Fyrstu listamennirnir kynntir fyrir næstu Airwaves hátíð

Of Monsters and Men á Airwaves

Fyrr í dag tilkynntu forsvarsmenn Iceland Airwaves fyrstu listamennina sem boðað hafa komu sína á næstu hátíð. Erlendis frá mæta hinn sýrenski Omar Souleyman, Gold Panda (UK), Goat (SE), Fatima Al Qadiri (KW), Anna Von Hausswolff (SE) melódísku pönkararnir No Joy (CA).

Úr hópi klakabúa mæta Hjaltalín, Pascal Pinon, Valdimar, Tilbury, Ojba Rasta og metalsveitin magnaða Momentum.

Opnað hefur verið fyrir umsóknir til að spila á hátíðinni og geta íslenskir listamenn sótt um hér.

Monotown hjá KEXP

Hljómsveitin Monotown bauð fulltrúum Seattle-útvarpsstöðvarinnar KEXP í heimsókn til sín á meðan síðustu Airwaves hátíð stóð og voru nokkur lög fest á filmu við það tækifæri. Hér flytur sveitin lagið “Can Deny” sem finna má á væntanlegri plötu hennar sem koma mun út seinna á árinu. Eflaust kannast einhverjir við lagið en það er þegar farið að heyrast á nokkrum útvarpsstöðvum. Rjóminn er handviss um að væntanleg plata Monotwon verði ein sú besta á þessu ári og ættu lesendur óhikað að vera með þessa mögnuðu sveit á radarnum.

My Brother is Pale á Airwaves

My Brother is Pale hefur í nógu að snúast á Airwaves og spilar á sex tónleikum á hinum ýmsu stöðum. Á miðvikudeginum verða þeir á Reykjavík Backpackers klukkan 22:00, fimmtudeginum á Hressó klukkan 22:45, föstudeginum á Reykjavik Backpackers klukkan 20:00 og í Hinu húsinu klukkan 21:00, á laugardeginum á Kofa Tómasar frænda klukkan 22:10 og svo á Dillon á sunnudeginum klukkan 22:30.

My Brother is Pale er tiltölulega nýleg íslensk hljómsveit skipuð þeim Matthijs Van Issum, Ástvaldi Axel, Hannesi og Emil. Hljómsveitin hefur starfað í þessari mynd síðan í október 2011. Í vor og sumar tók hljómsveitin upp fimm laga plötu sem nefnist DP#01. Á henni eru fjögur frumsamin lög auk ábreiðu af Tim Buckley laginu “Song to the Siren”.

Thee Attacks gefa út plötu og spila á Airwaves

Danska rokksveitin Thee Attacks munu koma fram á tónlistarhátíðinni Iceland Airwaves 2012. Opinberir tónleikar þeirra á hátíðina verða á Gamla Gauk föstudagskvöldið 2. nóvember. Hljómsveitin mun einnig koma fram á nokkrum Off-venue tónleikum í kringum hátíðina. Í tilefni af heimsókn þeirra hefur útgáfufélagið Crunchy Frog ákveðið að gefa aðra breiðskífu þeirra út á Íslandi. Platan kemur út fimmtudaginn 25. október og heitir Dirty Sheets. Platan hefur notið mikilla vinsælda í heimalandi þeirra og heiðarlegt rokk þeirra átt greiða leið að eyrum hlustenda. Eins hefur hljómsveitin hlotið mikið lof fyrir tónleika sína, en Thee Attacks þykir einstaklega lífleg og kraftmikil hljómsveit.

Nýtt lag frá hljómsveitinni Momentum

Í dag gefur hljómsveitin Momentum frá sér fyrsta lagið af komandi plötu sveitarinnar. Lagið er titillag plötunnar og ber heitið “The Freak is Alive”. Upptaka og hljóðblöndun á laginu var í traustum höndum Axel “Flex” Árnasonar og hljómsveitarinnar sjálfrar. Vinnsla á plötunni hefst svo á næstu mánuðum og er áætlað að hún komi út fyrri hluta ársins 2013.

Framundan hjá sveitinni er tónlistarhátíðin Iceland Airwaves en Momentum spilar nú í fjórða sinn á hátíðinni og í þetta skipti kemur hún tvisvar fram. Laugardaginn 3. nóvember á Gamla Gauknum og sunnudaginn 4. nóvember á Café Amsterdam. Eftir það mun sveitin að mestu leyti leggjast undir feld og komandi plata kláruð ásamt nokkrum tónleikum.

Akústik Airwaves í Norræna húsinu 2012

Nú geta tónlistarunnendur glaðst því Norræna húsið stendur fyrir feitri off-venue dagskrá á Iceland Airwaves. Dagskráin fer fram í hinum rómaða sal Norræna hússins sem er sérstaklega hannaður fyrir kammertónlist. Hljómburðurinn er einstaklega góður og er dagskráin sérstaklega sniðin að aðstæðum þar sem allur flutningur er að mestu órafmagnaður. Nándin milli áhorfenda og tónlistarflytjenda er mikil og ógleymanleg stemning svífur yfir vötnunum.

Norræna húsið tók fyrst þátt í Iceland Airwaves árið 2007. Dagskráin í Norræna húsinu hefur hlotið lofsamlega umfjöllun og hefur fest sig í sessi hjá erlendum gestum hátíðarinnar sem láta sjá sig ár eftir ár og það sama má segja um sum böndin t.d. munu piltarnir í Agent Fresco og Ólafur Arnalds taka þátt í dagskránni í þriðja sinn.

Þó uppselt sé á aðaldagskrá Airwaves stendur utandagskráin alltaf fyrir sínu og gefur öllum sem áhuga vilja tækifæri til þess að taka þátt í hátíðinni. Við hvetjum ykkur til þess að mæta tímanlega koma ykkur vel fyrir í stól síðan 1968, njóta arkitektúrs Alvars Aalto, og lygna aftur augunum þegar tónarnir fylla loftið.

Dagskránna má sjá hér.

Stafrænn Hákon með nýtt lag

Stafrænn Hákon hefur sent frá sér lagið “Klump” sem verður að finna á væntanlegri mini-plötu sem nefnist Prammi. Mun hún koma út á næstu vikum í gegnum grísku lo-fi útgáfuna Sound In Silence. Hljómsveitin mun spila á Airwaves hátíðinni á miðvikudagskvöld.

Morgan Kane

Hljómsveitin Morgan Kane var að leggja lokahönd á EP plötuna sína sem hlotið hefur nafnið The way to survive anything. Fyrsta lagið af plötunni sem lítur dagsins ljós heitir “Kill The Critic” og hljómar það einmitt hér að neðan.

Morgan Kane mun spila off-venue á Airwaves á Dillon en nánari upplýsingar um dagskránna má finna hér.

Morgan Kane – Kill The Critic

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Oyama

Oyama er shoegaze-sveit úr höfuðborginni sem hefur verið að geta sér góðs orðs undanfarið og mun m.a. spila á Airwaves nú í lok mánaðar. Fyrir tveim dögum sendi sveitin frá sér nýtt lag sem nefnist “Dinosaur” og hljómar það hér að neðan ásamt tveimur eldri lögum.

Á tónlistarvefnum Straum má svo sjá ágætis viðtal við sveitina.

Nýr listamaður Bedroom Community

Íslenska jaðarútgáfan Bedroom Community er ekki gjörn á að gefa út tónlist eftir hvern sem er. Nú hefur hún þó sent frá sér tilkynningu um nýjan listamann á mála hjá útgáfunni: Paul Corley.

Corley þessi er Bandaríkjamaður sem um langt skeið hefur unnið náið með meðlimum útgáfunnar, til að mynda við plötur á borð við SÓLARIS eftir Ben Frost & Daníel Bjarnason, Draumalandið eftir Valgeir Sigurðsson og By The Throat eftir Ben Frost. Hann hefur auk þess komið að fjölmörgum öðrum verkefnum, til dæmis hina stórgóðu Ravedeath, 1972 eftir Tim Hecker auk annarra verka, en einnig má geta þess að hann samdi tónlistina við íslensku uppfærsluna á Hreinsun eftir Sofi Oksanen sem sett var upp í Þjóðleikhúsinu í fyrra.

Fyrsta plata Paul Corley nefnist Disquiet og kemur út þann 5. nóvember á alheimsvísu – en þó með sérstakri forsölu á Bandcamp síðu Corley sem og í íslenskum verslunum í Airwavesvikunni, en þar mun Corley koma fram ásamt restinni af Bedroom Community listamönnunum sex í Iðnó á föstudagskvöldinu.

Facebook / Twitter

Muck halda í tónleikaferðalag

 

Hljómsveitin Muck leggur land undir fót í vikunni þegar hún heldur í tæplega tveggja vikna tónleikaferðalag um Evrópu. Er ferðalagið liður í að fylgja eftir plötunni Slaves sem hljómsveitin gaf út fyrr á árinu.

Sveitin verður í góðum félagsskap en með þeim á ferðalaginu eru dönsku hljómsveitirnar Hexis og Whorls, en fyrrnefnda sveitin spilaði með Muck og Logn á Gamla Gauknum fyrir nokkrum vikum.

Munu þessir tónleikar eflaust nýtast sem ágætis upphitun fyrir Airwaveshátíðina, en Muck munu troða tvisvar upp á hátíðinni – á fimmtudagskvöldi og laugardagskvöldi.

Nýtt lag frá Good Moon Deer

Hljómsveitin Good Moon Deer hefur sent frá sér sitt annað lag sem nefnist einfaldlega “Black”. Það er, eins og fyrsta lagið “Blur”, frítt og aðgengilegt til niðurhals á síðu sveitarinnar: www.goodmoondeer.com

Good Moon Deer mun spila í fyrsta sinn á Iceland Airwaves hátíðinni í ár, en mikill spenningur hefur verið að myndast í kringum bandið undanfarna mánuði.

Shearwater

Eitt af áhugaverðari atriðum sem undirritaður ætlar sér að sjá á komandi Airwaves hátíð er Texas-sveitin Shearwater sem stofnuð var 1999 af nokkrum meðlimum Okkervil River. Sveitin hefur gefið út einar átta plötur og kom sú nýjasta, Animal Joy, út í byrjun þessa árs.

Shearwater flytur örlítið tilraunakennda en afar fágaða og oft ljúfa tónlist. Það mætti nota skilgreininguna “fólk-rokk með keim af kántrí” til að lýsa tónlist sveitarinnar en hún er, að mér finnst, talsvert dýpri og persónlegri en það.

Hér er myndband af Jonathan Meiburg, forsprakka sveitarinnar, að flytja hið stórgóða lag “Castaways” af plötunni The Golden Archipelago sem kom út fyrir um tveimur árum.

Hér eru svo tvö lög með Shearwater svona til að gefa ykkur smá hugmynd um hvernig sveitin hljómar í öllu sínu veldi. Þeir sem vilja kynnst bandinu betur er bent á að verða sér út um þríleikinn sem plöturnar Palo Santo (2006), Rook (2008) og The Golden Archipelago (2010).

Búið að staðfesta alla listamenn á Iceland Airwaves

Þá hafa verið kunngjörðir allir þeir 222 listamenn sem fram koma á Iceland Airwaves í Reykjavík dagana 31. október til 4. nóvember en miðar á hátíðina seldust upp um miðjan ágúst, heilum ellefu vikum fyrir hátíð. Undirbúningur fyrir Iceland Airwaves 2013 er þegar hafinn.

Endanlegt lineup má sjá á vef Iceland Airwaves.

Hér að neðan má heyra tóndæmi með nær helmingi þeirra listamanna sem fram koma á hátíðinni.

Ættu að kíkja Á Airwaves: #2 Kishi Bashi

Eins og kom fram í fyrsta pistlinum í þessari ritröð er fegurðin við að búa í stórborg eins og Chicago er að hér spila nánast allir. Ef einhverjir eru að reyna að meika það í Ameríku er alveg ljóst að þeir munu koma við. Vandinn er þó að framboðið er svo svakalega mikið að maður þarf að fylgjast vel með. Lítil bönd spila eðli málsins samkvæmt oft á litlum stöðum og því þarf maður að vera fljótur til ef maður ætlar að ná að sjá svoleiðis listamenn ef það er eitthvað „buzz“ í gangi. Ég ætla að rembast við að benda á sniðug bönd sem eiga hér leið um og hvetja Airwaves aðstandendur eða aðra tónleikahaldara að grípa þessar gullgæsir og lesendur Rjómans til að tékka á þessari músík.

Ég er sannfærður um að listamaðurinn sem nú er til umfjöllunar væri alveg frábær Airwaves listamaður. Í kringum hann er talsvert “buzz” í Ameríku þrátt fyrir að hann hafi enn ekki náð eyrum almennings svo nokkru nemur. Sem dæmi er hann með færri en 10,000 fylgjendur á Facebook. Til viðbótar hefur hann verið viðloðinn Of Montreal sem er nú Airwaves gestum vel kunn (ef mig misminnir ekki) og þau gætu því sagt honum beint frá snilldinni.

Kishi Bashi er listamannsnafn K Ishibashi sem er frá gröns borginni Seattle í Washington og fæddur árið 1975. Eftir að hafa getið sér gott orð sem fiðluleikari með flottum listamönnum eins og Regina Spektor og Of Montreal (sem hann er nú reyndar orðinn fullgildur meðlimur í) er hann nú að hoppa fram sem sólólistamaður. Músíkin hans er lúppuskotið gleðipopp með fiðlufjöri. Röddin hans er skemmtileg, textarnir flottir og eitthvað sem er miklu skemmtilegra að hlusta á en lýsa.

Hann gaf nýlega út plötuna 151A (sem hann gaf út eftir að hafa safnað $20,000 á Kickstarter). Hinn áhrifamikli þáttur á NPR (National Public Radio) All Songs Considered hefur lofað hann allt þetta ár og völdu tveir af stjórnendum lag Kishi Bashi, “Bright Whites”, besta lag fyrri hluta ársins og að sama skapi völdu hlustendum þáttarins plötu Kishi Bashi #14 á lista yfir bestu plötur fyrri hluta ársins í góðum félagsskap Of Monsters and Men #5 og Sigur Rósar #15.

Hér eru meðfylgjandi tvö lög af plötunni, “Manchester” og “Bright Whites”, og ef það vekur forvitni þá mæli ég með plötunni í heild sem og tónleikunum sem NPR hefur af góðmennsku sinni smellt á netið.

Lokaorðin eru einföld: Airwaves kappar, heyrið í Kishi Bashi því hann verður big time innan tíðar og hann verður gulltryggður success á Airwaves 2012.

Kishi Bashi- Bright Whites

Kishi Bashi – Manchester

Erlent á Airwaves 2012 : Exitmusic og Phantogram

Exitmusic

Ekki veit ég hvort þetta dúó frá New York kallar sig Exitmusic eftir laginu með Radiohead eður ei en ljóst er, af tónlist þeirra að dæma, að heyra má einhverja tengingu við það. Hér er á ferð einstaklega tilfinningaríkt og oft melankólískt jaðarpopp sem á köflum toppar tilfinningaskalann með ótrúlegri rödd söngkonunar og leikkonunar (einhverjir kannast eflaust við hana úr þáttunum Boardwalk Empire) Aleksa Palladino.

Exitmusic – passage

Phantogram

Eitt af þeim böndum sem undirritaður ætlar ekki að missa af er annað dúó, einnig frá Bandaríkjunum, sem kallast Phantogram. Flestir tónlistarspekúlantar ættu nú að kannast við fyrirbærið en ef einhver skyldi nú ekki kveikja á perunni er nóg að hlíða á tóndæmin hér að neðan. Þessu má ekki missa af.

Phantogram – Don’t Move

Phantogram – When I’m small

Erlent á Airwaves 2012 : Daughter og Django Django

Það ætti ekki að hafa fraið fram hjá neinum að undirbúningur fyrir næstu Airwaves hátíð er fyrir löngu hafinn og þegar búið að tilkynna fyrstu staðfestu atriðin. Allir vita eflaust að Sigur Rós mun vera aðal númerið á hátíðinni og þá mögnuðu sveit þarf nú varla að kynna fyrir neinum. Hinsvegar er búið, eins og áður sagði, að bóka nokkur glæsileg bönd erlendis frá sem fæstir kunna einhver deili á og því ekki úr vegi að heyra og sjá hvað þau hafa upp á að bjóða.

Daughter (UK)
Frá Lundúnarborg kemur Elena Tonra sem gengur undir listamannsnafninu Daughter. Flytur hún ásækna og örlítið tilraunakennda folk-tónlist með ambient post-rokk hljómhjúp einhverskonar. Meðfylgjandi er frumburður Daughter, EP platan His Young Heart.

Django Django (UK)
Líkt og Daughter kemur kvartettinn Django Django frá höfuðstað englands en meðlimir sveitarinnar kynntust í listaskóla í Edinborg fyrir um fjórum árum. Sveitin flytur sækadelískt indie-rokk sem skreytt er með tilvísunum í fjöldan allan af ólíkum tónlistarstefnum. Meðfylgjandi er nýútkomin 7″ frá sveitinni sem nefnist Storm.