Ýlfur Gísla Þórs Ólafssonar

Ýlfur eftir Gísla Þór Ólafsson

Í fyrra kom út platan Ýlfur, þriðja sólóplata Gísla Þórs Ólafssonar. Á plötunni, sem er 10 laga, má finna 4 lög við ljóð Geirlaugs Magnússonar (úr bókinni Þrítíð, 1985) og eitt lag við ljóð Gyrðis Elíassonar (úr bókinni Tvö tungl, 1989). Ljóð Geirlaugs komu einnig út á kassettunni Lystisnekkjan Gloría sem Smekkleysa gaf út árið 1986 og las þá skáldið við undirspil Bubba Morthens.

Meðfylgjandi eru lög af Ýlfri, “Blá blóm” og lag við ljóð Geirlaugs, “Fleiri nátta blús”.

Upptökustjórn var í höndum Sigfúsar Arnars Benediktssonar.
Mynd á umslagi gerði Auður Eyleif Einarsdóttir.

Wago – Fear of Heights

Wago - Fear of Heights

Hljómsveitin Wago gaf út sína fyrstu breiðskífu, Fear of Heights, í lok síðasta árs. Þar er á ferð fágað, poppskotið rokk sem renna ætti ljúflega um hlustir íslenskra tónlistaráhugamanna. Sveitin spilaði á sínum fyrstu tónleikum (off-venue á Airwaves í fyrra) um svipað leiti og platan kom út. Má því segja að sveitin hafi nánast sprottið fram fullsköpuð og hlaðin hæfileikum.

Hljómsveitin stendur saman af þeim Birki Bjarnasyni hljómborðsleikara, Elíasi Bjarnasyni gítarleikara, Gylfa Braga Guðlaugssyni bassaleikara, Markúsi Bjarnasyni gítarleikara, Símoni Geir Geirssyni trommara og Símoni Jóhannessyni söngvara.

Tónlistarárið 2014 – Ársuppgjör Rjómans

Þá er komið að uppgjörsstund enn og aftur. Eins og Rjómans er vani verður reynt að brjótast út fyrir hið hefðbundna form árslistans og birta frekar einskonar upptalningu á því merkilegasta sem fyrir skilningsvitin bar á árinu. Tónlistarárið 2014 var í alla staði afar gjöfult, hvort sem litið er til innlendrar eða erlendrar tónlistar, og verður hér fjallað um rjómann af því sem á fjörur Rjómans bar. Stiklað verður á stóru og aðeins fjallað um það sem hreif Rjómann mest. Þó má ekki halda að þær plötur og listamenn sem ekki er fjallað um hér að neðan hafi á einhvern hátt fallið í grýttan jarðveg hjá þeim sem hér ritar. Svo er ekki. Hreint ekki. En einhverstaðar verður að draga mörkin og því er ársuppgjörið svona:

Íslenska deildin

Mono Town - In the eye of the storm

Það var margt áheyrilegt íslenskt á árinu en besta íslenska platan var án efa In The Eye of The Storm með Mono Town. Eitthvað sýnist mér sú ágæta plata hafa gleymst í íslenskri uppgjörsumræðu nú og því tilvalið að útnefna hana bestu íslensku plötuna á því herrans ári 2014.

Meðfylgjandi er titillag plötunar en í því kristallist allt það sem gerir In The Eye of The Storm að jafn einstökum tónlistargjörning og hún er. Hér elur alíslenskur metnaður og allt-lagt-í-sölurnar-mennska af sér enn eitt meistaraverkið.

Af öðrum plötum íslenskum sem runnu ljúflega í gegnum tónlistarlegan meltingarveg Rjómans má nefna Sorrí með Prins Póló en á henni er að finna margan hversdagsóðinn hvern öðrum límkenndari. Þó ekki hafi verið ætlunin að gera lista þá er Sorrí klárlega önnur besta plata ársins að mínu mati.

Einstaklingsframtakið Low Roar gerðist alíslensk hljómsveit á árinu og sendi frá sér stórgóða plötu sem reyndar átti að vera titilslaus en hlaut á endanum viðurnefnið 0. Hér er á ferðinni hádramatískt og tilfinningamikið verk sem lætur engan ósnortinn. Rjóminn mælir einnig eindregið með að tónlistarunnendur geri sér ferð og sjái Low Roar á tónleikum sé það í boði. Sveitin er reyndar nýkomin úr tónleikaferðalagi í Norður-Ameríku, þar sem hún hitaði upp fyrir sjálfan gullkálfinn Ásgeir Trausta, en ætti þó að stíga á stokk fljótlega aftur á nýju ári.

Oyama sendu frá sér sína fyrstu breiðskífu og nefndu hana Coolboy. Þar er á ferðinni einstaklega áheyrilegur gripur hlaðinn tilfinningu og tjáningu. Sveitinni tekst að mestu að losa sig við skóglápsstimpilsvertuna og bjóða hlustendum uppá nýjan persónlegri hljóðheim.

Íslenskt pönk vaknaði svo sannarlega til lífsins á árinu og fór fremst í flokki fyrir þeirri enduvakningu hljómsveitin Elín Helena. Sendi hún frá sér hina stórgóðu plötu Til þeirra er málið varðar en á henni er nóg af beittum boðskap til þeirra er málið varðar. Rjóminn var þess heiðurs aðnjótandi að fá að sjá sveitina tvisvar á sviði á árinu og er það upplifun sem auðvelt er að mæla með.

FM Belfast hefur fyrir löngu sannað sig sem ein allra hressasta sveit landsins og festi hún sig vel í sessi sem slík á árinu með útgáfu plötunnar Brighter Days. Þrátt fyrir að vera annálað gleðiband má greina á plötunni ögn alvarlegri tón og heilsteyptari útsetningar en á fyrri plötum og gerir það heildarmyndina sterkari fyrir vikið.

Ragga Gröndal sendi frá sér einstaklega ljóðræna og flotta plötu sem nefnist Svefnljóð og sannar enn og aftur að hún er ein af okkar allra bestu söngkonum. Rjómanum þykir leitt hve lítið hefur farið fyrir umfjöllum um þessa ágætu plötu og mælir hann eindregið með að tónlistarunnendur verði sér út um eintak.

Teitur Magnússon, söngvari og gítarleikari Ojba Rasta, sendi frá sér hina persónulegu og litríku plötu 27. Kannar Teitur þar sækadelískan og exótískan hljóðheim og tekst einkar vel upp. Meðfylgjandi er lagið “Nenni” og gefur það ágætis mynd af því sem hlustendur eiga von á við að hlýða á þessa fyrirtaks plötu.

Hljómsveitin Valdimar gaf út sína þriðju plötu sem ber titilinn Batnar útsýnið og verður að segjast að á henni batnar heldur betur það sem sveitin gerði þó vel fyrir. Hljóðheimur Valdimars hefur tekið nokkrum breytingum og má glöggt heyra ferska rafræna og akústíska strauma sem glæða oft tilfinningaþrungin lög sveitarinnar nýju lífi.

Erlenda deildin

Champs - Down like gold

Allra besta erlenda platan sem varð á vegi Rjómans á árinu var platan Down like gold með bræðrunum Michael and David Champion í dúóinu Champs. Hér er á ferð afar snaggarleg poppplata með ljúfsárum en einstaklega grípandi lögum sem heillaði undirritaðan alveg upp úr skónum. Hafir þú, lesandi góður, ekki kynnt þér þessa plötu mæli ég eindregið með því að þú beinir vafra þínum í átt að næstu tónlistarveitu og leggir vel við hlustir.

Hingað til lands kom maður að nafni Joel Thibodeau, sem allra jafna gengur undir listamannsnafninu Death Vessel, og tók upp plötu með þeim Jónsa og Alex. Afraksturinn er frábær plata, reyndar undir miklum áhrifum frá Jónsa og Alex, þar sem einstök söngrödd Thibodeau fær að njóta sín (aðra eins falsettu hef ég ekki heyrt hjá karlkyns söngvara). Lagasmíðarnar eru grípandi og áreynslulausar og þolir platan vel endurtekna hlustun.

Pólsku dauðarokkararnir í Behemoth, sem heiðra munu landann með nærveru sinni á næstu Eistnaflugshátíð, gáfu út hina mögnuðu plötu The Satanist. Það má auðveldlega halda því fram að Behemoth hafi blásið nýju lífi í tónlistargeira sem árum saman hefur verið í talsverðri lægð og hafið upp í hæstu hæðir að nýju. Dauðarokk er sannarlega ekki allra tebolli en ekki er annað hægt en mæla með þessari plötu fyrir alla alvöru tónlistarunnendur (fyrst mamma mín fór á Skálmaldar tónleika þá getur jú allt gerst).

Úr ösku Pete and the Pirates rís hljómsveitin Teleman og sendi hún frá sér hina látlausu en mjög svo áheyrilegu plötu Breakfast. Líkt og með Champs plötuna, sem ég minntist á hér að ofan, þá er Breakfast full af léttum og hnitmiðuðum lagasmíðum sem margar hverjar grípa mann strax við fyrstu hlustun og sitja svo ómandi fastar í toppstykkingu lengi á eftir.

Hooray for earth er áhugavert band sem Rjóminn hefur haft gætur á lengi. Eftir nokkrar sæmilegar útgáfur kom loksins á árinu plata þar sem sveitin sýnir sitt rétta andlit. Hooray for earth hefur mjög svo sérstakan hljóm sem einkennist af niðurtjúnuðum og þéttum gíturum, synth-um og angurværum laglínum. Blandan er frábær og skylduáheyrn fyrir hinn forvitna popprokkara. Tékkið á plötunni Racy við fyrsta tækifæri.

Ég ætla að enda erlenda yfirferð mína á hinum snarbilaða Kanadabúa Aaron Funk en hann er almennt betur þekktur undir listamannsnafninu Venetian Snares. Aaron þessi hefur verið afar iðinn við plötuútgáfu undanfarin ár og oft undir hinum ýmsu nöfnum. Á árinu gaf hann út plötuna My love is a bulldozer og er hún, eins furðulega og það kann að hljóma, líklega ein af hans aðgengilegri verkum. Venetian Snares er fyrir löngu orðið þekkt nafn í heimi raftónlistar og mætti vel skipa honum sess með listamönnum á borð við Squarepusher og Aphex Twin. Ég játa fúslega að þarf töluverða þolinmæði til að hlusta á svona tónlist en það er vel þess virði að leggja það á sig.

Tónlistarviðburður ársins

ATP Iceland 2014

ATP hátíðin í sumar var að mínu mati lang besti tónlistarviðburður ársins og voru tónleikar Portishead og Interpol hápunktur hátíðarinnar. Það er einhver undarlega afslöppuð og vinaleg stemming sem myndast þarna upp á Ásbrú sem aðrar hátíðir ná einfaldlega ekki að fanga jafn vel. Tómas Young og hans fólk fær fullt hús stiga frá Rjómanum fyrir glæsilega hátíð. Takk fyrir mig.

Í öðru sæti kemur svo Secret Solstice hátíðin sem haldin var í Laugardalnum en þar var allt utanumhald og skipulag eins og best verður á kosið og ekki skemmdi fyrir magnaðir tónleikar Massive Attack.

Ekki má svo gleyma árshatíð tónlistarunnenda, sjálfri Iceland Airwaves hátíðinni. Hún var að venju jafn stórfengleg og áður og á skilið sitt knús frá Rjómanum. Airwaves klikkar aldrei!

Lög ársins

Junius Meyvant

Að þessu sinni mun ég blanda saman erlendum og innlendum lögum og birta í engri sérstakri röð. Njótið.

Júníus Meyvant – Color Decay

Það bíða sjálfsagt allir eftir plötunni hans Júníusar Meyvant og það ekki af ástæðulausu. Því ef eitthvað er að marka þetta eina lag af plötunni sem fengið hefur að hljóma á öldum ljósvakans og í pípum Alnetsins þá eigum við tónlistarunnendur von á góðu.

Champs – My Spirit Is Broken

Uppgötvun ársins, plata ársins og viðlag ársins. Jú og rödd árins. Það er eitthvað við þessa brothættu og mjóróma rödd sem heillar.

Kishi Bashi – Carry on phenomenon

Hressilegur og upplífgandi geimrokksóður með óvenjulega svölum disco fíling. Á köflum er 70s sándið fangað fullkomlega.

Mono Town – Can deny

Það er oft þannig að fyrstu lögin sem maður heyrir af plötum eru þau sem sitja fastast og svo er sannarlega raunin með þennan sækadelíska og sinematíska ópus frá frændunum í Mono Town.

Teleman – Cristina

Róleg uppbyggingin, risið og grípandi viðlagið heilluðu við fyrstu hlustun…og gerir enn.

FM Belfast – We Are Faster Than You

Eitt allra besta íslenska stuðlag sem ég hef heyrt í lengri tíma. Og þetta bít! Maður getur ekki annað en bömpað náungan og brosað út í bæði þegar þetta lag tekur að hljóma.

Alt-J – Every other freckle

Bara ef platan hefði öll verið jafn fjölbreytt og skemmtileg og þetta lag þá hefði hún sjálfsagt endað ofar á uppgjörslistum spekúlantanna en raun ber vitni.

Passenger Peru – Heavy Drugs

Fríið, peningarnir og eiturlyfin búin. Alger bömmer. En samt er einhver hálf lúðaleg og heillandi gleði enn við völd.

Death Vessel – Ilsa Drown

Um leið og Jónsi lætur í sér heyra breytist lagið í hálfgert Sigur Rósar lag. En það er einmitt einhvern veginn svo heillandi alltaf finnst mér.

Ed Harcourt – We All Went Down With the Ship

Drífandi og taktfast lag með flottu viðlagi. Það þarf nú oft ekki meira til.

Painted Palms – Here It Comes

Draumkennt og létt-sækadelískt popplag sem hrífur mann með við fyrstu hlustun.

The Hidden Cameras – Doom

The Hidden Cameras er afar vanmetin hljómsveit að mínu mati. Meðfylgjandi lag er finna á plötu sveitarinnar sem kom út á árinu og nefnist Age. Rjóminn mælir með!

27 – Teitur Magnússon

Teitur - 27

27 er fyrsta platan sem Teitur Magnússon, gítarleikari og söngvari í Ojba Rasta, sendir frá sér undir eigin nafni. 27 er plata með nýjan og framandi hljóðheim sem nostrað hefur verið við. Exótísk hljóðfæri eins og cuica, sas, taisho koto og sítar koma við sögu en upptökustjóri plötunnar, Mike Lindsay (einnig þekktur sem Cheek Mountain Thief), laðaði fram það besta frá ýmsum góðum gestum. Platan er öll sungin á íslensku með frumsömdum textum en einnig fá höfuðskáld að láta ljós sitt skína, eins og m.a. í laginu “Nenni” sem inniheldur vísur Benedikts Gröndal frá nítjándu öld.

Teitur gefur plötuna út sjáfur á geisladisk til að byrja með en ef vel gengur er aldrei að vita nema platan komi út á vínil þótt síðar verði. Record records sér um að dreyfa plötunni.

uniimog

Uniimog

Uniimog er splunkuný hljómsveit, hugarfóstur þeirra Þorsteins Einarssonar og Guðmundar Kristins Jónssonar sem báðir eru gjarnan kenndir við Hjálma. Þeir Steini og Kiddi hafa verið iðnir við kolann undanfarna mánuði en þeir hafa verið á faraldsfæti með Ásgeiri Trausta Einarssyni, yngri bróður Steina og nánum samstarfsmanni Kidda.

Á ferðum sínum um ókunn lönd hófu þeir félagar að dunda sér við að gera nýja tónlist til að drepa tímann og göfga andann og þegar tími hefur gefist hér heima hafa upptökur farið fram í Hljóðrita í Hafnarfirði með dyggri aðstoð góðra vina, svo sem Ásgeirs Trausta og Sigurðar Guðmundssonar sem á endanum gengu báðir til liðs við hljómsveitina.

Smám saman varð til efni í heila plötu sem kom út 12. nóvember á vegum Senu og ber heitið Yfir hafið.

Lára Rúnars sendir frá sér nýtt lag

Lára Rúnars

Lára Rúnars sendi nýverið frá sér nýtt lag sem nefnist “Rósir” og er af væntanlegri plötu hennar sem kemur út snemma á næsta ári. Fyrsta smáskífa plötunnar, “Svefngengill”, náði góðu gengi og setti tóninn fyrir það sem vænta má af komandi plötu. Textarnir eru að þessu sinni á Íslensku og eru öll lög og textar eftir Láru Rúnars. Upptökustjóri er Stefán Örn Gunnlaugsson sem einnig gefur út undir listamannanafninu Íkorni. Hljómsveit Láru Rúnars skipa Arnar Þór Gíslason, Þorbjörn Sigurðsson, Birkir Rafn Gíslason og Guðni Finnsson.

Ýlfur eftir Gísla Þór Ólafsson komin út

Ýlfur eftir Gísla Þór Ólafsson

Út er komin platan Ýlfur. Platan er þriðja sólóplata Gísla Þórs Ólafssonar, en hann hefur áður gefið út plöturnar Bláar raddir (lög við ljóð Geirlaugs Magnússonar, 2013) og Næturgárun (undir flytjandanafninu Gillon, 2012). Platan, sem inniheldur tíu lög, er byggð á samnefndri kassettu sem höfundur gaf út í örfáum eintökum árið 1998.

Upptökur fóru fram í Stúdíó Benmen og var upptökustjórn í höndum Sigfúsar Arnars Benediktssonar. Mynd á umslagi gerði Auður Eyleif Einarsdóttir.

Þess má til gamans geta að Gísli Þór er einnig bassaleikari hljómsveitarinna Contalgen Funeral.

Meðfylgjandi eru lögin “Blá blóm” og “Andar í ýlfrun trjánna”.

Ólafur Björn sendir frá sér plötuna Innhverfi

Óbó

Innhverfi er fyrsta hljómplata Ólafs Björn Ólafssonar sem kallar sig Óbó. Á plötunni má heyra sjö lög með íslenskum textum í flutningi Ólafs ásamt einvala liði hljóðfæraleikara. Þó að Innhverfi sé fyrsta hljómplata Ólafs þar sem heyra má hann syngja eigin lög hefur hann á undanförnum árum komið fram sem slagverksleikari og hljómborðsleikari með mörgum af vinsælustu hljómsveitum og listamönnum þjóðarinnar og má þar nefna Sigur Rós, Jónsa og Emilíönu Torrini.

Innhverfi er gefin út af þýsku hljómplötuútgáfunni Morr Music á heimsvísu og er bæði fáanleg á geisladisk og vínil. Ólafur mun fylgja eftir útgáfunni með tónleikaferðalagi um Evrópu eftir áramót þar sem hann mun koma fram ásamt Sóley á stuttum evróputúr.

Platan Skynvera með Futuregrapher kemur út í dag

Futuregrapher - Skynvera

Út er komin platan Skynvera með íslenska raftónlistarmanninum Futuregrapher (Árni Grétar) á vegum Möller Records útgáfuforlagsins. Þetta er önnur stóra plata Futuregrapher en fyrri plata hans LP kom út árið 2012 og hlaut lofsamlega dóma og var m.a. valin ein af 20 bestu plötum ársins. Skynvera kemur út á CD og vínyl en einnig er hægt að kaupa plötuna rafrænt á vef Möller Records, www.mollerrecords.com.

Futuregrapher ætlar að fagna útkomu plötunnar í Lucky Records í dag, fimmtudag, milli kl. 17:00 – 20:00 og eru allir velkomnir.

Hljómsveitin Vio sendir frá sér sína fyrstu smáskífu

Vio

Mosfellska hljómsveitin Vio, sem vann síðustu Músíktilraunir, vinnur nú að sinni fyrstu plötu en hún er væntanleg þann fjórða desember næstkomandi. Fyrr í dag lét sveitin frá sér fyrstu smáskífuna af væntanlegri plötu og er lagið þegar farið að æða um pípur Alnetsins með talsverðum hraða. Lagið heitir “Empty streets” og hljómar hér að neðan.

Meðlimir Vio eru þeir Magnús Thorlacius (söngur og gítar), Páll Cecil Sævarsson (trommur), Kári Guðmundsson (bassi) og Yngvi Rafn Garðarsson Holm (gítar).

Valdimar sendir frá sér nýja plötu

Valdimar - Batnar útsýnið

Hljómsveitin Valdimar hefur sent frá sér nýja hljómplötu. Platan hefur fengið nafnið Batnar útsýnið og kom í verslanir í október síðastliðnum.

Á plötunni má heyra nýjan hljóðheim þar sem akústískum hljóðfærum er gert hærra undir höfði en um leið er kafað dýpra ofan í heim raftónlistar. Við gerð plötunnar leitaðist hljómsveitin að eigin sögn við að leyfa hverju hljóði að njóta sín, svo að rúmt væri um hvert smáatriði og reyndu þannig að skapa einhverskonar andrúm í lögunum.

Meðlimir sveitarinnar segja svo sjálfir frá:

Vinnsla plötunnar tók lengri tíma en gengur og gerist hjá bandinu og tók hún breytingum allt fram á síðasta dag. Batnar útsýnið er því ef til vill lýsandi fyrir þetta ferli sem hljómsveitin gekk í gegnum við vinnslu plötunnar. Stundum þarf að rýma aðeins til svo að heildarmyndin fái að njóta sín.

Þessi hugsjón á einnig við um texta plötunnar og fjalla þeir um hinn mannlega anda. Stundum er þoka innra með manni en þegar henni léttir og útsýnið batnar þá sér maður hlutina í réttu samhengi.

Skurk fagnar útgáfu Final Gift

Félagarnir í SKURK gáfu út diskinn Final Gift á árinu og ætluðu heldur betur að fylgja honum eftir með tónleikahaldi. Því miður varð sveitin fyrir því óhappi að Guðni, söngvari og gítarleikari, fótbrotnaði svo illa að hann þurfti að vera á hækjum í 6 mánuði og fóru því öll plön um tónleikahald skiljanlega út um gluggann.

Jón Heiðar bassaleikari SKURK hafði þetta að segja um málið:

Við ákváðum því að spila eins vel og við gætum úr aðstæðum og byrjuðum að semja næsta disk og erum nú rétt byrjaðir á stúdíovinnu í stúdíó GFG. Einnig tókum við upp myndband sem við erum nýlega búnir að gefa út.

Og þar sem söngvarakvikindið er farið að geta staulast um án hækjanna ætlum við að smella í eina tónleika á Gauknum 22. nóv. með eðalsveitinni Casio Fatso

Nánari upplýsingar um tónleikana má finna á Facebook

Containing the Dark með Geislum.

Containing the Dark er fyrsta plata ofurhljómsveitarinnar Geisla.

Flestir þeir sem fylgjast með tónlistarlífi á Íslandi þekkja meðlimi Geisla úr hljómsveitum á borð við Hjaltalín, Moses Hightower, ADHD og Hjálma.

Sigríður Thorlacius syngur en auk hennar skipa sveitina þeir Magnús Trygvason Eliassen, Ómar Guðjónsson, Óskar Guðjónsson, Valdimar Kolbeinn Sigurjónsson og Styrmir Sigurðsson sem einnig semur tónlistina og stjórnar upptökum.

Tónlistin er seiðmögnuð melankólía sem sækir áhrif víðs vegar: úr kvikmyndatónlist, indípoppi, jazzi, elektróník og sálartónlist. Sér til aðstoðar hefur hljómsveitin átta manna strengjasveit.

Unnsteinn Manuel Stefánsson syngur í einu lagi, Rósa Guðrún syngur raddir, Samúel J Samúelsson leikur á básúnu og Frank Aarnink á hið dulmagnaða cimbalom.

Textar eru eftir Dóru Ísleifsdóttur. Kjartan Kjartansson tók upp og hljóðblandaði í Bíóhljóð.

Nýtt lag frá All Day, Every Day

Dagur Árni Guðmundsson

All Day, Every Day er sólo verkefni Dags Árna Guðmundssonar en hann gaf nýlega út nýtt lag sm nefnist “Let Down.” Dagur fór áður undir nafninu Lil Peep the Sheep og gaf út eina plötu í fyrra. Nú er nú plata í verkum og verður vonandi kláruð fyrir áramót.

Revolution in the Elbow of Ragnar Agnarsson Furniture Painter

Revolution In The Elbow of Ragnar Agnarsson Furniture Painter

Úr hugarfylgsnum Ívars Páls Jónssonar kemur konseptplatan Revolution in the Elbow of Ragnar Agnarsson Furniture Painter. Platan geymir 18 lög sem segja sögu Olnbogavíkur, lítils bæjar í líkama miðaldra húsgagnamálara, sem að öðru leyti hefur ekkert með söguna að gera.

Sagan greinir frá risi og falli samfélagsins í olnboganum og örlögum íbúa bæjarins á stormasömum tímum. Tónlistin er úr söngleik með sama nafni sem frumsýndur var í New York 13. ágúst síðastliðinn.

Ívar Páll Jónsson hefur verið afkastamikið skúffutónskáld undanfarinn aldarfjórðung. Hann fékk Stefán Örn Gunnlaugsson upptökustjóra til liðs við sig árið 2011 og hefur platan verið í undirbúningi síðan. Á plötunni syngja ásamt Ívari og Stefáni þau Sigríður Thorlacius, Valdimar Guðmundsson, Ásdís Rósa Þórðardóttir, Hjalti Þorkelsson, Soffía Björg, Arnar Guðjónsson og Liam McCormick úr bandarísku hljómsveitinni The Family Crest.

Hafdís Huld sendir frá sér breiðskífuna “Home”

Home er þriðja sólóplata tónlistarkonunnar Hafdísar Huldar. Platan sem kemur út um allan heim á vormánuðum 2014 var unnin í samstarfi við Alisdair Wright og fóru upptökur fram á heimili þeirra í Mosfellsdalnum. Áður hefur Hafdís Huld sent frá sér plöturnar Dirty Paper Cup ( sem var valin popp plata ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum 2006 ) og Synchronised Swimmers ( 2009 ) en lögin “Kónguló”, “Action man” og titillagið “Synchronised Swimmers” nutu mikilla vinsælda í útvarpi. Eins hefur Hafdís Huld gert barnaplöturnar Englar í ullarsokkum ( 2007 ) og Vögguvísur ( 2012).

Hafdís Huld hefur unnið sem lagahöfundur og söngkona með listamönnum á borð við Tricky, Gus gus, FC Kahuna og Nick Kershaw auk þess að semja tónlist fyrir kvikmyndir og auglýsingar á vegum Bucks music publishing. Home er gefin út hjá Reveal records í evrópu og hjá OK!Good í bandaríkjunum.

Hér að ofan má sjá myndband við lagið “Queen Bee” af plötunni Home.

Nýtt lag frá Low Roar

Low Roar

Tríóið Low Roar sendi í dag frá sér glænýtt lag af væntanlegri annari plötu sveitarinnar og heitir það “I’m leaving”. Nú er farið að hlakka verulega í undirrituðum að heyra sjálfa plötuna og sjá Low Roar stíga á svið, ásamt föngulegum hópi listamanna, á ATP hátíðinni í sumar.

Brother North

Brother North

Hið sænsk/hálf-íslenska dúó Brother North, skipað þeim Freyr Flodgren og Lucas Enquist, sendi í vikunni frá sér sína fyrstu plötu og er hún samnefnd tvíeykinu. Hér er á ferð tilfinningaþrungin og tilkomumikil fólktónlist með popp og post-rokk ívafi.

Platan hljómar í heild sinni hér að neðan og er vel til þess fallin að leika við hlustir lesanda.

Áhugasamir geta fundið meira um Brother North á Rjómanum hér.