum skemmtilegheitum. Mig grunaði ekki að hægt væri að blása jafn miklu lífi í jafn sérhæfða tónlistarstefnu og fyrir það fá Ojba Rasta fjórða sætið á þessum lista.

#5 Hjaltalín – Enter 4

Hvernig Hjaltalín náðu að halda því leyndu að ný plata væri á leiðinni frá þeim (sem enginn var annars að bíða eftir) er rannsóknarefni útaf fyrir sig. En allt í einu var platan komin út og Hjaltalín höfðu á svipstundu farið í gegnum algera endurnýjun og ryðjast fram á völlinn sem ný sveit nánast. Ég verð að játa að ég er enn að meðtaka þessa plötu en það var ljóst strax við fyrstu hlustun að hér var ein af plötum ársins á ferð. Hjaltalín fá fimmta sætið en ég er tilbúinn að endurskoða afstöðu mína þegar ég hef rennt plötunni í gegn tvisvar til þrisvar í viðbót. Enter 4 gæti allt eins farið upp í þriðja sæti eftir það.

Sæti 6 – 15 skipa eftirfarandi plötur:

#6 Pétur Ben – God’s Lonely Man
#7 Moses Hightower – Önnur Mósebók
#8 Retro Stefson – Retro Stefson
#9 Borko – Born to be free
#10 Nóra – Himinbrim
#11 Pascal Pinon – Twosomeness
#12 Sin Fang – Half Dreams EP
#13 Legend – Fearless
#14 Valdimar – Um stund
#15 Ghostigital – Division of Culture & Tourism

Kishi Bashi - 151a

Erlendar plötur ársins 2012

#1 Kishi Bashi – 151

Besta erlenda plata ársins að þessu sinni er fyrsta sólóplata tónlistarmannsins K Ishibashi eða Kishi Bashi eins og hann kallar sig. Kishi Bashi hefur hingað til verið þekktastur sem meðlimur indie-rokk sveitarinnar Jupiter One og fyrir að túra með of Montreal og Regina Spektor. Hann stígur nú fram á sjónarsviðið einn og óstuddur með plötu sem hann tók upp, flutti, fjármagnaði og gaf út sjálfur og er útkoman hreint út sagt stórfengleg.

Plötuna má heyra í heild sinni hér að neðan og þarf varla að taka fram að Rjóminn mælir eindregið með þeirri áheyrn.

#2 Oberhofer – Time Capsules II

Það kæmi mér ekki á óvart ef meirihluti lesenda hefur ekki heyrt um Brad nokkurn Oberhofer og samnefnda hljómsveit hans. Enn síður geri ég ráð fyrir að lesendur viti að Time Capsules II er, þrátt fyrir að titillinn gefi annað til kynna, í raun fyrsta plata Oberhofer. Að mínu mati er þessi frumraun ein sú magnaðasta á árinu erlendis frá og ætti að hjóma í eyrum sem flestra. Hér er tóndæmi:

#3 Alt-J – An Awesome Wave

Vinningshafar Mercury verðlaunanna 2012, enska sveitin Alt-J (∆), skipa þriðja sætið. Líkt og í sætunum tveimur hér að ofan er hér um frumburð að ræða. Það sem heillaði mig einna mest við þessa plötu er hvernig sveitin virðist geta flakkað á milli strauma og stefna á óhefðbundinn hátt en missa aldrei sjónar af heildamyndinni. An Awesome Wave er þrælmenntuð plata sem reynist á einhvern undarlegan hátt, þrátt fyrir að vera á köflum afar óhefðbundin, einkar aðgengileg. Án efa frumlegasta plata ársins erlendis frá.

#4 Communist Daughter – Lions and Lambs EP

Ljúft, upphefjandi og afar grípandi folk-tónlist Communist Daughter féll vel í kramið hjá mér og þá sérstaklega lagið “Speed of sound”, sem hljómar hér að neðan. Það verður seint sagt að Communist Daughter feti ótroðnar slóðir í tónlisti sinni en lagasmíðarnar eru bæði aðgengilegar og grípandi og stundum þarf hreinlega ekki meira til en það til að gera góða plötu.

#5 Lord Huron – Time To Run EP

Nú er það svo að Lord Huron, sem er listamannsnafn Michiganbúans Benji Schneider, gaf einnig út breiðskífuna Lonesome Dreams í ár en ég ákvað að velja EP plötuna þar sem hún er einfaldlega aðgengilegra og heilsteyptara verk. Hér er á ferð viðkunnanleg og íburðarmikil folk-tónlist með sækadelískum og austurlenskum áhrifum í bland við kunnugleg minni úr indie-poppi síðustu ára.

20 Bestu lög ársins

Born To Be Free - Borko

Þá er komið að því að kunngjöra bestu og áheyrilegustu lög ársins, innlend og erlend, að mati Rjómans. Að þessu sinni mun ég ekki flokka innlend og erlend lög sérstaklega heldur birta þau öll saman

Það ætti eflaust ekki að fara framhjá fastagestum Rjómans að tónlistarárið hér heima hefur verið einstaklega gjöfult og verður að segjast að framboðið erlendis frá stenst hreinlega ekki samanburð þetta árið. Það er því engin tilviljun að íslensk lög eru í algerum meirihluta á þessum lista og er það að sjálfsöðgu einstaklega ánægjulegt.

Listinn er annars svona, frá 20 sæti að því fyrsta:

#20 Jóhann Kristinsson – No Need To Hasitate
Fyrsta lagið af væntanlegri breiðskífu sem lét svo aldrei sjá sig. Bíð en spenntur eftir að fá að heyra meira.

#19 Svavar Knútur – Humble Hymn
Hinn hugljúfi Svavar hitti vel á mjúka manninn í mér með þessu ljúfsára lagi.

#18 Pojke – She Moves Through The Air
Afar vel heppnað hliðarskref Sindra Más Sigfússonar (Seabear, Sin Fang) yfir í elektrónískar pælingar. Það verður spennandi að fylgjast með framhaldinu.

# 17 Momentum – The Freak is Alive
Fyrsta lagið af væntanlegri plötu Momentum en vinnsla á henni hefst á næstu mánuðum.

#16 Nóra – Sporvagnar
Tilkomumikið upphafslag nýjustu plötu Nóru hreyfði vel við manni við fyrstu hlustun og vinnur á við hverja spilun.

#15 Dream Central Station – I’m All on My Own
Alíslensk og einstaklega vel heppnuð samsuða af Velvet Underground og Sonic Youth með vænni shoegaze skvettu.

#14 Shearwater – Animal Life
Flott lag með kröftugum stíganda. Sækir á við hverja hlustun. Tekið af plötunni Animal Joy sem er sjötta breiðskífa sveitarinnar.

#13 Valdimar – Sýn
Án efa sterkasta lagið af Um Stund, annari breiðskífu Valdimars.

#12 Pascal Pinon – Ekki Vanmeta
Fyrsta lagið af nýjustu plötu tvíburasystranna setur sannarlega tóninn fyrir það sem á eftir kemur. Einfalt en sérlega grípandi lag.

#11 Pétur Ben – God Lonely Man
Kraftmikið titillag annarar plötu Péturs Ben á sannarlega heima á þessum lista. Ekki láta ykkur bregða þó þið sjáið plötuna sjálfa ofarlega á öðrum lista sem birtast mun hér síðar.

#10 Lord Huron – Time to Run
Hressilegt lag með sækadelískum undirtón og austurlenskum áhrifum á stöku stað. Tekið af hinni ágætu plötu Lonesome Dreams en reyndar fannst mér Time to Run EP platan betri, en þar er lagið einnig að finna

#9 Cheek Mountain Thief – Cheek Mountain
Eina lagið á listanum sem gæti bæði flokkast sem innlent og erlent. Flytjandinn, Mike Lindsay, er breti en platan var öll tekin upp hér á landi og flytjendurnir eru, að ég held, flestir ef ekki allir íslenskir.

#8 Retro Stefson – Glow
Það er erfitt að skaka ekki bakendanum þegar Retro Stefson telur í og nánast ógerningur þegar jafn grípandi lag og þetta tekur að hljóma.

#7 Jónas Sigurðsson og Lúðrasveit Þorlákshafnar – Hafið er svart
Eflaust eitt aðgengilegasta lagið á listanum enda hefur það heyrst spilað á nær öllum útvarpsstöðvum landsins. Fallegt og afar vel heppnað lag og textinn virðist hafa snert streng í þjóðarsálinni.

#6 Monotown – Can Deny
Fyrsta smáskífan af væntanlegri plötu þeirra bræðra Barkar og Daða og söngvarans Bjarka Sigurðssonar (B.Sig). Leggið nafnið Monotown á minnið því platan, sem kemur út fljótlega á næsta ári, verður svakaleg! Því get ég lofað.

#5 Oberhofer – HEART
Upphafslag plötunnar Time Capsules II sem virðist almennt ekki hafa fengið góða dóma þegar hún kom út en er á ófáum árslistum erlendis engu að síður. Rjóminn er afar hrifinn af plötunni og telur hana eina af bestu erlendu plötum ársins.

#4 Ojba Rasta – Baldursbrá
Ojba Rasta bauð upp á eina af skemmtilegustu skífum ársins og var “Baldursbrá” klárlega sterkasta tónsmíðin á henni. Ég sá sveitina spila þetta lag fjórum eða fimm sinnum á meðan á Airwaves hátíðinni stóð og það hljómaði alltaf jafn vel.

#3 Tilbury – Drama
Ég hefði allt eins geta valið “Tenderloin” á þennan lista en það er eitthvað við “Drama” sem gerir það örlítið ljúfara áheyrnar. Hef ekki enn geta stillt mig um að syngja með þegar söngvarinn syngur “…when she throws the furniture around”.

#2 Kishi Bashi – Manchester
Annað besta lag ársins, og það áheyrilegasta erlendis frá, er með tónlistarmanninum K Ishibashi eða Kishi Bashi eins og hann kallar sig. Plötuna tók hann sjálfur upp, flutti og fjármagnaði og er útkoman stórfengleg. Lagið er óhefðbundinn en tilfinningaríkur ástaróður sem undirritaður steinlá fyrir við fyrstu spilun.

#1 Borko – Born To Be Free
Besta lag ársins að mati Rjómans er titillag annarar breiðskífu Borko. Frábær tónsmíð, ljúfsár og upphefjandi og hvetjandi boðskapurinn ætti að hreyfa við flestum sem eftir honum hlusta.

Kraumslistinn 2012 – Verðlaunaplötur

Kraumslistinn 2012, árleg plötuverðlaun Kraums tónlistarsjóðs, var kynntur í dag.

Á Kraumslistanum er að finna sex plötur sem allar bera þess merki að mikið hefur verið í þær lagt. Hér er að finna vönduð verk eftir leitandi, framsækið og umfram allt framúrskarandi tónlistarfólk.

Vinningshafar 2012

Plöturnar sem skáru framúr í ár og skipa listann eiga það sameiginlegt að vera frumlegar, spennandi og afar metnaðarfullar en 20 plötur voru tilnefndar til verðlaunanna og skipuðu Úrvalslista Kraums. Það var ekki auðvelt verkefni að gera upp á milli allra þeirra góðu platna sem skipuðu Úrvalslistann og komu út á árinu. Það liggur enginn vafi á því að tónlistarárið 2012 var gjöfult og gott og ekki er annað að sjá en að framtíðin sé björt fyrir íslenska tónlist. Hljómar vissulega eins og klisja en það er bara ekki annað hægt að segja því staðan er þannig.

Árni Matthíasson, formaður dómnefndar, tilkynnti niðurstöðu um val verðlaunaplatna sem líkt og síðustu tvö ár eru sex talsins. Afhending verðlaunanna fór fram í húsnæði Kraums tónlistarsjóðs að Vonarstræti 4b að viðstöddum hópi gesta.

Kraumslistinn 2012 – Verðlaunaplötur

 • Ásgeir Trausti – Dýrð í dauðaþögn
 • Hjaltalín – Enter 4
 • Moses Hightower – Önnur Mósebók
 • Ojba Rasta – Ojba Rasta
 • Pétur Ben – God’s Lonely Man
 • Retro Stefson – Retro Stefson

Kraumslistinn – Úrvalslisti 2012 tilkynntur

Öldungaráð Kraums hefur tilnefnt 20 plötur á Úrvalslista Kraums en í næstu viku kemur í ljós hvaða 5 – 6 plötur af þessum tuttugu munu skipa Kraumslistann 2012. Markmið Kraumslistans er að kynna og styðja við plötuútgáfu íslenskra hljómsveita og listamanna með sérstöku tilliti til þeirra sem yngri eru. Viðurkenna og vekja sérstaka athygli á þeim verkum sem skara fram úr í gæðum, metnaði og frumleika.

Framkvæmd Kraumslistans 2012 er með þeim hætti að níu manna dómnefnd útnefnir 20 plötur á Úrvalslista Kraums en við honum tekur svo 20 manna dómnefnd og velur bestu plöturnar þannig að eftir standa 5 til 6 verðlaunaplötur.

Dómnefnd Kraumsverðlaunanna er skipuð fólki sem hefur mikla reynslu af því að hlusta á og fjalla um íslenska tónlist á ýmsum sviðum. Formaður dómnefndar er Árni Matthíasson.

Í Öldungaráði sem vann að forvalinu áttu sæti ásamt Árna Matthíassyni: Ása Dýradóttir, Benedikt Reynisson, Guðni Tómasson, Egill Harðar, Helena Þrastardóttir, Hildur Maral Hamíðsdóttir, Ólafur Halldór Ólafsson og Trausti Júlíusson.

Úrvalslisti Kraums 2012 – listinn er birtur í stafrófsröð:

 • adhd – adhd4
 • Ásgeir Trausti – Dýrð í dauðaþögn
 • Borko – Born To Be Free
 • Davíð Þór Jónsson – Improvised Piano Works 1
 • Duo Harpverk – Greenhouse Sessions
 • Futuregrapher – LP
 • Ghostigital – Division of Culture & Tourism
 • Hilmar Örn Hilmarsson & Steindór Andersen – Stafnbúi
 • Hjaltalín – Enter 4
 • Moses Hightower – Önnur Mósebók
 • Muck – Slaves
 • Nóra – Himinbrim
 • Ojba Rasta – Ojba Rasta
 • Pascal Pinon – Twosomeness
 • Pétur Ben – God’s Lonely Man
 • Retro Stefson – Retro Stefson
 • Sin Fang – Half Dreams EP
 • The Heavy Experience – Slowscope
 • Tilbury – Exorcise
 • Þórir Georg – I Will Die and You Will Die and it Will be Alright

Tilkynnt verður hvaða plötur vinna sér sæti á Kraumslistanum miðvikudaginn 19. desember.

Davíð Þór Jónsson – Improvised Piano Works

Davíð Þór Jónsson ættu íslenskir tónlistarunnendur eflaust að kannast við en þessi fjölhæfi tónlistarmaður hefur m.a. unnið með listamönnum á borð við Gus Gus, Mugison, Jóel Pálssyni, Ólöfu Arnalds og Blonde Redhead auk þess að hafa gefið út fjórar plötur með hljómsveit sinni ADHD.

Davíð gaf út fyrr á árinu sína aðra sólóplötu sem nefnist Improvised Piano Works en sú fyrri kom út 2002 og nefnist Rask. Platan var tekin upp af Davíð sjálfum í þýskalandi fyrir rétt tæpum tveim árum og sá Stephan Stephensen, einnig þekktur sem President Bongo, um masteringu.

Dagur íslenskrar tónlistar

Í dag, föstudaginn 30. nóvember, er Dagur Íslenskrar Tónlistar. Tónlistarárið í ár er eitt það besta í manna minnum og verður að segjast að sjaldan eða aldrei hefur úrval góðra íslenskra platna verið jafn ríkulegt og í ár.

Tónlistargúrú íslands, sjálfur Dr. Gunni, hefur tekið saman nokkur af bestu íslensku lögum ársins og er það einkar viðeigandi á þessum ágæta degi að hlíða á herlegheitin.

Bestu lög ársins 2012 að mati Dr. Gunna, fyrsti hluti

Bestu lög ársins 2012 að mati Dr. Gunna, annar hluti

Nóra sendir frá sér plötuna Himinbrim

Hljómsveitin Nóra hefur gefið út sína aðra breiðskífu og nefnist hún Himinbrim. Platan fylgir eftir fyrstu plötu sveitarinnar, Er einhver að hlusta?, sem kom út árið 2010 og hlaut afbragðsviðtökur. Upptökur stóðu yfir frá febrúar og fram í júlí í Orgelsmiðjunni, Stúdíó Sýrlandi og æfingahúsnæði hljómsveitarinnar og þær annaðist Magnús Árni Øder og hljómsveitin sjálf.

Platan inniheldur 11 lög og er afrakstur tveggja ára vinnu en gríðarlegur metnaður hefur verið lagður í lagasmíðar, útsetningar sem og upptökur og er útkoman eftir því, platan þykir með eindæmum vel heppnuð.

Platan var meðal annars fjármögnuð í gegnum síðuna www.pledgemusic.com en þar bauðst aðdáendum sveitarinnar að heita á hana og kaupa nýju plötuna fyrirfram, ásamt öðrum vörum. Viðbrögðin voru framar vonum og söfnuninni lauk 3 vikum fyrr en áætlað var. Er von að fleiri íslenskar hljómsveitir muni nýta sér þessa leið við fjáröflun í framtíðinni.

Nóra gefur plötuna út sjálf, en Record Records sér um dreifingu.

Born to be Free kemur út

Út er komin hljómplatan Born to be Free með Borko. Platan inniheldur lög úr smiðju Björns Kristjánssonar, grunnskólakennara á Drangsnesi á Ströndum. Born to be Free er margræð plata með níu lagasmíðum, löðrandi í heillandi útsetningum, grípandi laglínum og lausnum að vandamálum heimsins. Viðfangsefni plötunnar er hinn hversdagslegi raunveruleiki en efnistökin ramba á barmi hins óraunsæja og draumkennda og eru hlaðin vísunum í ýmsar áttir bæði í tónlist og textum.

Born to be Free er tekin upp og hljóðblönduð af Gunnari Tynes og Birni Kristjánssyni. Um útsetningar á strengja- og blásturshljóðfærum sá Ingi Garðar Erlendsson. Um hljóðfæraleik sáu Björn Kristjánsson, Magnús Trygvason Eliassen, Guðmundur Óskar Guðmundsson, Róbert Sturla Reynisson, Gylfi Blöndal og Sóley Stefánsdóttir. Strengir voru stroknir af strengjadeild Amiinu, þeim Maríu Huld Markan Sigfúsdóttur, Hildi Ársælsdóttur, Eddu Rún Ólafsdóttur og Sólrúnu Sumarliðadóttur og um lúðraþyt sáu þeir Stefán Jón Bernharðsson, Eiríkur Orri Ólafsson, Áki Ásgeirsson, Ingi Garðar Erlendsson og Páll Ivan Pálsson. Umslag hannaði Björn Þór Björnsson en Jónatan Grétarsson tók ljósmyndir. Um hljómjöfnun sá Alan Douches.

Nýr listamaður Bedroom Community

Íslenska jaðarútgáfan Bedroom Community er ekki gjörn á að gefa út tónlist eftir hvern sem er. Nú hefur hún þó sent frá sér tilkynningu um nýjan listamann á mála hjá útgáfunni: Paul Corley.

Corley þessi er Bandaríkjamaður sem um langt skeið hefur unnið náið með meðlimum útgáfunnar, til að mynda við plötur á borð við SÓLARIS eftir Ben Frost & Daníel Bjarnason, Draumalandið eftir Valgeir Sigurðsson og By The Throat eftir Ben Frost. Hann hefur auk þess komið að fjölmörgum öðrum verkefnum, til dæmis hina stórgóðu Ravedeath, 1972 eftir Tim Hecker auk annarra verka, en einnig má geta þess að hann samdi tónlistina við íslensku uppfærsluna á Hreinsun eftir Sofi Oksanen sem sett var upp í Þjóðleikhúsinu í fyrra.

Fyrsta plata Paul Corley nefnist Disquiet og kemur út þann 5. nóvember á alheimsvísu – en þó með sérstakri forsölu á Bandcamp síðu Corley sem og í íslenskum verslunum í Airwavesvikunni, en þar mun Corley koma fram ásamt restinni af Bedroom Community listamönnunum sex í Iðnó á föstudagskvöldinu.

Facebook / Twitter

Nýtt frá Valgeiri Sigurðs

Næstu útgáfu Bedroom Community hafa margir beðið með eftirvæntingu, en það er þriðja sólóplata Valgeirs SigurðssonarArchitecture Of Loss sem kom út nú á mánudaginn sl.

Valgeir hefur haft hljótt um sig síðan Draumalandið kom út árið 2010 en hann hefur þó haft í nógu að snúast bak við tjöldin þar sem hann hefur unnið með öðrum Bedroom Community listamönnum auk þess að vinna verkefni með Feist, Damon Albarn og Hilary Hahn & Hauschka svo fátt eitt sé nefnt.

Architecture Of Loss var samið fyrir samnefnt dansverk eftir Stephen Petronio en nú hefur verkið öðlast eigið líf í flutningi Valgeirs auk Nadiu Sirota, Nico Muhly, Shahzad Ismaily og Helga Jónssonar. Platan er nú fáanleg á helstu veitum, og má meðal annars kaupa hana á stafrænu formi, sem geisladisk og vinyl á vefsíðu Valgeirs auk þess sem hægt er að streyma henni á gogoyoko.

Platan hefur þegar fengið prýðis viðtökur hjá miðlum á borð við The Wire og Pitchfork, en Íslendingum mun gefast kostur á að heyra lög af henni á Airwaveshátíðinni eftir rétt rúmlega mánuð á Bedroom Community kvöldinu á Iðnó föstudaginn 2. nóvember.

Ojba Rasta sendir frá sér sína fyrstu plötu

Íslenska gæðareggae sveitin Ojba Rasta sendir frá sér sína fyrstu plötu á þriðjudaginn n.k. Platan, sem er samnefnd sveitinni, hefur verið í vinnslu í þó nokkurn tíma og hafa landsmenn fengið að heyra 3 lög af plötunni á öldum ljósvakans. Lögin “Baldursbrá” og “Jolly Good” hafa lagst vel í landann og nú síðast er lagið lagið “Hreppstjórinn” farið að heyrast.

Platan kemur út á vegum Record Records og verður hún fáanleg bæði á CD og vínyl. Forsala hefst í dag á stafrænni útgáfu á plötunni hjá Gogoyoko.com

Angry Bones

Angry Bones er ný af nálinni en skipuð reynsluboltum úr tónlistarsenunni. Fiona Cribben og Einar Johnson voru í hljómsveitinni Rhondda & the Runestones, bræðurnir Árni og Þórarinn Kristjánssynir skipa einnig pönk-cover hljómsveitina Fivebellies og Þórarinn trommar með Dýrðinni. Bassaleikari sveitarinnar er svo hinn knái Bogi Reynisson, kenndur við m.a. Sororicide og Stjörnukisa.

Þetta band er á fullu að spila og taka upp, og fyrsta smáskífan leit dagsins ljós fyrir skemmstu en það er lagið “Kim Peek”. Þau spila svo á Ellefunni þann 20. september næstkomandi.

Angry Bones á Facebook

Nýtt og nýlegt íslenskt

Íslenskt tónlistarlíf virðist vera í stórsókn um þessar mundir. Í ár hafa, að manni finnst, komið út óvenju margar afburða góðar plötur og enn er von á nokkrum til viðbótar og stefnir allt í að tónlistarárið 2012 á íslandi verði eitt það besta í manna minnum.

Hér að neðan eru lög nokkurra flytjenda sem komið hafa út nýlega sem munu án efa eiga sinn þátt í að gera tónlistarárið eftirminnanlegt.

Jóhann Krstinsson – No Need To Hasitate

Afar áheyrilegt og sterkt lag af væntanlegri plötu sem nefnist Headphones. Undirritaður bíður nokkuð spenntur eftir þessari.

The Lovely Lion – Lovely Lion

Langbesta bandið á síðustu Músiktilraunum samkvæmt Arnari Eggerti Thoroddsen. Ættu að ná langt.

Pascal Pinon – Moi

Tekið af glænýrri stuttskífu stelpnanna sem nefnist Party Wolves.

Ferja – The Finest Hour

Tekið af plötunni A sunny colonnade sem kom út í sumar. Þessi á skilið að fá nokkra snúninga á fóninum þínum.

Ásgeir Trausti – Leyndarmál

Nýliði ársins? Ekki spurning! Svona hittara gerir líka bara fólk sem ætlar sér að ná langt. Frumburðurinn Dýrð í dauðaþögn er væntanlegur.

Foreign Mona – Admire

Nýtt og efnilegt. Meira á leiðinni. Spennó.

Ólafur Arnalds – For Teda

Ólafur er alltaf jafn iðinn og ótrúlega duglegur að dæla frá sér efni. Lagið er að finna á smáskífunni Two Songs for Dance sem kom út í síðasta mánuði.

4 nýjar plötur útgefnar hjá Ching Ching Bling Bling!

Kiss the Coyote er nýtt akústískt þjóðlagapopps band stofnað síðla september 2011. Áhafnarmeðlimir eru þó engir nýgræðingar en það eru þeir Hallgrímur Jón (Grímsi í Tenderfoot, Pornopop), Pétur Úlfur (Pornopop), Arnar Ingi Hreiðarsson (Hljómsveitin Ég, Monterey), Arnór Pálmi Arnarson og Maggi Magg (Shadow Parade). Bandið tók upp sína fyrstu skífu nýverið undir Heklurótum í sumarbústaðnum Hrauntungu þar sem þeir náðu að magna upp og fanga einstaka stemmningu sem nálgast má nú þegar stafrænt á gogoyoko.com og chingchingblingbling.com.

Rafsteinn (Hafsteinn Michael Guðmundsson f. 1976) er þekktur fyrir myndlist sína hefur nú stigið hliðarspor og gefið út 5 laga hljóðrænan frumburð Rebirth. Platan var tekin upp á heimili listamannsins af honum sjálfum en hljóðblönduð og hljómjöfnuð af Pétri Úlfi (pornopop o.fl.). Platan er ókeypis fyrir fólk til niðurhals af Bandcamp, en einnig fáanleg á Gogoyoko í fríu streymi og í helstu netverslunum.

Orrustubjarki (Bjarki Markússon f. 1975) er af mörgum kunnur fyrir ART/CRIME stefnuna, en hefur ekki látið það stoppa sig í að búa til tónlist og gefur nú út langþráða plötu New Clear Beginning. Bjarki er helmingur jaðarbandsins Peter and Wolf,
sem gáfu út plötuna Ching Ching Bling Bling árið 2007 og náðu eyrum nokkurra tónlistarspekúlanta í leiðinni.

Platan New Clear Beginning er ókeypis fyrir fólk til niðurhals af Bandcamp, en fáanleg einnig á Gogoyoko í fríu streymi og í helstu netverslunum.

Tarnús jr. (Grétar Magnús Grétarsson f. 1974) er starfsmaður Bauhaus í dúkadeildinni, og náði að heilla Heiðu (Hellvar, Unun) í einu Ching partíinu til að syngja með sér sumarsmellinn “Pussycat”. Lagið er upphaflega af plötunni Original Cowboy sem kom út árið 2005 en var sett í nýjan búning með aðstoð hljómsveitarinnar Hellvar sem spilaði undir.

Sudden Weather Change kynna: Sculpture

Íslenska rokksveitin Sudden Weather Change býður til veislu í plötubúðinni Kongó við Nýlendugötu 14 nk. fimmtudagskvöld (3.ágúst). Tilefnið mun vera útgáfa annarrar breiðskífu sveitarinnar, Sculpture en platan fylgir eftir frumburðinum, Stop! Handgrenade In The Name of Crib Death´nderstand?, frá árinu 2009.

Veisluhöldin hefjast klukkan 20.30 og verður Sculpture rennt í gegn auk þess sem gestum gefst tækifæri til að skála og snæða með hljómsveitarmeðlimum eitthvað fram á kvöld.

Fyrri útgáfa Sculpture situr nú í fjórða sæti meðal jafningja á vefsíðunni gogoyoko.com og boðar áhugaverðar sviptingar í tónheimi Sudden Weather Change.

Eistnaflug 2012 keyrð í gang

Rokkhátíðin Eistnaflug var sett í áttunda sinn á Neskaupstað í gærkvöldi. Það var í höndum hinnar ungu og íslensku harðkjarnasveitar, In Company of Men að kveikja á græjunum og hita vel. Aðstandendur telja að um 1300 manns hafi sótt hátíðina í Egilsbúð í gærkvöldi og enn streyma gestir að Neskaupstað. Auk In Company of Men léku m.a.  Momentum, Moldun, Hellvar, Wistaria,  Gone Postal, Innvortis og Sólstafir fyrir flösuþeytingum og sveiflu í gærkvöldi.
Tónleikar hefjast að nýju klukkan 15 í dag og standa fram eftir kvöldi. Meðal þeirra sem koma fram í kvöld eru Dr.Spock, Vicky, The Vintage Caravan, Hljómsveitin Ég, Celestine, Endless Dark, Skálmöld og Severed Crotch svo eitthvað sé nefnt.

Hátíðinni lýkur svo á laugardag með framkomu Botnleðju, I Adapt, Muck, Dimmu og bandarísku sveitarinnar Cephalic Carnage auk fjölda annarra listamanna.

Enn er hægt að nálgast miða við hurð í Egilsbúð, Neskaupstað fyrir komandi kvöld en einnig er hægt að nálgast dagspassa fyrir annan hvorn daginn á 5.000 krónur stykkið.